Skip to content
Loading Events

« All Events

Messa 7. júlí

júlí 7 @ 11:00 - 13:00

Velkomin á guðsþjónustu í Friðrikskapellu við Valsheimilið, sunnudaginn 7. júlí kl 11:00, sem er 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Við lesum þó ritningarlestra og guðspjall þrenningarhátíðar.

5 Mós 7:6-12

6Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þig hefir Drottinn Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans um fram allar þjóðir, sem eru á yfirborði jarðarinnar.

7Ekki var það fyrir þá sök, að þér væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir, að Drottinn lagði ást á yður og kjöri yður, því að þér eruð allra þjóða minnstir. 8En sökum þess að Drottinn elskar yður og af því að hann vildi halda eiðinn, sem hann sór feðrum yðar, þá leiddi hann yður burt með sterkri hendi og leysti þig úr þrælahúsinu, undan valdi Faraós, Egyptalandskonungs.

9Fyrir því skalt þú vita, að Drottinn Guð þinn er hinn sanni Guð, hinn trúfasti Guð, er heldur sáttmálann og miskunnsemina í þúsund ættliði við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans. 10En þeim, sem hann hata, geldur hann líka hverjum og einum sjálfum með því að láta þá farast. Hann dregur það eigi fyrir þeim, sem hata hann; hverjum og einum geldur hann þeim sjálfum. 11Fyrir því skalt þú varðveita skipanir þær, lög og ákvæði, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þú breytir eftir þeim.

12Ef þér nú hlýðið lögum þessum og varðveitið þau og breytið eftir þeim, þá mun Drottinn Guð þinn halda við þig þann sáttmála og miskunnsemi, sem hann sór feðrum þínum.

Post 8:26-39

26En engill Drottins mælti til Filippusar: „Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa.“ Þar er óbyggð. 27Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir 28og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann. 29Andinn sagði þá við Filippus: „Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum.“ 30Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: „Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?“

31Hinn svaraði: „Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?“ Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér. 32En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi:

Eins og sauður til slátrunar leiddur,
og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það,
svo lauk hann ekki upp munni sínum.
33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti.
Hver getur sagt frá ætt hans?
Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.

34Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: „Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?“ 35Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú. 36Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: „Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?“ 38Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann. 39En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar. 40En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.

Mark 16:15-16

15Hann sagði við þá: „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. 16Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.

Details

Date:
júlí 7
Time:
11:00 - 13:00