Hér að neðan er að finna fyrri hluta Ágsborgarjátningarinnar í þýðingu Dr. Einars Sigurbjörnssonar, og er hún tekin úr bók hans Kirkjan játar, með góðfúslegu leyfi höfundarréttarhafa og Skálholtsútgáfunnar. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar um Kirkjan Játar, og hvernig nálgast má eintak af henni. Vinsamlegast hafðu samband við okkur ef þú finnur prentvillur eða aðra galla á þessarri stafrænu útgáfu.
- Formáli
- Fyrri hluti: Höfuðtrúargreinarnar
- l. grein: Um Guð
- 2. grein: Um upprunasyndina
- 3. grein: Um Guðs son
- 4. grein: Um réttlætinguna
- 5. grein: Um embætti kirkjunnar
- 6. grein: Um hina nýju hlýðni
- 7. grein: Um kirkjuna
- 8. grein: Hvað kirkjan sé
- 9. grein: Um skírnina
- 10. grein: Máltíð Drottins
- 11. grein: Um skriftirnar
- 12. grein: Um yfirbótina
- 13. grein: Um neyslu sakramentanna
- 14. grein: Um hina kirkjulegu stétt
- 15. grein: Um kirkjusiði
- 16. grein: Um borgaraleg málefni
- 17. grein: Um endurkomu Krists til dóms
- 18. grein: Um frjálsræðið
- 19. grein: Um orsök syndarinnar
- 20. grein: Um trúna og góðu verkin
- 21. grein: Um dýrlingadýrkun
- (Niðurlag fyrri hluta)
Ágsborgarjátningin
Fyrirsögn Játningarinnar er: Játning trúarinnar afhent voldugasta og tignasta keisara Karli V á ríkisþinginu í Ágsborg árið 1530. Sálm. 118[1]: „Þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum og eigi skammast mín.“ (Sl 119.46).
Formáli
Voldugasti og tignasti keisari, mildasti herra.
Yðar keisaralega hátign hefur boðið til ríkisþings í Ágsborg, til þess að hægt sé að ráðgast um varnir gegn Tyrkjanum, hinum gamla og grimmasta erfðafjandmanni kristins nafns og siðar, hvernig hægt sé með stöðugum og varanlegum viðbúnaði að verjast æði hans og ásókn, og til þess síðan að taka til íhugunar deilurnar um málefni vors heilaga siðar og kristnu trúar. Á þá að hlusta á, greina og íhuga sjónarmið beggja aðila í þessari trúmáladeilu í gagnkvæmum kærleika, mildi og ljúfmennsku, svo að þetta mál verði leyst og aftur verði leitt til hins eina einfalda sannleika og kristilega samlyndis eftir að það sem hvorum tveggja kann að hafa misskilist í ritningunum hefur verið leiðrétt. Skal það gert í þeim tilgangi, að vér upp frá þessu rækjum og iðkum hinn eina, hreina og sanna sið og getum lifað í einni kirkju í kristilegri einingu og samlyndi eins og vér erum og berjumst undir einum Kristi. Og þar eð vér undirritaðir á sama hátt og aðrir kjörfurstar, furstar og stéttir höfum verið kallaðir til áðurnefnds ríkisþings, vildum vér sýna keisaralegu boði hlýðni og komum skjótt til Ágsborgar og segjum rauplaust, að vér vorum meðal þeirra fyrstu.
Yðar keisaralega hátign hefur við upphaf þingsins hér í Ágsborg einnig látið birta kjörfurstum, furstum og ríkisstéttum, að hver ríkisstétt skuli samkvæmt keisaralegu boði skýra frá og leggja fram skoðanir sínar og álit bæði á þýsku og latínu. Eftir að hafa haldið fund um málið síðastliðinn miðvikudag, gáfum vér yðar keisaralegu hátign svar, að vér mundum fyrir vort leyti leggja fram greinar játningar vorrar næstkomandi föstudag. Til að hlýðnast vilja yðar keisaralegu hátignar, leggjum vér því fram í þessu máli játningu prédikara vorra og játningu vora eins og þeir hafa hingað til boðað kenninguna hjá oss samkvæmt heilögum ritningum og hreinu orði Guðs.
Ef nú aðrir kjörfurstar, furstar og ríkisstéttir leggja á líkan hátt fram skoðanir sínar varðandi málefni siðarins í latneskum og þýskum ritum samkvæmt áðurnefndu boði keisaralegrar hátignar, tjáum vér oss með skyldugri hlýðni gagnvart yðar keisaralegu hátign sem vorum mildasta herra reiðubúna til að semja í vinsemd við áðurnefnda fursta, vini vora, og stéttirnar um færar og þolanlegar leiðir til samkomulags, svo að þessari óeiningu megi með Guðs hjálp og að svo miklu leyti sem það má gerast á heiðarlegan hátt ljúka og aftur verða leitt til hins eina sanna og samlynda siðar eftir að rætt hefur verið um málið á þennan hátt meðal vor málsaðila út frá framlögðum ritum hvorra tveggja í friðsemd og án hatursfullrar baráttu. Eins og vér allir eigum að vera og berjast undir einum Kristi og játa einn Krist eftir inntaki tilskipunar yðar keisaralegu hátignar, svo á allt að vera leitt til sannleika Guðs og um það biðjum vér Guð með heitum bænum, að hann hjálpi þessu málefni og gefi frið.
En ef þessi málsmeðferð, að því er lýtur að hinum málsaðilanum, öðrum kjörfurstum, furstum og stéttum, fær ekki þann framgang sem tilskipun yðar keisaralegu hátignar ætlast til, og verður árangurslaus, leggjum vér a.m.k. fram þann vitnisburð, að vér ekki útilokum neitt sem á nokkurn hátt geti stuðlað að kristilegu samlyndi, að svo miklu leyti sem fært er fyrir Guði og samviskunni, eins og yðar keisaralega hátign og þar á eftir aðrir kjörfurstar og ríkisstéttir og allir, sem hlusta á þetta mál af sanngirni, munu mildilega virðast að viðurkenna og skilja af þessari játningu vorri og safnaða vorra.
Yðar keisaralega hátign hefur líka náðarsamlega kunngjört kjörfurstum, furstum og ríkisstéttum, ekki einu sinni, heldur oft, og á ríkisþinginu, sem haldið var í Speyer árið 1526, látið lesa upp og birt opinberlega samkvæmt gefnu og fyrirskrifuðu formi tilskipunar yðar keisaralegu hátignar, að yðar keisaralega hátign vildi ekki, af ástæðum sem þá voru tilgreindar, taka ákvörðun um þetta málefni siðarins, heldur vildi hann vinna að því hjá páfa, að kallað yrði saman kirkjuþing. Þetta birti hann líka enn ljóslegar á síðasta þingi í Speyer, sem haldið var fyrir einu ári. Þar lét yðar keisaralega hátign fyrir munn herra Ferdinands, konungs af Bæheimi og Ungverjalandi, vinar vors og milds herra, og því næst fyrir munn sendiherra og keisaralegra erindreka samkvæmt skipun m.a. fram, að yðar keisaralega hátign hefði tekið eftir og íhugað umræðurnar, sem fóru fram milli staðgengils yðar keisaralegu hátignar í ríkinu og forsetans og ríkisráðsmanna og erindreka annarra stétta, sem saman komu í Regensburg, um að kalla ætti saman almennt kirkjuþing. Þar kom fram, að yðar keisaralega hátign álítur það einnig gagnlegt, að saman komi kirkjuþing. Þar eð mál þau er þá voru rædd milli yðar keisaralegu hátignar og páfans, virtust ætla að leiða til samlyndis og kristilegs samkomulags, var yðar keisaralega hátign vongóð um, að hann gæti talið páfann á að kalla saman almennt kirkjuþing. Þess vegna tilkynnti yðar keisaralega hátign mildilega, að hann mundi vilja vinna að því að telja páfann á að kalla saman slíkt þing sem fyrst með bréfum, sem send yrðu út.
Ef nú niðurstaðan verður sú, að ágreiningurinn milli vor og hins aðilans leysist ekki í vinsemd, lofum vér hér í allri hlýðni gagnvart yðar keisaralegu hátign að koma til slíks kristilegs og frjáls almenns kirkjuþings og leggja fram mál vor. Krafan um, að kirkjuþing skuli koma saman hefur ætíð verið samþykkt einum huga og eftir alvarlegar umræður á öllum ríkisþingum, sem haldin hafa verið á ríkisstjórnarárum yðar keisaralegu hátignar, af kjörfurstum, furstum og ríkisstéttum. Í þessu mikilsverða og alvarlega máli höfum vér áður áfrýjað til þessa kirkjuþings og til yðar keisaralegu hátignar á viðeigandi og löglegan hátt. Vér höldum oss enn við áfrýjunina og ætlum ekki að taka hana aftur og getum það ekki heldur hvorki fyrir þessa né aðra málaleitan, nema því aðeins að málið fái vinsamlega áheyrn og verði leitt til kristilegs samlyndis samkvæmt inntaki hinnar keisaralegu tilskipunar. Um þetta vottum vér einnig hér opinberlega.
