Hér fyrir neðan er frumþýðing Þorgils Hlyns Þorbergssonar á Fræðunum meiri.
Þýðingin var prentuð í Marteinn Lúther, Úrval rita 2, Reykjavík: Skálholtshútgáfan, 1918, þá í endurskoðun Gunnars Kristjánssonar.
Þýðingin er birt á netsíðunni með fyrirvara um mögulegar villur. Endurskoðun er í vinnslu.
Fyrsti hluti: Boðorðin tíu
Fyrsta boðorð: Þú skalt ekki aðra guði hafa.
Það er: Þú skalt aðeins hafa mig sem Guð þinn. Hvað er átt við með því, og hvernig á að skilja það? Hvað er það að hafa Guð eða hvað er Guð?
Svar: Guð nefnist sá, sem alls góðs er vænst af, og sem leitað er til í allri neyð. Að hafa Guð er þannig ekki annað en að treysta á hann af öllu hjarta og trúa á hann og eins og ég hef oft sagt, er það einungis hjartans traust og trú, sem gerir greinarmun á því, hvort um er að ræða Guð eða skurðgoð. Séu trúin og traustið rétt, er Guð þinn líka réttur, en séu trúin og traustið aftur á móti fölsk og ósönn, þá er Guð þinn heldur ekki réttur. Þetta hvort tveggja helst því í hendur; Guð og trúin. Og ég segi, að það sem hjarta þitt heldur í og treystir á, er í raun og veru Guð þinn.
Þess vegna er nú merking þessa boðorðs sú, að það er krafa hinnar réttu trúar og hins rétta trausts hjartans sem færir oss nær hinum eina sanna Guði og heldur oss fast við hann. Með því er átt við þetta: „Sjáðu til þess, að þú látir mig einan vera Guð þinn, og leitaðu einskis annars. Það merkir: Vænstu hins góða frá mér, sem þú þarfnast, og leitaðu þess hjá mér, og þegar þér líður illa og þú lendir í ógæfu og neyð, gríptu þá í mig og haltu þér fast í mig. ÉG, ég vil veita þér af gnægtum og hjálpa þér úr allri neyð. Láttu aðeins hjarta þitt ekki grípa í nokkurn annan og hvíla í nokkrum öðrum.“
Þetta verð ég að fara yfir í dálítið grófum dráttum, þannig að það verði skilið og skynjað, með nokkrum dæmum um hið gagnstæða. Það er margur, sem heldur, að hann hafi Guð og allt til alls, þegar hann á fjármuni og eignir, setur traust sitt á þetta og stærir sig af því hnakkakerrtur og hnarreistur, eins og ekkert annað sé til. Sjáðu til, slíkur maður hefur Guð, sem heitir Mammon, það eru fjármunir og eignir, sem öll hans þrá beinist að, en þetta er langalgengasta skurðgoðið í heiminum. Sérhver sá, sem á fjármuni og eignir, telur sig öruggan, hann er ánægður og hvergi smeykur, rétt eins og hann sitji í miðri Paradís. En hins vegar er sá, sem ekkert á, efagjarn og hugdeigur, eins og hann þekki engan Guð. Þeir menn eru því vandfundnir, sem líður vel og hvorki kvarta né kveina, þegar þeir hafa ekki Mammon. Eðli vort er samofið þessu og loðir saman við þetta, þar til vér förum í gröfina.
Eins er það með þann, sem trúir og treystir á gáfnafar sitt, snilld, völd, hylli, vinfengi og sæmd. Hann hefur líka Guð, en ekki þennan eina sanna Guð. Þú sérð það æ ofan í æ, hversu ósvífinn, sjálfsöruggur og stoltur maður er af slíkum yfirburðum, og hversu hugdeigur hann er, þegar hann hefur þá ekki, eða þegar þeir eru teknir frá honum. Þess vegna segi ég þetta enn og aftur, að rétt útlegging þessa atriðis er sú, að það að hafa Guð felst í því að hafa eitthvað, sem hjarta vort setur fullkomið traust á.
Líttu bara á, hvað vér höfum hingað til fengist við og gert í blindni á páfatímanum: Þegar einhver hafði tannpínu, fastaði hann og hélt heilagri Appolloníu[1] hátíð. Óttaðist hann eldsvoða, beiddist hann ásjár Lárentíusar[2] í neyðinni. Óttaðist hann farsóttir, leitaði hann á náðir heilags Sebastíans[3] eða Rokkusar,[4] og hægt var að halda áfram út í hið óendanlega með þær viðurstyggðir, því að hver sem er valdi sér sinn dýrling, sem hann tilbað og ákallaði til hjálpar í neyð. Hið sama á einnig við um þá, sem eru svo djúpt sokknir, að þeir gera sáttmála við djöfulinn, og hann á að veita þeim fúlgur fjár, útvega þeim frillur, gæta búfjár þeirra, skila þeim aftur týndum eignum og svo framvegis, eins og galdramanna og kuklara er háttur.[5] Allir, sem setja allt sitt hjartans traust á annað en hinn sanna Guð, vænta einskis góðs frá honum og leita þess heldur ekki hjá honum.
Nú skilur þú auðveldlega, hvað felst í þessu og hversu mikils þetta boðorð krefst af oss, einmitt þess, að maðurinn beini sjónum sínum og trausti til Guðs eins og einskis annars. Þú gerir þér því fulla grein fyrir því, að það að hafa Guð má ekki skilja þannig, að vér getum tekið hann, haldið honum á milli fingra vorra, stungið honum í budduna eða lokað hann inni í peningaskáp. Það er á hinn bóginn í því fólgið, að hjartað hefur tekið við honum og heldur sér fast í hann. Það, að hjartað heldur sér fast við hann, er ekki fólgið í neinu öðru en því að fela sig honum algjörlega á vald. Þess vegna vill hann beina oss frá öllu öðru, sem er fyrir utan hann, og draga oss til sín, því að hann einn er hið eilífa góða. Það er eins og hann myndi segja: „Þess alls, sem þú hefur áður leitað hjá dýrlingum, eða þess, sem þú hefur vænst frá Mammon eða einhverjum öðrum, skalt þú vænta frá mér og hugsa aðeins um mig sem þann, sem vill hjálpa þér, og vænstu þess að ég metti þig með öllum gæðum í ríkum mæli.“
Sjáðu til, þarna hefur þú það, sem felst í réttri sæmd og guðsþjónustu, sem þóknast Guði, og sem hann brýnir fyrir oss með því að vitna til sinnar eilífu reiði. Það er einmitt þetta, að hjartað veit ekki um huggun eða traust annars staðar en hjá honum, slítur sig ekki laust frá honum og þorir að leggja allt annað til hliðar á jörðinni. Hins vegar getur þú líka auðveldlega séð og dæmt um það, hvernig heimurinn gefur sig að rangri guðsþjónustu og skurðgoðadýrkun einvörðungu. Enn hefur ekki komið fram svo siðspilltur þjóðflokkur, að hann hafi ekki komið á og haldið guðsþjónustu. Sérhver maður hefur upphafið sérstakan Guð, sem hann væntir gæða, hjálpar og huggunar frá.
Tökum heiðingjana, sem sóttust eftir völdum og yfirráðum, er tignuðu Júpíter[6] sem hinn æðsta Guð. Aðrir, sem sóttust eftir ríkidæmi, hamingju eða lífsins lystisemdum og góðum stundum, tignuðu Herkúles, Merkúr,[7] Venus[8] eða aðra, vanfæru konurnar völdu sér Díönu[9] eða Lúsíu[10] og svo framvegis. Á þann hátt gerðu þau sér hvert í sínu lagi þau að guðum sínum, sem hjartans þrá þeirra beindist að. Þannig eru allir heiðingjarnir líka sannfærðir um þetta, að það að hafa Guð felist í því að treysta og trúa, en gallinn við þetta er sá, að traust þeirra er falskt og rangt, vegna þess að því er ekki beint til hins eina sanna Guðs, sem vissulega á engan sinn líka, hvorki á himni né á jörðu. Heiðingjarnir hafa gert sér upp ímyndaðar hugmyndir og drauma um Guð sem skurðgoð og setja með því traust sitt á það, sem er ekki til. Þannig er því farið með alla skurðgoðadýrkun, því að hún felst ekki einvörðungu í því að stilla mynd upp og tilbiðja hana, heldur á hún sér fyrst og fremst stað í hjartanu, þar sem þeir halda sér fast við eitthvað annað og leita hjálpar og huggunar hjá skepnum, dýrlingum eða djöflum. Þeir láta sig Guð engu skipta og vænta engrar hjálpar hjá honum, þar sem þeir trúa því ekki, að allt gott, sem fyrir ber, sé að finna hjá honum.
Svo er það enn ein röng guðsþjónusta, sem er hin mesta skurðgoðadýrkun, sem vér höfum hingað til komist í tæri við og hún ræður enn ríkjum í heiminum. Á henni eru allar andlegar stéttir byggðar. Hér er átt við samviskuna eina, sem leitar sér hjálpar, huggunar og sælu í eigin verkum og vogar sér þannig að ryðja sér braut í himni Guðs og mælir mikilfengleik sinn í líknarstofnunum,[11] föstum,[12] messum[13] og svo framvegis. Hún reiðir sig á allt þetta og býður Guði birginn, rétt eins og hún þiggi ekkert frá honum, heldur afli sér sjálf alls og verðskuldi allt vegna sinna yfirdrifnu verka,[14] þannig að það lítur út fyrir að Guð sé þjónn vor og landseti, en vér lénsherrar hans. Hvað er það annað en að gera Guð að skurðgoði, já, gera sig að Guði og upphefja sjálfan sig? En þetta er einum of gáfulegt og á ekki við um unga nemendur.
Hins vegar ætti að segja almúganum þetta, svo að hann skilji þetta boðorð vel og hafi það hugfast, að hann á að setja traust sitt á Guð einan og vænta einskærra gæða frá honum og búast við því, að hann gefi oss líkama, líf, mat, drykk, næringu, heilbrigði, skjól, frið og allt sem vér þörfnumst, bæði tímanleg og andleg gæði. Ennfremur varðveitir hann oss gegn ógæfu og, ef eitthvað kemur fyrir oss, bjargar hann oss og hjálpar. Af því leiðir, (eins og áður segir), að Guð er sá eini, sem veitir oss öll gæði og öll ógæfa verður á bak og burt. Þannig tel ég líka, að vér Þjóðverjar höfum frá fornu fari nefnt Guð því nafni, og þetta er fegurra nafn en heyrist í nokkru öðru tungumáli, en Guð merkir góður, af því að hann er eilíf lind, sem er barmafull af sífelldri gæsku og þaðan sem allt hið góða, sem er og verður, á upptök sín.[15]
Þrátt fyrir að margt gott hafi annars borið við hjá oss vegna manna, þá er það nú svo, að vér þiggjum það frá Guði, þar sem við því er tekið fyrir skikkan hans og boð. Foreldrar vorir og öll yfirvöld, þar með hver og einn gagnvart náunga sínum, hafa því þeim skyldum að gegna að vilja oss öllum vel. Þannig er það nú. Vér þiggjum þetta ekki frá þeim, heldur frá Guði í gegnum þau. Því að sköpunin er einungis höndin, verkfærið og milliliðurinn, sem Guð notar til að gefa oss. Þannig gefur hann móðurinni brjóst og mjólk til þess að gefa barninu, korn og allan vöxt jarðar til ræktunar, en það eru gæði, sem engin skepna getur í eigin mætti aflað sér. Þess vegna skal ekki nokkur maður dirfast að gefa eða þiggja neitt sem Guð hefur ekki skipað fyrir, svo að vér könnumst við það sem gjöf hans og þökkum honum fyrir það, eins og þetta boðorð leggur áherslu á. Af þeim sökum megum vér heldur ekki kasta hinum góðu gjöfum á glæ, sem vér þiggjum með sköpuninni og enn síður leita í ósvífni annarra leiða og með öðrum hætti en þeim sem Guð hefur boðið. Það kallast því ekki að þiggja frá Guði, heldur að leita þess hjá sjálfum sér.
Hver og einn ætti að sjá til þess sjálfur, að hann virði þetta boðorð fyrir alla muni, meti það mikils og slái því ekki upp í grín. Spyrðu og rannsakaðu hjarta þitt vel, þá munt þú finna, hvort það heldur sig við Guð einan eða ekki. Hafir þú slíkt hjarta, sem getur vænst sér alls góðs frá Guði, ekki síst þegar neyð og skortur sækja á, og er auk þess reiðubúið að hafna öllu, sem ekki er Guð, þá hefur þú hinn eina, sanna Guð. Haldi það sig hins vegar við eitthvað annað, þaðan sem það telur sig geta öðlast meiri gæði og hjálp, sem það þarfnast en hjá Guði, og leitar ekki til hans, heldur flýr frá honum, þegar í harðbakkann slær, þá átt þú þér skurðgoð.
Til þess að vér sjáum það, að Guð vill ekki, að vér látum þetta sem vind um eyru þjóta, heldur höldum oss alvarlega við það, hefur hann með þessu boðorði sett fram skelfilega hótun, síðan fagurt og huggunarríkt fyrirheit, sem vér skulum halda samviskusamlega að æskulýðnum og innræta honum, svo hann hafi það í huga og minnist þess.
„Því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.“[16]
Þó að þessi orð miðist við öll boðorðin, (eins og vér munum senn heyra), þá eru þau sett skörinni lægra en þetta aðalboðorð, því að það hefur mest að segja, að maðurinn hafi rétt hugarfar, því að þar sem hugarfarið er rétt, hlýtur allt lífið að vera á réttri leið og öfugt. Lærðu þannig af þessum orðum, hvernig Guð reiðist þeim, sem reiða sig á eitthvað allt annað en hann, og á hinn bóginn hversu gæskuríkur og náðugur hann er við þá, sem treysta honum einum af öllu hjarta og trúa á hann. Þannig fellur reiðin ekki úr gildi fyrr en við fjórðu kynslóð eða ættlið, en hins vegar ríkir velvildin og gæskan í mörg þúsund ættliði. Af þeim sökum skulum vér ekki vera svo sjálfsörugg og koma oss í klípu, eins og hálfvolgu hjörtun hugsa, að þetta skipti ekki svo miklu máli. Hann er slíkur Guð, sem ekki lætur það óátalið, að vér beinum sjónum vorum frá honum og hættir ekki að reiðast fyrr en við fjórða ættlið, þ.e.a.s. þar til allt er að engu gert. Þess vegna vill hann að vér óttumst hann og fyrirlítum hann ekki.
Hann hefur líka sýnt fram á þetta í allri sögu og samtíð, eins og Ritningin bendir oss ríkulega á, og dagleg reynsla getur kennt oss. Því að hann hefur allt frá fyrstu tíð upprætt alla skurðgoðadýrkun og hennar vegna bæði heiðingja og Gyðinga, á sama hátt og hann upprætir einnig nú á dögum alla ranga guðsdýrkun, svo að allir, sem halda sig við hana, verða loks að engu gerðir. Af þeim sökum, þrátt fyrir að enn í dag megi finna stolta, volduga og auðuga spjátrunga, sem setja traust sitt á Mammon, hvort sem Guð reiðist eða hlær, þar sem þeir telja sig fá staðist reiði hans, þá eru þeir samt ekki þess megnugir, heldur fara þeir veg allrar veraldar áður en þeir hafa áttað sig ásamt öllu því, sem þeir hafa sett traust sitt á, eins og ekkert verður úr þeim, sem hafa álitið sig enn öruggari og voldugri.
Og hvað slíka harðjaxla varðar, sem halda, að vegna þess að Guð sjái til þeirra og láti þá óáreitta, þá viti hann ekkert um þá eða láti sig þá litlu varða. Einmitt af þeim sökum hlýtur hann að slá til þeirra og refsa þeim á þann hátt, að hann geti í fyrsta lagi ekki gleymt því allt til barnabarna þeirra, því að hver og einn skal finna fyrir því og sjá, að honum er ekki skemmt. Þegar hann því segir; „þeir sem mig hata“, á hann við slíka menn, sem framganga í þrjósku og hroka; það sem er prédikað fyrir þeim og sagt er við þá vilja þeir ekki heyra. Sé þeim refsað á þann hátt, að þeir komist til sjálfra sín og bæti ráð sitt, áður en að refsingunni kemur, þá verða þeir trylltir og frávita, svo að þeir verðskulda réttmæta reiði hans, eins og vér þekkjum af daglegri reynslu af biskupum og furstum.
