Skip to content

Ágsborgarjátningin (síðari hluti)

Hér að neðan er að finna síðari hluta Ágsborgarjátningarinnar í þýðingu Dr. Einars Sigurbjörnssonar, og er hún tekin úr bók hans Kirkjan játar, með góðfúslegu leyfi höfundarréttarhafa og Skálholtsútgáfunnar. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar um Kirkjan Játar, og hvernig nálgast má eintak af henni. Vinsamlegast hafðu samband við okkur ef þú finnur prentvillur eða aðra galla á þessarri stafrænu útgáfu.

Síðari hluti: Greinar sem telja upp ósiði sem hefur verið breytt

(Formáli)

Þar eð söfnuði vora greinir ekki á um neina trúargrein við hina almennu kirkju, en sleppa aðeins nokkrum ósiðum, sem eru nýir og hafa verið samþykktir vegna spillingar tímanna gegn vilja kirkjulaganna, biðjum vér keisaralega hátign að hlusta á bæði það sem hefur verið breytt og það sem veldur því, að fólkið er ekki neytt til að gæta þessara ósiða gegn samviskunni. Ekki má yðar keisaralega hátign trúa þeim sem bera út furðulegan róg meðal fólks til þess að æsa menn til haturs gegn söfnuðum vorum. Á þann hátt hafa þeir frá upphafi gefið tilefni til þessa sundurþykkis með því að æsa upp hugi góðra manna og á sama hátt reyna þeir nú að auka ósamlyndið. En keisaraleg hátign mun án efa komast að raun um, að bæði kenningu og kirkjusiðum er betur komið hjá oss en ósanngjarnir og illviljaðir menn lýsa. Sannleikurinn verður ekki ráðinn af rógi lýðsins eða illmælum óvinanna. En auðskilið er, að ekkert stuðlar betur að því að varðveita tign kirkjusiðanna og að efla lotningu og guðsótta meðal fólks en að kirkjusiðirnir séu rétt framkvæmdir í kirkjunum.

22. grein: Um báðar tegundir

Leikmönnum er við máltíð Drottins úthlutað sakramentinu í báðum myndum,[1]þar sem sá siður hefur að baki sér boð Drottins í Matt.26: „Drekkið allir hér af“ (Mt 26.27). Þar skipar Kristur augljóslega, að allir skuli drekka af kaleiknum. Og til þess að enginn komi nú með þá mótbáru, að þetta snerti prestana eina, þá greinir Páll í Korintubréfi (l Kor 11.20nn) frá demi, sem sýnir, að allur söfnuðurinn hafi neytt beggja tegunda. Og lengi hélst sá siður og er ókunnugt, hvenær honum hafi verið breytt og þá af hverjum, þó að Cusanus[2]kardináli greini frá, hvenær núverandi siður hafi verið staðfestur. Kypríanus[3]getur þess víða, að fólkinu sé útdeilt blóðinu. Hins sama getur Híerónýmus[4]sem segir: „Prestarnir þjóna að þakkargjörðinni og útdeila fólkinu blóði Krists.“ Jafnvel Gelasíus[5]páfi skipar svo fyrir, að sakramentinu megi ekki skipta sundur, Dist. 2 de consecratione, c. Comperimus.[6]En það er aðeins venja og ekki svo gömul, sem komið hefur breytingu á þetta. Augljóst er, að venju, sem komið er á gegn boðum Guðs má ekki halda uppi svo sem kirkjulögin votta, Dist. 8. c. Veritate og næstu. Þessari venju hefur þ.a.l. ekki aðeins verið komið á í andstöðu við Ritninguna, heldur og gegn fornum kirkjulögum og dæmi kirkjunnar. Ef því einhverjir hafa kosið báðar tegundir sakramentisins, þá má ekki neyða þá til að breyta öðruvísi og skaða þann veg samviskuna. Og bar eð aðgreining sakramentisins samrýmist ekki innsetningu Krists, er skrúðgangan með sakramentið, sem hingað til hefur viðgengist, ekki látin fara fram hjá oss.

23. grein: Um hjónaband presta

Opinberlega hefur verið kvartað undan vondu fordæmi þeirra presta sem ekki lifðu hreinlífi. Af þeirri ástæðu á Píus páfi[7]líka að hafa sagt, að nokkrar ástæður hafi legið til þess að prestum var meinað hjónahand, en miklu meiri ástæður séu til þess, að þeim verði leyft það aftur. Þannig skrifar Platína.[8]Þar eð nú prestar vorir vildu forðast þess háttar opinbert hneyksli, hafa þeir kvænst og kennt, að þeim væri leyfilegt að ganga í hjónaband. í fyrsta lagi vegna þess að Páll segir: „Vegna saurlífisins hafi hver og einn sína eiginkonu,“ (1 Kor 7.2) og ennfremur: „Betra er að kvænast en að brenna af girnd.“ (1 Kor 7.9). Í öðru lagi segir Kristur: „Ekki geta allir höndlað þetta,“ (Mt 19.11) og kennir þar, að ekki séu allir menn hæfir til einlífis, þar eð Guð skapaði manninn til að auka kyn sitt, l.Mós.1 (1M 1.25). Ekki er það á valdi manna að breyta sköpun Guðs án sérstakrar gjafar og íhlutunar Guðs. Þess vegna eiga þeir að ganga í hjónaband sem eru ófærir til einlífis. Því að engin lög manna, ekkert heit, getur afnumið boð Guðs og stofnun Guðs. Af þessum sökum kenna prestarnir, að sér leyfist að kvænast.

Ennfremur er öruggt, að í fornkirkjunni voru prestarnir kvæntir. Bæði segir Páll, að til biskups skuli velja þann er sé kvæntur (1 Tm 3.2) og í Þýskalandi voru prestar fyrst fyrir 400 árum neyddir með valdi til einlífis. Risu þeir svo eindregið upp gegn því, að erkibiskupinn af Mainz var nær drepinn í upphlaupi æstra presta, er hann ætlaði að gefa út bréf páfa um þetta efni.[9]Var þessu máli svo vægðarlaust framfylgt, að ekki aðeins var prestum framvegis bannað að kvænast, heldur voru og gild hjónabönd leyst upp þvert gegn öllum lögum Guðs og manna jafnvel gegn ákvæðum, sem ekki aðeins páfar höfðu sett, heldur og frægir kirkjufundir.

Þar eð mannlegt eðli veikist smám saman eftir því sem heimurinn eldist, ber að vera á verði gagnvart því, að meiri spilling smeygi sér inn í Þýskaland.

Auk þess hefur Guð stofnað hjónabandið, til þess að það væri læknislyf handa veikum mönnum. Sjálf kirkjulögin segja, að nú á seinni tímum verði vegna veikleika manna að slaka á hinum forna strangleika. Væri æskilegt, að svo verði og varðandi þetta mál. Annars virðist svo sem prestaskortur geti orðið í kirkjunni, ef prestum er lengur meinaður hjúskapur.

Þar eð nú guðlegt boð liggur fyrir um þetta, þar eð venja kirkjunnar er þekkt, þar eð einlífi án skírlífis veldur mörgum hneykslunum, hórdómi og öðrum glæpum, sem góð yfirvöld eru skyldug að refsa fyrir, þá er það undravert, að í engu máli er beitt meiri hörku en gagnvart því að meina prestum hjúskap. Guð hefur skipað, að hjónabandið skuli haft í heiðri. Lög allra velskipulagðra ríkja, líka meðal heiðinna þjóða, hafa krýnt það miklum heiðri. En nú á dögum sæta menn, jafnvel prestar, hörðustu refsingum gegn vilja kirkjulaganna fyrir engar aðrar sakir en þær, að þeir eru kvæntir. Páll kallar það lærdóm illra anda, sem meina vill mönnum hjúskap (1 Tm 4. l). Það er auðvelt að skilja nú, þegar hjúskaparbannið er varið með slíkum refsingum.