Fyrri hluti: Höfuðtrúargreinarnar
l. grein: Um Guð
Söfnuðirnir hjá oss kenna einum huga: Samþykkt kirkjuþingsins í Níkeu um einingu guðlegrar veru og um þrjár persónur er sönn og hafin yfir allan vafa og ber samkvæmt því að trúa: Guð er einn að eðli[2], sem bæði kallast og er Guð, eilífur, ólíkamlegur, óskiptanlegur, ómælanlegur að mætti, visku og gæsku, skapari og viðhaldari alls bæði sýnilegs og ósýnilegs; samt sem áður eru þrjár persónur af sömu veru og mætti og jafneilífar, faðir, sonur og heilagur andi. Og nota þeir orðið persóna í sömu merkingu og kirkjufeðurnir notuðu það í, að það merki ekki hluta eða eiginleika í öðrum, heldur það sem stenst út af fyrir sig.
Þeir fordæma allar villukenningar, sem upp hafa komið gegn þessari grein, svo sem Maníkea, sem kenndu, að tvö væru frumöfl, gott og illt, ennfremur Valentíana, Aríusarsinna, Eunomíana, Múhameðstrúarmenn og alla þeirra líka. Þeir fordæma og Samosetena, forna og nýja. Þótt þeir kenni, að einungis sé ein persóna, flytja þeir samt sem áður á lymskufullan og óguðlegan hátt kenningar um orðið og um heilagan anda, að þau séu ekki aðgreindar persónur, heldur merki orðið talað orð og andinn skapaða hreyfingu í hlutunum.
2. grein: Um upprunasyndina
Ennfremur kenna þeir: Eftir fall Adams fæðast allir menn, sem getnir eru á eðlilegan hátt, með synd, en það merkir án guðsótta, án guðstrausts og með girnd. Þessi upprunasjúkdómur eða spilling er raunveruleg synd, sem dæmir seka og steypir í eilífa glötun þeim sem ekki endurfæðast fyrir skírn og heilagan anda.
Þeir fordæma Pelagíana og aðra, sem neita því, að upprunaspillingin sé synd og, til þess að gera lítið úr vegsemd verðskuldunar og velgerða Krists, halda því fram, að maðurinn geti réttlæst fyrir Guði af eigin kröftum skynseminnar.
3. grein: Um Guðs son
Ennfremur kenna þeir: Orðið, þ.e. sonur Guðs, tók mannlegt eðli í móðurlífi sællar Maríu meyjar, svo að tvö eðli, guðlegt og mannlegt, eru óaðgreinanlega sameinuð í einni persónu. Kristur er einn, sannur Guð og sannur maður, fæddur af Maríu mey, sannlega píndur, krossfestur, dáinn og grafinn til þess að sætta föðurinn við oss og til þess að vera fórn, ekki fyrir upprunasyndina eina, heldur og fyrir allar verknaðarsyndir manna. Hann[3] steig niður til heljar og reis raunverulega upp á þriðja degi, steig síðan upp til himna til að sitja við hægri hönd föðurins og ríkja um eilífð og stjórna öllum hlutum, helga þá sem á hann trúa með því að senda heilagan anda í hjörtu þeirra, en hann leiðir þá, huggar og lífgar og verndar gegn djöflinum og valdi syndarinnar. Sá sami Kristur mun aftur koma til að dæma lifendur og dauða o.s.frv. samkvæmt hinni postullegu trúarjátningu.
4. grein: Um réttlætinguna
Ennfremur kenna þeir: Menn geta ekki réttlæst fyrir Guði af eigin kröftum, verðleikum eða verkum, heldur réttlætast þeir án verðskuldunar vegna Krists fyrir trúna, er þeir trúa því, að þeir séu teknir til náðar og syndirnar séu þeim fyrirgefnar vegna Krists, sem með dauða sínum hefur fullnægt fyrir syndir vorar. Þessa trú reiknar Guð til réttlætis fyrir sér, Róm. 3. og 4. (Rm 3.21nn; 4.5.).
5. grein: Um embætti kirkjunnar
Til þess að vér öðlumst þessa trú, er stofnað embætti til að kenna fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum, því að fyrir orðið og sakramentin eins og tæki er gefinn heilagur andi, sem kemur til leiðar trúnni, þar sem og þegar Guði þóknast, í þeim sem heyra fagnaðarerindið, sem fjallar um, að Guð, ekki vegna vorra verðleika, heldur vegna Krists, réttlæti þá sem trúa, að þeir séu teknir til náðar vegna Krists. Gal.3.: Til þess að vér skyldum fyrir trúna öðlast andann, sem fyrirheitið var. (Gl 3.14).
