Lesin guðsþjónusta 19. janúar
janúar 19, 2025 @ 11:00 – 13:00
Velkomin á lesna guðsþjónustu í Friðrikskapellu við Valsheimilið, sunnudaginn 19. janúar kl 11:00, sem kallast „annar sunnudagur eftir þrettánda“.
Guðsþjónustan er nokkuð einfaldari en venjuleg messa, og er hún í heild sinni lesin af leikmanni frá lestrarpúlti.
Fyrri ritningarlestur: 2 Mós 33:17–23
Þá sagði Drottinn við Móse: „Einnig þetta, er þú nú mæltir, vil ég gjöra, því að þú hefir fundið náð í augum mínum, og ég þekki þig með nafni.“ En Móse sagði: „Lát mig þá sjá dýrð þína!“ Hann svaraði: „Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Og ég vil líkna þeim, sem ég vil líkna, og miskunna þeim, sem ég vil miskunna.“ Og enn sagði hann: „Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið.“ Drottinn sagði: „Sjá, hér er staður hjá mér, og skalt þú standa uppi á berginu. En þegar dýrð mín fer fram hjá, vil ég láta þig standa í bergskorunni, og mun ég byrgja þig með hendi minni, uns ég er kominn fram hjá. En þegar ég tek hönd mína frá, munt þú sjá á bak mér. En auglit mitt fær enginn maður séð.“
Síðari ritningarlestur: Róm 12:6–15
Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna. Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni, sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði. Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða. Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing. Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni. Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.
Guðspjall: Jóh 2:1–11
Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“ Jesús svarar: „Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“ Móðir hans sagði þá við þjónana: „Gjörið það, sem hann kann að segja yður.“ Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gjörðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“ Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann.