Skip to content

Fræðin meiri: Um Altarissakramentið

Hér fyrir neðan er frumþýðing Þorgils Hlyns Þorbergssonar á Fræðunum meiri. Þýðingin hefur verið prentuð í: Marteinn Lúther, Úrval rita 2, Reykjavík: Skálholtshútgáfan, 1918, þá í endurskoðun Gunnars Kristjánssonar. Þýðingin er birt á netsíðunni með fyrirvara um mögulegar villur.

Fimmti hluti: Um Altarissakramentið

Grundvöllur altarissakramentisins

            Eins og vér höfum nú heyrt um heilaga skírn þurfum vér einnig að ræða um hitt sakramentið út frá þessum þremur atriðum: Hvað það er, hvernig það nýtist og hver á að þiggja það. Og allt byggist þetta á þeim innsetningarorðum, er Kristur hefur mælt, sem hver og einn ætti líka að kunna skil á, sem teljast vill kristinn og ganga til altaris. Vér leiðum því ekki hugann að því að hleypa þeim að og veita þeim sakramentið, sem vita ekki, hvers þeir leita þar eða hvers vegna þeir koma. Orðin eru svohljóðandi:

Vor Drottinn Jesús Kristur tók brauðið, nóttina sem hann svikinn var, gjörði þakkir og braut það, og gaf sínum lærisveinum og sagði: „Takið og etið. Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.“

Sömuleiðis tók hann og kaleikinn eftir kvöldmáltíðina, gjörði þakkir, gaf þeim hann og sagði: „Drekkið allir hér af. Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna. Gerið þetta svo oft sem þér drekkið í mína minningu.“[1]

            Hér er engin ástæða til þess að rífa í hár sitt og ráðast gegn þeim sem brjóta gegn og skammast yfir þessu sakramenti. Eins og í sambandi við skírnina þarf fyrst að læra, hvar valdið liggur. Þýðingarmesta atriðið er orð Guðs og fyrirskipun eða skikkan. Þetta er því hvorki upphugsað né fundið upp af mönnum, heldur stofnað til þess af Kristi án þess að nokkur fái einhverju um það ráðið. Þess vegna er það eins með þetta sakramenti og með boðorðin tíu, Faðir vor og trúarjátninguna, að þau halda stöðu sinni og gildi, þó að þú haldir þau aldrei nokkurn tímann, biðjir eða trúir. Frá þessu mikilsverða sakramenti verður heldur aldrei hvikað. Á því verður hvorki brotið né það numið úr gildi, þó svo að vér misnotum það og förum gáleysislega með það. Hvernig dettur þér í hug að Guð spyrji um verk vor eða trú, til þess að hann láti af þeim sökum breyta reglu sinni?  Á öllum veraldlegum sviðum verður allt eins og Guð hefur skapað og skipað fyrir, án tillits til þess hvernig vér notum og förum með það. Þetta verður sífellt að brýna. Á þann hátt er hægt að halda aftur af nær öllum sértrúaröndum, því að þeir líta á sakramentið sem eitthvað er vér gerum án þess að líta á Guðs orð.

Hvað er altarissakramentið?

            Hvað er nú altarissakramentið?  Svar: Það er hinn sanni líkami og blóð Drottins Krists í og með brauði og víni er oss boðið að eta og drekka. Og eins og áður segir um skírnina, sem ekki er venjulegt vatn, þá segjum vér einnig hér, að altarissakramentið er brauð og vín, en hvorki hversdagslegt brauð né vín, sem annars er borið á borð, heldur brauð og vín, sem grundvallað er á orði Guðs og tengist því. Orðið er að mínu mati það sem gerir þetta að sakramenti og greinir á milli, þannig að þetta er ekki venjulegt brauð og vín heldur er og heitir líkami og blóð Krists. Þess vegna segjum vér: „Accedat verbum ad elementum et fit sacramentum“ — Þegar orðinu er bætt við ytra efnið, verður það að sakramenti.[2]  Þetta orðalag heilags Ágústínusar er svo auðsætt og vel mælt, að það verður varla betur sagt. Orðið hlýtur að gera efnið að sakramenti, en ef ekki, þá verður það bara venjulegt efni. Nú er það hvorki orð né tilskipun frá fursta eða keisara, heldur frá hinni æðstu hátign, sem gjörvöll skepna á að lúta og játa, að svo verði sem sagt er og þiggja það með allri sæmd, ótta og auðmýkt. Út frá þessu orði getur þú styrkt samvisku þína og sagt: „Þó að hundrað þúsund árar ásamt öllum vingltrúarmönnum öskri: „Hvernig getur brauð og vín verið líkami og blóð Krists?“ og svo framvegis, þá veit ég að allir andar og lærðir menn upp til hópa eru ekki jafnsnjallir og hin guðlega hátign í litla fingri. Nú segir hér í Guðs orði: „Takið, etið, þetta er líkami minn,“ „Drekkið allir hér af, þetta er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði“ og svo framvegis. Við þetta höldum vér oss, og vér viljum gjarnan berja þann augum, sem getur vandað um við hann og farið öðruvísi að en hann hefur talað um. Það er vissulega satt, að ef þú fjarlægir þannig orðið eða horfir framhjá því, þá hefur þú ekkert annað en venjulegt brauð og vín, en séu þau höfð með, eins og þau hljóta og þurfa að vera, þá eru brauðið og vínið sannarlega í sjálfum sér líkami og blóð Krists. Það sem því munnur Krists mælir og segir, er þess eðlis, að það getur hvorki verið svik né lygar.