Þeir fordæma endurskírendur og aðra sem álíta, að heilagur andi veitist mönnum án hins ytra orðs fyrir undirbúning sjálfra þeirra og verk.
6. grein: Um hina nýju hlýðni
Ennfremur kenna þeir: Þessi trú á að bera góða ávexti og er nauðsynlegt að vinna góð verk, sem Guð hefur skipað fyrir, sakir vilja Guðs, þó ekki svo, að vér ætlum oss með þeim verkum að verðskulda réttlætingu fyrir Guði. Því að með trúnni kemur fyrirgefning syndanna og réttlæting eins og orð Krists votta: „Þegar þér hafið gert allt þetta, skuluð þér segja: „Ónýtir þjónar erum vér“.“ (Lk 17.10) Hið sama kenna og hinir fornu kirkjufeður. Því að Ambrósíus segir: „Það er ákvarðað af Guði, að sá sem trúir á Krist, verði hólpinn án verka, af trúnni einni, við það, að hann óverðskuldað tekur á móti fyrirgefningu syndanna.“
7. grein: Um kirkjuna
Ennfremur kenna þeir: Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt þjónusta.[4] Til að sönn eining ríki í kirkjunni er nóg, að menn séu sammála um kenningu fagnaðarerindisins og um þjónustu sakramentanna. En ekki er nauðsynlegt, að alls staðar séu sömu mannasetningar eða helgisiðir eða kirkjusiðir, sem menn hafa sett, eins og Páll postuli segir: Ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra o.s.frv. (Ef 4.5.6).
8. grein: Hvað kirkjan sé
Þó að kirkjan sé í raun og veru söfnuður heilagra manna og sanntrúaðra, þá er samt sem áður, þar eð margir hræsnarar og vondir menn eru í þessu lífi innan um hina trúuðu, leyfilegt að neyta sakramentanna, þó að þau séu veitt af hendi vondra manna samkvæmt orði Krists: „Á stóli Móse sitja fræðimennirnir og farísearnir“ o.s.frv. (Mt 23.2). Og sakramentin og orðið eru kröftug vegna skipunar og boðorðs Krists, enda þótt vondir menn þjóni að þeim.
Þeir fordæma dónatista og þeirra líka sem neituðu að leyfa mönnum að notfæra sér þjónustu vondra manna í kirkjunni og álitu, að þjónusta vondra manna væri gagnslaus og áhrifalaus.
9. grein: Um skírnina
Um skírnina kenna þeir: Skírnin er nauðsynleg til sáluhjálpar og er náð Guðs veitt í henni. Á að skíra börnin, sem í skírninni eru færð Guði og tekin til náðar hjá Guði.
Þeir fordæma endurskírendur, sem hafna barnaskírn og fullyrða, að börn verði hólpin án skírnar.
10. grein: Máltíð Drottins
Um máltíð Drottins kenna þeir: Líkami og blóð Krists eru raunverulega nálæg og eru úthlutuð þeim sem taka þátt í máltíð Drottins; lýsa þeir vanþóknun á þeim sem kenna öðru vísi.
11. grein: Um skriftirnar
Um skriftirnar kenna þeir, að halda skuli leynilegri aflausn í söfnuðunum. Þó er ekki nauðsynlegt að telja upp allar syndir í skriftunum, því að það er ókleift samkvæmt orðum Sálmsins: „Hver verður var við yfirsjónirnar?“ (Sl 19.13).
12. grein: Um yfirbótina
Um yfirbótina kenna þeir: Þeir sem falla eftir skírnina geta hvenær sem er öðlast fyrirgefningu syndanna, þegar þeir koma til iðrunar og ber kirkjunni að veita þeim aflausn sem snúast til yfirbótar. En yfirbótin felst í þessum tveim atriðum: Annað er iðrunin eða hrellingarnar, sem særa samviskuna, þegar hún kannast við syndina. Hitt er trúin, sem fagnaðarerindið eða aflausnin vekur, og trúir, að syndirnar séu fyrirgefnar vegna Krists og huggar samviskuna og frelsar hana frá ógnun. Þar næst eiga góðverk að fylgja, en þau eru ávöxtur yfirbótarinnar.
Þeir fordæma endurskírendur, sem neita því að þeir sem eitt sinn eru réttlættir orðnir geti misst heilagan anda; ennfremur þá sem halda því fram, að einhverjir geti náð slíkri fullkomnun í þessu lífi, að þeir geti ekki syndgað.