Hversu skelfileg sem þessi ógnarorð kunna að vera, er sú máttuga huggun sem felst í því fyrirheiti, að þeir sem halda sig við Guð einan megi vera þess fullvissir, að hann auðsýni þeim þeim mun meiri miskunn, einskæra gæsku og velvild, ekki aðeins þeim, heldur börnum þeirra, þúsundum og aftur þúsundum kynslóða saman. Þetta ætti sannarlega að ýta við oss og knýja oss til þess að setja fullt traust hjarta vors á Guð, svo að vér biðjum alls góðs frá Guði, bæði tímanlega og andlega, af því að hans mikla hátign auðsýnir oss svo mikla velvild, laðar oss einlægt til sín og gefur oss svo ríkulegt fyrirheit.
Þess vegna á hver og einn að hugleiða þetta alvarlega, svo að vér lítum ekki svo á, að þetta sé mannasetning. Þetta veitir þér því annaðhvort eilífa blessun, gæfu og sælu, eða eilífa reiði, ógæfu og hjartans angist. Hvað vilt þú meira eða hvað girnist þú frekar en að hann gefi þér svo vinsamlegt fyrirheiti, að hann vill vera þinn í allri gæsku, vernda þig og hjálpa þér í allri neyð? En það er því miður þetta, sem úrskeiðis fer, að heimurinn trúir ekki neinu af þessu og metur það ekki sem Guðs orð, því að hann sér, að þeir sem treysta Guði og ekki Mammon, hafa áhyggjur og líða skort, því að djöfullinn glennir sig andspænis þeim og varnar þeim því að þeir öðlist fjármuni, hylli og sæmd, já, þeir halda jafnvel varla lífi. Þeir, sem aftur á móti þjóna Mammon, hafa völd, hylli, heiður, eignir og njóta auk þess lífsins lystisemda. Af þeim sökum verður að hugfesta sér slík orð, sem einmitt er beint gegn slíkri skoðun, og vita, að þau eru hvorki ósannindi né lygi, heldur hljóta að vera sönn.
Hugsaðu sjálfur út í þetta eða veltu þessu fyrir þér, og segðu mér síðan: Allir þeir, sem með áhyggjum og eljusemi hafa samviskusamlega safnað sér fúlgu fjár og auðæfa, hvað hafa þeir að lyktum borið úr býtum? Þannig munt þú komast að því, að þeir hafa erfiðað til einskis og misst vinnuna, eða ef þeir hafa safnað sér miklum auði, þá hafa þeir haldið eitthvað út í bláinn, því að þeir sjálfir hafa aldrei haft ánægju af eignum sínum, og þær hafa ekki einu sinni náð því að erfast í þriðja ættlið. Þú finnur nægileg dæmi um þetta í öllum sögum og einnig hjá öldruðu og lífsreyndu fólki, líttu aðeins í kringum þig og veittu þessu eftirtekt. Sál var mikill konungur, útvalinn af Guði og frómur maður, en þegar hann var sestur að konungsvöldum, gerðist hann fráhverfur Guði í hjarta sínu og treysti því á kórónu sína og völd, þess vegna hlaut hann að fara veg allrar veraldar ásamt öllu því er hann átti, svo að ekkert barna hans varð eftir. Hins vegar var Davíð fátækur og fyrirlitinn maður, brottrækur og hrakinn, svo hann var aldrei öruggur um líf sitt, en samt hlaut hann að skara fram úr Sál og verða konungur. Þetta orð hlaut því að standa og verða sannleikur, því að Guð getur hvorki logið né farið með ósannindi. Láttu aðeins djöfulinn og heiminn um sína skoðun, sem mun vara skamma hríð, en verður loks að engu gjörð.
Vér skulum af þeim sökum læra fyrsta boðorðið vel, til þess að vér sjáum, að Guð líður enga ósvífni eða traust á önnur fyrirbæri en hann sjálfan, og hann krefst einskis annars af oss en hjartans fullvissu um það, að allt gott kemur frá honum. Vér skulum því endilega nota allt hið góða, sem Guð gefur oss, til góðra verka, rétt eins og skósmiðurinn notar nálina sína, alinn og þráðinn við vinnu sína og leggur hana svo til hliðar. Eða eins og gestur notar herbergið, matinn og drykkjarföngin til tímanlegra nauðþurfta einvörðungu eftir stöðu sinni fyrir skikkan Guðs og gerir ekkert annað að meistara sínum eða skurðgoði. Látum þetta nú nægja um fyrsta boðorðið, sem vér höfum þurft að útskýra svo nákvæmlega, vegna þess að megináherslan liggur í því, af því að (eins og áður segir) þar sem hjartað heldur sig við Guð og þetta boðorð er haldið, sigla öll hin í kjölfarið.
Annað boðorð: Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
Rétt eins og fyrsta boðorðið hefur uppfrætt hjartað og kennt oss trúna, þannig leiðir þetta boðorð oss út fyrir sjálf oss og beinir munni og tungu að Guði. Það fyrsta, sem brýst út úr hjartanu og lítur dagsins ljós, eru orðin. Eins og ég hef hér að framan kennt, hvernig því er svarað, hvað það þýði „að hafa Guð“, þannig skalt þú líka hafa skilning á þessu boðorði og öllum hinum og hugfesta þér það á einfaldan hátt. Þegar spurt verður: „Hvernig skilur þú annað boðorð, eða hvað merkir það að leggja nafn Guðs við hégóma eða misnota nafn Guðs,“ þá skaltu þú svara því í stuttu máli á þessa leið: „Það er kallað að leggja nafn Guðs við hégóma, þegar Guð er nefndur Drottinn, í algjöru hugsunarleysi, jafnvel í þágu lyginnar og alls kyns ódyggðar.“ Því er lögð svo rík áhersla í þessu boðorði, að ekki sé vitnað í nafn Guðs á rangan hátt eða það tekið sér í munn, þar sem hjartað veit eða ætti að vita, að afstaða þess er önnur, líkt og hjá þeim manni, sem sver fyrir rétti og lýgur að hluta til upp á andmælanda sinn. Nafn Guðs er ekki hægt að misnota á grófari hátt en með lygum og svikum. Látið þetta verða beinustu og auðskiljanlegustu merkingu þessa boðorðs.
Af þessu getur hver sem er auðveldlega sjálfur reiknað út, hvenær og á hversu marga vegu nafn Guðs er misnotað, því að ekki er mögulegt að henda reiður á alla misnotkunina. Þó má benda á, að í stuttu máli birtist misnotkunin fyrst og fremst í veraldlegum viðskiptum og málum, sem varða fjárhag, eignir og sæmd, hvort sem það er fyrir réttinum, á torginu eða annars staðar, þar sem vér sverjum og gerum falskan sáttmála við Guðs nafn eða vora eigin sál. Þetta er sérstaklega algengt í málefnum hjónabandsins, þar sem þau tvö stíga fram, trúlofast hvort öðru í laumi og sverja síðan fyrir það. Langmest fer hún þó fram í andlegum málum, sem varða samviskuna, þegar falsprédikarar standa upp og birta lygaþvaður sitt sem Guðs orð.[17] Sjáðu til, þetta kallast að skreyta sig eða fegra með Guðs orði og réttlæta sjálfan sig, hvort sem þetta á sér stað þegr menn ræða veraldleg málefni eða fjalla um háleit málefni trúar og kenningar. Og á meðal lygaranna finnast einnig háðfuglarnir, ekki einungis hinir grófu, sem eru þekktir fyrir að spotta Guðs nafn án þess að skammast sín (sem tilheyra ekki skóla vorum, heldur skóla böðulsins), heldur einnig þeir, sem opinberlega gera gys að sannleikanum og orði Guðs sem þeir telja að sé komið frá djöflinum.[18] Um slíkt þarf ekki að fjölyrða.
Nú skulum vér læra þetta og gera oss grein fyrir því, hversu rík áhersla er lögð á þetta boðorð, svo að vér verjumst og berjumst af kappi gegn misnotkun á hinu heilaga nafni sem hinni mestu synd, sem hinn ytri maður getur drýgt. Lygi og ósannindi eru því í sjálfu sér mikil synd, en verður margfaldlega meiri, ef vér viljum réttlæta hana og blanda nafni Guðs í málið oss til fulltingis og nota það sem blóraböggul, þannig að úr einni lygi verði tvær, já, margar lygar.
Þess vegna hefur Guð skeytt þessum ógnarorðum við boðorðið, sem hljóðar þannig: „Því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.“[19] Það er: Slíkt verður mönnum ekki fyrirgefið, og menn komast ekki undan refsingu. Því að eins og hann getur ekki látið það óátalið, að hjartanu sé snúið frá honum, eins mun hann ekki líða hitt, að nafn hans sé notað til þess að fegra lygarnar með. Nú er það því miður algeng plága í öllum heiminum, að eins og svo margir nota Guðs nafn í þágu lygi og allrar illsku, þá eru þeir fáir, sem af hjarta setja traust sitt aðeins á Guð.
Þar sem oss er þessi fagra dyggð svo eðlislæg, vill sérhver sá, sem fremur slík óhæfuverk, breiða yfir þau og fegra þau, svo að enginn fái að sjá þau og vita af þeim, og enginn er svo ósvífinn, að hann hrósi sér af illsku í leynum frammi fyrir hverjum sem er, áður en nokkur verður var við hann. Verði slíkur maður staðinn að verki, þá hlýtur Guð að taka á sig skellinn fyrir sakir nafns síns og gera illvirkið að verki sínu og skömmina að sæmd. Þetta er hinn venjulegi gangur veraldarinnar, eins og miklu syndaflóði skolar upp á öll lönd. Þess vegna fáum vér einnig þau laun sem vér sækjumst eftir og verðskuldum: Drepsóttir, styrjaldir, dýrtíð, eldsvoða, vatnsflóð, óþolandi konur, börn, þjónustufólk og hvers kyns óáran. Hvaðan ætti annars svo mikil eymd að koma? Það er mikil náð, að jörðin skuli enn bera oss og næra oss.
Af þeim sökum á fyrir alla muni að minna æskulýðinn alvarlega á þetta og venja hann á það, að hann hafi þetta boðorð og önnur að leiðarljósi. Ef hann heldur þau ekki, skal undir eins halda þeim að honum með svipunni og þylja boðorðið upp æ ofan í æ, svo að hann alist upp, ekki aðeins við refsingu, heldur einnig í guðsótta og góðum siðum.
Nú getur þú skilið, hvað felst í því að leggja nafn Guðs við hégóma, einmitt þetta, (ef vér drögum það saman í stuttu máli,) að nota það ýmist í þágu lyginnar og halda einhverju fram í nafni hans, sem ekki er rétt, eða að bölva, formæla og galdra, það er, á hvern þann hátt sem nokkur getur framið illvirki. Þar að auki átt þú líka að vita þetta, hvernig nafnið er rétt notað. Með þessum orðum sínum, er hann því mælir; „þú skalt ekki leggja nafn Guðs þíns við hégóma,“ opnar hann einnig augu vor fyrir því, að vér eigum að framganga að vilja hans, því að einmitt þess vegna hefur það opinberast oss og verið oss gefið, til þess að vér mættum hafa gagn af því og not fyrir það. Því segir það sig nú sjálft, að þar sem oss er bannað að nota þetta heilaga nafn í þágu lygi og ódyggðar, þá er það þvert á móti brýnt fyrir oss, að vér notum það í þágu sannleikans og alls hins góða. Sem dæmi um það má taka þegar vér sverjum réttan eið, þar sem slíkt er nauðsynlegt og ætlast er til þess, einnig þegar vér kennum rétt, sömuleiðis þegar vér áköllum nafnið í neyð, lofum og þökkum, þegar vel gengur og svo framvegis, þar sem allt er þetta tekið saman og boðið í 50. Davíðssálmi:
„Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig.“[20] Því að allt þetta er fólgið í því að nota nafnið í þágu sannleika og sælu og að helga nafn hans nafn, eins og vér biðjum í Faðir vori.
Hér hefur þú fengið útskýringu á megininnihaldi alls boðorðsins. Og þegar það er skilið á þennan hátt, er þeirri spurningu auðsvarað, sem hefur legið þungt á svo mörgum kennurum, og hún er sú, hvers vegna svardaga er hafnað í guðspjöllunum, úr því að Kristur og Páll og aðrir heilagir menn hafi svarið eið.[21] Merkingin er þessi í stuttu máli: Vér skulum ekki sverja við hinn vonda, það er við lygina, þar sem það er hvorki nauðsynlegt né heilladrjúgt, heldur skulum vér sverja við hið góða, sé það náunganum til heilla. Það er því vissulega rétt og gott verk, sem lofar Guð, staðfestir sannleikann og réttinn, brýtur lygina á bak aftur, sættir fólk, fær fólk til að hlýða, stöðvar þrætur. Þá gengur Guð fram fyrir skjöldu, setur mörk á milli hins rétta og hins ranga og skilur á milli góðs og ills. Sverji einhver rangan eið að hluta til, þá hefur það þetta í för með sér að hann sleppur ekki undan refsingu, og ef dokað er við of drjúga stund, mun ekkert heppnast hjá honum, svo að allt, sem hann hefur til unnið, gengur honum úr greipum og hann nýtur þess aldrei til fullnustu. Það er eins og ég hef oft og einatt heyrt um marga, sem svarið hafa af sér hjónabandsheiti sitt, og hafa síðan hvorki átt góða stund né litið glaðan dag og hafa loks brotnað gjörsamlega niður, bæði til sálar og líkama, og eignir þeirra hafa farið til spillis.
Þess vegna segi ég og minni á sem fyrr, að þú skalt venja börnin nógu snemma við það að varast lygar með boðum og bönnum, áréttingum og refsingum og þau skuli varast að nota nafn Guðs í þeim tilgangi. Þar sem slíkt viðgengst, leiðir það ekki til góðs, þar sem augljóst er að heimur versnandi fer, miðað við það sem áður var; það er engin föst stjórnskipan, engin hlýðni, tryggð eða trú, heldur má alls staðar sjá illa liðið og ótamið fólk, sem hvorki áminningar né refsingar bíta á, og þetta er allt saman refsing Guðs og reiði fyrir að fyrirlíta þetta boðorð á svo bíræfinn hátt. Hins vegar eigum vér að aðstoða og hvetja börnin til að heiðra nafn Guðs og hafa það ætíð á vörum við allar aðstæður, sem kunna að mæta þeim og hvernig sem þær koma þeim fyrir sjónir. Nafn Guðs er því heiðrað á réttan hátt með því að vænta allrar huggunar frá honum og biðja hann þess, þannig að hjartað (eins og áður er getið) heiðri Guð fyrst með trúnni og síðan munnurinn með játningunni.
Þetta er líka góður og gagnlegur vani og afar kröftugt vopn gegn djöflinum sem ætíð situr um oss og hlerar eftir því, hvernig hann getur leitt oss út í synd og skömm, eymd og volæði, en vill ógjarnan heyra minnst á Guð og dvelur ekki lengi hjá þeim sem af hjarta nefna nafn Guðs og hrópa það upp, og skelfileg og hræðileg ógæfa af ýmsum toga myndi dynja yfir oss, ef Guð gætti vor ekki, þegar vér hrópuðum nafn hans. Ég hef sjálfur reynt slíkt og gengið í gegnum það, og oft hefur þetta orðið til þess, að skyndileg áföll hafa oftar en ekki við slík áköll snúist til góðs og orðið að engu. Ég tel að til þess að valda djöflinum ama ættum vér ávallt að hafa hið heilaga nafn á vörum, þannig að hann geti ekki skaðað oss, eins og hann vildi svo gjarnan.
