
Lesin síðdegisguðsþjónusta, 21. september kl 17:00
september 21 @ 17:00 – 19:00


Velkomin á lesna síðdegisguðsþjónustu í Friðrikskapellu við Valsheimilið, fjórtánda sunnudag eftir Þrenningarhátíð, sunnudaginn 21. september kl 17:00.
Guðsþjónustan er nokkuð einfaldari en venjuleg messa, og er hún í heild sinni lesin af leikmanni frá lestrarpúlti.
Fyrri ritningarlestur: Síraks bók 50:22–24
Nú skuluð þér lofa Guð alheims,
hann sem hvarvetna gerir máttarverk
og veitir oss vegsemd alla ævi frá fæðingu
og breytir við oss samkvæmt miskunn sinni.
Gefi hann oss gleði í hjarta
og veiti Ísrael frið um vora daga
eins og var fyrir örófi alda.
Megi miskunn hans stöðug vera með oss
og megi hann frelsa oss um vora daga.
Síðari ritningarlestur: Gal 5:16–24
En ég segi: Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið. En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli. Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki. En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir, sem tilheyra Kristi Jesú, hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.
Guðspjall: Lúk 17:11–19
Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Er hann leit þá, sagði hann við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“