Enn fremur eru nóvatíanar fordæmdir, sem vildu ekki veita þeim aflausn sem féllu eftir skírn, enda þótt þeir snéru til yfirbótar.
Afneitað er og þeim sem kenna ekki, að fyrirgefning syndanna veitist fyrir trúna, heldur skipa, að vér eigum að ávinna oss náðina fyrir fullnægjugerð vora.
13. grein: Um neyslu sakramentanna
Um neyslu sakramentanna kenna þeir: Sakramentin eru innsett ekki aðeins til þess að þau séu játningarmerki milli manna, heldur fremur til þess að þau séu tákn og vitnisburður um Guðs vilja gagnvart oss, gefin til þess að vekja og styrkja trúna í þeim sem neyta. Þess vegna verður að neyta sakramentanna þannig, að trúin, sem trúir fyrirheitunum, sem eru boðin og sýnd í sakramentunum, sé neyslunni samfara.
[Þess vegna fordæma þeir þá sem flytja þann lærdóm, að sakramentin réttlæti af verkinu sjálfu, en kenna ekki, að í neyslu sakramentanna þurfi trúna, sem treystir því, að syndirnar séu fyrirgefnar].[5]
14. grein: Um hina kirkjulegu stétt
Um hina kirkjulegu stétt kenna þeir: Enginn á opinberlega að kenna í kirkjunni eða útdeila sakramentunum, nema hann sé réttilega kallaður.
15. grein: Um kirkjusiði
Um kirkjusiði kenna þeir, að hægt sé að halda þeim siðum sem mögulegt er að halda án syndar og efla frið og gott skipulag í kirkjunni svo sem ákveðnum helgidögum, hátíðum og þvílíku.
Um þess háttar eru menn samt áminntir að láta það ekki íþyngja samviskunni eins og slík guðsþjónusta sé nauðsynleg til sáluhjálpar.
Þeir eru einnig áminntir um, að mannasetningar sem settar eru til að blíðka Guð, til að verðskulda náðina og til að fullnægja fyrir syndir, eru gegn fagnaðarerindinu og kenningu trúarinnar. Þess vegna eru heit og venjur varðandi fæðu og daga o.s.frv., sem sett eru til að verðskulda náðina og til að fullnægja fyrir syndir gagnslaus og andstæð fagnaðarerindinu.
16. grein: Um borgaraleg málefni
Um borgaraleg málefni kenna þeir: Lögmætar borgaralegar stofnanir eru góð Guðs verk og er kristnum mönnum leyfilegt að gegna embættum, gegna dómarastörfum, kveða upp dóma eftir keisaralegum og öðrum gildandi lögum, setja refsingar, taka þátt í réttlátu stríði, gegna herþjónustu, gera löglega samninga, eiga eignir, vinna eið samkvæmt skipun yfirvaldsins, kvænast og giftast.
Þeir fordæma endurskírendur, sem banna kristnum mönnum þessar borgaralegu skyldur.
Þeir fordæma einnig þá sem setja kristilega fullkomnun ekki í samband við guðsótta og trú, heldur í samband við að flýja borgaralegar skyldur, þar eð fagnaðarerindið kenni eilíft réttlæti hjartans. Þó eyðileggur fagnaðarerindið ekki þjóðfélagið eða heimilið, heldur býður miklu fremur, að þau Skuli varðveita svo sem stofnanir frá Guði og að iðka eigi kærleikann í slíkum stofnunum. Þess vegna ber kristnum mönnum að hlýða yfirvöldum sínum og lögunum, nema þegar þau skipa fyrir um synd, því að þá ber fremur að hlýða Guði en mönnum, Postulasagan 5. (P 5.29).
17. grein: Um endurkomu Krists til dóms
Ennfremur kenna þeir: Kristur mun birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.
Þeir fordæma endurskírendur, sem álíta, að endir verði bundinn á refsingu fordæmdra manna og djöflanna.
Þeir fordæma og aðra, sem nú dreifa gyðinglegum skoðunum um, að guðhræddir menn muni á undan upprisu dauðra ná undir sig stjórn heimsins eftir að óguðlegir menn hafa hvarvetna verið yfirbugaðir.