Eins og engin lög manna geta afnumið boð Guðs, svo getur heldur ekkert heit afnumið boð Guðs. Þess vegna gefur og Kypríanus það ráð, að konur skuli giftast, ef þær geti ekki haldið skírlífisheit. Orð hans eru þessi, 1. bréfabók, 11. bréf: „Ef þær vilja ekki halda heit sitt eða geta það ekki, þá er betra, að þær giftist en þær falli í girndarbruna. A.m.k. mega þær ekki valda bræðrum sínum og systrum hneyksli.“

Nokkurri sanngirni beita og kirkjulögin gagnvart þeim sem gáfu heit, áður en þeir náðu lögaldri, svo sem hingað til hefur almennt tíðkast.

24. grein: Um messuna

Ranglega er söfnuðum vorum álasað fyrir að hafa lagt niður messuna, því að messunni er haldið hjá oss og hún flutt með mestu lotningu. Ennfremur er næstum öllum venjulegum kirkjusiðum haldið, nema hvað stundum eru þýskir sálmar sungnir ásamt hinum latnesku og er þeim aukið við fólki til uppfræðingar. Því að sá er og tilgangur kirkjusiðanna, að þeir séu fáfróðum til fræðslu. Og Páll skipar svo fyrir, að nota skuli í kirkjunni mál, sem fólk skilur (1Kor 14.9nn). Er fólkið vanið á að neyta sakramentisins sameiginlega, ef einhverjir eru undirbúnir, en það eykur einmitt lotninguna og guðræknina í sambandi við kirkjusiðina. Því að engir fá aðgang, nema þeir séu áður prófaðir og heyrðir. Eru menn einnig áminntir um tign og neyslu sakramentisins, hvílíka huggun það veitir hrelldri samvisku, svo að menn læri að trúa á Guð, vænta alls góðs af honum og biðja hann. Slík guðsdýrkun er Guði þóknanleg, slík neysla sakramentisins nærir guðhræðsluna. Þess vegna virðast messurnar ekki njóta meiri virðingar hjá andstæðingunum en hjá oss.

Kunnugt er og, að allir góðir menn hafa lengi kvartað opinberlega og mikillega undan því, að messurnar væru svívirðilega vanhelgaðar, þar eð þeim væri varið til ávinnings. Því að ekki er það ókunnugt, hversu útbreiddur þessi ósiður er orðinn í öllum kirkjum, hvers konar menn flytja messur einungis launanna og ábatans vegna, hversu margir flytja messur gegn banni kirkjulaganna.

Páll ógnar þeim harðlega, sem fara óverðuglega með heilaga kvöldmáltíð, þegar hann segir: „Sá sem etur brauðið og drekkur af bikarnum óverðuglega, verður sekur við líkama og blóð Drottins.“ (1Kor 11.27) Þar eð því prestarnir hjá oss hafa verið áminntir um þessa synd, hafa einkamessur verið lagðar niður hjá oss, þar sem næstum engar einkamessur voru fluttar öðru vísi en ábatans vegna.

Ekki var biskupunum ókunnugt um þessa ósiði og ef þeir hefðu leiðrétt þá í tíma væri nú minna um ágreining. Áður fyrr leyfðu þeir vegna yfirhilmingar sinnar, að margs konar spilling smeygði sér inn í kirkjuna. Nú er það um seinan, er þeir byrja að kvarta undan ógæfu kirkjunnar,

þar eð hið eina tilefni þessa ófriðar eru þeir ósiðir, sem voru orðnir svo augljósir, að þá var ekki lengur hægt að þola. Margur ágreiningur hefur e.t.v. komið upp um messuna, um sakramentið, vegna þess að heimurinn tekur út refsingu sakir langvarandi vanhelgunar á messunni og sú vanhelgun var um margar aldir liðin af þeim sem innan kirkjunnar var bæði fært og skylt að ráða bót á henni, en í boðorðunum tíu er skrifað: „Eigi mun þeim látið óhegnt sem vanhelga Guðs nafn.“ (2M 20.7). En frá upphafi heimsins virðist ekkert guðdómlegt málefni hafa verið notað svo í ábataskyni sem messan.

Til viðbótar kom svo sú skoðun, er jók einkamessurnar í hið óendanlega, að Kristur hefði með pínu sinni fullnægju gert fyrir erfðasyndina og stofnað messuna, þar sem fram færi fórn fyrir hinar daglegu syndir bæði dauðasyndir og fyrirgefanlegar. Af þessu kom sú almenna skoðun, að messan sé verk, sem afmái syndir lifenda og dauðra af framkvæmdinni einni. Síðan fóru menn að rökræða um það, hvort ein messa, sem sögð væri fyrir marga, hefði jafnmikið gildi og margar messur, sem hver væri flutt fyrir einn einstakan. Þessi rökræða hefur leitt til þessa óendanlega messufjölda.

Kennimenn vorir hafa minnt á, að þessar skoðanir víki frá heilögum ritningum og rýri vegsemdina af þjáningu Krists. En þjáning Krists var fórn og friðþæging, ekki einungis fyrir upprunasyndina, heldur og fyrir allar aðrar syndir svo sem skrifað stendur í Hebreabréfinu: „Vér erum helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.“ (Heb 10.10). Og ennfremur: „Með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá sem helgaðir verða.“ (Heb 10.14.).

Ennfremur kennir Ritningin, að vér réttlætumst fyrir Guði fyrir trúna á Krist. Ef nú messan afmáir syndir lifenda og dauðra af framkvæmdinni einni, þá fæst réttlætingin af verki messunnar, en ekki af trúnni, en það er ekki samhljóða Ritningunni.

En Kristur skipar að gera þetta í sína minningu (Lk 22.19). Þess vegna var messan innsett, að trúin hjá þeim sem neyta sakramentisins minnist þeirra velgjörða sem hún þiggur fyrir Krist og reisi við og huggi hrellda samvisku, því að það er að minnast Krists að minnast velgjörða hans og skilja, að þær eru í sannleika framboðnar oss. Og það er ekki nóg að minnast sögunnar, því að hennar geta líka Gyðingar og óguðlegir menn minnst. Er því messan flutt, til þess að þar sé sakramentinu úthlutað þeim sem þurfa á huggun að halda eins og Ambrósíus segir: „Þar eð ég sífellt syndga, þarf ég sífellt að þiggja læknislyf.“

En þar eð messan er þess konar úthlutun sakramentisins, þá er hjá oss haldin ein almenn messa hvern helgan dag og líka á öðrum dögum, ef einhverjir vilja neyta sakramentisins. Þá er þeim útdeilt sakramentinu sem um það biðja. Þessi siður er ekki nýr í kirkjunni. Fyrir daga Gregoríusar[10]geta hinir fornu kirkjufeður ekki einkamessunnar, en tala oft um hina almennu messu. Krýsostomus[11]segir, að daglega standi presturinn við altarið og veiti sumum aðgang að borðinu, en meini öðrum. Og af fornum kirkjulögum sést, að einhver einn hefur sungið messuna og hafi aðrir prestar og djáknar tekið á móti líkama Drottins af honum, en svo hljóða orð ákvæðanna frá Níkeu: „Djáknarnir skulu samkvæmt sínu vígslustigi taka á móti heilagri kvöldmáltíð á eftir prestunum úr hendi biskups eða presta.“ Og Páll skipar svo fyrir um kvöldmáltíðina, að hver skuli bíða eftir öðrum, svo að þátttakan verði almenn (1Kor 1 1.33).