Það gerir líka sama gagn, að venja sig daglega á að gefa sjálfan sig Guði á vald til sálar og líkama og fela honum maka, börn, þjónustufólk og allt, sem vér eigum, gegn sérhverri neyð, sem á vegi vorum kann að vera. Hér gagnast einnig borðbænir, kvöld- og morgunbænir og líka sá barnsvani að signa sig, þegar vér heyrum eða sjáum eitthvað skelfilegt og hræðilegt og segja: „Drottinn Guð, varðveittu oss!“ „Hjálpaðu oss, kæri Drottinn Kristur!“ eða eitthvað í þá veru. En einnig á hinn bóginn, þegar eitthvað gott kemur óvænt til vor, hversu smátt sem það kann þó að vera, má segja: „Lof og þökk sé Guði!“ „Þetta hefur Guð gefið mér!“ og svo framvegis. Áður vorum vér vön að kenna börnunum að fasta heilögum Nikulási[22] til heiðurs og öðrum dýrlingum. Vér skulum frekar venja oss við bænina, því hún er Guði þóknanlegri og kærari en allur klausturlifnaður og munkaheilagleiki.[23]
Sjáðu til, þannig ættum vér að ala æskulýð vorn upp á sem börn, með leikjum í guðsótta og góðum siðum, svo að fyrstu tvö boðorðin verði þeim handgengin og þau fylgi þeim vel og vandlega. Þaðan gæti eitthvað gott skotið rótum, vaxið og borið ávöxt, svo að úr yrði fólk, sem heilt land gæti notið góðs af og glaðst yfir. Þetta væri líka rétta aðferðin við að ala börn vel upp í gleði og gáska. Ekkert gott fæst út úr því að kúga börn með svipu og barsmíðum, og sé þeirri aðferð beitt, verða börnin ekki lengur þæg, enda þótt svipan vofi yfir þeim. En hér festir þetta rætur í hjartanu, svo að þau óttast Guð meira en svipuna eða bareflið. Þetta staðhæfi ég blátt áfram barnanna vegna, svo að þetta festist þeim í minni í eitt skipti fyrir öll. Ef vér viljum því prédika frammi fyrir börnunum, þá verðum vér líka að tala við þau á barnslegum nótum. Nú höfum vér einmitt reynt að benda á það, hvernig koma má í veg fyrir misnotkun á nafni Guðs og kenna þess í stað hina réttu notkun, (sem ekki á aðeins að birtast í orðum heldur einnig í verkum og lífi), svo að vér vitum, að slíkt er Guði af hjarta þóknanlegt, og hann vill launa oss eins ríkulega fyrir það og hann vill refsa skelfilega fyrir misnotkunina.
Þriðja boðorð: Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
Hvíldardaginn höfum vér nefnt eftir hebreska orðinu „sabbath“, sem eiginlega þýðir að hvíla sig; það er, að taka hlé frá vinnu. Þess vegna erum vér vön að tala um að „taka kvöldið frá“ eða þá að „halda heilagt kvöld“. Nú hefur Guð Gamla testamentisins auðkennt sjöunda daginn og tekið hann frá og boðið, að halda skuli þennan dag heilagan umfram alla aðra daga.[24] Og þessi ytri hvíld er einungis ætluð Gyðingum, til þess að þeir skuli leggja vinnu sína til hliðar og hvíla sig, svo að bæði fólk og fénaður geti á ný notið næðis að afloknu dagsverki og veikist ekki af völdum stöðugrar erfiðisvinnu. Þrátt fyrir að þeir hafi síðar beitt allt of þröngum skilningi í æ ríkari mæli og misnotað það gróflega, svo að þeir hæddu einnig Krist og liðu ekki slík verk, sem þeir þó sjálfir framkvæmdu, eins og vér lesum um í guðspjöllunum.[25] Alveg eins og það ætti að uppfylla boðorðið með því að framkvæma engin ytri verk, sem þó var alls ekki meiningin, heldur hitt, að menn áttu að halda hvíldardaginn heilagan, eins og vér munum heyra.
Af þeim sökum kemur þetta boðorð þannig í grófum dráttum hinum kristnu ekki við. Það er að öllu leyti ytra fyrirbæri eins og aðrar setningar í Gamla testamentinu, er snúast um sérstakar siðvenjur, persónur, stund og stað, sem vér höfum nú öll losnað við vegna Krists.[26] En til þess að hinn einfaldi geti nú komist að hinum kristna skilningi á því, hvers Guð ætlast til af oss í þessu boðorði, þá skal á það bent, að vér höldum ekki hvíldardaginn heilagan vegna hinna hyggnu og lærðu kristnu manna, því að þeir þurfa ekki á slíku að halda, heldur fyrst og fremst vegna líkamlegrar nauðsynjar, líkt og náttúran kennir oss og krefst þess af almúganum, þjónum og þernum, sem alla vikuna sinna skyldum sínum og verkum, svo að þau geti einn dag lagt verk sitt frá sér til þess að hvíla sig og styrkjast. Þar að auki og umfram allt er þetta gert, til þess að vér getum átt þess kost á slíkum hvíldardegi að taka frá stund og stað til þátttöku í guðsþjónustu — (af því að ekki er hægt að komast aðra daga), og einnig að koma saman heima til þess að heyra og ástunda Guðs orð og þar á eftir lofa Guð, syngja og biðja.
En ég álít, að slíkt sé þannig ekki háð sérstökum tíma eins og hjá Gyðingum, svo að það fari fram þessa eða hina stundina, (því að í sjálfu sér er enginn einn dagur öðrum betri), heldur ætti þetta að eiga sér stað á hverjum degi. En úr því að almúginn getur ekki setið á sér, verðum vér að taka að minnsta kosti einn dag vikunnar frá. Þar sem sunnudagurinn hefur frá fornu fari verið ákveðinn í þetta hlutverk, þá skulum vér láta svo vera, til þess að viðhalda fastri reglu og að enginn geti komið á óreglu með þarflausum breytingum. Þannig er hin einfalda merking þessa boðorðs sú, að úr því að vér höldum hvíldardag, ættum vér að notfæra oss þessa hvíld til þess að læra Guðs orð, svo að hið sanna embætti þessa dags sé prédikunarembættið vegna æskulýðsins og hins fátæka almúga. En ekki má leggja svo ríka áherslu á hvíldina, að lagt verði blátt bann við aðkallandi verkum, sem þarf að sinna.[27]
Þegar spurt er, hvað átt sé við með því „að halda skuli hvíldardaginn heilagan“, þá skalt þú svara því þannig: Það að halda hvíldardaginn heilagan er það sama og að helga hann. Hvað er þá að helga? Ekkert annað en að ástunda heilagt orð, heilög verk og heilagt líferni. Dagurinn þarfnast því í sjálfum sér engrar helgunar, hann er skapaður heilagur, en Guð vill hins vegar, að hann verði þér heilagur. Þannig er það undir þér komið, hvort hann er heilagur eða vanheilagur, allt eftir því hvort þú vinnur heilög eða vanheilög verk þennan dag. Hvernig fer nú slík helgun fram? Ekki á þann hátt að setið sé með hendur í skauti við eldstóna og venjubundnum störfum ekki sinnt, eða krans settur á höfuðið eða búist í sitt besta skart, heldur, eins og áður segir; að fjallað sé um Guðs orð og það ástundað.
Vér kristnir menn skulum því sannarlega ætíð halda slíkan hvíldardag og ástunda einvörðungu það sem heilagt er, það er að segja, fást daglega við Guðs orð, þannig að það verði oss hjartfólgið og tungutamt. En vegna þess að vér, eins og áður segir, höfum hvorki alltaf tíma né ráðrúm til þess, verðum vér að tileinka æskulýðnum nokkrar klukkustundir í vikunni eða söfnuðinum í heild að minnsta kosti einn dag vikunnar, þar sem slíkt er ástundað í næði og boðorðin tíu, trúarjátningin og Faðir vor iðkuð, því að allt vort líf og veruleiki á að helgast af Guðs orði. Þegar ástundunin kemst upp í vana, þá er hvíldardagurinn vissulega haldinn heilagur; sé ekki svo, þá ætti hann ekki að kallast kristinn helgidagur. Því að þeir, sem ekki eru kristnir, geta einnig hæglega hvílst og slæpst, líkt og þessi aragrúi andlegra manna sem stendur daglega í kirkjunni, syngur og hringir, en helgar samt ekki hvíldardaginn. Þeir prédika því hvorki Guðs orð né iðka það, heldur þvert á móti lifa þeir og kenna andstætt því.
Guðs orð er þannig helgidómur allra helgidóma, já, sá eini, sem vér kristnir menn þekkjum og eigum. Jafnvel þótt vér hefðum því öll bein helgra manna eða fjöldann allan af heilögum og vígðum klæðum, þá væri oss engin hjálp í þeim, því að allt eru þetta dauðir hlutir, sem geta engan helgað. En orð Guðs er fjársjóðurinn, sem helgar alla hluti, og fyrir það sjálft helgast allir heilagir. Þegar lögð er stund á Guðs orð, það er prédikað, heyrt, lesið eða íhugað, helgast persónurnar, dagarnir og verkin fyrir það, ekki sakir hins ytra verks, heldur sakir orðs Guðs, sem helgar oss öll. Þess vegna segi ég ætíð að líf vort og verk verða að grundvallast á Guðs orði, ef það á að verða hægt að telja það Guði þóknanlegt og heilagt; þar sem þetta gerist, uppfyllist þetta boðorð í krafti sínum. Hins vegar eru sá veruleiki og þau verk, sem standa gegn Guðs orði vanheilög fyrir Guði, þar sem þau skína og glitra, já, jafnvel þótt þau séu skreytt heilögum munum einvörðungu, rétt eins og hinar upplognu[28] stéttir andlegra manna, sem þekkja ekki Guðs orð og sækja helgun sína til sinna eigin verka.
Taktu þess vegna eftir því, að þungamiðja og máttur þessa boðorðs felst ekki í hvíldinni, heldur í helguninni, til þess að þessi dagur feli í sér tiltekna, heilaga iðkun. Önnur störf og annar verknaður kallast því vissulega ekki heilög, þar sem maðurinn, sem þau framkvæmir, verður fyrst að helgast. En á þessu stigi málsins hlýtur það að koma fram, er helgar manninn sjálfan, og sem eitt sér helgast (eins og áður segir) með orði Guðs, til þess að staðir, tíðir, menn og öll hin ytri guðsþjónusta megi loks fyrir orð Guðs grundvallast og eflast, svo að það megi almennt komast upp í vana.
Þar sem svo rík áhersla virðist nú vera lögð á Guðs orð, að enginn helgidagur helgast í sjálfum sér án þess, skulum vér vita, að Guð vill að þessu boðorði verði rækilega fylgt og að öllum verði refsað, sem fyrirlíta orð hans, er vilja hvorki heyra það né læra, sérstaklega á þeim tíma, sem þeim er ætlaður til þess. Samt syndga ekki einvörðungu þeir gegn þessu boðorði, sem misnota hvíldardaginn gróflega og vanhelga hann, sem vegna síngirni sinnar eða léttúðar vilja láta undir höfuð leggjast að heyra Guðs orð eða liggja á kránum, ofurölvi og viti sínu fjær líkt og svín. Að ekki sé nú talað um hinn hópinn, sem hlustar á orð Guðs eins og hvert annað skemmtiatriði og af vana hlýðir á prédikun og fer aftur út, og á líðandi ári kann hann jafnmikið og síðastliðið ár. Hingað til hefur mátt líta svo á, að þegar hlýtt var á messu eða fagnaðarerindið á sunnudegi, væri hvíldardagurinn settur í öndvegi, en um Guðs orð hefur enginn spurt, eins og enginn hefur heldur kennt það. En þar sem vér höfum nú Guðs orð, leggjum vér þennan ósið ekki niður, heldur látum vér ævinlega prédika fyrir oss og hlustum á áminningar, án þess þó að greina alvöruna og umhyggjuna. Af þeim sökum skalt þú vita, að það er ekki einungis nóg að heyra, heldur verður einnig að heyra og kenna, og þú skalt ekki halda, að það sé undir þér komið eða að ekki sé lögð svo ýkja rík áhersla á þetta, heldur skalt þú gera þér það ljóst, að það er boðorð Guðs, og að þér ber að gera reikningsskil á því, hvernig þú hefur heyrt, kennt og virt Guðs orð.
Á sama hátt á að refsa þessum vindbelgjum, því þar sem þeir hafa heyrt eina prédikun eða tvær, verða þeir saddir og dauðleiðir, líkt og þeir gætu nú vel gert allt sjálfir og þyrftu ekki lengur á fræðurum að halda. Það er því einmitt sú synd, sem hingað til hefur verið talin á meðal dauðasyndanna og nefnist „acedia“,[29] það er ami og leiðindi, fjandsamleg og skaðleg plága, þar sem djöfullinn hefur tælt og vélað hjörtu margra, svo hann geti farið á bak við oss og í leyndum tekið orð Guðs frá oss.
Því ber að segja þér þetta: Jafnvel þótt þú kunnir þetta upp á hár og sért meistari á öllum sviðum, þá ert þú samt daglega á valdi djöfulsins, sem hvorki ann sér hvíldar dag né nótt, heldur situr hann um þig, svo að hann geti fyllt hjarta þitt af vantrú og illum hugsunum, gegn öllum boðorðum Guðs. Þess vegna verður þú ætíð að hafa orð Guðs í hjarta, á vörum og fyrir eyrum. En þar sem hjartað er innantómt og orðið heyrist ekki, brýst hann inn og gerir óskunda, áður en nokkur hefur orðið þess var. Á hinn bóginn hefur það þann kraft, að þar sem það er skoðað, hlýtt á það og fengist við það í fullri alvöru, er það aldrei ávaxtalaust, heldur vekur það ævinlega nýjan skilning, löngun og íhugun, hreinsar hjartað og hugsanirnar. Það er því hvorki máttvana né dautt, heldur virkt og lifandi orð. Og ef engin önnur nytsemd eða neyð drífur oss áfram, þá ætti sú staðreynd að geta komið hverjum sem er á bragðið, að það skelfir djöfulinn og rekur hann á flótta, þar til þetta boðorð uppfyllist og slíkt er Guði þóknanlegra en hin glitrandi verk hræsnaranna.
Fjórða boðorð:
Fram að þessu höfum vér lært þrjú fyrstu boðorðin, sem beinast að Guði. Í fyrsta lagi þetta, að vér treystum honum af öllu hjarta, óttumst hann og elskum hann allt vort líf. Í öðru lagi þetta, að vér leggjum ekki hans heilaga nafn við hégóma, lygi eða nokkuð annað illt, heldur sé það Guði til lofs, náunganum og oss sjálfum til heilla og hamingju. Í þriðja lagi þetta, að vér ástundum og iðkum Guðs orð af kappi á hvíldar- og helgidegi, svo að öll vor verk og allt vort líf geti lagað sig að því. Nú er komið að hinum sjö boðorðunum, sem varða náunga vorn, þar sem hið fyrsta og æðsta er þetta:
Heiðra skaltu föður þinn og móður þína.
Þessa föður- og móðurstétt hefur Guð sérstaklega tekið öðrum stéttum fram, sem undir hann heyra, svo að hann býður oss ekki aðeins að elska þau, heldur einnig að heiðra þau. Gagnvart bræðrum, systrum og náunganum býður hann oss því ekkert umfram það að elska þau, þannig aðskilur hann föður og móður frá öðrum mönnum á jörðinni og metur þau jöfn sjálfum sér. Það er því miklu meira í því fólgið að heiðra en að elska, þar sem heiðurinn snertir ekki aðeins kærleikann, heldur einnig aga, auðmýkt og undirgefni, eins og gagnvart leyndri hátign. Þess er ekki einungis krafist, að vér ávörpum þau vingjarnlega og með virðingu, heldur varðar þetta langmestu, að hjarta og líf beri þess vitni og hegðunin bendi til þess, að litið sé upp til þeirra, og þau virt mest, næst á eftir Guði, (því að sá, sem ber af hjarta að tigna, hlýtur sannarlega að teljast hár og mikill). Þess vegna á að gera æskulýðnum þetta ljóst, að hann á að bera virðingu fyrir foreldrum sínum og taka þeim eins og þeir kæmu í Guðs stað, þrátt fyrir að þeir séu lítilfjörlegir, fátækir, veikir og furðulegir, þar sem þau eru samt sem áður faðir og móðir, oss gefin af Guði. Fyrir æviskeið sitt og ágalla eiga þeir ekki að missa heiður sinn. Þess vegna fer það ekki eftir persónum þeirra, hvernig þeir eru, heldur Guðs vilja, sem skapar og skipar svo fyrir. Annars erum vér vissulega öll jöfn í augum Guðs, en á meðal vor komumst vér ekki hjá slíkum ójöfnuði og réttilegum mismun. Þess vegna skipar Guð svo fyrir í þeim, að „þú skalt halda boð mín og hlýða mér eins og föður þínum og ég mun ráða yfir þér.“
Lærðu því í fyrsta lagi þetta, hvað það felur í sér að heiðra foreldra sína, eins og þetta boðorð krefst af oss, einmitt þessa, að á öllum skulu þau vera metin þá að verðleikum líkt og hinn æðsti fjársjóður á jörðu. Síðan á einnig að mæla sómasamleg orð til þeirra, vertu ekki óskammfeilinn, þrasgjarn eða rógberi í garð þeirra, heldur skalt þú vera réttsýnn og þegja, þótt þeir geri fullmikið úr ýmsu. Í þriðja lagi skalt þú heiðra þá í verki, það er að segja, lífi og gæðum, þannig að þeim sé þjónað, hjálpað og borin sé umhyggja fyrir þeim, þegar þeir eldast, verða veikir, lítilfjörlegir eða fátækir, og slíkt verði ekki aðeins gert af fúsleika, heldur einnig af auðmýkt og ótta, líkt og fyrir Guð. Sá, sem veit því í hjarta sínu, hvernig hann á að haga sér gagnvart foreldrum sínum, lætur þá hvorki líða skort né hungur, heldur metur hann þá æðri sjálfum sér eða til jafns við sjálfan sig og gefur þeim það, sem hann á og er fær um að veita.
Í öðru lagi skalt þú sjá og taka eftir því, hversu mikið, gott og heilagt verkefni er lagt fyrir börnin, sem því miður er hins vegar einatt vanrækt og harla léttvægt, þar sem enginn tekur það trúanlegt, að það er Guð, sem hefur boðið þetta, eða að þetta eru heilög og guðdómleg orð og kenning. Væri þetta boðorð metið sem Guðs orð, hefði hver sem er getað sagt sér sjálfur, að þeir, sem lifa eftir þessu boðorði, eru heilagir menn. Þá hefði aldrei þurft að koma á klausturlifnaði og andlegum stéttum, því að þá hefði hvert mannsbarn haldið sig við þetta boðorð og hefði með góðri samvisku getað snúið sér til Guðs og sagt: „Eigi ég að framkvæma hin góðu og heilögu verk, þá veit ég engin betri en þau að heiðra foreldra mína og hlýða þeim, því að Guð hefur boðið það. Því að það, sem Guð býður, hlýtur að vera margfalt æðra öllu því, sem vér sjálf gætum hugsað oss. Og þar sem enginn hærri og betri meistari er til en Guð, er vissulega engin betri kenning til en sú, sem hann veitir. Nú kennir hann einmitt í ríkum mæli það sem vér eigum að gera, ef vér viljum framkvæma góð verk, og með því að gefa oss boðorð um þau, sýnir hann að honum eru þau þóknanleg. Sé það þá Guð, sem býður þetta og veit enga betri tilskipun, þá fer ég aldrei nokkurn tímann að reyna að bæta þau.“
Sjáðu til, þannig hefði guðrækið barn fengið rétta kennslu, heilnæmt uppeldi, og það hefði verið vel upplýst um hlýðni og þjónustulund gagnvart foreldrunum, svo gleðin og fögnuðurinn yrðu augljós. En ekki hefur verið lögð rík áhersla á að tala djarflega um boðorð Guðs, heldur hafa þau setið á hakanum og látin liggja í láginni, svo að barnið hefur ekki náð að hugsa um þau, en þeir[30] hafa starað furðu lostin á uppátæki vor og án þess að þeim hafi dottið í hug að spyrja Guð ráða.
Því skulum vér í eitt skipti fyrir öll fyrir sakir Guðs læra þetta, að æskulýðurinn láti allt annað eiga sig og haldi sig fyrst og fremst við þetta boðorð, ef hann vill þjóna Guði með réttum og góðum verkum, að hann geri það sem föður og móður, eða þeim, sem koma í þeirra stað, er kært. Það barn, sem því veit og gerir þetta, ber fyrst og fremst svo fullt hjartans traust, að það getur hrósað sér og sagt (þrátt fyrir alla þá og gegn öllum þeim, sem fást við eigin viðfangsefni): „Ég er þess fullviss, að þetta verk fellur Guði mínum á himnum vel í geð.“ Látum þau bara öll koma saman í hópum og stæra sig af sínum miklu, margvíslegu, erfiðu og tilkomumiklu verkum, og sjáum til, hvort þau geti gert nokkuð því háleitara, að vera föður og móður hlýðin, eins og Guð hefur boðið oss og fram sett næst á eftir hlýðni við sína eigin hátign, þar sem, þegar orði Guðs og vilja verður framfylgt, þá á ekkert annað að gilda en vilji og orð foreldranna, svo framarlega sem þau eru samt sem áður einnig sett undir hlýðni Guðs og brjóta ekki í bága við fyrrnefnt boðorð.
Þess vegna skalt þú gleðjast af hjarta og þakka Guði fyrir það, að hann hefur útvalið þig og talið verðugan þess að framkvæma svo dýrmætt og þóknanlegt verk. Þú skalt telja það mikið og verðmætt (þótt líta megi á það sem afar lítilmótlegt og fáfengilegt), ekki vegna þeirrar vegsemdar, sem það færir þér, heldur hins, að þetta er hið mesta hnoss og helgidómur, sem felst í orði Guðs og skikkan, er hann hefur grundvallað og látið fram ganga. Ó, hvað hefðu regla karþusiana, munkar og nunnur ekki vilja gefa, ef þau, í stað alls síns andlega atgervis, hefðu getað komið fram fyrir Guð með eitt einasta verk, sem hefði verið framkvæmt samkvæmt boðum hans, svo að þau hefðu glöð getað sagt frammi fyrir augliti hans: „Nú veit ég, að þetta verk er þér þóknanlegt.“ Hvar ætti þetta aumingja vesalings fólk að vera á vegi statt, ef það myndi roðna af skömm frammi fyrir Guði og öllum heiminum þar sem barn hefur lifað samkvæmt þessu boðorði og viðurkenndi, að gjörvallt líf þess hefur ekki gert það vert þess að rétta barninu vatnsglas? En fólkið fær aðeins það, sem það hefur verðskuldað, því að djöfullinn hefur leitt það á villigötur, þar sem það treður boðorð Guðs undir fótum sér og árangurslaust pínir það sjálft sig með sínum eigin þaulhugsuðu verkum, þar sem launin verða skömm og skaði.
Ætti nú ekki hjartað að springa af gleði og svella svo, þegar það tæki til starfa og gerði það, sem því væri falið, að það gæti sagt: „Sjáið til, er þetta ekki betra en öll karþusianahelgun, hvort sem þeir bíða dauðans með föstum eða liggja á hnjánum og biðja án afláts?“ Hér hefur þú því vísan texta og guðlegan vitnisburð, sem hann hefur ákvarðað, en á hitt hefur hann ekki minnst einu orði. En í þessu er eymd og andstyggileg blindni heimsins fólgin, að enginn trúir þessu, þar sem djöfullinn hefur tælt oss með falskri helgun og ljóma eigin verka. Þess vegna segi ég enn, að ég vildi gjarnan að menn lykju upp augum sínum og eyrum og hefðu þetta hugfast, til þess að vér skyldum ekki enn og aftur verða numin á brott frá hinu hreina orði Guðs til lyga djöfulsins. Væri málum svo fyrir komið, hefðu foreldrarnir haft af því þeim meiri gleði, kærleika, hlýhug og samlyndi sín á milli, og börnin hefðu áunnið sér ást foreldranna. Þar sem þau þvert á móti eru þrá og sem fyrr gera ekki það sem þeim ber, þótt svipan vofi yfir þeim, vekja þau bæði reiði Guðs og foreldranna, svo að þau eru svipt fjársjóði samviskunnar og lenda í helberri ógæfu. Því er það nú svo í heiminum, eins og öllum fellur þungt, að bæði ungir og gamlir vaða hamstola í villu og svíma, þeir sýna hvorki blygðunartilfinningu né bera virðingu fyrir nokkrum hlut, þeir gera ekkert nema þeir séu barðir til þess, og þeir fara hver á bak við annan með rógburði og reyna að bera af sér sakir með öllum hugsanlegum ráðum. Því refsar Guð þeim þannig, að ógæfa og neyð kemur yfir þá, þar sem foreldrarnir ráða almennt ekki neitt við neitt, og heimskingi getur annan heimskingja. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Ég fullyrði að það sem þetta boðorð hvetur oss til ætti að vera oss helst og fremst. Hamingjan sanna, ef vér ættum hvorki föður né móður, myndum vér óska þess, að Guð vísaði oss á stokk og stein sem oss fýsti að nefna föður og móður. Hversu miklu fremur ættum vér ekki að gleðjast, þar sem hann hefur gefið oss lifandi foreldra, sem oss er ljúft að bera virðingu fyrir og auðsýna hlýðni? Þar sem vér vitum, að hinni æðstu hátign og öllum englum er slíkt þóknanlegt og veldur öllum djöflum sárri gremju, er það því hið æðsta verk sem hægt er að vinna, næst á eftir guðsþjónustunni, sem fyrirskipað er í fyrrnefndum boðorðum, hvorki sambærilegt við ölmusugjafir né nokkur önnur verk gagnvart náunganum. Guð hefur því skipað þessa stétt æðri öðrum stéttum, já, sett hana í sinn stað hér á jörðu. Þar sem þetta er því vilji Guðs og honum þóknanlegt ætti þetta því að vera nógu rík ástæða og áeggjan til þess að vér gerum með glöðu geði allt sem í voru valdi stendur.
Af þeim sökum ber oss skylda til þess gagnvart heiminum að vera þakklát fyrir þær velgjörðir og allt það góða, sem vér fáum frá foreldrum vorum. En á þessu sviði ræður djöfullinn einnig ríkjum í heiminum, svo að börn gleyma foreldrum sínum, eins og vér öll gleymum Guði, og enginn hugsar út í það, hvernig Guð fæðir oss, verndar og varðveitir og gefur oss svo margt gott til líkama og sálar, ekki síst þegar erfiðir tímar fara í hönd. Þá reiðumst vér og nöldrum óþolinmóð og þá fer allt forgörðum, sem vér höfum þegið alla vora ævi. Einmitt þannig hegðum vér oss einnig við foreldra vora, og það barn er ekki til, sem viðurkennir og hugsar um þetta, nema heilagur andi gefi því það. Þetta óeðli heimsins þekkir Guð vel, þess vegna áminnir Guð hann og rekur áfram með boðorðum, svo að hver og einn hugsi um það sem foreldrarnir hafa gert fyrir hann. Þá finnur hann, að hann þiggur líf og líkama frá þeim, þar sem þeir hafa fætt hann og alið hann upp, ella hefði hann kafnað hundraðfalt í sínum eigin saur. Þess vegna er það rétt og vel mælt af gömlu, vitru fólki: „Deo, parentibus et magistris non potest satis gratiae rependi,“ það merkir: „Guði, foreldrunum og kennurunum er hvorki hægt að þakka né gjalda nógsamlega.“[31] Sá sem sér og hugsar um þetta, sýnir foreldrum sínum óbeðinn alla sína virðingu og ber þá á höndum sér, því að fyrir þá hefur Guð gefið honum allt gott.
Umfram allt ætti þetta að varða miklu og hvetja oss, að Guð hefur skeytt ljúfu fyrirheiti aftan við þetta boðorð og mælir: „Svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð gefur þér“.[32] Sjáðu sjálfur, hversu alvöruþrungið þetta boðorð Guðs er, því að það tjáir ekki einvörðungu velþóknun Guðs með því, gleði og löngun, heldur á það að koma oss til góða og þjóna hagsmunum vorum, til þess að vér megum eiga ljúfa og rólega ævi og njóta alls góðs. Þess vegna metur Páll postuli þetta svo mikils og leggur svo ríka áherslu á þetta í Efesusbréfinu,[33] þar sem hann segir: „Það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: ,,til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.“ “ Þrátt fyrir að öll önnur boðorð feli í sér fyrirheit, er ekkert þeirra þó sett fram á svo skýran og greinargóðan hátt.
Hér hefur þú þannig ávöxt og laun fyrir þetta boðorð, að sá sem heldur það skal njóta góðra daga, hamingju og hagsældar, en á hinn bóginn er þeim einnig refsað, sem er óhlýðinn. Hann mun glatast þeim mun fyrr og hljóta enga gleði af lífinu. Það að vera langlífur kallar Ritningin ekki einungis að ná háum aldri, heldur að njóta alls, sem langt líf býður upp á, svo sem heilsu, eiginkonu og barna, næringar, friðar, góðrar ríkisstjórnar og svo framvegis, alls þess, sem vér getum ekki verið án, ef vér eigum að geta lifað löngu og gleðiríku lífi. Viljir þú nú ekki hlýða föður þínum og móður þinni og alast upp hjá þeim, þá hlýðir þú böðlinum,[34] ef þú vilt ekki hlýða honum, þá hlýðir þú manninum með ljáinn; það er, dauðanum. Þetta vill Guð, í stuttu máli sagt: Annaðhvort hlýðir þú honum, vinnur kærleiksverk og þjónar, til þess að hann borgi þér það ríflega til baka, eða, ef þú reitir hann til reiði, þá sendir hann bæði dauða og böðul niður yfir þig. Hvers vegna eru þeir óþokkar svo margir, sem daglega þarf að hengja, hálshöggva eða misþyrma, nema vegna óhlýðni, því að þeir vilja ekki láta ala sig vel upp? Þess vegna kemur refsing Guðs niður yfir þá, svo að ekkert megi sjá nema ógæfu og þjáningu hjá þeim. Það kemur mjög sjaldan fyrir, að svo óðir menn hljóti eðlilegan dauðdaga á réttum tíma.
En hinir guðhræddu og hlýðnu hafa hins vegar þá blessun að geta lifað löngu og friðsælu lífi og sjá barnabörn sín (eins og áður segir) í þriðja og fjórða ættlið. Reynslan sýnir einnig, að þar sem gamlar, góðar ættir er að finna, sem eru vel stæðar og eiga mörg börn, leiðir það vissulega af sér, að sum þeirra eru vel upp alin og bera virðingu fyrir foreldrum sínum. Um hina guðlausu stendur á hinn bóginn skrifað í Sálmi 109: „Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.“[35] Þess vegna verður þú að láta þér lærast, hversu mikilvæg hlýðnin er Guði, því að hann metur hana svo mikils, hefur velþóknun á henni og hann launar hana ríkulega, en hins vegar refsar hann þeim harðlega, sem lítilsvirða hana. Allt þetta mæli ég, til þess að þetta verði brýnt fyrir æskulýðnum, því að enginn trúir því, hversu mikilvægt þetta boðorð er, því að hingað til hefur það hvorki verið virt né kennt í páfadóminum. Allir halda að þetta séu fánýt og einföld orð, sem þeir þekktu fyrir. Þess vegna eru þau látin liggja í láginni og sótt er á önnur mið. Þeir sjá og trúa því ekki, hversu ógurlega Guð reiðist, ef þetta er vanrækt og ekkert er Guði þóknanlegra en að einmitt þetta sé í heiðri haft.
Þetta boðorð felur það ennfremur í sér, að talað er um hlýðni gagnvart þeim, sem eru hærra settir, þar sem þeir gegna því hlutverki að skipa fyrir og stjórna. Forræði foreldra er forsenda alls annars yfirvalds. Þar sem föðurnum einum er um megn að ala upp barn sitt, fær hann skólameistara til þess að fræða; sé hann of veikur, fær hann vini og nágranna til hjálpar. Falli hann frá, felur hann öðrum og veitir þeim, sem það er fyrirskipað, forræðið. Á sama hátt þarf hann að hafa heimilisfólk, þjóna og þernur í umboði sínu til þess að stjórna heimilinu. Þannig eru allir, sem við nefnum „herra“ staðgenglar foreldra og verða að fá kraft sinn og vald frá þeim til þess að stjórna. Af þeim sökum eru þeir samkvæmt Ritningunni allir nefndir feður, því að það er feðraembættið, sem þeir gegna og þeir skulu hafa föðurlegt hjarta gagnvart þeim, sem þeir ráða yfir. Þannig hafa einnig Rómverjar og aðrar þjóðir til forna nefnt húsbændur og húsfreyjur „patres et matres familias“, það er húsfeður og húsmæður. Eins hafa þeir einnig nefnt landsfursta sína og yfirmenn „patres familiae“, það er feður alls landsins.[36] Það er oss, sem viljum kallast kristnir menn til háborinnar skammar að vér nefnum þá ekki einnig svo, eða að minnsta kosti virðum þá og heiðrum, eins og væru þeir það.
Skyldur barns gagnvart föður og móður eiga einnig við hjá öllu öðru heimilisfólki. Því skulu þjónar og þernur sjá til þess, að þau hlýði ekki aðeins húsbændum sínum og húsfreyjum, heldur einnig heiðri þau, sem væru þau þeirra eigin feður og mæður og geri hvaðeina sem þau vita að þeim ber að gera, ekki af þvingun eða mótþróa, heldur af löngun og gleði og einmitt af áðurnefndri ástæðu, að þetta er boðorð Guðs og er honum umfram öll önnur verk þóknanlegt. Af þessum sökum liggur við að þau ættu að umbuna þeim og gleðjast yfir því að hafa fengið húsbændur og húsfreyjur, hafa góða samvisku og vita, hvernig þau skyldu iðka réttmæt og gullvæg verk, sem fram að því höfðu fallið í gleymskunnar dá og verið vanvirt og þess vegna orðið þess valdandi að fólk hafði skundað í klaustur í hópum eða helgigöngu í nafni djöfulsins, sóst eftir afláti, sjálfum sér til miska og með slæma samvisku.
Hefðum vér nú aðeins getað sýnt þessu vesalings fólki vel og vandlega fram á þetta, þá hefði þerna hoppað af einskærri ofsakæti, þakkað og lofsungið Guði, og með heiðarlegri vinnu, sem hún fær aukinheldur mat og laun fyrir, fengið slíkan fjársjóð, sem allir þeir, sem teljast á meðal hinna allra heilögustu, eiga ekki. Eru ekki ágæt meðmæli í því að vita þetta og segja: „Þegar þú sinnir daglegum húsverkum, þá eru þau betri en heilagleiki munkanna og strangt líferni?“ Og þar að auki hlotnast þér fyrirheit um það að allt gott falli þér í skaut og að þér vegni vel. Hvernig vilt þú þá vera sælli eða eiga heilagra líf, hvað svo sem verk áhrærir? Hjá Guði er það í raun trúin ein sem helgar og þjónar honum, en hjá mönnunum eru það hins vegar verkin. Þú nýtur því alls góðs, færð vernd og skjól hjá húsbóndanum, góða samvisku og auk þess náðugan Guð, sem vill launa þér hundraðfalt, og sért þú guðrækinn og hlýðinn, þá ert þú sannur heiðursmaður. Sért þú það hins vegar ekki, áttu fyrst og fremst reiði og gremju Guðs vísa, engan frið í hjarta og síðan allar plágur og ógæfu. Sá, sem ekki lætur sér segjast eftir þetta, verður ofurseldur böðlinum og dauðanum. Því skal sérhver, sem vill draga af þessu lærdóm, hugsa út í það, að Guði er ekki skemmt, og vita, að Guð að talar við þig og krefst hlýðni við sig; hlýðir þú honum, þá ert þú hans kæra barn, fyrirlítir þú hann hins vegar, hlýtur þú skömm, eymd og volæði að launum.
Á sama hátt á líka að tala um hlýðni við veraldlegt yfirvald, sem, eins og áður segir, tilheyrir föðurstéttinni sem nær yfir býsna víðfeðmt svið. Hér er ekki einn einstakur faðir heldur margfaldur faðir, svo fremi sem hann hafi þegna, borgara og undirmenn, því Guð gefur oss fæði, hús og jarðeign, vernd og öryggi og heldur oss uppi þeirra vegna (eins og vegna foreldra vorra). Þar sem þeir bera einnig nöfn og titla eins og heiðri þeirra sæmir, ber oss einnig skylda til að heiðra þá og virða sem hið dýrmætasta hnoss og auðæfi á jörðinni.
Sá sem nú er hlýðinn, viljugur og þjónustufús og glaður gerir allt, sem til sóma er, veit að hann þóknast Guði og ber gleði og hamingju úr býtum. En vilji hann ekki gera þetta í kærleika, heldur þvert á móti fyrirlítur yfirvaldið með gaspri og galgopahætti, þá skal hann vita, að hann hlýtur hvorki náð né blessun. Og þar sem hann telur sig bera eitt gyllini úr býtum á þann hátt, þá tapar hann þvert á móti tífalt meira á því eða verður framseldur böðlinum, ferst af völdum stríðs, sóttar eða dýrtíðar eða hlýtur enga gleði af börnum sínum. Á hinn bóginn verður hann að líða tjón, órétt eða yfirráð frá þjónustufólki, nágrönnum, ókunnugum eða harðstjórum sínum, eftir því sem oss er launað og vér öðlumst það sem vér leitum að og verðskuldum.
Hefðum vér nú látið sannfærast um það, að slík verk væru Guði þóknanleg og svo ríkulega launuð, myndum vér lifa við fullkomnar allsnægtir og eiga allt sem hjarta vort girntist. Af því að Guðs orð og boðorð eru svo forsmáð, eins og einhver fábjáni hefði mælt þau, þá skulum vér af því sjá, hvort þú sért sá, sem getur boðið Guði birginn. Hversu erfitt myndi honum reynast að gjalda þér í sömu mynt? Þú værir mun betur settur í náð Guðs, friði og gæfu en í ónáð og ógæfu. Hvers vegna telur þú að heimurinn sé svo fullur af ótryggð, skemmdarverkum, volæði og manndrápum, nema af því að hver og einn vill vera sinn eigin herra og láta engan keisara ráða yfir sér, vill ekkert gefa af sér, heldur gera það sem hann lystir? Af þeim sökum refsar Guð afbrotamanni með öðrum, þannig að ef þú svíkur eða fyrirlítur yfirmann þinn, kemur einhver annar þér lævísari, já, það gengur svo langt að þú þarft að þjást tíu sinnum meira í húsi þínu vegna eiginkonu, barns eða þjónustufólks.
Vér finnum vel fyrir ógæfu vorri og möglum og kvörtum undan ótryggð, yfirráðum og ranglæti, en viljum hins vegar ekki horfast í augu við það að vér erum sjálf afbrotamenn, sem svo sannarlega eigum refsingu skilda og verðum í engu betri af henni. Vér viljum hvorki njóta gæfu né náðar og því eigum vér helbera ógæfu vísa, án allrar miskunnar. Það hlýtur ennþá að vera guðhrætt fólk eftir á jörðinni, úr því að Guð lætur oss svo margt gott í té, væri ekki svo, ættum vér ekki eyri í húsi voru, hvað þá eitt grasstrá á akrinum. Allt þetta hef ég orðið að fara um svo mörgum orðum, ef einhver vildi taka þetta til sín, til þess að vér getum losnað undan þeirri blindu og eymd, sem vér erum svo djúpt sokkin í, og kannast réttilega við orð og vilja Guðs og tileinka oss þau alvarlega. Af því myndum vér vissulega læra, hvernig vér mættum njóta gleði, gæfu og hamingju um aldur og ævi.
Vér höfum þannig fjallað um þrenns konar feður í þessu boðorði; ættfeður, heimilisfeður og landsfeður. Auk þess eru einnig til andlegir feður, ekki eins og á meðal páfanna, sem gjarnan vildu láta nefna sig slíka, en sinntu engu föðurembætti.[37] Andlegir feður eru aðeins þeir einir, sem leiðbeina oss í Guðs orði og ganga á undan með góðu fordæmi, eins og Páll postuli, sem hrósar sér af föðurhlutverki sínu í fyrra Korintubréfi, þar sem hann segir: „Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.“[38] Af því að þeir nú eru feður, ber þeim einnig heiður fyrir það jafnvel umfram aðra, en þeir fá minnstan heiðurinn af öllum. Þess vegna hlýtur heimurinn að heiðra þá á þann hátt, að hann hrekur þá úr landi og ann þeim ekki brauðbita fyrir. Í stuttu máli verða þeir, eins og Páll segir annars staðar í fyrra Korintubréfi, „eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.“[39] Samt er nauðsynlegt að innræta lýðnum þetta, að þá, sem vilja kallast kristnir, skyldar Guð til þess að veita þeim, sem bera umhyggju fyrir sálum þeirra, tvöfaldan heiður, með því að gera vel við þá og halda þeim uppi. Þannig fer Guð einnig að því, með því að gefa þér ríkulega og láta þig ekki líða skort. Þá streitist einhver á móti, ver sjálfan sig og allir hafa áhyggjur af því, að búkurinn örmagnist og geti ekki nært réttsýnan prédikara, þar sem vér höfum áður mettað tíu átvögl. Af þeim sökum verðskuldum vér ekkert annað en að Guð svipti oss einnig orði sínu og blessun og láti lygaprédikarana aftur upp rísa, sem leiða oss til djöfulsins og sjúga svita og blóð úr oss.
Þeir, sem á hinn bóginn hafa vilja Guðs og boðorð að leiðarljósi, eiga það fyrirheit, að þeim skuli verða ríkulega goldið fyrir það, sem þeir láta líkamlegum og andlegum feðrum í té og gera þeim til vegsemdar, ekki á þann hátt að þeir skuli eiga brauð, föt eða fjármuni til eins eða tveggja ára, heldur langlífi, næringu og frið, og skulu um eilífð lifa í vellystingum. Gerðu þess vegna aðeins það sem þér ber og vittu til, hvernig Guð sér fyrir þér og aflar þér viðurværis. Hann hefur heitið þér því og þar sem hann hefur ekki logið fram að þessu, þá mun hann ekki taka upp á því að ljúga að þér. Slíkt ætti að hvetja oss og skapa í oss hjarta, sem myndi bráðna í kærleika og löngun gagnvart þeim, sem oss ber að heiðra, svo að vér lyftum upp höndum vorum og þökkum Guði, sem hefur gefið oss slík fyrirheit, sem fengju oss til þess að hlaupa allt til endimarka jarðarinnar. Þrátt fyrir að allur heimurinn byndist samtökum, megnaði hann ekki að bæta einni stund við líf vort eða láta smákorn vaxa upp af jörðinni. Hins vegar getur Guð og vill veita þér ríflega eftir þinni hjartans löngun. Sá sem fyrirlítur slíkt og lætur sem vind um eyru þjóta, er ekki verður þess að heyra Guðs orð.
Svo ítarlega er öllum þeim greint frá þessu, sem láta sig þetta boðorð varða. Auk þess væri einnig brýnt að benda foreldrunum á það, í hverju embætti þeirra er fólgið, hvernig þeir eigi að hegða sér gagnvart þeim, sem þeir hafa fengið umboð til að ráða yfir. Þótt það standi ekki beinlínis í boðorðunum tíu, er víða bent á það í Ritningunni. Ennfremur vill Guð einmitt nefna föður og móður í þessu boðorði, því að hann vill hvorki að afbrotamenn né einræðisherrar gegni þessu embætti eða stjórni. Hann veitir þeim ekki heiðurinn, það er valdið og réttinn til þess að stjórna, svo að þeir verði tilbeðnir, heldur skal veita því athygli, að þeim ber að hlýða Guði og fyrir alla muni sinna embætti sínu af heiðarleika og trúmennsku og ekki fæða börn sín, vinnufólk og þegna einvörðungu eða sjá þeim fyrir líkamlegum þörfum, heldur ala þau fyrst og fremst upp til lofs og dýrðar Guði. Þú skalt því ekki halda, að þú getir miðað við þína hagsmuni eða eigin aðstæður, heldur hitt, að Guð hefur alvarlega boðið þetta og lagt á þínar herðar, sem þú þarft einnig að svara fyrir.
Hér kemur því einnig fram hin andstyggilega plága, þar sem enginn gefur þessum sannindum gaum, heldur láta allir eins og Guð gefi oss börn til afþreyingar og skemmtunar, þjónustufólk til þess eins að vinna líkt og kýr og asnar, eða þegna sem vér gætum farið með eftir eigin geðþótta. Vér látum þau sigla sinn sjó, líkt og það kæmi oss ekki við, hvað þau læra eða hvernig þau lifa. Enginn vill heldur sjá, hver hið mikla skipun hins hæsta er, og hversu einarðlega hann vill fylgja því eftir og hefnir sín, sé þeirri miklu neyð ekki sinnt, að taka á æskulýðnum af festu. Ef vér því viljum einmitt fá duglegt og vel stætt fólk bæði til veraldlegra og andlegra yfirráða, þá verðum vér að vanda oss og spara hvorki ómak né erfiði til þess að kenna börnum vorum og ala þau þannig upp, að þau megi bæði þjóna Guði og heiminum. Vér megum heldur ekki einungis velta því fyrir oss, hvernig vér megum afla oss fjármuna og gæða, því að Guð getur vel nært þau og gert þau rík án vor, eins og hann gerir einnig daglega. Hins vegar hefur hann gefið oss börnin og boðið oss, að vér ölum þau upp og ráðum yfir þeim samkvæmt sínum vilja, ella þyrftu hvorki faðir né móðir að koma til. Þess vegna skal hver sem er vita, að honum ber skylda til — náð Guðs er í húfi — að ala börn sín fyrir alla muni þannig upp, að þau óttist og þekki Guð, og ætlast sé til þess af þeim, að hann láti þau læra og leggi hart að sér, til þess að þau geti orðið til gagns, þar sem þörf er á.
Ef slíkt er gert, mun Guð einnig blessa oss ríkulega og gefa oss náð til þess að ala upp fólk, sem bæta mun land og lýð, ágæta borgara, iðnar og heimilislegar konur, sem áfram myndu ala upp guðhrædd börn og þjónustufólk. Hugsaðu þér því sjálfur, hvílíkri hryllilegri ógæfu þú veldur, ef þú vanrækir þetta og lætur þér það í léttu rúmi liggja, hvort barn þitt er alið upp til nytsemdar og gæfu eða ekki. Að því kemur, að þú kallar yfir þig synd og reiði Guðs og verðskuldar vítiskvalir vegna barna þinna, þótt þú sért að öðru leyti guðhræddur og heilagur. Vegna þess að slíkt er vanrækt, refsar Guð heiminum einnig svo grimmilega, að enginn agi, stjórn eða friður ríki og undan því kvörtum vér öll, en sjáum ekki, að sökin er vor. Eins og vér ölum þau því upp, þá höfum vér einþykka og óhlýðna þegna. Þetta ætti að nægja til áminningar, því að ítarlegri yfirferð verður að bíða betri tíma.
Fimmta boðorð: Þú skalt ekki morð fremja.
Vér höfum nú fjallað um bæði andleg og veraldleg yfirvöld, það er að segja, guðleg og föðurleg yfirráð og hlýðni við þau. Hér förum vér nú hins vegar úr húsi voru og út á meðal nágrannanna til þess að læra, hvernig vér eigum að lifa hvert með öðru og hvert fyrir sig gagnvart náunga sínum. Þess vegna eru Guð og yfirvaldið ekki tekin með í þessu boðorði og það vald sem þau hafa til þess að deyða verður ekki tekið frá þeim. Því að Guð hefur falið yfirvaldinu umboð til þess að refsa illvirkjum í stað foreldranna. Áður fyrr urðu foreldrarnir sjálfir að færa börn sín fram fyrir dómstóla og dæma þau til dauða, eins og vér lesum um í fimmtu Mósebók.[40] Það, sem hér er því bannað, varðar samskipti fólks hvert við annað og ekki yfirvöldin.
Þetta boðorð er nú auðskilið og einatt er fjallað um það, vegna þess að árlega má heyra fagnaðarerindið í Matteusarguðspjalli,[41] þar sem Kristur sjálfur leggur út af því og dregur saman í fáum orðum og segir, að ekki skuli morð fremja, ekki með hendinni, hjarta, munni, látbragði, ráðum og dáð. Af þeim sökum er hverjum og einum bannað að reiðast, nema, eins og áður er sagt, staðgenglum Guðs, það er, foreldrum og yfirvöldum. Guð og þeir sem reka erindi hans, hafa rétt til þess að reiðast, álasa og refsa, einmitt þeim sem brjóta gegn þessu og öðrum boðorðum.
En ástæðan fyrir nauðsyn þessa boðorðs er sú, að Guð veit vel, að heimurinn er illur og mörg ógæfan á sér stað í þessu lífi. Þess vegna hefur hann sett þetta og önnur boðorð til þess að skilja megi milli góðs og ills. Ýmislegt freistar vor nú til þess að brjóta gegn öllum boðorðunum og það sama á einnig við um þetta. Þar sem vér verðum að lifa á meðal margs fólks, sem veldur oss ama, þá finnum vér ástæðu til þess að fjandskapast við það. Þar sem nágranni þinn sér að þú átt betra hús og jarðeign, meiri gæði og lán frá Guði en hann, þá gremst honum, hann öfundar þig og baktalar þig. Fyrir freistingar djöfulsins eignast þú þannig marga óvini, sem vilja þér hvorki vel í líkamlegum né andlegum skilningi. Þar sem vér verðum vör við slíkt, verður hjarta vort ofstopafullt, blóðþyrst og hefnigjarnt. Þannig upphefjast illmæli og slagsmál, úr því verður volæði, sem leiðir loks til morðs. Þar kemur nú Guð til sögunnar sem vingjarnlegur faðir, sem vill miðla málum og eyða hatri, til þess að ekki komi sú ógæfa til, að nokkur spilli náunga sínum. Í stuttu máli vill Guð með þessu verja, frelsa og tryggja hvern og einn gegn ósvífni og yfirráðum og slá með þessu boðorði skjaldborg um náungann og veita honum næði og griðastað, að hvorki valdi nokkur honum ama né líkamlegu tjóni.