            Að þessu gefnu veitist auðvelt að svara alls kyns spurningum, sem leita á fólk nú á dögum, eins og þessari, hvort slæmur prestur getur haft umsjón með eða útdeilt sakramentunum, og slíkar og þvílíkar spurningar. Vér göngum út frá því og segjum: „Jafnvel þótt þrjótur þiggi eða veiti sakramentið, þá þiggur hann rétta sakramentið, það er, líkama og blóð Krists, alveg á sama hátt og sá sem meðhöndlar það sómasamlega. Það er því ekki byggt á mannlegum heilagleika heldur á orði Guðs. Og þar sem enginn heilagur á jörðu, já, enginn engill á himnum getur gert brauðið og vínið að líkama og blóði Krists, þá getur enginn heldur breytt því eða beitt annarri aðferð, jafnvel þótt það verði misnotað. Vegna persónunnar eða vantrúarinnar verður orðið ekki rangt, þar sem fyrir það hefur það orðið að staðfestu sakramenti. Hann segir því ekki: „Ef þér trúið eða eruð þess verðir, þá hafið þér líkama minn og blóð,“ heldur: „Takið, etið og drekkið, þetta eru líkami minn og blóð mitt,“ sömuleiðis; „gjörið þetta“ (einmitt það sem ég nú geri, set á stofn, gef yður og bið yður að taka við). Með því er átt við þetta: „Hvort sem þú ert þess verður eða óverður, þá hefur þú hér líkama og blóð hans út frá krafti þeirra orða, þannig að úr verða brauð og vín. Taktu nú vel eftir því og hugleiddu það. Í þessum orðum felst allur vor grundvöllur, vernd og skjól gegn öllum villum og vélráðum, sem fram að þessu hafa komið fram eða kunna að koma fram.

Hvernig gagnar altarissakramentið?

Þarna höfum vér í stuttu máli fyrsta atriðið, sem snertir veruleika altarissakramentisins. Nú er rétt að líta einnig á kraftinn og gagnsemina, sem sakramentið er endanlega stofnað til, þegar öllu er á botninn hvolft, og það af þessu er ennfremur nauðsynlegast, að augljóst sé, hvers vér eigum að leita og sækjast eftir. Það er nú skýrt og ljóst einmitt út frá þessum orðum: „Þetta er líkami minn og blóð mitt, sem fyrir yður eru gefin og úthellt til fyrirgefningar syndanna.“  Í stuttu máli er átt við þetta: Vér göngum til altaris í þeim tilgangi að vér megum taka við þvílíkum fjársjóði, þar sem vér með og í honum öðlumst fyrirgefningu syndanna. Hvers vegna er það svo?  Vegna þess að þau orð standa þar, sem veita oss þetta. Þess vegna býður hann mér að eta og drekka, svo að það verði mitt og megi nýtast mér sem öruggt merki og tákn, já, einmitt hin sömu gæði sem mér eru falin gegn syndum mínum, dauða og allri ógæfu.

Þess vegna kallast þetta réttilega sálarfæða, sem nærir og styrkir hinn nýja mann. Fyrir skírnina verðum vér fyrst endurfædd, en síðan, eins og áður segir, heldur maðurinn eftir sem áður húð sinni í holdi og blóði. Jafnframt eru það hindranir og ofsóknir djöfulsins og heimsins, svo að vér verðum oft þreytt og veikburða og stundum hrösum vér einnig. Þess vegna er þetta oss gefið til daglegrar styrkingar og næringar, svo að trúin megi eflast og styrkjast, til þess að hún hopi ekki í slíkri baráttu heldur verði sífellt sterkari og sterkari. Hið nýja líf á því að vera þannig úr garði gert, að það stefni stöðugt áfram og horfi fram á við. Aftur á móti verður það að þola mikinn mótbyr. Djöfullinn er nefnilega svo illgjarn óvinur, því að þar sem hann sér, að honum er sýnd andstaða og átt er í höggi við hinn gamla mann og hann getur ekki borið oss ofurliði með valdi, þá læðist hann og smýgur inn á allar hliðar, reynir öll hugsanleg bellibrögð og gefur sig ekki fyrr en hann að lokum nær að þreyta oss, þannig að annaðhvort verði trúnni varpað fyrir róða eða oss fallist hendur og oss bresti viljastyrk og þolinmæði. Þess vegna er nú huggunin veitt, ef hjartanu líður þannig, að því virðast allar bjargir bannaðar, þá fær það hér nýjan kraft og hressingu.