Þar eð nú messan hjá oss styðst við fordæmi kirkjunnar samkvæmt Ritningunni og kirkjufeðrunum,treystum vér því, að ekki verði að henni fundið, sérstaklega þó þegar hinir almennu kirkjusiðir eru að miklu leyti líkir þeim sem tíðkast hafa. Mismunur er einungis á fjölda messanna, sem nauðsynlegt var að takmarka vegna hinna mörgu og opinberu ósiða. Því að forðum var messan ekki alls staðar flutt daglega jafnvel ekki í hinum fjölsóttustu kirkjum eins og vottað er af Historia tripartita 9. bók:[12]„En í Alexandríu eru ritningarnar aftur á móti lesnar hvern miðvikudag og föstudag og útleggja kennararnir þær og fer allt fram að hinni hátíðlegu fórnarþjónustu undanskilinni.“

25. grein: Um skriftirnar

Skriftirnar eru ekki lagðar niður í söfnuðum vorum, enda tíðkast það ekki að útdeila líkama Drottins öðrum en þeim sem áður hafa verið prófaðir og leystir. Og er fólk vandlega frætt um trúna á aflausnina, en um hana hefur hingað til ríkt mikil þögn. Er mönnum kennt að bera virðingu fyrir aflausninni, þar eð hún sé raust Guðs og flutt að boði Guðs. Lyklavaldið er haft í heiðri, og er á það minnst hvílíka huggun það veiti hrelldri samvisku og að Guð krefjist trúarinnar, svo að vér trúum aflausninni eins og rödd hans, sem hljómar frá himni, og þessi trú öðlist og þiggi fyrirgefningu syndanna. Áður fyrr voru yfirbótarverkin hafin upp úr öllu hófi en varla minnst á trúna og verðleika Krists og trúarréttlætið. Þess vegna eru söfnuðir vorir að litlu leyti ámælisverðir hvað þetta varðar, og verða andstæðingarnir að viðurkenna, að kenningin um yfirbótina hefur vandlega verið kennd og útskýrð af kennimönnum vorum.

En um skriftirnar kenna þeir, að upptalning yfirsjónanna sé ekki nauðsynleg og að ekki megi íþyngja samvisku manna með áhyggjunni af því að telja upp allar syndir, því að ókleift er að telja upp allar yfirtroðslur eins og Sálmurinn vottar: „Hver verður var við yfirsjónirnar?“ (Sl 19.13) og Jeremía: „Spillt er hjarta mannsins og órannsakanlegt.“ (Jer 17.9).[13] Ef engar aðrar syndir hljóta fyrirgefningu en þær sem taldar eru upp, gæti samviskan aldrei hlotið frið, því að margar syndir er hvorki hægt að sjá né muna eftir. Fornir höfundar votta og, að þessi upptalning sé ónauðsynleg, en í kirkjulögunum er vitnað til Krýsostomusar, sem segir svo: „Ekki segi ég þér, að þú skulir bera sjálfan þig út opinberlega og ekki heldur, að þú ákærir sjálfan þig fyrir öðrum, heldur vil ég, að þú hlýðir spámanninum, er hann segir: „Opinbera Guði veg þinn“ (Sl 37.5).[14] Játa þess vegna syndir þínar fyrir Guði, hinum sanna dómara, með bæn. Ber fram yfirsjónir þínar, ekki með tungunni, heldur með því að minnast þeirra í samvisku þinni.“ Og málsgreinin um yfirbótina, Dist.5, in cap. Consideret, viðurkennir, að skriftirnar séu samkvæmt mannlegum rétti. En skriftunum er haldið hjá oss bæði vegna hins mikla velgernings aflausnarinnar og vegna annarrar gagnsemi fyrir samvisku manna.

26. grein: Um greinarmun fæðu

Það hefur verið almenn skoðum, ekki einungis meðal alþýðu, heldur og meðal kennimanna safnaðanna, að greinarmunur fæðu og álíka mannasetningar séu gagnleg verk til að verðskulda náðina og megnug þess að fullnægja fyrir syndirnar. Að þessi hefur verið skoðun heimsins sést af því, að daglega var bætt við nýjum kirkjuvenjum, nýjum reglufélögum, nýjum helgidögum, nýjum föstum og kennimennirnir í kirkjunum lögðu mikla áherslu á þessi verk eins og þau væru nauðsynleg guðsdýrkun til að verðskulda náðina og vakti það ákafan ótta í samviskunum, ef menn létu nokkuð ógert. Af þessari skoðun á mannasetningum hefur mörg ógæfan í kirkjunni stafað.

Í fyrsta lagi hefur hún falið kenninguna um náðina og trúarréttlætið, sem er höfuðatriði fagnaðarerindisins, sem mest verður að bera á í kirkjunni, svo að verðskuldun Krists verði vel kunnug, og trúin, sem trúir, að syndirnar séu fyrirgefnar vegna Krists, verði sett langt ofar verkum og allri annarri guðsdýrkun. Þess vegna leggur Páll mesta áherslu á þessa grein. Hann leggur lögmálið og mannasetningarnar til hliðar til þess að sýna fram á, að hið kristna réttlæti sé allt annað en þess konar verk, heldur sé það trúin, sem trúir, að vér séum vegna Krists teknir til náðar. En þessari kenningu Páls var næstum allri þrýst niður með mannasetningum, sem höfðu getið af sér þá skoðun, að verðskulda eigi náð og réttlæti fyrir greinarmun fæðu og álíka guðsdýrkun. Í yfirbótinni var ekkert talað um trúna. Aðeins var slíkum fullnægjugerðarverkum haldið fram og álitið, að öll yfirbótin fælist í þeim.

Í öðru lagi hafa þessar mannasetningar falið boðorð Guðs, þar eð mannasetningarnar voru teknar langt fram yfir boðorð Guðs. Kristindómurinn var allur álitinn felast í að gæta ákveðinna helgidaga, helgisiða, halda föstur og ákveðnum klæðaburði. Að gæta þess háttar var kallað hinu virðulegasta heiti, að það væri hið andlega líf og fullkomna líf. Meðan því fór fram nutu skipanir Guðs um köllunina engrar virðingar, svo sem að húsbóndi æli upp börn sín, að móðirin fæddi, að furstinn stýrði ríkinu. Þær voru álitnar veraldleg verk og ófullkomin og langtum síðri en þeir ágætu siðir. Og þessi villa þjakaði mjög samvisku guðhrædds fólks, er þjáðist af að lifa ófullkomnu lífi í hjúskap, við embættisstörf eða aðrar borgaralegar skyldur, en dáðist að munkum og þeirra líkum og áleit ranglega, að lifnaður þeirra væri Guði þóknanlegri.

Í þriðja lagi höfðu mannasetningarnar milda hættu í för með sér fyrir samvisku manna, því að ókleift var að halda allar venjur og álitu menn þó, að gæsla þeirra væri nauðsynleg guðsdýrkun. Gerson[15]skrifar, að margir hafi örvænt og nokkrir hafi jafnvel álitið sig dauðaseka, þar eð þeir fundu, að þeir gátu ekki fullnægt mannasetningunum, og á meðan heyrðu þeir enga huggun af trúarréttlætinu og af náðinni. Vér sjáum, að rithöfundar[16]og guðfræðingar hafa safnað mannasetningum og leitast við að milda þær til að létta á samviskunum, en ekki gengið sem skyldi, heldur hafa þeir fremur lagt byrðar á þær. Voru skólarnir og prédikanirnar svo upptekin af að safna mannasetningum, að enginn tími vannst til að gefa sig að Ritningunni og leita hinnar gagnlegu kenningar um trúna, um krossinn, um vonina, um gildi borgaralegra málefna, um huggun til handa samviskunni í erfiðum freistingum.

Þess vegna hafa Gerson og aðrir guðfræðingar kvartað sáran undan því, að þeir væru hindraðir af þessum deilum um mannasetningar og gætu ekki snúið sér að betri þætti kenningarinnar. Og Agústínus bannar, að samvisku manna sé íþyngt með þess konar siðum og minnir Janúaríus[17] hyggilega á, að hann skuli vita, að mannasetningar eigi að halda sem hluti, sem engu máli skipta. Þannig talar hann.

Þess vegna má ekki álíta, að söfnuðir vorir hafi gengið fram í þessu máli að ástæðulausu eða af hatri til biskupanna eins og sumir álíta ranglega. Lá til þess mikil nauðsyn að áminna söfnuðina um þessar villur sem sprottnar voru af misskilningi á mannasetningum. Fagnaðarerindið krefst þess að kenningunni um náðina og um trúarréttlætið sé haldið fram í kirkjunni, en þá kenningu er ekki hægt að skilja ef menn halda að þeir verðskuldi náðina með því að gæta siða, sem þeir hafa sjálfir kosið.

Þess vegna hafa þeir kennt, að vér getum ekki verðskuldað náðina eða fullnægt fyrir syndirnar með því að gæta mannasetninga. Má því ekki halda fram, að þess konar gæsla sé nauðsynleg guðsdýrkun. Bæta þeir við vitnisburði úr ritningunum. Kristur afsakar postulana í Matt. 15, er þeir gættu ekki algengrar erfðavenju, sem þó virtist vera um hlutlaust atriði og vera skyld hreinsunarsiðum lögmálsins. En hann segir: „Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“ (Mt 15.9). Þess vegna krefst hann ekki gagnslausrar guðsdýrkunar. Og skömmu síðar bætir hann við: „Eigi saurgar það manninn sem inn fer í munninn.“ (Mt 15.11). Ennfremur (segir) í Róm.14: „Guðs ríki er ekki matur eða drykkur“ (Rm 14.17). Í Kól 2. segir: „Enginn skyldi dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hvíldardaga eða hátíðir“ (Kól 2.16). Í Post. 15 segir Pétur: „Hvers vegna freistið þér Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, sem hvorki vér né feður vorir megnuðum að bera? En vér trúum því, að vér verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir.“ (P 15.10n). Hér bannar Pétur, að samvisku manna sé íþyngt með mörgum helgisiðum, hvort heldur frá Móse eða öðrum. Og 1.Tím. 4 nefnir fæðubann lærdóma illra anda (1 Tm 4.13), þar eð það stríði gegn fagnaðarerindinu að stofna eða framkvæma slík verk í því skyni að verðskulda náðina með þeim eða eins og kristið réttlæti sé ekki til án slíkrar guðsdýrkunar.

Hér koma andstæðingarnir með þá athugasemd, að kennimenn vorir banni aga og deyðingu holdsins eins og Jóvinianus.[18]Annað kemur í ljós af ritum kennimanna vorra. Þeir hafa ætíð kennt um krossinn, að kristnir menn eigi að þola þjáningarnar. Það er sönn og alvarleg og hræsnislaus deyðing, en ekki ímynduð, að þjálfast við margs konar þjáningar og krossfestast með Kristi.

Auk þess kenna þeir, að sérhver kristinn maður eigi svo að æfa sig með líkamlegum aga og temja sig með líkamlegum æfingum og iðkunum, að velsæld eða leti ginni hann ekki til syndar, en ekki þó til þess að vér fyrir slíkar æfingar verðskuldum fyrirgefningu syndanna eða fullnægjum fyrir syndimar. Og þessa líkamlegu æfingu á sífellt að stunda, en ekki aðeins fáa ákveðna daga eins og Kristur skipar: „Gætið þess, að hjörtu yðar íþyngist ekki af drykkjuskap.“ (Lk 21.34). Ennfremur segir hann: „Þetta djöflakyn verður ekki út rekið nema með bæn.“ (Mk 9.29). Og Páll segir: „Ég leik líkama minn hart og geri hann að þræli mínum.“ (1 Kor 9.27). Þar sýnir hann augljóslega, að hann leiki líkamann hart ekki í því skyni að verðskulda fyrirgefningu syndanna með slíkum aga, heldur til þess að líkaminn sé undirgefinn og hæfur til andlegra verkefna til að framkvæma skylduverk samkvæmt kölluninni. Þess vegna eru fösturnar sjálfar ekki fordæmdar, heldur mannasetningarnar, sem skipa fyrir um vissa daga, vissa fæðu, eins og þess háttar verk væru nauðsynleg guðsdýrkun og stofna þar með samviskunum í hættu.

Samt sem áður er flestum siðum haldið hjá oss, sem stuðla að því, að allt fari skipulega fram í kirkjunni svo sem t.d. skipulag biblíulestrarins í messunni. En samtímis eru menn áminntir um, að þess háttar guðsdýrkun réttlæti ekki frammi fyrir Guði og ekki skuli telja það synd, þótt slíkt sé látið ógert, ef það veldur engu hneyksli. Slíkt frelsi varðandi kirkjusiði manna var feðrunum ekki óþekkt. Í Austurlöndum voru páskar haldnir á öðrum tíma en í Róm og þegar Rómverjar ásökuðu Austurlandamenn um að sundra kirkjunni vegna þessa mismunar, voru þeir af öðrum áminntir um, að slíkir siðir þyrftu ekki að vera alls staðar eins. Og Írenaeus[19]segir: „Ósamlyndi um föstu uppleysir ekki einingu trúarinnar.“ Og Gregoríus páfi, Distinct. 12, viðurkennir að þess háttar mismunur sundri ekki einingu kirkjunnar. Og í Historia tripartita 9. bók eru nefnd mörg dæmi um mismunandi kirkjusiði og þar standa þessi orð: „Það var ekki ætlun postulanna að skipa fyrir um hátíðisdaga, heldur að prédika góða breytni og guðhræðslu.“

27. grein: Um klausturheit

Það sem hjá oss er kennt um klausturheit, skilst betur, ef menn minnast þess, hvernig ástand klaustranna hefur verið, hversu margt gerðist innan þeirra á hverjum degi, sem var gegn kirkjulögunum. Um daga Agústínusar voru klaustrin frjáls félög. Síðar, eftir að aginn spilltist, var heitunum bætt við, til þess að endurreisa agann eins og um væri að ræða velskipulagt fangelsi. Smám saman var svo öðrum siðum bætt við auk heitanna. Og þessir fjötrar voru gegn kirkjulögunum lagðir á marga, áður en þeir höfðu aldur til. Margir, sem skorti dómgreind varðandi eigin krafta, þótt ekki skorti þá aldurinn, villtust inn í þess konar lifnað. Þeir sem þannig voru flæktir, voru neyddir til að dvelja um kyrrt, enda þótt margir hefðu getað losnað með hjálp kirkjulaganna. Og þetta gerðist oftar innan nunnuklaustranna en í munkaklaustrunum, þótt fremur hefði átt að hlífa hinu veikara kyni. Þessi harka mislíkaði mörgum góðum mönnum fyrr á tímum, sem sáu, að stúlkum og piltum var þrýst inn í klaustrin þeim til viðurværis, að þessi ráðstöfun hafði illar afleiðingar, olli miklu hneyksli og lagði þunga fjötra á samvisku manna. Kvörtuðu þeir undan því, að vald kirkjulaganna væri í þessu erfiða máli að engu haft og lítilsvirt. Við þetta illræði bættist svo sú skoðun á heitunum, sem vitað er, að sjálfum munkunum líkaði illa, einkum ef þeir voru eitthvað í skynsamara lagi.

Samkvæmt þeirri skoðun voru heitin talin jafnfætis skírninni og var kennt, að menn verðskulduðu fyrirgefningu syndanna og réttlætingu fyrir Guði með klausturlifnaði. Menn bættu jafnvel við, að klausturlifnaður aflaði mönnum ekki aðeins réttlætis fyrir Guði, heldur einhvers enn meir, þar eð það uppfyllti ekki aðeins boðorð Guðs, heldur og heilræði fagnaðarerindisins.[20]Þannig héldu þeir fram, að klausturheit væru langtum æðri skírninni og að klausturlifnaður aflaði meiri verðleika en lifnaður embættismanna, kennimanna og slíkra, sem þjóna köllun sinni samkvæmt boðorðum Guðs, en ekki eftir guðræknissiðum, er þeir hafa sjálfir búið til. Engu þessu er hægt að neita, því að það stendur skýrum stöfum í bókum þeirra.

Hvað gerðist síðan í klaustrunum? Fyrrum voru þau skólar til fræðslu í heilögum ritningum og öðrum efnum, sem eru kirkjunni gagnleg og voru þaðan teknir prestar og biskupar. Nú er þessu á annan veg farið, en óþarft er að geta um það sem öllum er kunnugt. Fyrrum sóttu menn þangað til að læra. Nú ímynda menn sér, að þau séu lifnaðarháttur, sem stofnaður sé til að verðskulda náð og réttlæti og það sem meira er, halda því fram, að þau séu fullkomnunarástand og taki langt fram öllum öðrum lifnaðarháttum, sem Guð hefur stofnað. Þetta höfum vér nefnt án þess að ýkja nokkuð af óvildarhug, til þess að betur sé hægt að skilja kenningu kennimanna vorra um þetta.

