Skip to content
Loading Events

« All Events

Lesin guðsþjónusta, 19. október

október 19 @ 11:00 13:00

Velkomin á lesna guðsþjónustu í Friðrikskapellu við Valsheimilið, átjánda sunnudag eftir Þrenningarhátíð, sunnudaginn 19. október kl 11:00.

Guðsþjónustan er nokkuð einfaldari en venjuleg messa, og er hún í heild sinni lesin af leikmanni frá lestrarpúlti.

Fyrri ritningarlestur: 2 Mós 20:1–17

Guð talaði öll þessi orð og sagði: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“

Síðari ritningarlestur: 1 Kor 1:4–9

Ávallt þakka ég Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð, sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú. Í honum eruð þér auðgaðir orðnir í öllu, í hvers konar ræðu og hvers konar þekkingu. Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal yðar, svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists. Hann mun og gjöra yður staðfasta allt til enda, óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists. Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors.

Guðspjall: Mark 12:28-34

Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“ Jesús svaraði: „Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.’ Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ Fræðimaðurinn sagði þá við hann: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“ Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“ Og enginn þorði framar að spyrja hann.

Friðrikskapella

Hlíðarendi 6-10
Reykjavík, 102 Iceland
+ Google Map