Við þörnumst góðra presta
Orðið prestur er dregið af gríska orðinu presbyteros, sem þýðir öldungur. Þessi titill var notaður þegar í frumkirkjunni, þó ekki um þá sem elstir voru í söfnuðinum, heldur um þá sem treyst var fyrir að leiða söfnuðinn, prédika og kenna orð Guðs, og deila út sakramentunum. Í dag er þörfin fyrir slíka presta jafn mikil, ef ekki meiri en nokkru sinni fyrr. Það er ástæðan fyrir því að Ad-Fontes prestnámið var stofnað.
Markmið Ad-Fontes prestnáms er að kenna og þjálfa unga menn til þess að verða trúfastir lúterskir prestar. Til þess bjóðum við upp á kennslu og starfsnám sem viðbót við hefbundið guðfræðinám. Í Ad-Fontes fylgjum við þér eftir, og hjálpum þér að vinna úr köllun þinni, til að komast að því hvort þú viljir verða prestur í lúterskum söfnuði sem kennir óskeikuleika Ritningarinnar.
Svona fer námið fram
Ad-Fontes samanstendur af fjórum meginhlutum: Vikulegum samverum, starfsnámi í söfnuði, námsferðalögum og ári í námi erlendis. Hinar vikulegu samverur hefjast með helgistund sem nemendur leiða. Því næst förum við yfir guðspjall sunnudagsins, á grísku fyrir þá sem ráða við. Því fylgir að lokum umræða um guðspjallið og/eða önnur kennsla.
Starfsnám fer fram í söfnuði sem við eigum samstarf við, sem stendur Messíaskirkjan í Osló, Ryenberg kirkja í Osló eða JELK í Reykjavík. Það er nauðsynlegt að prestar framtíðarinnar séu virkir þáttakendur í safnaðarstarfinu, og kynni sér öll störf sem sjálfboðaliðar vinna.
Reglulega er farið í námsferðalög sem auka gildi námsins. Lengsta ferðin er farin til Ísrael, þar sem nemendur kynna sér staðina þar sem biblíusögurnar áttu sér stað. Einnig er farið í styttri ferð til Wittenberg í Þýskalandi, þar sem siðbótin átti sér stað. Aðrar ferðir fara á ýmsa guðfræðiskóla í Evrópu og Ameríku.
Fjórða árið í náminu, þ.e. fyrra árið í M.A.-námi, fer fram sem skiptinám í Ameríku, við einhvern prestaskóla the Lutheran Church Missouri Synod eða the Lutheran Church Canada.
Aðlögun fyrir íslenska nemendur
Ad-Fontes hefur hingað til einungis verið starfrækt í Noregi, aðallega fyrir nemendur sem stunda guðfræðinám við Fjellhaug Internasjonale Høgskole eða Menighetsfakulteten. Ein leið er að áhugasamir íslenskir nemendur geta dvalið í Noregi yfir námstíman. Við erum einnig að skoða möguleikana á því að bjóða upp á fjarnám, í samvinnu við Luther Academy í Ríga, sem fer fram á kvöldin. Námið verður aðlagað að þörfum hvers nemanda.
Hefur þú áhuga?
Ad-Fontes hentar skírðum karlmönnum, frá háskólaaldri, sem sækjast eftir ríkara guðfræðinámi, þar sem þeir geta leitað svara við því hvort Guð kalli þá til að verða prestur. Áhugasamir hafi samband við Sakarías Ingólfsson, sakarias.ingolfsson@lkn.no