Í fyrsta lagi: Um þá sem ganga í hjónaband kenna þeir á þann hátt, að það sé öllum leyfilegt að ganga í hjónaband, sem ekki séu hæfir til einlífis, því að heit geta ekki afnumið stofnun og boð Guðs. En þetta er boð Guðs: „Vegna saurlífisins hafi hver og einn sína eiginkonu“ (1Kor 7.2). Og ekki aðeins boðorðið, heldur skipar einnig sköpun og skipun Guðs þá til hjónabands sem ekki eru undanþegnir vegna sérstaks tilverknaðar Guðs samkvæmt þessu orði: „Ekki er manninum gott að vera einn.“ (1M 2.18) Þess vegna syndga þeir ekki sem hlýða þessu boðorði og skipun Guðs.

Hvað er hægt að leggja fram gegn þessu? Þótt menn víðfrægi skyldu klausturheitisins svo sem þeir vilja, getur það ekki valdið því, að heitið afnemi boðorð Guðs. Kirkjulögin kenna, að réttur hins æðra sé ætíð undanþeginn í hverju heiti. Þar af leiðir, að þessi heit mega sín miklu síður gagnvart boðorðum Guðs.

En ef skuldbinding heitanna væri þess háttar, að þau mætti ekki rjúfa af nokkrum ástæðum, þá gætu páfarnir ekki leyst undan þeim, því að ekki leyfist neinum að rjúfa skuldbindingu, sem er beinlínis samkvæmt guðlegum rétti. En hyggilega hafa páfarnir álitið, að sýna beri sanngirni varðandi þetta mál. Þess vegna hafa þeir oft leyst menn undan heitum. Kunn er sagan um Aragóníukonung, sem kallaður var úr klaustri. Og ekki skortir dæmin frá vorum tímum.

Í öðru lagi: Af hverju halda andstæðingarnir svo mjög á loft skuldbindingu eða árangri heitsins, þegar þeir þegja um eðli þess, að það eigi að vera á sviði hins mögulega, að það eigi að vera af frjálsum vilja, af eigin hvötum og eftir nákvæma íhugun? En hversu ævilangt skírlífi er á valdi manns, er ekki ókunnugt. Og hve margur hefur unnið heit sitt fúslega og af ráðnum huga? Stúlkur og piltar voru talin á að vinna heit, áður en þau höfðu dómgreind til, já voru jafnvel neydd til þess. Þess vegna er það ekki sanngjarnt að halda svo fast fram skuldbindingunni, þegar allir viðurkenna, að loforð, sem unnið er af ófúsum og óráðnum huga standi gegn eðli heitsins.

Flest kirkjulög lýsa þau heit ógild, sem menn vinna, áður en þeir ná 15 ára aldri, þar eð menn virðast ekki hafa slíka dómgreind innan þess aldurs, að þeir geti gert skuldbindingu, er gildi alla ævi. Önnur kirkjulög, sem taka meira tillit til mannlegs veikleika, auka enn nokkrum árum, því að þau banna, að heit sé unnið fyrir 18. aldursár. En hvorum ber að fylgja? Meirihlutinn hefur afsökun fyrir því að yfirgefa klaustrin, þar eð flestir unnu heit, áður en þeir náðu þessum aldri.

Að síðustu: Þótt heitrof geti talist vítavert, þá virðist ekki af því leiða, að hjónabönd slíkra persóna megi leysa upp. Agústínus neitar, að leysa eigi þau upp, 27. spurning, 1.kap. „um hjúskap“. Álit hans er ekki lítilsvert, þótt aðrir hafi dæmt á annan hátt síðar meir.

En enda þótt boð Guðs um hjúskap virðist leysa flesta undan heitum, þá koma vorir menn samt sem áður með aðra ástæðu fyrir því, að þau séu ógild, þá, að sérhver guðsdýrkun, sem stofnuð er af mönnum án boðorðs Guðs og valin til að verðskulda réttlætingu og náð, er óguðleg eins og Kristur segir: „Til einskis dýrka þeir mig með mannaboðorðum“ (Mt 15.9). Og Páll kennir hvarvetna, að ekki eigi að leita réttlætis með þjónustu vorri eða guðsþjónustusiðum, sem eru upphugsaðir af mönnum, heldur verði það af trúnni, er menn trúa því, að þeir séu teknir til náðar af Guði vegna Krists.

Augljóst er, að munkar hafa kennt, að sjálfvaldir guðsdýrkunarsiðir fullnægi fyrir syndirnar, verðskuldi náð og réttlætingu. Hvað er það annað en að rýra vegsemd Krists, fela trúarréttlætið og afneita því? Þar af leiðir því, að þessi heit hafa verið óguðleg guðsdýrkun og eru þess vegna ógild. Því að heit, sem er óguðlegt og unnið gegn boðorðum Guðs, hefur ekkert gildi, því að heit má ekki vera band ranglætisins eins og kirkjulögin segja.

Páll segir: „Þér eruð orðnir viðskila við Krist, sem ætlið að réttlætast fyrir lögmál; þér eruð fallnir úr náðinni.“ (Gl 5.4.). Þess vegna eru og þeir sem vilja réttlætast af heitum orðnir viðskila við Krist og eru fallnir úr náðinni, því að og þeir sem ætla heitunum réttlætingargildi, ætla eigin verkum það sem heyrir til vegsemd Krists. Og ekki er hægt að neita því, að munkarnir hafa kennt, að þeir réttlætist og verðskuldi fyrirgefningu syndanna fyrir heitin og það sem þeir gæta. Þeir hafa jafnvel bætt við því sem er ennþá fjarstæðukenndara. Þeir hafa hrósað sér af að veita öðrum hlutdeild í sínum eigin verkum. Ef einhver vildi af illgirni leggja áherslu á þetta, hve miklu væri þá hægt að safna saman af þess háttar, er munkarnir sjálfir skammast sín fyrir? Að auki hafa þeir fengið fólk til að trúa, að sjálfvaldir guðsdýrkunarsiðir væru ástand kristilegrar fullkomnunar. Hvað er það annað en að ætla eigin verkum réttlætingargildi? Það er mikið hneyksli ef fólki er í kirkjunni sagt að halda ákveðna guðsdýrkunarsiði sem menn hafa fundið upp án þess að Guð hafi skipað fyrir um þá og það er kennt, að slík guðsdýrkun réttlæti menn. Þannig fela menn trúarréttlætið, sem nauðsynlegast er af öllu að kenna í kirkjunni, er þeir setja mönnum fyrir sjónir svo undarlega englaþjónustu, yfirskin fátæktar og auðmýktar og skírlífis.

Þar að auki er skyggt á boðorð Guðs og sanna guðsdýrkun, þegar menn heyra, að aðeins munkar séu í ástandi fullkomnunar. Kristileg fullkomnun felst í því að óttast Guð í einlægni og aftur að öðlast mikla trú og treysta því, að sakir Krists eigum vér náðugan Guð, biðja Guð og vænta staðfastlega hjálpar hans í öllu, sem á að framkvæma samkvæmt kölluninni, og um leið að stunda hið góða í hinu daglega lífi og þjóna kölluninni. í þessu er hin sanna fullkomnun og sanna guðsdýrkun fólgin, en ekki í einlífi, betli eða tötralegum klæðnaði. Þess vegna fær fólk margar hættulegar hugmyndir af þessum vitlausa lofsöng um klausturlifnaðinn. Það heyrir einlífinu sungið lof fram úr öllu hófi. Þess vegna lifir það með vondri samvisku í hjónabandinu. Það heyrir, að betlimunkar einir séu fullkomnir. Þess vegna er það með vondri samvisku, að menn eiga eignir eða reka verslun. Það heyrir, að það sé aðeins heilræði fagnaðarerindisins að hefna sín ekki sjálfur. Þess vegna skirrast sumir ekki við að hefna sín í einkalífi sínu, því að þeir heyra, að það sé heilræði, sem bannar hefnd, en ekki boðorð. Á hinn bóginn villast aðrir enn meir, sem álítu, að öll valdstjórn, allar borgaralegar skyldur séu vansæmandi kristnum mönnum og stríði gegn heilræðum fagnaðarerindisins.