Hér snúa hinir snjöllu andar vorir aftur út úr með brögðum sínum og klókindum, er þeir hrópa og öskra: „Hvernig geta brauð og vín fyrirgefið syndir eða styrkt trúna?“  Þetta segja þeir, þó svo að þeir heyri og viti, að vér segjum ekkert slíkt um brauðið og vínið, eins og brauðið sé í sjálfu sér brauð, heldur um brauð og vín í þeim skilningi, að hér sé um líkama og blóð Krists að ræða og það sé svo samkvæmt orðanna hljóðan. Á sama hátt segjum vér, að í þessu og engu öðru er hnossið fólgið, sem slík fyrirgefning veitist fyrir. Nú er þetta oss látið í té og tileinkað í engu öðru en orðunum  „fyrir yður gefið og úthellt“. Í þessu hefur þú hvort tveggja fólgið, að þetta eru líkami og blóð Krists og þetta er þér fengið sem fjársjóður og gjöf. Nú getur líkami Krists ekki verið ávaxtalaus og fánýtur hlutur, sem hvorki gefur af sér né nýtist. Hversu mikill sem þessi fjársjóður kann þó að vera í sjálfum sér, þá hlýtur hann að vera fólginn í orðinu og oss gefinn, annars gætum vér hvorki kannast við það né leitað þess.

Þess vegna er það líka fullkomlega merkingarlaust, sem þeir segja, að líkami Krists er oss ekki gefinn og blóði hans er ekki úthellt við kvöldmáltíðina og af þeim sökum sé ekki hægt að öðlast fyrirgefningu syndanna. Jafnvel þótt verkið á krossinum hafi átt sér stað og fyrirgefning syndanna hafi hlotnast, þá geta þau samt ekki komið til vor nema fyrir orðið. Hvað myndum vér því annars vita um það, að slíkt hefði átt sér stað eða verið oss veitt, hefði ekki verið fjallað um það í prédikun eða munnlegum flutningi. Hvaðan hafa þeir þá vitneskju eða hvernig geta þeir öðlast fyrirgefningu og tileinkað sér hana, ef þeir halda sig ekki við og trúa á Ritninguna og fagnaðarerindið?  Nú er raunar allt fagnaðarerindið og grein trúarjátningarinnar,  „ég trúi á heilaga almenna kirkju, fyrirgefningu syndanna og svo framvegis“ sett fram í sakramentinu fyrir orðið og oss boðuð.  Hvers vegna ættum vér að láta nema slíkan fjársjóð á brott úr sakramentinu, þar sem þeir sjálfir hljóta að viðurkenna, að sjálf orðin, sem vér heyrum jafnan í fagnaðarerindinu, já, þeir hafa svo lítið fyrir sér í því, að þessi orð eigi sér enga stoð í sakramentinu, eins og þeir dirfast að staðhæfa, að allt fagnaðarerindið án sakramentanna sé gagnslaust?

Hver sem tekur við altarissakramentinu.

Hér höfum vér sem sagt sakramentið í heild sinni, bæði hvað það er í sjálfu sér, og hvað það gefur og nýtist. Nú þarf einnig að líta á, hver sú persóna er, sem tekur við slíkum krafti og nytsemi. Það er í stuttu máli, eins og áður hefur komið fram hér á undan um skírnina og annars er oft sagt, þetta: Hver sá sem trúir þessu, samkvæmt orðanna hljóðan og því sem þau gefa til kynna. Þau er því ekki sögð eða boðuð steini eða tré, heldur þeim sem heyra, þeim sem hann segir „takið og etið“ og svo framvegis. Og vegna þess að hann býður og heitir fyrirgefningu syndanna, er ekki hægt að öðlast hana öðruvísi en fyrir trúna. Slík trú kemur því til leiðar í þeim orðum, er hann segir: „Fyrir yður gefið og fyrir yður úthellt,“ eins og hann vildi segja: „Þess vegna veiti ég þetta og heiti yður að eta og drekka, svo að þér megið neyta þess og njóta.“  Hver sem tekur þessi orð til sín og trúir því að þau séu sönn, hefur hlotið þetta. Sá sem hins vegar trúir ekki, hefur ekkert hlotið, því að hann lætur Guð bjóða þetta sér til einskis gagns og vill ekki eiga hlutdeild í hinni frelsandi gjöf. Fjársjóðnum er lokið upp og hann settur fyrir framan hvers manns dyr, já, borinn á borð, en þá varðar öllu að þú takir hann til þín og gangir út frá því sem vísu að hann sé í samræmi við orðanna hljóðan.