Það er því ætlunin með þessu boðorði, að enginn láti annan líða vegna vondra verka, hvort sem hann á slíkt verulega skilið eður ei. Því að þar sem manndráp er bannað, er einnig hvaðeina bannað, sem getur leitt til manndráps. Þó svo að sumir drepi ekki, þá formæla þeir vissulega og óska náunganum alls ills, og ef sú ósk rættist, myndi hann ekki eiga langa ævi. Þar sem nú enginn vill láta beita sig órétti, en það er nú öllum eðlilegt, þá vill Guð útrýma undirrótinni og orsökinni fyrir harðúð hjartans gagnvart náunganum og venja oss við að hafa þetta boðorð ævinlega að leiðarljósi og sem spegilmynd vora, til þess að vér gefum vilja Guðs gaum, að vér leitum ásjár hjá honum, beinum sjónum vorum upp til hans og felum honum í hjartans einlægni það ranglæti sem vér erum beitt, áköllum nafn hans og látum fjendurna ólmast, reiðast og rembast eftir mætti. Hver og einn ætti því að sefa reiði sína og öðlast þolinmótt og blítt hjarta, einkum gagnvart þeim, sem reita hann til reiði, það er, gagnvart óvinunum.
Þess vegna má þannig draga þetta saman í stuttu máli, til þess að almúganum megi verða sem ljósast, hvað það felur í sér „að fremja ekki morð“. Í fyrsta lagi þetta, að enginn valdi alvarlegu tjóni með handarverkum sínum. Því næst noti enginn tunguna til þess að mæla eða veita ráð, sem skaða náungann. Ennfremur, að nota engin meðöl eða ráðabrugg sem valdið geta tjóni og loks að hjartað sé á engan hátt fjandsamlegt, hatursfullt eða reiðigjarnt. Einnig að líkami og sál séu skuldlaus gagnvart hverjum og einum, en ekki síst gagnvart þeim sem óskar þér alls ills eða veldur þér ama. Í huga þess, sem vill þér vel og óskar þér alls góðs, eru illgjörðir því ekki mannlegar heldur djöfullegar.
Í öðru lagi á þetta boðorð ekki aðeins við um þann sem er sekur um að gera illt, heldur einnig þann sem gerir vel við náunga sinn, getur komið í veg fyrir að nokkuð illt gerist eða valdi tjóni, verndað, varðveitt og ráðlagt, að enginn skaði eða ekkert tjón eigi sér stað, og veldur slíku ekki. Ef þú lætur einhvern ganga nakinn og getur klætt hann, þá hefur þú látið hann frjósa í hel, ef þú hefur séð einhvern líða hungur og fæðir hann ekki, þá lætur þú hann deyja úr hungri. Ennfremur, ef þú sérð einhvern dæmdan til dauða eða í svipaðri neyð án þess að koma honum til bjargar, þótt þú hafir bæði leiðir og ráð til þess, þá hefur þú deytt hann. Það stoðar ekki, þótt þú berir því við, að þú getir ekki komið til hjálpar með ráðum og dáð, því að þú hefur svipt hann kærleikanum og rænt hann því góðverki, sem hefði orðið til þess að hann væri enn lífs.
Þess vegna er það ekki að ástæðulausu, sem Guð kallar alla þá morðingja, sem í líkamlegri neyð og lífsháska veita hvorki hjálp né ráð og á efsta degi mun hann kveða upp þann dóm, eins og Kristur sjálfur boðar, er hann segir í Matteusarguðspjalli: „Því að hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.“[42] Það þýðir: Þér hefðuð fúslega látið mig og mína deyja úr hungri, þorsta og kulda, látið villidýr rífa oss í sig, látið oss veslast upp í fangelsi og sniðgengið í neyð. Hvað getur þú þá kallast annað en smánarlegur morðingi og blóðhundur? Jafnvel þótt þú hafir ekki raunverulega gert nokkuð slíkt, þá hefur þú samt skilið hann eftir í ógæfu og látið hann bíða dauðans, hvað sem þig sjálfan áhrærir. Það er eins þungbært og hefði ég séð einhvern detta ofan í djúpt vatn og berjast um eða falla í eld og rétti honum ekki hjálparhönd eða gerði ekki eitthvað til bjargar. Hvað væri ég þá heldur annað fyrir heiminum en morðingi og ódæðismaður?
Þess vegna er það endanlegt álit Guðs, að vér vinnum engum manni nokkurt mein, heldur sýnum hverjum og einum góðvild og kærleika og því á það (eins og sagt er) aðallega við um þá, sem eru óvinir vorir. Að gera vel við vini vora er hins vegar almenn, heiðin dyggð, eins og Kristur segir í Matteusarguðspjalli: „Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?“[43]
Þá höfum vér nú enn á ný Guðs orð, sem brýnir oss og beinir til réttra, göfugra, mikilla verka, eins og mildi, þolinmæði, í stuttu máli, kærleika og góðvild gagnvart óvinum vorum. Og það vill enn og aftur minna oss á það, að vér hugsum aftur til fyrsta boðorðsins, að hann er vor Guð, sem vill hjálpa, styðja og slökkva hefndarþorsta vorn. Þetta ættum vér að innræta og brýna vel, þá hefðum vér fangið fullt af góðum verkum. Það væri hins vegar ekki prédikað fyrir munkum, því að það gengi of nærri andlegu stéttinni og karþusiönum. Þar væri þetta að öllum líkindum kallað að banna góð verk og tæma klaustrin, því að á þennan hátt væri venjuleg stétt kristinna manna talin standa jafnfætis, já svo miklu framar og ofar munkum, og hver sem er getur séð, hvernig þeir véla og táldraga heiminn með smjaðurslegu yfirbragði heilagleikans, því að þeir láta þetta boðorð og önnur sem vind um eyru þjóta og telja þau einskis virði, eins og það væru ekki boðorð, heldur ráðleggingar.[44] Auk þess hafa þeir blygðunarlaust vegsamað vélabrögð sín og gjörninga sem hið fullkomna líf, svo að þeir mættu lifa í lystisemdum án kross og þolgæðis.[45] Því hafa þeir einnig drifið sig í klaustur, til þess að þurfa hvorki að líða neitt frá nokkrum né þurfa að gera öðrum gott. Þú veist hins vegar, að þetta eru rétt og guðdómleg verk, sem Guð gleðst yfir ásamt öllum englum, á meðan öll mannleg helgun er hjóm og sorp, sem leiðir til einskis annars en reiði og glötunar.
Sjötta boðorð: Þú skalt ekki drýgja hór.
Næstu boðorð eru auðskilin í sjálfum sér út frá áðurnefndum boðorðum, því að þau ganga öll út frá því, að komið sé í veg fyrir að náunganum verði unnið tjón, en þeim er raðað skipulega upp, hverju á eftir öðru. Í fyrsta lagi varða þau náunga viðkomandi persónu, því næst þá persónu, sem stendur þeim náunga næst eða lífsgæði hennar, sem stendur lífi viðkomandi næst, nefnilega maka hans, sem ásamt honum er eitt hold og blóð. Þess vegna er ekki hægt að valda honum meira tjóni með nokkru öðru sem til er. Þannig er tekið skýrt fram hér, að ekki má valda honum skaða með því að leggjast með maka hans. Málið snýst sérstaklega um hjúskaparbrot, þar sem boðorð Gyðinga skylduðu hvern og einn þeirra til þess að ganga í hjónaband. Af þeim sökum gekk æskulýðurinn í hjónaband eins fljótt og mögulegt var, á meðan stétt meyja var einskis metin. Opinber vændishús og saurlifnaður eins og nú tíðkast viðgengust ekki. Þess vegna urðu hjúskaparbrot útbreiddasta saurlífisform á meðal þeirra.
En þar sem á meðal vor viðgengst einnig alls kyns skammarlegt lauslæti og ódyggð, er þetta boðorð sett gegn hvers kyns saurlífi, sem hægt er að nefna.[46] Ekki er einvörðugt lagt bann við hinum ytri verkum, heldur einnig alls kyns orsök, æsingi eða tækifærum til slíks. Hjartað, munnurinn og allur líkaminn á þar með að vera skírlífur og hvergi ætti að finnast rými, hjálp og ráðleggingar fyrir saurlífi. Og ekki aðeins það, heldur ber að verja, vernda og aðstoða maka hvers og eins gegn saurlífi, þar sem hætta og neyð steðja að og eins hjálpa og ráðleggja, svo að náungi þinn verði sér til sóma. Ef þú því fyrirlítur slíkt, þar sem þú gætir sett þeim stólinn fyrir dyrnar, eða ef þú sérð í gegnum fingur þér með þetta, eins og það kæmi þér ekki við, ert þú jafnsekur gerandanum sjálfum. Í stuttu máli er það áréttað í þessu boðorði, að hver og einn ætti bæði að vera skírlífur og hjálpa náunga sínum til þess. Guð vill með öðrum orðum verja og vernda maka sérhvers manns, svo að enginn misþyrmi honum.
En af því að þetta boðorð fjallar beinlínis um hjónabandið er ástæða til þess að tala um það, sem þú átt að gera þér ljóst og veita athygli: Í fyrsta lagi, eins og Guð heiðrar og metur þessa stétt svo mikils, að hann staðfestir þetta boðorð og verndar. Hann hefur staðfest það hér að ofan í fjórða boðorðinu: „Heiðra skaltu föður þinn og móður þína.“ Hér hefur hann á hinn bóginn, eins og áður segir, verndað og varðveitt það. Þess vegna vill hann einnig að vér heiðrum það, höldum það og lifum í því eins og í guðlegri, sælli stétt, af því að hann hefur í fyrsta lagi skipað hana framar öðrum stéttum og því skapað karl og konu mismunandi (eins og sjá má), ekki til afbrota heldur til þess að þau séu og haldist saman, séu frjósöm, fæði börn, næri og ali þau upp Guði til dýrðar. Þess vegna hefur Guð einnig ríkulega blessað hjónabandið umfram allar aðrar stéttir og því gefið til þess öll heimsins gæði, svo að það mætti reynast gott og að því væri ríkulega hlúð. Það er þannig ekkert grín eða mannlegt spaug, heldur ágæt skikkan, sem Guð hefur sett fram í fullri alvöru um hjónalífið. Allt vald hans felst þar af leiðandi í því, að það ali af sér fólk, sem myndi þjóna heiminum og leggja sitt af mörkum til þess að það kynnist Guði og öðlist líf í fullri gnægð og allar dyggðir til þess að berjast gegn illskunni og djöflinum.
Af þeim sökum hef ég ætíð kennt, að þessa stétt megi hvorki fyrirlíta né svívirða, rétt eins og hinn blindi heimur og vor falska, andlega stétt gera, heldur hafi orð Guðs að leiðarljósi, svo að hún verði til prýði og helguð, þannig að hún sé ekki einasta sett jafnfætis öðrum stéttum, heldur einnig framar og ofar þeim öllum. Það væru keisarar, furstar, biskupar og aðrir slíkir. Það varðar bæði andlegar og veraldlegar stéttir, að þær verða að auðmýkja sig og koma fram í þessari stétt eins og vér munum heyra. Þetta er því engin sértæk stétt, heldur hin almennasta og göfugasta stétt á meðal gjörvallra kristinna stétta, já sem lifir og ríkir um allan heiminn.
Í öðru lagi skalt þú einnig vita, að þessi stétt er ekki aðeins heiðarleg, heldur einnig nauðsynleg og Drottinn hefur alvarlega brýnt, að gjörvallar stéttir karla og kvenna, sem til þess voru skapaðar, séu þar á meðal, þó með (örfáum) undantekningum, sem Guð hefur sérstaklega tekið frá, sem ekki er ætlað að ganga í hjónaband eða hefur leyst undan því með verðmætum gjöfum, til þess að þær geti varðveitt skírlífi sitt utan þess. Líkt og náttúran því hefur sinn gang, eins og Guð hefur skikkað hana til, er ekki hægt að vera skírlífur utan hjónabandsins, því að hold og blóð verða hold og blóð og hafa sínar tilhneigingar og þrár, stjórnlausar og óhindraðar, eins og hver og einn sér og finnur. Til þess að það geti reynst auðveldara upp að vissu marki að forðast saurlífið, hefur Guð gefið skipun um hjónabandið, til þess að allir geti unað við sitt hlutskipti og verið ánægðir með það, þrátt fyrir að náð Guðs þurfi hér ennfremur að koma til, til þess að hjartað geti einnig verið skírlíft.
Af þessu sérð þú, hvernig hópur pápista, prestar, munkar og nunnur, leitast við að gera sem minnst úr orðum og boðorðum Guðs, þegar þau fyrirlíta og banna hjónabandið og gerast svo ósvífin að heita eilífu skírlífi. Með því draga þau almúgafólk á tálar með lygum og skinhelgi. Enginn hefur þannig svo lítinn kærleika og löngun til skírlífis eins og einmitt sá, sem vegna síns mikla heilagleika forðast hjónabandið og annaðhvort drýgir hór opinberlega án þess að skammast sín fyrir það eða gerir slíkt leynilega, sem er ennþá verra og ekki er hægt að nefna, en reynslan hefur allt of oft kennt. Og í stuttu máli, jafnvel þótt þau haldi sig frá verkunum, þá er hjarta þeirra fullt af saurugum hugsunum og illri löngun, svo að þau brenna í sífellu og líða leynilegar kvalir, sem koma má í veg fyrir með hjónabandinu. Þess vegna eru öll heit um skírlífi utan hjónabandsins fordæmd og afnumin, já, það er einnig boðið allri samvisku þessa vesalings fólks, sem tælt er til klausturlifnaðar, svo það haldi sig frá saurlífisstéttinni og gangi í hjónaband. Án tillits til þess hvort klausturlifnaðurinn er guðlegur eður ei, þá er það ekki á þess valdi að halda skírlífið, og þar sem það heldur sig, þarf það sífellt að syndga meira gegn þessu boðorði.
Þess vegna ræði ég nú um þetta þannig, að því verði haldið að æskulýðnum, að hann ávinni sér löngun til hjónabandsins og viti, að það er sæl stétt og Guði þóknanleg. Þannig væri í tímans rás hægt að koma málum svo fyrir, að hjónabandið verði á ný hafið til vegs og virðingar, og minna færi fyrir þeim óþverra, ringulreið og óreglu, sem nú veður yfir heiminn með opinberum hórdómi og öðrum viðbjóðslegum löstum, sem sigla í kjölfar fyrirlitningarinnar á hjónalífi. Þess vegna er sú skylda einnig lögð á herðar foreldra og yfirvalda, að þau sjái svo um, að æskulýðurinn verði alinn upp við aga og siðsemi, og þegar hann fullorðnast, gangi hann í hjónaband samkvæmt vilja Guðs. Til þess myndi hann veita blessun sína og náð, svo að löngun og gleði hljótist af.
Að öllu þessu mæltu er loks þetta að segja, að þetta boðorð ætlast ekki aðeins til þess, að hver og einn lifi skírlífur í sinni stétt með verkum sínum, orðum og hugsunum, helst af öllu í hjónabandi, heldur elski einnig maka sinn, sem Guð hefur gefið honum og meti hann að verðleikum. Þar sem því skírlífi innan hjónabandsins á að halda, þá þurfa karl og kona fyrir alla muni að búa saman í ást og eindrægni, til þess að þau geti treyst hvort öðru að fullu og öllu í hjartans einlægni. Slíkt felur umfram allt annað í sér ást og löngun til skírlífis, og þar sem það á við kemur og skírlífi eins og af sjálfu sér án allra skilmála. Þess vegna hefur Páll postuli einnig af kostgæfni hvatt hjón til þess að þau elski hvort annað og virði.[47] Þar hefur þú nú enn og aftur unnið dýrmætt, já, mikið og stórkostlegt verk, sem þú getur glaður hrósað þér af gegn öllum andlegum stéttum sem settar hafa verið á laggirnar án Guðs orðs og boða.
Sjöunda boðorð: Þú skalt ekki stela.
Næst á eftir sjálfum þér og maka þínum koma tímanleg gæði, og þau vill Guð einnig varðveita og hann hefur boðið það, að enginn skuli taka það frá náunga sínum, sem hann á, eða rýra gildi þess. Að stela er því ekkert annað en að eigna sér muni annars manns með röngu, og það felur einnig í sér alls kyns aðferðir til þess að gera lítið úr veikleikum náungans með afrekum sínum. Það er nú útbreiddur og almennur löstur sem lítill gaumur er gefinn og þykir svo léttvægur, að það tekur út yfir allan þjófabálk. Væri vilji til þess að hengja alla þá í gálga, sem eru þjófar en vilja þó ekki kallast slíkir, yrði jörðin brátt auð og tóm og hörgull yrði á böðlum og gálgum. Því að það að stela á (eins og sagt er) ekki aðeins að þýða að tæma hirslur og töskur, heldur að láta greipar sópa á markaðstorginu, í verslunum og búðum, vín- og bjórkjöllurum og verkstæðum — í stuttu máli, alls staðar þar sem viðskipti fara fram og fjármunir, vörur eða vinna ganga kaupum og sölum.