18. grein: Um frjálsræðið
Um frjálsræðið kenna þeir: Vilji manna hefur nokkurt frelsi til að framkvæma borgaralegt réttlæti og til að velja það sem sett er undir vald skynseminnar. Hann hefur hins vegar ekki afl til þess að framkvæma réttlæti Guðs eða andlegt réttlæti án heilags anda, því að náttúrlegur maður tekur ekki á móti því sem Guðs anda er (1 Kor 2.14.), heldur verður það í hjörtunum, þegar heilögum anda er veitt móttaka fyrir orðið. Þetta segir Agústínus berum orðum í III. bók Hypognosticon.[6] „Vér viðurkennum, að allir menn hafi frjálsan vilja, er hafi skynsamlega dómgreind, þótt hann sé ekki fær um það án Guðs að byrja eða fullvinna neitt varðandi það sem Guði heyrir til, heldur einungis varðandi verk, sem heyra til þessu lífi, bæði góð og vond. Með góðum á ég við það sem stafar af hinu góða í náttúrunni svo sem að vilja vinna á akri, að vilja eta og drekka, að vilja eiga vin, vilja klæðast, vilja byggja hús, vilja kvænast, rækta kvikfé, læra ýmislegt gott, að vilja yfirleitt hið góða, sem heyrir til þessu lífi. Allt þetta stenst þó ekki án guðlegrar stjórnar, því að frá honum og fyrir hann er þetta og byrjaði að vera. Með vondum á ég við að vilja dýrka skurðgoð, vilja manndráp o.s.frv.“
[Þeir fordæma Pelagíana og aðra, sem kenna, að vér án heilags anda, einungis af náttúrlegum kröftum, getum elskað Guð yfir alla hluti fram og sömuleiðis uppfyllt boðorð Guðs eftir eðli verkanna. Því að þótt náttúrlegir kraftar geti nokkurn veginn framkvæmt ytri verk — því að þeir geta haldið höndum sínum frá þjófnaði og frá manndrápi — þá geta þeir ekki vakið innri hreyfingar, t.d. guðsótta, traust til Guðs, þolinmæði o.s.frv.][7]
19. grein: Um orsök syndarinnar
Um orsök syndarinnar kenna þeir: Enda þótt Guð skapi og viðhaldi náttúrunni, þá er orsök syndarinnar samt sem áður vilji hinna vondu, svo sem djöfulsins og guðlausra manna, sem, þegar Guð hjálpar ekki, snýr sér frá Guði, eins og Kristur segir í Jóh.8. „Þegar hann talar lygi, talar hann af sínu eigin“. (Jh 8.44).
20. grein: Um trúna og góðu verkin
Kennimenn vorir eru ranglega ákærðir um að banna góðverk, því að rit þeirra sem til eru um boðorðin tíu og önnur um svipuð efni, bera vott um, að þeir hafa kennt nytsamlega um alla lífsháttu og skyldur, hvaða lífshættir og hvaða skyldur séu Guði þóknanlegar í hverri einstakri köllun. Um slíkt kenndu prédikararnir fyrrum næsta lítið. Þeir héldu aðeins fram barnalegum og ónauðsynlegum verkum svo sem ákveðnum helgidögum, ákveðnum föstum, bræðralögum, pílagrímsferðum, dýrlingadýrkun, talnaböndum, klausturlifnaði og viðlíka. Andstæðingar vorir leggja þetta nú af vegna aðfinnslu vorrar og prédika ekki þessi gagnslausu verk eins og áður. Eru þeir jafnvel byrjaðir að minnast á trúna, en um hana ríkti áður undarleg þögn. Kenna þeir, að vér réttlætumst ekki aðeins af verkum, heldur tengja þeir saman trú og verk og segja, að vér réttlætumst af trú og verkum. Er sú kenning þolanlegri en sú fyrri og frekar fær um að veita huggun en þeirra gamla kenning.
Þar eð því kenningin um trúna, sem á að vera hin helsta í kirkjunni, hefur svo lengi legið í gleymsku, því að allir verða að viðurkenna, að hin dýpsta þögn ríkti um trúna í prédikunum og að aðeins hafi heyrst kenningin um verkin í kirkjunni, hafa kennimenn vorir áminnt söfnuðina á þennan hátt um trúna:
Í fyrsta lagi: Verk vor geta ekki sætt Guð eða verðskuldað fyrirgefningu syndanna eða náðina, heldur öðlumst vér hana einvörðungu fyrir trúna, er vér trúum, að vér séum teknir til náðar vegna Krists, en hann er einn skipaður meðalgangari og friðþæging, sem sættir föðurinn. Þess vegna fyrirlítur sá verðskuldun Krists og náðina sem treystir því, að hann með verkum verðskuldi náðina. Hann leitar sér vegar til Guðs án Krists með eigin kröftum, þó að Kristur hafi sagt um sjálfan sig: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ (Jh 14.6).
Þessa kenningu um trúna er hvarvetna að finna í bréfum Páls svo sem í Ef 2.: „Af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú ekki af verkum o.s.frv.“ (Ef 2.8,9).