Þetta er nú allur undirbúningur kristinna manna, svo að þeir taki sómasamlega við sakramentinu. Vegna þess að slíkt hnoss er algjörlega fólgið í orðinu, getur enginn höndlað það og tekið til sín nema með hjartanu. Með hnefanum er ekki hægt að gera sér grein fyrir slíkri gjöf og eilífum fjársjóði. Föstur og bænir geta reynst vel sem ytri undirbúningur og æfing fyrir börnin, þannig að líkaminn verði flekklaus og bljúgur gagnvart líkama og blóði Jesú. En það sem gefið er í og með sakramentinu getur líkaminn hvorki skilið né meðtekið. Það gerir hins vegar trú hjartans, sem þekkir slíkan fjársjóð og þráir hann. Þetta ætti að nægja sem nauðsynleg, almenn kennsla um þetta sakramenti. Rækilegri umfjöllun verður því að bíða betri tíma.

Áminning um að nota altarissakramentið.

Þar sem vér höfum nú hlotið réttan skilning á kenningunni um sakramentin, er loks komið að áminningu og áeggjan um það, að ekki verði litið framhjá slíku hnossi, sem daglega er fengist við og útdeilt á meðal kristinna manna, það er, kristnir menn hljóta ávallt að finna sig knúna til þess að þiggja oft hið mikilsverða sakramenti. Vér sjáum því, hversu slælega og kæruleysislega er tekið á þessu, og aragrúi þeirra, sem heyra fagnaðarerindið, lætur eins og vér séum laus við þvinganir og fyrirskipanir um það, eins og þvættingurinn í páfanum gefur til kynna,[3] og þeir láta eitt ár, tvö eða þrjú líða án þess að gengið sé til altaris, eins og þeir séu svo sannkristnir, að þeir þurfi þess ekki við. Og sumir láta halda aftur af sér og hræða sig frá því, sem oss hefur verið kennt, að enginn ætti að ganga til altaris nema hann skynji hungur og þorsta, þannig að hann finni sig knúinn. Aðrir rökstyðja þetta þannig, að þetta sé frjálst og ekki svo bráðnauðsynlegt, og nægilegt sé raunar að trúa og þeir verða á endanum algjörlega skeytingarlausir og fyrirlíta bæði sakramentið og orð Guðs. Nú er það satt, sem vér höfum sagt, að vegna líkamans skulum vér hvorki reka nokkurn né þvinga, til þess að ekki verði framið nýtt sálarmorð. En samt sem áður ber að hafa það í huga, að slíkir menn teljast ekki kristnir, sem skjóta sér undan sakramentinu og forðast það. Kristur hefur því ekki sett það á stofn til skemmtunar, heldur hefur hann falið kristnum mönnum að eta og drekka og minnast sín á þann hátt.

            Og reyndar eiga sannkristnir menn, sem láta sig varða sakramentið og meta það mikils, að sækjast eftir því að neyta þess. En til þess að hinir einföldu og veiku, sem gjarnan vilja teljast kristnir verði þeim mun meira hvattir til að íhuga ástæðu og neyð þess að þeir komi fram, skulum vér ræða dálítið um það. Það er eins og með önnur málefni, er varða trúna, kærleikann og þolgæðið, nægir ekki að uppfræða og kenna, heldur þarf einnig að áminna daglega, og af þeim sökum er einnig brýnt að prédika, svo að enginn verði latur eða sljór, vegna þess að vér vitum og finnum, hvernig djöfullinn glennir sig gagnvart öllu slíku og kristninni og rekur oss og flæmir á brott, eins og honum er það unnt.