Hægt er að lesa um dæmi manna, sem földu sig í klaustri eftir að hafa yfirgefið maka sinn og eftir að hafa yfirgefið stjórn að almennum málum. Það kölluðu þeir að flýja heiminn og leita heilags lífernis og sáu ekki, að Guði á að þjóna í þeim stofnunum, sem hann hefur sjálfur boðið, en ekki í stofnunum, sem menn hafa fundið upp. Gott og fullkomið líferni er það sem byggist á skipun Guðs. Um þetta er nauðsynlegt að áminna menn. Og áður fyrr átaldi Gerson[21]villu munkanna um fullkomnun og vottar, að um sína daga hafi það verið ný kenning, að klausturlifnaður væri fullkomnunarástand.

Svo margar óguðlegar skoðanir loða við heitin: að þau réttlæti, að þau séu hin kristna fullkomnun, að munkarnir haldi heilræðin og boðorðin, að þau feli í sér verk umfram það sem krafist er. Þar eð þetta allt er rangt og einskis nýtt gerir það heitin ógild.

28. grein: Um kirkjuvaldið

Miklar deilur voru fyrrum um vald biskupanna og í þeim blönduðu nokkrir ósæmilega saman valdi kirkjunnar og valdi sverðsins. Og af þeim ruglingi hafa orðið miklar styrjaldir og miklar óeirðir, þar eð páfarnir hafa í trausti til lyklavaldsins ekki aðeins sett nýja guðsþjónustusiði og íþyngt samvisku manna með því að taka sér sjálfir í hendur úrskurð mála og með ofbeldiskenndum bannfæringum, heldur hafa þeir og reynt að breyta ríkisstjórnum heimsins og svipta keisara völdum sínum. Þessa ágalla hafa guðhræddir og lærðir menn í kirkjunni fyrir löngu átalið. Í þeim tilgangi að kenna fólki hafa því kennimenn vorir verið neyddir til að sýna fram á aðgreininguna milli kirkjuvaldsins og sverðsvaldsins og hafa þeir kennt, að hvoru tveggja beri sakir boðs Guðs að auðsýna lotningu og virðingu sem mestu velgjörðum Guðs á jörðu.

En þeir líta svo á, að lyklavaldið eða biskupsvaldið sé samkvæmt fagnaðarerindinu vald eða boð frá Guði um að prédika fagnaðarerindið, leysa og binda syndina og þjóna að sakramentunum. Því að með þessu boði sendi Kristur postulana: „Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður. Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.“ (Jh 20.21-23.). Og í Mark. 16: „Farið, prédikið fagnaðarerindið öllum mönnum.“ (Mk 16.15).

Þessa valds verður aðeins neytt með því að kenna eða prédika fagnaðarerindið og með því að útdeila sakramentunum, ýmist mörgum eða einstökum samkvæmt kölluninni, því að hér eru ekki veitt líkamleg gæði, heldur andleg: Eilíft réttlæti, heilagur andi, eilíft líf. Þessa fá menn ekki notið nema fyrir embætti orðsins og sakramentanna eins og Páll segir: „Fagnaðarerindið er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir,“ (Rm 1.16) Og í Sálmi 118 segir: „Orð þitt lætur mig lífi halda“ (SI 119.50).[22] Þar eð kirkjuvaldið veitir eilíf gæði og verður einungis framkvæmt fyrir embætti orðsins, hindrar það ekki veraldlega valdstjórn fremur en sönglistin hindrar valdstjórnina. Því að valdstjórnin fæst við annað en fagnaðarerindið. Yfirvöldin verja ekki sálirnar, heldur líkamann og líkamleg efni gegn augljósu ranglæti og þau refsa mönnum með sverði og líkamlegum refsingum. Fagnaðarerindið ver sálirnar gegn óguðlegum skoðunum, gegn djöflinum og eilífum dauða.

Þess vegna má ekki blanda saman hinu kirkjulega og veraldlega valdi. Kirkjuvaldið hefur sitt umboð til að kenna fagnaðarerindið og þjóna að sakramentunum. Það má ekki fara inn á önnur skyldusvið, ekki breyta ríkisstjórnum heimsins, ekki afturkalla lög yfirvaldanna, ekki leysa undan lögmætri hlýðni, ekki hindra dóma um nokkrar borgaralegar skipanir eða samninga, ekki setja yfirvöldum lög um það, hvernig skipa eigi ríkinu, eins og Kristur segir: „Ríki mitt er ekki af þessum heimi“ (Jh 18.36). Ennfremur segir hann: „Hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ (Lk 12.14). Og Páll segir í Filippíbréfi 3: „Föðurland vort er á himnum.“ (Fl 3.20) og í. II. Korintubréfi 10: „Vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug fyrir Guði til að brjóta niður hugsmíðar“ o.s.frv. (2Kor 10.4).

Á þennan hátt greina kennimenn vorir milli þess sem hvoru valdi ber að gera fyrir sig og skipa fyrir um það, að báðum skuli auðsýndur heiður og að viðurkennt sé, að hvort tveggja sé gjöf Guðs og velgjörningur.

Ef biskupar hafa eitthvert sverðsvald, þá hafa þeir það ekki sem biskupar að boði fagnaðarerindisins, heldur samkvæmt mannlegum rétti, fyrir tilstuðlan konunga og keisara til veraldlegrar stjórnar á eignum sínum. En þetta er annars konar starf en embætti fagnaðarerindisins.

Þegar því spurt er um lögsagnarvald biskupanna, þá verður að aðgreina ríkið frá lögsagnarvaldi kirkjunnar. Það lögsagnarvald, sem er samkvæmt fagnaðarerindinu, eða, eins og sagt er, samkvæmt guðlegum rétti, ætlast til þess af biskupunum sem biskupum, þ.e. sem mönnum sem falið hefur verið embætti orðsins og sakramentanna, að þeir fyrirgefi syndir, hreki kenningu, sem víkur frá fagnaðarerindinu og reki óguðlega menn, sem berir eru að óguðlegu líferni, úr samfélagi kirkjunnar, ekki með mannlegum mætti, heldur með orðinu. Hér ber söfnuðunum samkvæmt nauðsyn og samkvæmt guðlegum rétti að auðsýna þeim hlýðni í samhljóðan við þetta orð: „Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig“ (Lk 10.16.).

En skyldu þeir kenna eða skipa fyrir um eitthvað, sem er gagnstætt fagnaðarerindinu, þá hafa söfnuðirnir boð frá Guði, sem bannar þeim að hlýða. Matteus 7: „Gætið yðar á falsspámönnum.“ (Mt 7.15). Galatabréfið 1: „Jafnvel þótt engill frá himni boðaði annað fagnaðarerindi, þá sé hann bölvaður.“ (Gl 1.8.). 2. Korintubréf 13: „Ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann.“ (2Kor 13.8). Og ennfremur: „Oss er gefið vald til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots.“ (2Kor 13.10). Þannig banna og kirkjulögin, 11. spurn. VII. kap. „Prestar“ og kap. „hjörðin“. Og Agústínus segir í bréfi gegn Petalianusi: „Ekki á að fylgja kaþólskum biskupum, ef þeir kunna að villast eða kenna eitthvað gagnstætt heilögum ritningum Guðs“.

Ef þeir hafa eitthvert annað vald eða lögsögu til að úrskurða um nokkur mál svo sem hjúskaparmál eða tíundir o.s.frv., þá hafa þeir það samkvæmt mannlegum rétti, þar eð furstarnir, þegar skipaðir dómarar bregðast, eru skyldugir til, jafnvel gegn vilja sínum, að setja þegnum sínum lög til að viðhalda almennum friði.