Til þess að gera almúganum það örlítið ljósara, hvernig sjá megi, hversu réttsýn vér erum, skal hér gefið dæmi: Ef þjónn eða þerna þjóna ekki heimili af trúmennsku og valda tjóni eða eyðileggingu, sem þau hefðu getað fyrirbyggt, eða vanrækja og trassa eignir þeirra vegna leti, kæruleysis eða vonsku til þess að valda húsbændum og húsfreyjum tjóni eða reita þau til reiði, (ég er ekki að tala um þau sem verður á og gera slíkt óvart) þá hefðir þú á einu ári haft af þeim þrjátíu eða fjörutíu gyllini, og hefði einhver annar tekið þau eða haft af þeim, hefði sá hinn sami verið hengdur. En þú getur áfram þrjóskast við og maldað í móinn, og enginn þorir að þjófkenna þig.
Á sama hátt tala ég einnig um handverksmenn, verkamenn, daglaunamenn, sem svíkjast um og vita ekki hvernig þeir vaða yfir fólk, og eru því hirðulausir og standa sig ekki í vinnu. Allir þessir eru langtum verri en þessir laumulegu þjófar, sem hægt er að koma á bak við lás og slá, og þegar næst í þá er farið þannig með þá, að þeir gera slíkt ekki aftur. En gegn slíkum lýð getur enginn varið sig og enginn má heldur líta þá hornauga eða væna um þjófnað, þar sem sá hinn sami vildi tíu sinnum frekar taka úr pyngjunni, því að þetta eru nágrannar mínir, vinir, mitt eigið heimilisfólk, sem ég vænti alls góðs af, en eru þau fyrstu til að fara á bak við mig.
En þannig gengur þetta líka fyrir sig á markaðstorginu og í almennum viðskiptum, af fullum krafti og með ofbeldi, þar sem hver svíkur annan og féflettir með rangri vöru, magni, þyngd og mynt. Með furðulegri meðferð fjármuna hefur hver sína hentisemi og hefur rangt við með okri, undirferli og prettum eftir eigin geðþótta. Og hver getur sagt frá öllu slíku eða látið sér þvílíkt til hugar koma? Þetta er í stuttu máli algengasti lifnaðurinn og stærsta stéttarfélagið á jörðinni, og þegar nú allar stéttir eru kannaðar, þá eru þær ekkert annað en stór, víðfeðmur bás, fullur af stórþjófum. Þess vegna kallast þeir einnig ribbaldar, landráðamenn og götulýður, ekki kassaþjófar eða vasaþjófar og þeir sem hnupla reiðufé, heldur þeir sem sitja á stól við skrifborð og gefa sig út fyrir að vera heiðursmenn og kalla sig réttsýna og guðhrædda borgara en ræna og stela með bros á vör.
Já, hér væri hægt að þegja yfir einstökum smáþjófnuðum, þegar meiri þörf væri á að ná hinum stórtæku, ofbeldisfullu erkiþjófum sem mynda bandalag með valdamönnum og furstum, sem ekki láta sér nægja að ræna eina borg eða tvær, heldur gjörvalla fósturjörðina. Já, hver er forsprakkinn og æðsti verndari allra þjófa annar en hinn heilagi páfastóll í Róm með öllu tilheyrandi, sem hefur sölsað undir sig eignir alls heimsins með stuldi, allt til þessa dags? Í stuttu máli gengur þetta þannig fyrir sig í heiminum.[48] Þannig geta þeir sem hafa stolið og rænt opinberlega, um frjálst höfuð strokið, ganga óhindrað á meðal fólks og vilja njóta hylli fyrir það. Því þurfa litlir laumuþjófar, sem einu sinni hafa náðst, að taka á sig skömmina og refsinguna, hinum opinberu þjófum til vegs og virðingar. Þeir skulu samt vita, að frammi fyrir Guði eru þeir mestu þjófarnir, sem hann tekur við og veitir ráðningu og makleg málagjöld.
Af því að þetta boðorð er svo víðfeðmt eins og nú hefur verið sýnt fram á, er nauðsynlegt að brýna það alvarlega fyrir lýðnum og leggja ríka áherslu á það að ekki sé hægt að ganga um frjáls og sjálfsöruggur heldur hafa reiði Guðs ætíð ljóslega fyrir augum. Slíkt eigum vér því ekki að prédika fyrir kristnum mönnum, heldur allra helst þorpurum og þrjótum, sem dómarinn, fangavörðurinn eða böðullinn ættu öðrum fremur að prédika fyrir. Þess vegna skal hver sem er vita, að til þess að falla ekki í ónáð hjá Guði ber honum ekki einungis skylda til að gera náunga sínum ekkert til miska eða hafa af honum auðæfi hans og hvorki má sýna honum ótrúmennsku né lævísi í verslun eða viðskiptum, heldur eigi hann að varðveita tryggilega hans tímanlegu gæði, sjá fyrir þörfum hans og nauðsynjum, einkum ef hann þiggur fjármuni, laun og næringu fyrir það.
Sérhver svikahrappur sem nú fyrirlítur þetta, gæti vel gengið sína leið og forðað sér undan böðlinum, en mun ekki komast undan reiði Guðs og refsingu og ef hann heldur þrjósku sinni og hroka til streitu, þótt hann sé flækingur og betlari, munu allar plágur og ógæfa vofa yfir honum. Nú ferð þú þangað, sem þér er ætlað að gæta vel eigna húsbónda þíns eða húsfreyju, þar sem þú færð líkamlegum þörfum þínum fullnægt, tekur þér laun þín eins og þjófur og lætur fagna þér sem sönnum heiðursmanni. Þeir eru nefnilega margir slíkir, sem þverskallast við húsbændur og húsfreyjur og sýna helst hvorki kærleiksþel né þjónustulund, þar sem koma á í veg fyrir tjón. Sjáðu hins vegar til, hver ávinningur þinn verður af því: Þegar þú sjálfur kemst yfir eignir og dvelur á heimili þínu, (sem Guð mun til allrar óhamingju láta þér í té), mun sama sagan endurtaka sig og þú munt hljóta makleg málagjöld, þar sem þú hefur brotið af þér eða valdið tjóni, þarft þú að borga þrítugfalt aftur. Hið sama á að gilda um handverksmenn og daglaunamenn, en af þeirra völdum heyrast óbærileg svikráð sem vér verðum að líða, eins og þeir væru góðir og guðhræddir heiðursmenn og hver og einn ætti því að veita þeim það sem þeim þóknaðist. Leyfum slíkum mönnum að ræna og rupla óáreittum, á meðan þeir geta það, en Guð vill ekki gleyma boðorði sínu og mun launa þeim eftir því sem þeir hafa áunnið sér og hengja þá, ekki á græna grein, heldur á þurran gálga, svo að þeir verði hvorki lánsamir né giftudrjúgir. Ef það væru nú aðeins til réttsýn stjórnvöld í landinu, þá væri brátt hægt að afstýra og varna slíkri lævísi, eins og tíðkaðist fyrrum hjá Rómverjum, sem tóku slíka menn í karphúsið, ef það gæti orðið öðrum til viðvörunar.
Af þeim sökum ætti öllum hinum að takast að gera hið opna, frjálsa markaðstorg að krummaskuði og ræningjabæli, þar sem hinir fátæku eru daglega gerðir að féþúfu, lagðar eru á nýjar kvaðir og dýrtíð og hver sem er notar markaðinn eftir sínum eigin geðþótta, þrjóskast við og stærir sig af, líkt og honum sé með réttu heimilt að selja sitt eins dýrt og hann lystir án þess að nokkrum detti í hug að segja nokkuð. Vér skulum bíða átekta og sjá til, leyfa þeim að féfletta, kvelja og vera nískir, en treysta Guði, sem mun, þrátt fyrir að þú hafir lengi féflett og hnuplað, leggja blessun yfir það að korn þitt á akrinum þínum, bjórinn í kjallaranum og búfénaður þinn í fjárhúsinu eyðist. Já, þar sem þú blekkir og tælir eitt gyllini út úr einhverjum, þá skal allur auður þinn rýrna og tærast upp, svo að þú hljótir enga gleði af honum.
Þannig upplifum vér og sjáum daglega rætast fyrir augum vorum, að ekkert það, sem stolið er eða ranglega unnið hefur gæfu í för með sér: Hversu margir eruð þér ekki, sem dag og nótt klórið og skrapið saman og verða samt ekki eyri ríkari? Og þótt þeir safni miklum auðæfum, kalla þeir jafnmikla plágu og ógæfu yfir sig, að þeir geta ekki notið þeirra með gleði né arfleitt börnin sín að þeim. Vegna þess að enginn kærir sig um þetta og vér látum eins og þetta komi oss ekkert við, verður Guð að sækja oss heim á annan hátt og segja oss til syndanna, með því að leggja á oss hverja skattabyrðina á fætur annarri eða senda óþjóðalýð í heimsókn, sem á svipstundu tæmir hirslur og pyngjur og hættir ekki, svo framarlega sem vér eigum einhvern eyri, og í þakklætisskyni brennir hann og rænir hús og jarðeign, svívirðir og myrðir konur og börn. Og í stuttu máli; ef þú stelur miklu, þá skalt þú vandlega athuga þetta, að frá þér verður jafnmiklu stolið. Og sá sem rænir einhverju eða eignar sér eitthvað með valdi eða órétti, verður að gera sér grein fyrir því, að einhver annar er líka að spila með hann. Þessa grein kann Guð listavel, því að hver sem er stelur og rænir frá öðrum, þannig að hann refsar einum þjófi með öðrum: Hvar ætli sé hægt að fá nógu marga gálga og kaðla?
Sérhver sá, sem nú vill láta sér segjast, skal vita, að þetta er boðorð Guðs, sem ekki er hægt slá upp í grín. Þrátt fyrir að þú fyrirlítir oss, svíkir, stelir eða rænir, viljum vér láta það yfir oss ganga og þola hroka þinn, líða fyrir hann og samkvæmt Faðir vori fyrirgefa og miskunna (því að hinir guðhræddu hafa vissulega orðið að þola nóg og þú veldur sjálfum þér meira tjóni en öðrum). En gáðu að því, þegar hin ljúfa fátækt (sem nú er mikil) kemur, og daglega þarf að hafa til hnífs og skeiðar, og það rennur upp fyrir þér, að hver sem er þarfnast náðar þinnar, og þú féflettir og rúir inn að skinni, vísar þeim þar með frá þér með stolti og þvermóðsku, sem þér bar að gefa og veita liðsinni. Þá fara þeir volaðir og hryggir afsíðis, og af því að enginn getur klagað, kveina þeir og hrópa til himins. Gættu þín þá (ítreka ég enn einu sinni) eins og á djöflinum sjálfum. Slík hróp og köll geta því orðið dýrt spaug og dregið dilk á eftir sér, sem verður þér og öllum heiminum þungur í skauti. Þau berast til þess, sem tekur við þessum fátæku, döpru hjörtum og fyrir það verður þeirra hefnt. Ef þú fyrirlítur þetta hins vegar og þrjóskast við, líttu þá bara á, hvern þú hefur fengið upp á móti þér; ef þér lánast þetta og gengur vel, þá skalt þú kalla mig og Guð lygara frammi fyrir öllum heiminum.
Vér höfum áminnt, aðvarað og brýnt nægilega fyrir, þann sem vill hvorki virða þetta né trúa því, skulum við láta sigla sinn sjó, þar til hann lærir af reynslunni. Samt verðum vér að innræta æskulýðnum þetta, að hann gæti sín og feti ekki í fótspor hinnar gömlu, stjórnlausu fylkingar, heldur hafi boðorð Guðs að leiðarljósi, svo að hann þurfi ekki að láta reiði Guðs og refsingu yfir sig ganga. Oss sæmir ekki annað en að mæla og refsa með Guðs orði, en stjórnun opinberra geðþóttaákvarðana tilheyrir furstunum og yfirmönnunum, sem sjálfir eiga að sjá og bera skynbragð á reglufestu í alls kyns verslun og viðskiptum, til þess að hinir fátæku verði ekki undirokaðir eða kúgaðir, og yfirvaldið taki ekki á sig syndir annarra.
Þetta ætti að vera nægileg áminning þess, hvað það er að stela, að ekki má skilja þetta í þröngu samhengi, svo framarlega sem það varðar náunga vorn. Og í stuttu máli má draga þetta þannig saman, eins og hin fyrri boðorð: Fyrst og fremst er bannað að valda náunganum tjóni og ranglæti, (en slíkt er hægt að gera á ýmsa vegu, meðal annars með því að eigna sér muni hans, taka þá frá honum og halda þeim eftir hjá sér) og einnig að samþykkja og leyfa slíkt. Þvert á móti á að hindra og koma í veg fyrir að slíkt gerist og boðið er að málstaður hans sé tekinn og hagur hans bættur og þar sem hann líður neyð, sé honum veitt hjálp og liðsinni, hvort sem hann telst vinur eða óvinur. Hver sá, sem sækist eftir góðum verkum og girnist þau, mun hér finna yfrið nóg af þess háttar verkum, sem eru Guði af hjarta þóknanleg og yndisleg, og fyrir þau vill hann af náð sinni úthella blessun sinni yfir þann mann. Hann mun ríkulega launa það, sem vér gerum náunga vorum til nytsemdar og til að auðsýna vináttu, eins og Salómon konungur kennir í Orðskviðunum: „Sá launar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.“[49] Þarna átt þú ríkan Drottin, sem þú getur reitt þig á og sem lætur þig hvorki líða skort né bresta nokkuð, svo að þú getur með góðri samvisku notið hundraðfalt meira en þú berð úr býtum í vantrausti og ranglæti. Sá sem vill ekki hljóta blessunina, mun hljóta næga reiði og ógæfu.
Áttunda boðorð: Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
Fyrir utan vorn eigin líkama, maka og tímanleg gæði eigum vér enn eitt hnoss, sem vér getum ekki verið án, nefnilega sæmd og gott orðspor. Það snýst um að lifa ekki á meðal fólks í opinberri skömm, fyrirlitinn af öllum. Þess vegna vill Guð, að af orðstír, mannorði og réttlætiskennd verði jafnlítið tekið og af fjármunum og veraldlegum gæðum eða það rýrt. Hver og einn skal því reynast maka sínum, börnum, vinnufólki og nágrönnum trúr. Samkvæmt orðanna hljóðan — þú skalt ekki bera ljúgvitni — á þetta boðorð umfram allt við um opinber réttarhöld, þegar saklaus fátæklingur er ákærður og kúgaður af ljúgvitnum til þess að hann týni lífi, gæðum og sæmd í refsingarskyni.
Svo virðist nú sem þetta komi oss lítið við, en á meðal Gyðinga hefur þetta almennt þótt sjálfsagt mál. Þjóðin laut vissulega góðri stjórnskipan. Og þar sem um slíka stjórn er að ræða, er þessi synd ekki undanskilin. Orsökin er þessi: Þar sem dómari, borgarstjóri, fursti eða annar þjóðhöfðingi situr, þá bregst það ekki að allt gengur fyrir sig samkvæmt skipan heimsins, þar sem enginn vill valda nokkrum tjóni, en allir smjaðra eða þvaðra um ágæti, fjármuni, von eða vináttu, en vegna þess verður fátæklingur að þola kúgun og líða ranglæti og refsingu. Það er plága um gjörvalla jörðina, að sjaldan flytur guðhrætt fólk dómsmál. Fyrir alla muni þarf guðhræddur maður að sitja í dómarasæti, og ekki aðeins guðhræddur, heldur einnig vitur, hygginn, kænn og djarfur. Á sama hátt þarf vitni að vera djarfur maður, en einkum og sér í lagi guðhræddur, því að sérhver sá, sem ætlar sér að dæma öll mál réttilega og komast til botns í þeim, vekur einatt reiði góðs vinar, mágs, nágranna, ríkra manna og voldugra, sem geta gætt hagsmuna hans eða valdið honum tjóni. Því hlýtur sá að vera alveg blindur, sem hvorki sér né heyrir annað en það sem borið er á borð fyrir hann og fellir sinn dóm á slíkum forsendum.
Til þess er þetta boðorð í fyrsta lagi sett fram, að hver og einn hjálpi náunga sínum að ná fram réttlæti sínu og hvorki hindri hann í því né tálmi, heldur efli og verndi það, hvort sem um er að ræða dómara eða vitni og án tillits til þess sem málið snýst um. Og sérstaklega varðar þetta vora háttsettu lögfræðinga. Þeir skulu stefna að því takmarki, að réttlætis og heiðarleika sé gætt í málum; rétt skal vera rétt og á hinn bóginn má ekki snúa út úr, hylma yfir eða þegja, óháð því hvort um er að ræða fjármuni, eignir, sæmd eða völd. Þetta er hluti þessa boðorðs og greinir frá því í grófum dráttum sem fer fram við réttarhöld.