Og svo að enginn beri oss það á brýn, að vér höfum fundið upp nýja túlkun á Páli, þá hefur allt þetta mál vitnisburð feðranna. Því að í mörgum ritum ver Ágústínus náðina og trúarréttlætið gegn verðskuldun verkanna. Og á líkan hátt kennir Ambrósíus í De vocatione gentium (Um köllun heiðingjanna).[8]Því að þannig segir hann í De vocatione gentium: „Lítils væri endurlausnin fyrir blóð Krists metin og ekki mundu kröfur mannlegra verka beygja sig undir miskunn Guðs, ef réttlætingin, sem verður af náð, væri að þakka undangengnum verðleikum, svo að hún væri ekki gjöf gjafarans, heldur laun fyrir vinnu manns.“
En þótt þessi kenning sé lítils virt af hinum óreyndu, þá skynjar guðhrædd og hrelld samviska, að hún lætur mikla huggun í té, því að ekki er hægt að friða samviskuna með nokkrum verkum, heldur einungis með trúnni, þegar hún fulltreystir því, að hún eigi Guð friðþægðan fyrir Krist eins og Páll segir í Róm. 5.: „Réttlættir af trú höfum Vér frið við Guð“ (Rm 5.1). Alla þessa kenningu ber að setja í samband við þessa baráttu hrelldrar samvisku og það er ekki hægt að skilja hana án þessarar baráttu. Þess vegna dæma þeir óreyndu og óguðlegu menn hana illa, er ímynda sér, að kristilegt réttlæti sé ekki annað en borgaralegt eða heimspekilegt réttlæti.
Fyrrum var samvisku manna íþyngt með kenningunni um verkin og fengu þeir ekki að heyra huggun fagnaðarerindisins. Nokkra rak samviskan út í eyðimörkina, þar sem þeir vonuðust til að geta orðið verðugir náðarinnar með klausturlifnaði. Aðrir upphugsuðu önnur verk til að ávinna Sér náðina með og fullnægja fyrir syndina. Þess vegna var mjög orðið nauðsynlegt að flytja og endurnýja þessa kenningu um trúna á Krist til þess að svipta ekki hrellda samvisku hugguninni, heldur mættu menn vita, að þeir hljóta náð og fyrirgefningu syndanna fyrir trú á Krist.
Ennfremur eru menn áminntir um, að orðið trú merki hér ekki aðeins þekkingu á sögunni eins og óguðlegir menn og djöfullinn hafa, heldur merkir það trúna sem ekki aðeins trúir sögunni, heldur treystir líka árangri sögunnar, þ.e.a.s. þessari grein: Fyrirgefningu syndanna, að Vér sem sagt eigum náð, réttlæti og fyrirgefningu syndanna fyrir Jesú Krist.
Sá sem nú veit, að hann fyrir Krist á náðugan Guð, hann þekkir Guð raunverulega, veit, að hann er í hans skjóli, ákallar hann, í stuttu máli: Hann er ekki guðvana eins og heiðingjarnir. Því að djöflarnir og hinir óguðlegu geta ekki trúað þessari grein um fyrirgefningu syndanna. Þess vegna hata þeir Guð eins og óvin, ákalla hann ekki, vænta einskis góðs af honum. Agústínus áminnir lesandann líka á þennan hátt um orðið trú og kennir, að í ritningunum merki orðið trú ekki þekkingu eins og óguðlegir hafa, heldur merki það traust, sem huggar og reisir við hrelldar sálir. (Heb 11.1).
Auk þess kenna kennimenn vorir, að nauðsynlegt sé að vinna góð verk, ekki til þess að vér álítum, að vér með þeim verðskuldum náðina, heldur vegna vilja Guðs. Fyrirgefning syndanna og náðin veitist aðeins fyrir trúna. Og þar eð heilögum anda er veitt móttaka fyrir trúna, endurnýjast nú hjörtun og íklæðast nýju hugarfari, svo að þau geta unnið góð verk. Því að þannig segir Ambrósíus: „Trúin er móðir hins góða vilja og réttlátra verka.“ Því að án heilags anda eru hæfileikar manna fullir af óguðlegum ástríðum og of veikir til að geta unnið góð verk frammi fyrir Guði. Auk þess eru þeir undir valdi djöfulsins, sem rekur menn til margvíslegra synda, til óguðlegra skoðana, til augljósra glæpa, svo sem augljóst er meðal heimspekinganna, sem að vísu reyndu að lifa heiðarlegu lífi, en gátu það samt ekki, heldur ötuðu þeir sig mörgum augljósum glæpum. Slíkur er breyskleiki manns, þegar hann er án trúar og án heilags anda og stjórnar sjálfum sér með mannlegum kröftum sínum.