            Og fyrir það fyrsta höfum vér skýran texta í orðum Krists: „Gjörið þetta í mína minningu.“  Þetta eru orð sem bjóða og skipa oss svo fyrir, þeim sem vilja teljast kristnir, að taka við sakramentinu og neyta þess. Þess vegna skal hver sá, sem vill vera lærisveinn Krists, því að það er við þann, sem hann talar við hér, hugsa um og halda sig líka við þetta, ekki af nauðung, líkt og þrýst væri á hann af mönnum, heldur til þess að hlýðnast og þóknast Drottni Kristi. En ef þú segir: „Það stendur ennfremur: „Svo oft sem þér það gjörið,“ þá þvingar hann að sönnu engan, heldur lætur lætur það velta á vorum frjálsa vilja, þá er svarið: „Það er satt, en á hinn bóginn stendur ekki, að aldrei skuli nokkur framar gera þetta, já, einmitt vegna þess að hann mælir orðin: „Svo oft sem þér það gjörið,“ felur það eftir sem áður í sér, að þetta eigi oft að gera. Og því er bætt við, vegna þess að hann vill að sakramentið verði frjálst, óháð vissum tíma eins og páskalamb Gyðinganna.[4] Það máttu þeir aðeins eta einu sinni á ári og einmitt á fjórtánda degi eftir fullt tungl um kvöldið og aldrei mátti brjóta gegn því. Það var eins og hann vildi með því segja: „Ég set á stofn páskahátíð eða kvöldmáltíð, sem þér skuluð ekki aðeins neyta einu sinni á ári heldur oft, hvenær og hvar sem þér viljið, allt eftir efnum og ástæðum hvers og eins, hvorki háð tiltekinni stund né stað, þrátt fyrir að páfinn hafi síðar umsnúið henni og gert hana að gyðingahátíð.[5]

            Af þessu sérð þú, að það á ekki að leyfast að fyrirlíta þetta. Ég kalla það að fyrirlíta, þegar svo langur tími er látinn líða, án þess að nokkurn fýsi í það, þó að ekkert komi í veg fyrir að farið sé. Viljir þú njóta slíks frelsis, þá skalt þú njóta ennþá meira frelsis og segja að þú sért ekki kristinn og megir hvorki trúa né biðja. Það er alveg jafnmikilvæg skikkan Guðs og hver önnur. Viljir þú hins vegar teljast kristinn, þá verður þú stundum að rækja þetta boð og hlýða því. Þetta boðorð á því að fá þig til þess að líta í eigin barm og hugsa: „Hvers konar kristinn maður er ég eiginlega?  Ef ég væri það, þá myndi ég sækjast aðeins meira eftir því að framkvæma það, sem Drottinn hefur falið mér.“  Og reyndar er það nú svo, vegna þess að vér virðumst vera svo ókunnugir sakramentinu, að gera má sér í hugarlund, hversu kristin vér vorum á páfatímanum, þar sem beitt var mannlegum þvingunum og ótta til þess að gengið yrði til altaris, án löngunar og kærleika, og án þess að boð Krists yrði haft að leiðarljósi. Vér þvingum hins vegar hvorki né þrýstum á nokkurn mann, og enginn má heldur gera slíkt til þess eins að þjóna hagsmunum vorum, en á hinn bóginn ætti það að brýna þig, að hann vill þetta og það er honum þóknanlegt. Hins vegar á ekki að láta menn neyða sig til trúar né góðs verks af nokkru tagi. Vér gerum ekkert umfram það að áminna þig og hvetja til þess sem þú skalt gera, ekki vor vegna heldur vegna þín. Hann lokkar þig og laðar, en viljir þú fyrirlíta þetta, þá verður þú sjálfur að svara fyrir það.

            Þetta ætti nú fyrst og fremst að vera sagt við þá kaldlyndu og skeytingarlausu, svo að þeir hugsi sinn gang og vakni. Það sem er því vissulega satt, eins og ég hef nú sjálfur reynt á sjálfum mér, og hver og einn ætti að finna hjá sjálfum sér, að ef sakramentinu er haldið fjarri, er hætt við tilfinningadoða og kaldlyndi dag frá degi og loks sinnuleysi. Þess í stað þarf að skoða hjartað og samviskuna í þaula og hegða sér eins og maður, sem fúslega vill þóknast Guði. Í því ríkari mæli sem slíkt á sér stað, þeim mun hlýrra verður hjartað og ljómar meira, svo að það kólnar aldrei alveg. En ef þú segir hins vegar: „Hvernig er það þá, ef mér finnst ég ekki vera reiðubúinn?“ þá er svar mitt á þessa leið: „Þetta er líka ásteytingarsteinn minn, sérstaklega gagnvart minni gömlu veru, frá páfatímanum, þegar vér píndum oss sjálf til þess að hreinsast algjörlega, til þess að Guð gæti ekki fundið nokkurt lýti á oss, og af því leiðir, að vér erum orðin svo óframfærin, að allir fyllast skelfingu og segja: „Vei þér, þú ert ekki verðugur!“  Þar sem eðlið og skynsemin fara að miða óverðleika vorn við þessi miklu, dýrmætu gæði, þá kemur það fram sem dauft skin samanborið við sólarljósið eða mykja samanborið við eðalsteina, og þar sem þeir sjá sjálfa sig í því ljósi, veigra þeir sér við því að koma fram og hika, uns þeir eru skikkaðir til þess, og þannig gengur þetta fyrir sig viku eftir viku, misseri eftir misseri. En ef þú vilt líta á þetta þannig, hversu hreinn og guðhræddur þú ert og bíða þess, að ekkert herji á þig, þá þarft þú aldrei nokkurn tímann að koma fram.