Auk þessa er deilt um, hvort biskupar eða prestar hafi rétt til að skipa fyrir um siði í kirkjunni og setja lög um fæðu, hvíldardaga, stétt eða vígslustig þjóna kirkjunnar. Þeir sem ætla biskupunum þennan rétt skírskota til þessa vitnisburðar: „Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú, en þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann.“ (Jh 16.12, 13). Þeir skírskota og til dæmis postulanna, sem buðu, að menn skyldu halda sig frá blóði og köfnuðu (P 15.20, 29). Skírskota þeir til þess, að hvíldardeginum var breytt til drottinsdagsins gegn boðorðunum 10, að því er virðist. Og ekki er meira hamrað á nokkru dæmi en breytingunni á hvíldardeginum. Mikið segja þeir vald kirkjunnar vera, úr því að hún leysti upp boðorð úr 10 boðorðum Guðs.

En varðandi þetta mál kenna kennimenn vorir þannig, að biskuparnir hafi ekki vald til að skipa fyrir um neitt, er sé gagnstætt fagnaðarerindinu, eins og áður hefur verið sýnt fram á. Og hið sama votta kirkjulögin, Dist.9. í heild. Ennfremur er það gegn Ritningunni að setja venjur, í því skyni að vér fullnægjum fyrir syndirnar eða verðskuldum að réttlætast með því að gæta þeirra. Þá fellur skuggi á vegsemdina af verðskuldun Krists, er vér álítum oss verðskulda að réttlætast með því að gæta þess háttar. Augljóst er, að þessi skoðun hefur leitt til þess, að mannasetningamar hafa aukist næstum í hið óendanlega í kirkjunni, en um leið var kenningin um trúna og um trúarréttlætið bæld niður, af því að stöðugt voru búnar til nýjar hátíðir, skipaðar föstur, settir nýir kirkjusiðir og ný reglufélög, af því að höfundar slíkra ákvæða álitu sig verðskulda náðina með þessum verkum. Þannig jukust fyrrum yfirbótatilskipanirnar, sem vér sjáum sporin af í fullnægjugerðarverkunum.

Ennfremur breyta höfundar mannasetninganna gegn boðorði Guðs, þegar þeir koma syndinni fyrir í fæðu, dögum og álíka efnum og leggja byrðar á kirkjuna með þjónustu við lögmálið eins og þörf sé á því að afla mönnum réttlætingar álíka og var á dögum Gamla testamentisins eins og Guð hafi skipað postula og biskupa í embætti levíta, en þannig skrifa sumir og virðast páfarnir að nokkru leyti vera blindaðir af dæmi Móselaga. Af þessu stafa slíkar byrðar, svo sem að það sé dauðasynd að vinna með höndum sínum á helgum dögum, jafnvel þótt það hneyksli engan, að vissar fæðutegundir óhreinki samviskuna, að föstur, ekki hinar eðlilegu, heldur hinar þjakandi, séu verk, er blíðki Guð, að það sé dauðasynd að vanrækja tíðasönginn[23]að ekki sé hægt að fyrirgefa synd í undanþegnu efni nema með samsinni þess sem veitir undanþáguna, þó að kirkjulögin tali hér ekki um undanþágu frá sök, heldur um undanþágu frá kirkjulegri refsingu.

Hvaðan hafa biskuparnir rétt til að setja slíkar mannasetningar í söfnuðunum til að íþyngja samvisku manna með, þegar Pétur bannar, að lagt sé ok á herðar lærisveinunum (P 15.10), þegar Páll segir, að þeim sé gefið vald til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots (2Kor 13.10)? Hví auka þeir syndirnar með slíkum mannasetningum? Sannlega eru til skýlausir vitnisburðir, sem banna að setja mannasetningar til að blíðka Guð eða eins og þær væru nauðsynlegar til sáluhjálpar. Páll segir, Kólossubréfi 2: „Enginn dæmi yður fyrir mat, drykk, hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga.“ (Kól 2.16). Ennfremur: „Ef þér eruð dánir með Kristi undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þér yður þá eins og þér lifðuð í heiminum og látið leggja fyrir yður boð eins og þessi: „Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á?“ — Allt þetta er þó ætlað til að eyðast við notkunina! — Mannaboðorð og mannalærdómar og hefur á sér yfirskin speki.“ (Kól 2.20-23.). Í Títusarbréfi 1 segir: „Gefið yður ekki að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum.“ (Tt 1.14). Kristur segir í Matteusi 15 um þá sem halda fram mannasetningum: „Látið þá eiga sig. Þeir eru blindir, leiðtogar blindra.“ (Mt 15.14.). Og hann lýsir vanþóknun sinni á slíkri guðsdýrkun: „Sérhver jurt, sem faðir minn hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða.“ (Mt 15.13).

Ef biskuparnir hafa rétt til að íþyngja samvisku manna með slíkum mannasetningum, hví bannar ritningin svo oft að setja mannasetningar? Hví kallar hún þær lærdóma illra anda? Ætli heilagur andi hafi að ástæðulausu áminnt fyrirfram um þetta?

Eftir stendur því, að skipanir, sem eru settar eins og þær væru nauðsynlegar eða með það í huga að verðskulda réttlætingu, stríða gegn fagnaðarerindinu, því að ekki leyfist biskupunum að setja slíka guðsdýrkunarsiði eða halda þeim fram sem nauðsynlegum. En það er nauðsynlegt að halda fram í söfnuðunum kenningunni um kristið frelsi, að þjónusta við lögmálið sé ekki nauðsynleg til réttlætingar eins og skrifað er í Galatabréfinu: „Látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.“ (Gl 5.1). Nauðsynlegt er að halda fram höfuðgrein fagnaðarerindisins, að vér öðlumst náð fyrir trúna á Krist, en ekki með því að gæta ákveðinna siða eða með guðsdýrkun, sem menn hafa skipað fyrir um.

Hvað á þá að segja um drottinsdaginn og álíka kirkjusiði? Því svara þeir til, að biskupum eða prestum sé leyfilegt að setja skipanir, til þess að allt fari skipulega fram í kirkjunni, en ekki til þess að vér fullnægjum fyrir syndirnar með þeim eða samviska manna sé skylduð til að álíta, að þær séu nauðsynleg guðsdýrkun. Þannig skipar Páll, að konur skuli hylja höfuð sín í söfnuðunum og prédikararnir skuli tala í réttri röð (1Kor 11.5 og 14.26).

Söfnuðunum sæmir að gæta slíkra tilskipana vegna kærleikans og friðarins og halda þær, til þess að enginn hneyksli annan, en allt fari skipulega fram í söfnuðunum og án ófriðar. Umfram allt má ekki íþyngja samvisku manna með því að halda þeim fram sem nauðsynlegum til sáluhjálpar, svo að menn telji sig syndga, ef þeir brjóta gegn þeim, jafnvel þótt enginn hneykslist eins og enginn segir þá konu syndga, sem gengur úti án þess að hafa á höfðinu og veldur engum hneyksli.

Þannig er farið helgihaldi drottinsdagsins, páska, hvítasunnunnar og þess háttar hátíða og helgisiða. Þeir sem álíta, að helgihald drottinsdagsins hafi verið sett sem nauðsynleg þjónusta með valdi kirkjunnar, fara ekki með rétt mál. Ritningin afnam hvíldardaginn, ekki kirkjan, því að eftir að fagnaðarerindið var opinberað, má leggja niður alla siði Móselaga. Samt sem áður var nauðsynlegt að setja ákveðinn dag, svo að fólk gæti vitað, hvenær það ætti að koma saman. Því skipaði kirkjan til þessa drottinsdaginn, sem flestum virtist falla vel, einnig vegna þess að menn höfðu þarna dæmi um kristið frelsi og vissu, að hvorki gæsla hvíldardagsins né nokkurs annars dags væri nauðsynleg.