Af þessu sést ljóslega, að ekki er hægt að ákæra þessa kenningu fyrir að banna góð verk, heldur ber miklu fremur að lofa hana fyrir að sýna fram á, hvernig vér getum unnið góð verk. Því að án trúarinnar getur mannlegt eðli með engu móti framkvæmt það sem fyrsta og annað boðorðið skipa fyrir um. An trúarinnar ákallar maðurinn ekki Guð, væntir einskis af Guði, þolir ekki krossinn, heldur leitar hjálpar manna og treystir hjálp manna. Þannig ríkja í hjartanu allar girndir og mannlegar hugsanir, þegar trúna og traustið til Guðs vantar. Þess vegna hefur og Kristur sagt: „Án mín getið þér alls ekkert gjört“ (Jh 15.5). Og kirkjan syngur:
Nema þér sé fullting
frá finnst ei gott neitt
mönnum hjá, saklaust
jörðu er ekkert á.[9]
21. grein: Um dýrlingadýrkun
Um dýrlingadýrkun kenna þeir: Halda má uppi minningu dýrlinganna, til þess að vér breytum eftir trú þeirra og góðum verkum samkvæmt kölluninni eins og keisarinn getur breytt eftir Davíð, þegar hann heyr stríð til að reka Tyrki úr föðurlandinu, því að báðir eru konungar. En ritningin kennir ekki, að ákalla eigi dýrlinga eða leita fulltingis þeirra, því að hún setur oss Krist einan fyrir sjónir sem meðalgangara, friðþægingu, æðsta prest og fyrirbiðjanda. Hann er skylt að ákalla og hefur hann heitið oss að heyra bænir vorar og þessi dýrkun er honum mjög þóknanleg, nefnilega sú, að vér áköllum hann í hverri nauð. 1.Jóh.2: „Ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá Guði o.v.frv.“ (1 Jh 2. 1 ).
(Niðurlag fyrri hluta)
Þetta er nokkurn veginn aðalágrip af kenningu vorri og má af því sjá, að ekkert er í henni sem víki frá ritningunum eða frá hinni almennu kirkju eða frá hinni rómversku kirkju eins og vér þekkjum hana frá kirkjufeðrunum. Þar sem þessu er þannig farið, dæma þeir menn ómildilega sem heimta, að kennimenn vorir séu dæmdir villutrúarmenn. Allur ágreiningurinn er varðandi fáeina ósiði, sem án ákveðinnar heimildar hafa þröngvað sér inn í kirkjurnar. Þó að um þá sé nokkur ágreiningur, hefði biskupunum verið sæmst að umbera söfnuði vora vegna játningarinnar, sem vér nú höfum lesið upp, því að kirkjulögin eru ekki einu sinni svo ströng, að þau heimti alls staðar sömu kirkjusiði og ekki hafa heldur verið sömu siðir í öllum kirkjum. Þó er hinna gömlu siða að miklu leyti vandlega gætt hjá oss og er það ósannur rógur, að allir kirkjusiðir, allar gamlar skipanir séu af lagðar hjá oss. Vissulega hefur verið opinberlega kvartað undan því, að nokkrir ósiðir hefðu bæst við hina almennu siði. Þar eð ekki var hægt að samþykkja þá með góöri samvisku, hafa þeir að nokkru verið leiðréttir.
[1] Í latnesku Biblíunni, sem fylgt er í Ágsborgarjátningu, er númeraröð Sálmanna önnur en í hebresku Biblíunni, sem fylgt er í núgildandi íslensku þýðingu Biblíunnar.
[2] Orðrétt „ein er guðleg vera“ eða „eitt er guðlegt eðli.“
[3] Orðrétt: „sá sami“.
[4] Í þýska textanum segir, að kirkjan sé „söfnuður allra trúaðra, þar sem fagnaðarerindið er boðað hreint og heilögum sakramentum útdeilt samkvæmt fagnaðarerindinu.“ BSLK s 61.
[5] Þessari málsgrein var bætt við í l. útgáfu Ágsb.jtn. 1531, BSLK s. 68.
[6] Rit gegn Pelagíönum eftir óþekktan höfund, en um þetta leyti var það eignað Agústínusi kirkjuföður.
[7] Málsgreinin innan hornklofans er viðbót, sem kom í fyrstu útgáfu 1531, BSLK s.74.
[8] Rit frá því á 5. öld, er um tíma var eignað Ambrósíusi, biskupi í Mílanó (d. 397).
[9] Sálmabók 173.3