            Af þeim sökum þarf að gera greinarmun á fólkinu: Um þá sem eru frekir og óstýrilátir ber að segja að þeir eiga að halda sig fjarri, því að þeir hafa ekki efni á því að taka við fyrirgefningu syndanna, þar sem þeir sækjast ekki eftir henni og vilja alls ekki vera guðhræddir. Aftur á móti eru það hinir, sem ekki eru svo grófir og kærulausir og vilja gjarnan vera guðhræddir, þeir eiga ekki að halda sig fjarri, jafnvel þótt þeir telji sig veika og breyska. Það er eins og heilagur Hilaríus[6] hefur einnig sagt: „Þegar synd einhvers er ekki þess eðlis, að hún leiði til þess að hann sé gjörður brottrækur úr söfnuðinum og ekki talinn til kristinna manna, á hann ekki að halda sig fjarri altarissakramentinu,“ til þess að hann svipti sjálfan sig ekki lífinu. Svo langt getur því enginn komist, að hann hafi ekki ennþá daglega þörf á holdi og blóði.

            Þess vegna á slíkt fólk að læra, að hin æðsta list er í því fólgin, að haft sé hugfast, að sakramenti vort veltur ekki á verðleika vorum. Vér látum ekki skírast vegna þess að vér séum svo verðug og heilög, vér komum heldur ekki til skrifta,[7] vegna þess að vér séum svo hrein og syndlaus, heldur þvert á móti vegna þess að vér erum aum og vesæl, og einmitt vegna þess að vér erum óverðug. Undanskilinn hlýtur að vera sá, sem ekki kærir sig um slíka náð og aflausn og hefur heldur ekki hug á að bæta ráð sitt. Sá sem hins vegar vill hljóta náð og huggun, á að setja í sig kjark og láta engan hræða sig frá því og segja þetta: „Ég vildi gjarnan teljast verðugur, en ég kem ekki fram í verðleika, heldur fyrir orð þitt, þar sem þú hefur skipað svo fyrir, líkt og sá sem vill vera lærisveinn þinn, en verðleiki minn nær svo skammt.“  Það er samt sem áður erfitt, því að það heldur aftur af oss og hindrar, að vér horfum meira á sjálfa oss en á orð Krists og munn. Eðli vort vill því búa svo um hnútana, að það treysti og grundvallist á sjálfu sér, en ef svo er ekki, þá nær það ekki lengra. Þetta ætti að nægja um fyrsta atriðið.

            Í öðru lagi er auk fyrirskipunarinnar að finna fyrirheit, eins og áður hefur verið nefnt hér að ofan, sem á að brýna oss og hvetja til dáða. Þarna standa því þessi vingjarnlegu, hlýlegu orð: „Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Þetta er blóð mitt, sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna.“  Þessi orð eru, eins og ég hef sagt, ekki prédikuð stokkum eða steinum, heldur mér og þér, annars myndi hann steinþegja og setja engin sakramenti á stofn. Þess vegna átt þú líka að gera þér grein fyrir og leiða hugann að þessu „yður“, sem hann segir þér ekki að ástæðulausu. Með þessu býður hann oss allan þann fjársjóð, sem hann tók með sér af himnum, og sem hann laðar oss með í sínum vingjarnlegu orðum sem skrifuð standa í Matteusarguðspjalli: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“[8]  Nú er það synd og skömm, þar sem hann hænir oss svo vinsamlega og blíðlega að sér og hvetur til þess að taka við hinu mikilvægasta og besta hnossi, sem hægt er að hugsa sér, og vér verðum afundin og fjarlægjumst það svo mjög að vér verðum kaldlynd og forhert, þannig að vér höfum hvorki löngun né kærleika til þess. Ekki má líta á altarissakramentið sem eitthvað hættulegt, sem þarf að flýja undan, heldur sem einskæra svölun, huggunarríkt læknislyf, sem hjálpar þér og gefur þér líf, bæði á sál og líkama. Þar sem því sálinni er borgið, er líkaminn einnig hólpinn. Hvers vegna ályktum vér þá eiginlega sem svo, að hér sé um banvænt eitur að ræða?