Undarlegar umræður hafa átt sér stað um breytingu á lögmálinu, um helgivenjur hins nýja lögmáls, um breytingu á hvíldardeginum. Allar eru þær sprottnar af þeirri villu, að það þurfi að vera í kirkjunni guðsdýrkun lík prestsþjónustunni í Gamla testamentinu og að Kristur hafi falið postulunum og biskupunum að setja nýjar helgivenjur, sem væru nauðsynlegar til sáluhjálpar. Þessar villur smeygðu sér inn í kirkjuna, af því að trúarréttlætið var ekki nægilega skýrt kennt. Sumir álíta, að helgihald drottinsdagsins sé að vísu ekki samkvæmt guðlegum rétti, heldur allt að því samkvæmt guðlegum rétti. Þeir skipa fyrir um helgidaga, að hve miklu leyti megi vinna á þeim. Hvað eru þess konar rökræður annað en gildrur fyrir samvisku manna? Þótt þeir reyni að milda mannasetningarnar, þá mun aldrei hægt að ná sanngirni, á meðan skoðun manna á nauðsyn þeirra varir við. Og hún hlýtur að vara við, þar sem menn þekkja ekki trúarréttlætið og hið kristna frelsi.

Postularnir skipuðu, að menn skyldu halda sig frá blóði o.s.frv. (P 15.20, 29). Hver gætir þess nú? Samt sem áður syndga þeir ekki sem ekki gæta þess, því að ekki einu sinni postularnir sjálfir vildu leggja byrðar á samvisku manna með slíkum þrældómi, heldur bönnuðu þetta um tíma, vegna hneykslananna. Það verður að íhuga ævarandi vilja fagnaðarerindisins varðandi þessa tilskipun.

Varla eru nokkur kirkjulög haldin nákvæmlega og mörg ganga úr gildi daglega líka meðal þeirra sem verja mannasetningarnar. Og ekki er hægt að ala önn fyrir samviskunni nema þeirrar sanngirni sé gætt, að vér vitum, að mannasetninganna er gætt án þess að þær séu álitnar nauðsynlegar og að samviskan bíði engan skaða, enda þótt þjónusta manna í slíkum efnum breytist.

Auðveldlega gætu biskuparnir haldið uppi lögmætri hlýðni, ef þeir heimtuðu ekki, að gætt sé þeirra mannasetninga, sem ei er hægt að gæta með góðri samvisku. Nú fyrirskipa þeir einlífi og samþykkja enga presta aðra en þá sem sverja, að þeir vilji ekki kenna hreina kenningu fagnaðarerindisins. Söfnuðir vorir krefjast þess ekki, að biskuparnir komi á einingu með því að fórna tign sinni, sem góðum hirðum bæri þó að gera. Þeir æskja þess eins, að þeir taki burt hinar ranglátu byrðar, sem eru nýjar og eru viðteknar gegn venju hinnar almennu kirkja.

Ef til vill voru fyrr á tímum sennileg rök fyrir þessum tilskipunum, þó að þær samsvari ekki seinni tímum. Augljóst er, að nokkrar voru með röngu viðteknar. Þess vegna sæmdi það mildi biskupanna að létta þeim af nú, því að slík breyting skaðar ekki einingu kirkjunnar, enda hafa margar mannasetningar breyst með tímanum eins og sjálf kirkjulögin sýna. En ef ekki er hægt að koma því til leiðar, að þeim setningum Sé aflétt sem eigi verður gætt án syndar, þá ber oss að fylgja reglu postulanna, sem skipar, að fremur beri að hlýða Guði en mönnum (P 5.29).

Pétur bannar biskupunum að drottna og ríkja með valdi yfir söfnuðunum (1 Pt 5.2, 3). Nú er þess ekki farið á leit, að biskuparnir láti af valdi sínu, heldur þess eins óskað, að þeir þoli, að fagnaðarerindið sé kennt hreint og létti af fáeinum siðum, sem ekki verður gætt án syndar. Geri þeir það ekki, verða þeir sjálfir að sjá fyrir því, hvernig þeir muni standa Guði reikningsskil fyrir að hafa með þessari þvermóðsku stuðlað að sundrungu.

(Eftirmáli)

Vér höfum nú farið í gegnum helstu greinarnar, sem ágreiningur virðist vera um. En þótt greina hefði mátt frá fleiri ósiðum, höfum vér samt sem áður til að forðast of langt mál aðeins tekið fram aðalatriðin. Miklar deilur hafa verið um aflát, um pílagrímaferðir, misnotkun bannfæringarinnar. Söfnuðirnir hafa mátt þola margháttuð vandræði af aflátssölumönnum. Endalausar deilur hafa verið milli presta og munka um sóknarréttindi, um skriftir, um greftranir og önnur efni, sem ekki verður tölu á komið. Vér höfum sleppt því að ræða um þess háttar, til þess að það sem mikilvægast er í máli þessu mætti betur skiljast, þegar það er sett fram í stuttu máli. Og ekki er hér neitt sagt eða tínt til, er geti ófrægt neinn. Aðeins hefur verið greint frá því, sem virtist nauðsynlegt að segja, til þess að hægt sé að skilja, að ekkert er viðtekið hjá oss í kenningu og helgisiðum, sem sé í andstöðu við Ritninguna eða hina almennu kirkju, því að augljóst er, að vér höfum af ítrasta megni varast, að nýir og óguðlegir lærdómar smeygðu sér inn í söfnuði vora.

Þessar framan skráðu greinar höfum vér viljað leggja fram samkvæmt boði keisaralegrar hátignar. Í þeim birtist játning vor og sömuleiðis sést kenning þeirra sem kenna meðal vor. Ef eitthvað skyldi vanta í þessa játningu, erum vér reiðubúnir að veita nánari upplýsingar, ef Guð vill, samkvæmt ritningunum.

Trúir þegnar yðar keisaralegu hátignar:

Jóhann hertogi af Saxlandi, kjörfursti
Georg markgreifi af Brandenburg
Ernest (hertogi af Lünenburg) með eigin hendi
Filippus landgreifi af Hessen
Jóhann Friðrik hertogi af Saxlandi
Franz hertogi af Lünenburg
Wolfgang fursti af Anhalt
Ráðið og valdstjómin í Nürnberg
Ráðið í Reutlingen


[1] Átt er við báðar myndir eða tegundir sakramentisins, brauð og vín.

[2] Nikulás Cusanus kardináli og heimspekingur, d. 1474.

[3] Kypríanus, biskup í Karþagó, d. 258.

[4] Híerónýmus, kirkjufaðir, d. 420.

[5] Gelasíus páfi, 492-96.

[6] Þannig er í síðara hlutanum vitnað í kirkjulögin.

[7] Píus 11. 1458 -1464.

[8] Bartholomeus Platína (1421-1481), bókavörður í páfagarði og kirkjusögufræðingur.

[9] Átt er við atburði, sem urðu á prestastefnum í Mainz og Erfurt 1085.

[10] Gregoríus páfi mikli. 590-604.

[11] Jóhannes Krýsostomus. 345-407, kirkjufaðir.

[12] Historia tripartita eftir Cassiodorus (480-578) aust-gotneskan stjórnmálamann, er gerðist munkur.

[13] Í ísl. Biblíunni er öðruvísi þýðing.

[14] Í ísl. Biblíunni er öðruvísi þýðing.

[15] Johan Gerson (1369-1429), guðfræðingur.

[16] Orðrétt „súmmistar,“ þ.e. höfundar s.k. „súmma“ eða rita um höfuðatriði kristinnar trúar.

[17] Nafn á manni, sem Agústínus skrifaði áminningar þær sem hér er getið.

[18] Jóvinianus var rómverskur munkur (d. u. 406), er mótmælti meinlætalifnaðinum.

[19] Írenaeus (d. u. 150), biskup í Lyon, kirkjufaðir.

[20] „Heilræði fagnaðarerindisins“ voru ákvæði um einlífi og fátækt, sem var haldið að mönnum sem ráðum um fullkomið líf í hlýðni umfram hlýðni við boðorðin. Klausturlifnaður var því kallaður fullkominn lifnaður á miðöldum. Þessu er ákaft mótmælt í 27. grein.

[21] Johan Gerson (1369-1429), guðfræðingur.

[22] Í latnesku Biblíunni, sem fylgt er í Ágsborgarjátningu, er númeraröð Sálmanna önnur en í hebresku Biblíunni, sem fylgt er í núgildandi íslensku þýðingu Biblíunnar.

[23] Tíðasöngurinn (horae canonicae) er bænagjörð, sem fram fór daglega í kirkjum og klaustrum á ákveðnum stundum.