            Það er raunar satt, að þeir sem fyrirlíta þetta og lifa ókristilegu lífi, taka við því sjálfum sér til glötunar og fordæmingar. Slíkt veit því ekki á gott og veitir enga líkn, rétt eins og sjúklingur, sem í þrjósku sinni etur og drekkur það sem læknirinn hefur bannað honum. En þeir, sem finna fyrir veikleika sínum og vilja fúsir losna við hann og sækjast eftir hjálp, eiga hvorki að líta á það né nota það á annan hátt en sem dýrmætt mótefni gegn því eitri, sem þeir hafa í sér. Hér skalt þú því í sakramentinu þiggja af munni Krists fyrirgefningu syndanna, sem felur í sér og hefur í för með sér náð Guðs og anda ásamt öllum gjöfum sínum, vernd, skjól og vald gegn dauðanum, djöflinum og allri ógæfu.

            Þannig hefur þú af hálfu Guðs bæði hlotið skipun Drottins Krists og fyrirheit. Á sjálfum þér finnur þú þín vegna, að neyð þín, sem hvílir þungt á þér, ætti að reka þig til þess, en vegna hennar er þetta skipað, brýnt og fyrirheit gefið. Hann segir því sjálfur í Matteusarguðspjalli: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.“[9]  Það eru hinir mæddu og þjökuðu af synd, hræðslu við dauðann, árásum holdsins og djöfulsins. Ef þú ert nú hrjáður og finnur fyrir veikleika þínum, gakktu þá glaður fram og láttu hressa þig, hugga og styrkja. En ef þú vilt bíða uns þú losnar undan slíku og þér finnst þú vera hreinn og verðugur þess að koma fram til altaris, þá verður þú að vera fjarri því um eilífð. Hér setur hann því úrslitakosti og segir: „Ef þú ert hreinn og frómur, þá eigum við ekkert saman að sælda.“  Þess vegna nefnast þeir einir óverðugir, sem kannast hvorki við afbrot sín né vilja kallast syndarar.

            Þú segir hins vegar: „Hvað á ég eiginlega að gera, ef ég finn hvorki fyrir slíkri neyð né skynja hungur og þorsta eftir altarissakramentinu?“  Svar: „Handa þeim, sem þannig er innanbrjósts, að þeir finni ekkert á sér, á ég ekkert betra ráð en þetta, að þeir líti í eigin barm og kanni, hvort þeir hafa ekki einnig hold og blóð; og þar sem þú finnur það, þá hefur þú gott af því að lesa það sem Páll postuli skrifar í pistli sínum til Galatamanna, og heyra um það, hvaða ávöxt hold þitt ber: „Holdsins verk eru augljós: „Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja og annað þessu líkt.“[10]  Ef þú getur ekki fundið fyrir þessu, trúðu þá Ritningunni, sem mun ekki ljúga að þér, en hún gjörþekkir hold þitt betur en þú sjálfur. Já, áfram heldur Páll í Rómverjabréfinu: „Ég veit, að ekki býr nokkuð gott í mér, það er, í holdi mínu.“[11]  Ef Páll getur talað á þennan hátt um hold sitt, þá megum vér ekki heldur hvorki telja oss betri né heilagri. Það er þeim mun hryggilegra að vér skulum ekki finna fyrir þessu sjálfir. Þetta er merki þess, hversu veikbyggt holdið er, þar sem það finnur ekki fyrir neinu en æðir um og etur upp allt í kringum sig. Eins og áður segir er það nú samt sem áður svo, að ef þú ert svo dauður, trúðu þá samt Ritningunni, sem kveður upp sinn dóm um þig. Í stuttu máli, því minni gaum sem þú gefur synd þinni og brestum, þeim mun ríkari ástæðu hefur þú til þess að koma fram í þeim tilgangi að leita hjálpar og lækningar.

            Í öðru lagi skalt þú líta í kringum þig og kanna, hvort þú ert ekki líka í heiminum, og ef þú gerir þér enga grein fyrir því, spyrðu þá nágranna þinn. Ef þú ert í heiminum, þá skalt þú ekki halda að það verði hörgull á synd og neyð. Byrjaðu bara að hegða þér eins og guðhræddum sæmir og haltu þér við fagnaðarerindið og vittu svo til, hvort þú færð ekki óvini sem valda þér þjáningu og beita þig órétti og ofbeldi og gefa þér sömuleiðis ástæðu til synda og ódyggða. Hafir þú ekki sannreynt það sjálfur, láttu þá Ritninguna segja þér það, sem um allan heim gefur slíka umsögn og vitnisburð.

            Þar að auki hefur þú vitanlega djöfulinn allt í kringum þig, sem þú munt aldrei yfirbuga, vegna þess að Drottinn Kristur hefur sjálfur aldrei getað forðast hann. Hvað er nú djöfullinn?  Hann er einmitt það sem Ritningin kallar hann, lygari og morðingi.[12] Lygari, sem flytur hjartað burt frá Guðs orði og blindar það, svo að þú finnir hvorki fyrir neyð þinni né komist til Krists. Morðingi, sem þyrmir ekki lífi þínu eina stund. Ef þú gætir bara séð, hversu mörgum hnífum, spjótum og örvum er sífellt beint að þér, ættir þú að gleðjast, svo framarlega sem þú kæmist til altarissakramentisins. Þar sem vér lifum svo óhult og gálaus, hefur það í för með sér, að vér hugsum hvorki um það né trúum því, að vér séum í holdinu og hinum illa heimi eða í ríki djöfulsins.

            Þess vegna skalt þú ástunda og iðka þetta vel, svo að þú lítir í eigin barm eða horfir ögn í kringum þig og haldir þig aðeins við Ritninguna. Ef þú finnur ekki ennþá fyrir neinu, þá hefur þú þeim mun ríkari ástæðu til þess að kvarta bæði við Guð og bróður þinn. Taktu ráðleggingum og láttu biðja fyrir þér og gefstu ekki upp fyrr en steinninn hefur verið tekinn úr hjarta þínu. Þá munt þú gefa neyð þinni gaum og verða þess var, að þú ert sokkinn tvöfalt dýpra en aðrir aumir syndarar og hefur þeim mun meiri þörf á altarissakramentinu gegn þeirri eymd, sem þú sérð því miður ekki; Guð gefi þér náð til þess að þú finnir meira fyrir henni og þig hungri þeim mun meira, sérstaklega þar sem djöfullinn nær taki á þér og situr án afláts um þig, þrífur í þig og deyðir sál og líf, svo að þú getir ekki staðið óhultur frammi fyrir honum nokkra stund. Hversu snögglega getur hann ekki í einu vetfangi steypt þér í eymd og volæði, áður en þú færð rönd við reist?

            Þetta ætti nú að vera sagt til áminningar, ekki aðeins við oss sem erum gömul og stór, heldur einnig við unga fólkið, til þess að það alist upp við kristilega kenningu og skilning. Þannig væri því auðveldara að tileinka æskulýðnum boðorðin tíu, trúarjátninguna og Faðir vor, svo að hann tæki þau fúslega og alvarlega til sín og frá blautu barnsbeini iðkaði þau og vendi sig á þau. Það er víst orðið fullseint fyrir hina öldruðu að halda sig að því, það hefur ekkert upp á sig. Þess vegna þarf að ala unga fólkið upp, sem á eftir oss kemur, og sem á að taka við embættum vorum og verkum, til þess að það ali börn sín þannig upp, að orð Guðs og kristnin beri ávöxt og sé haldið að þeim. Þess vegna skal sérhver húsfaðir vita, að honum samkvæmt boði og fyrirskipun Guðs ber skylda til að kenna börnum sínum þetta eða láta þau læra það, sem þau eiga að kunna skil á. Vegna þess að þau eru því skírð og tekin inn í kristinn söfnuð, eiga þau einnig að njóta slíks samfélags við altarissakramentið, svo að þau geti þjónað og orðið til gagns, því að þau verða vissulega öll að hjálpa oss til að trúa, elska, biðja og berjast gegn djöflinum.


[1]           Þessir textar eru ekki þeir sem nefndir eru í formálanum. Fyrir utan fyrra Korintubréf 11.23-25 er hér einnig notast við þá texta, sem er að finna í þremur fyrstu kvöldmáltíðartextunum samkvæmt kvöldmáltíðaratferli dönsku þjóðkirkjunnar: Mt 26.26-28; Mk 14.22-24; Lk 22.19-20.
[2]           Algeng tilvísun í Lúther. Hún á rót sína að rekja til útleggingar Ágústínusar kirkjuföður í Jóhannesarguðspjall (Tractatus in Johannis Evangelium 80,3).
[3]           Samkvæmt ákvæði frá árinu 1215 átti hver og einn að ganga að minnsta kosti einu sinni til altaris og var það gert á páskum.
[4]           Árleg páskahátíð Gyðinga var haldin til minningar um brottförina frá Egyptalandi.
[5]           Sjá áðurnefnt ákvæði í þarsíðustu neðanmálsgrein.
[6]           Hilaríus frá Poitiers (315-367).
[7]           Þrátt fyrir að Lúther hefði verið andvígur því að neyða fólk til skrifta, hélt hann fast við skriftirnar og lagði áherslu á nauðsyn þeirra.
[8]           Mt 11.28.
[9]           Mt 9.12.
[10]         Gl 5.19-21.
[11]         Rm 7.18.
[12]         Jh 8.44.