Síðan markar þetta boðorð mun víðara svið, þegar það er fært yfir á andleg réttarhöld eða stjórn, þar sem hver sem er ber ljúgvitni gegn náunga sínum. Þar sem því guðhræddir prédikarar eða kristnir menn eru til staðar, kveður heimurinn upp þann dóm, að þér séu villutrúarmenn, frávillingar, já, þeir kallast uppreisnargjarnir og vantrúaðir. Af þessu leiðir að Guðs orð verður á hinn skammarlegasta og banvænsta hátt ofsótt, lastað, því er refsað með lygum, snúið út úr því og það ranglega túlkað, teygt og togað. En þannig hefur þetta sinn gang, því að sá er háttur hins blinda heims, að hann fordæmir og ofsækir sannleikann og Guðs börn og metur slíkt samt ekki sem synd.
Í þriðja lagi, og það varðar oss öll, bannar þetta boðorð allar syndir tungunnar, þar sem með henni er náunganum gert mein eða gert lítið úr honum. Ljúgvitni er vissulega ekkert annað en verk munnsins; það sem gert er gegn náunganum með munninum vill Guð verja, það væru falskir prédikarar með kenningar og lesti ásamt fölskum dómurum og vitnum með dómum ellegar án dóms og laga með lygum og illu umtali. Þessu tilheyrir ennfremur hinn ógeðfelldi og viðurstyggilegi löstur, að baktala eða slúðra, eins og djöfullinn freistar vor til, og um það væri margt hægt að segja. Þetta er því almenn, skelfileg plága, að vér heyrum frekar slæmt umtal um fólk en gott. Og þótt vér sjálfir séum svo slæmir, að vér getum ekki þjáðst, þar sem náunginn hefur eitthvað ljótt eftir oss, vildum vér heldur láta slá oss gullhamra, en samt gætum vér ekki heyrt það besta, sem sagt er um aðra.
Þess vegna skulum vér leggja oss fram við að forðast slíka ódyggð, og sjá til þess að engum sé falið að dæma eða sakfella náunga sinn, jafnvel þótt hann sjái hann syndga, nema hann hafi skipun til þess að dæma og sakfella. Það er vissulega gríðarmikill mismunur á þessu tvennu, að dæma syndir og vita um syndir. Þú getur sennilega haft vitneskju um þær, en þú skalt ekki dæma þær. Ég get vel séð og heyrt, að náungi minn syndgar, en það er ekki í mínum verkahring að hafa eitthvað gegn honum eftir öðrum. Þegar ég nú gríp inn í, dæmi og sker úr um mál, fell ég í synd, sem er verri en synd náungans. Vitir þú hins vegar af því, þá skalt þú bara láta það sem vind um eyru þjóta og vera þögull sem gröfin, þar til þér verður falið að vera dómari og reka mál á vegum embættisins.
Það kallast nú baktal, þegar vitneskjan er ekki látin liggja í þagnargildi, heldur berst hún áfram og kveðinn er upp dómur fyrirfram yfir henni, og þótt þeir vissu aðeins örlítið um annan mann, gaspra þeir um það í sérhverju skúmaskoti, þeir slefa og smjatta, þar sem þeir geta velt sér upp úr ógæfu náungans, líkt og svínin, sem velta sér í forinni og róta í henni með trýnunum. Slíkt er ekkert annað en að ganga í hlutverk og embætti Guðs, úrskurða og dæma með þyngstu refsingu. Enginn dómari getur af þeim sökum veitt harðari refsingu eða gengið lengra en með því að segja: Þessi er þjófur, morðingi, svikari og svo framvegis. Ef einhver því dirfist að segja slíkt um náunga sinn, gengur hann jafnlangt og sjálfur keisarinn eða annað yfirvald. Ef þú því hefur ekki vald á sverðinu, þá notar þú hina eitruðu tungu þína, náunganum til skammar og tjóns.
Þess vegna vill Guð koma í veg fyrir, að nokkur hafi nokkuð illt eftir náunga sínum, einnig þar sem hann er þegar sekur og hinn veit af því, og enn frekar, ef hinn veit ekki af því og hefur aðeins haft spurnir af því. En svo segir þú: „Á ég þá ekkert að segja, ef þetta er sannleikurinn?“ Svar: „Hvers vegna færir þú það ekki fyrir almennan dóm?“ „Já, en ég get ekki borið vitni opinberlega, þá yrði ég sennilega látinn halda mér saman og í ofanálag yrði mér vísað frá með illu.“ Æ, minn kæri, ert þú nú kominn á bragðið? Ef þú treystir þér ekki til að standa frammi fyrir til þess skipuðum mönnum og axla ábyrgðina, þá skalt þú líka halda þér saman. Ef þú hins vegar veist af því, skalt þú halda vitneskjunni fyrir sjálfan þig og engan annan. Því að ef þú lætur slíkt berast, hvort sem það er satt eður ei, þá ert þú samt í stöðu lygarans, af því að þú getur ekki sannað mál þitt. Þá hagar þú þér eins og illmenni. Þess vegna má enginn taka sæmd og orðstír nokkurs manns frá honum, án þess að búið sé að svipta hann þeim opinberlega fyrirfram. Allt það kallast nú sem sagt að bera ljúgvitni, sem ekki er hægt að færa sönnur á með óyggjandi hætti. Það sem ekki er nægilega sannað á opinberum vettvangi, á enginn að gera heyrinkunnugt eða bera á borð sem sannleika. Í stuttu máli, því sem fer leynt, á að halda leyndu eða refsa leynilega fyrir það, eins og vér munum heyra. Þar sem slefberi verður á vegi þínum, sem rægir annan mann eða svertir mannorð hans, og ef þú segir honum til syndanna, svo hann roðnar af blygðun, þá myndi einhver halda sér saman, sem ella myndi hrella einhvern vesaling, sem er þess vart umkominn að gjalda í sömu mynt. Heiður og sæmd er auðvelt að taka frá manni, en ekki er jafnauðvelt að fá slíkt til baka.
Af þessu sérð þú, að það er hreint út sagt bannað að tala á nokkurn hátt illa um náunga sinn, en þó eru veraldleg yfirvöld undanskilin, prédikarar, faðir og móðir, til þess að þetta boðorð sé samt sem áður skilið svo, að hið illa verði ekki látið óátalið. Samkvæmt orðanna hljóðan segir í fimmta boðorðinu, að engum megi valda líkamlegu tjóni, þó að undanskildum böðlinum. Stöðu sinnar vegna getur hann ekki gert náunga sínum gott, heldur aðeins skaðað hann og valdið honum tjóni en syndgar samt ekki gagnvart boðorði Guðs, þar sem Guð hefur falið honum slíkt embætti á sínum vegum (þar sem hann sjálfur vill refsa samkvæmt hyggju sinni, eins og hann ógnar oss í fyrsta boðorðinu). Á sama hátt felur þetta boðorð í sér, að þrátt fyrir að hver sem er skuli fyrir sitt leyti láta það ógert að dæma og fordæma náunga sinn, þá á það við um þá, sem er falið að gegna þeirri stöðu, sem þeir sinna ekki, að þeir syndga einmitt jafnmikið og þeir sem ekki hafa umboð til slíkrar stöðu, en gera það samt sjálfir. Hér er því nauðsynlegt að tala um hið illa, ákæra og færa fyrir dómstóla, bera upp spurningar og leiða fram vitni. Þetta er rétt eins og með lækni, sem einatt þarf að líta á leynilega staði og kanna þá, til þess að sá sem hann á að græða, öðlist heilbrigði. Yfirvöldin, faðir og móðir, já, einnig bræður og systur og aðrir góðir vinir, hafa þeim skyldum að gegna að refsa fyrir hið illa, þar sem það er nauðsynlegt og viðeigandi.
Það væri hins vegar réttast að halda boð Ritningarinnar. Í Matteusarguðspjalli segir Kristur: „Ef bróðir þinn syndgar gegn þér, skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli.“[50] Þar hefur þú mikilsverða og ágæta fræðslu um það, hvernig á að stjórna tungunni vel, sem vel að merkja brýtur í bága við hefðbundna misnotkun. Gættu þín þess vegna nú á því að rægja hvorki né baktala, heldur áminna hann leynilega, að hann bæti ráð sitt. Ef einhver annar á sama hátt pískrar í eyra þér hvað hinn eða þessi hefur gert, bentu honum þá einnig á það að fara sjálfur og ávíta viðkomandi, ef hann hefur séð það, en ef ekki, þá skal hann halda sér saman.
Slíkt getur þú líka lært af daglegu heimilishaldi. Þetta gerir einmitt húsbóndinn. Þegar hann sér, að þjónninn gerir ekki það sem honum ber, þá talar hann sjálfur við hann. Hefði hann á hinn bóginn verið svo fávís að láta þjóninn sitja heima, fara út á göturnar og klaga í nágrannana, myndi hann ugglaust þurfa að heyra: „Flónið þitt, hvað kemur oss þetta við, hvers vegna segir þú honum þetta ekki sjálfur?“ Sjáðu til, það mál hefði verið leyst í bróðerni, þar sem bætt væri fyrir brotið og mannorð náunga þíns héldist óflekkað. Það er eins og Kristur segir sjálfur í Matteusarguðspjalli: „Láti hann sér segjast, þá hefur þú unnið bróður þinn.“[51] Þá hefur þú unnið mikið, ágætt verk. Telur þú það því lítilsvert að vinna bróður þinn? Leyfum bara öllum munkum og heilögum stéttum að koma fram með öll sín verk, og látum á það reyna, hvort þær geta hrósað sér af því að hafa unnið einn einasta bróður?
Kristur kennir áfram: „En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.“[52] Maðurinn á þannig að útkljá málin sjálfur, þar sem þess er krafist, og baktala hann ekki gegn betri vitund. En ef slíkt dugar ekki til, þá skal leggja málið undir dóm safnaðarins, fram fyrir andlegan og veraldlegan dómstól. Hér ert þú ekki einn á ferð, heldur vitna allir með þér, en vegna þeirra getur þú fært sönnur á hinn seka, sem dómarinn getur stuðst við, dæmt og refsað. Þannig er það hægt á löglegan og réttlátan hátt að gæta hagsmuna illgjörðamannsins, svo að hann bæti ráð sitt. Sé hins vegar gasprað um það í sérhverju skúmaskoti og öllu hleypt upp, verður enginn neinu bættari og loks, þegar standa skal upp og bera vitni, hefði allt verið betur látið ósagt. Þess vegna myndu slíkir orðhákar fá makleg málagjöld, ef þeir fengju til tevatnsins, öðrum til viðvörunar. Ef þú gerðir það til þess að bæta ráð náungans eða vegna sannleiksástar, myndir þú hvorki fara leynt né fælast dagsljósið.
Allt á þetta við um leynilegar syndir. Þar sem syndin hins vegar er á opinberum vettvangi og dómarinn og allir vita vel af henni, þá getur þú án þess að syndga nokkuð forðast hann og látið hann lönd og leið, þar sem hann hefur sjálfur orðið sér til skammar, og auk þess er hægt að vitna gegn honum opinberlega. Það sem er opinbert um hábjartan daginn, getur ekki verið baktal, falskur dómur eða ljúgvitni. Þar af leiðir, að vér megum refsa páfanum fyrir kenningu sína, sem er augljóslega að finna í opinberum bókum og er úthrópuð um allan heim. Þar sem því syndin er opinber, á opinber refsing að sigla í kjölfarið, svo að hver og einn sjái að sér og gæti sín.
Hér höfum vér sem sagt í stuttu máli almennan skilning á þessu boðorði, að enginn vinni náunga sínum tjón með tungunni, vini eða óvini, eða tali illt um hann (hvort sem það er satt eða logið), nema það sé vegna tilskipunar eða til yfirbótar, heldur noti tungu sína til þess að laða fram það besta í náunga sínum, breiða yfir syndir og afbrot, afsaka þær og þannig fegra og prýða sæmd hans. Ástæðan er umfram allt þessi, sem Kristur bendir á í Matteusguðspjallinu, þar sem hann tekur saman öll boðorðin um náungann: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.“[53]
Þetta kennir náttúran einnig á vorum eigin líkama, eins og Páll postuli segir í fyrra Korintubréfi: „Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi. Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi.“[54] Andlitið, augun, nefið og munninn getur enginn hulið, því að það má ekki, þar sem þetta eru mest heiðruðu líkamshlutarnir, sem vér höfum. En hina allra brotlegustu, sem vér skömmumst vor fyrir, hyljum vér ákaft. Þá þurfa hendurnar og augun, ásamt öllum líkamanum að aðstoða við að hylja og skýla. Vér eigum einnig að bera oss þannig að innbyrðis, að breiða yfir afbrotin og vansæmdina hjá náunga vorum og þjóna hagsmunum hans eftir mætti, hjálpa og styðja og á hinn bóginn koma í veg fyrir það sem gæti orðið honum til vansæmdar. Það er einnig sérstaklega góð og göfug dyggð að útleggja allt sem vér heyrum um náunga vorn, (sé það ekki opinberlega slæmt) á hinn besta veg og verja hann gegn eitruðum orðhákum, sem er svo mikið í mun að notfæra sér allt til framdráttar, sem mögulegt er, náunganum til ama og tjóns, eins og nú tíðkast með hið kæra Guðs orð og prédikara þess.
Í þessu boðorði eru því sérlega mörg góð og gildishlaðin verk tekin saman, sem Guði eru á hæsta máta þóknanleg og hafa ómetanlega gæsku og blessun í för með sér, ef hinn blindi heimur og hinir fölsku dýrlingar gætu aðeins viðurkennt það. Það er því ekkert í öllum manninum eða við hann, sem í ríkari mæli getur gert gagn eða unnið meira tjón í andlegum og veraldlegum skilningi en tungan, jafnvel þótt hún sé minnsti og veikasti limurinn.
Níunda og tíunda boðorð: Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.
Þessi tvö boðorð eru strangt til tekið sérstaklega ætluð Gyðingunum, þó svo að þau varði oss líka að vissu leyti. Þeir leggja hvorki út frá saurlífi né þjófnaði, því að samkvæmt áðurnefndum boðorðum hefur verið lagt nógu blátt bann við slíku. Þess vegna álitu þeir líka, að þeir hefðu haldið þau öll, ef þeir hefðu framkvæmt hin ytri verk eða látið þau eiga sig. Þess vegna hefur Guð sett þessi tvö boðorð til viðbótar, til þess að haft sé í huga, að það er synd og bannað að girnast konu náungans eða eignir hans eða á nokkurn hátt að falast eftir þeim. Og taka verður sérstakt tillit til þess, að undir stjórn Gyðinga var þjónum og þernum ekki frjálst eins og nú að þiggja laun eins lengi og þau lysti, heldur voru þau eign húsbænda sinna ásamt líkama sínum og öllu, eins og búfénaður og önnur gæði. Þar að auki hafði sérhver maður vald til þess að skrifa eiginkonu sinni skilnaðarbréf og reka hana þannig frá sér til þess að taka sér nýja. Þá gátu þeir hver um sig staðið frammi fyrir þeirri hættu, þar sem einhvern langaði í eiginkonu náunga síns, að þurfa að finna sér átyllu til að losa sig við eiginkonu sína og fá hinn til þess að gera slíkt hið sama við eiginkonu viðkomandi, svo að hann gæti með fullum rétti tekið hana til sín. Slíkt taldist nú hvorki synd né skömm hjá þeim, eins lítil og nú gagnvart þjónustufólkinu, þegar húsbóndinn segir því upp eða fær þjónustufólk frá öðrum til sín.
Þess vegna hafa þeir nú að mínu mati lagt þá merkingu í þetta boðorð, sem einnig er rétt, þótt þeir leggi á vissan hátt víðari og æðri skilning í það, að enginn skuli hafa í hyggju að eigna sér það sem náungans er undir yfirskini og tilefni, eins og eiginkonu, vinnufólk, hús og jarðeign, akra, bújarðir og fénað, náunganum eftir sem áður til tjóns. Eins og vísað er áður til í sjöunda boðorðinu er sú ódyggð bönnuð að hrifsa til sín réttmætar eigur náunga síns eða eigna sér þær, þar sem enginn hefur rétt til slíks. Hér er hins vegar einnig komið í veg fyrir að nokkur verði náunganum ótryggur, þó svo að slíkt sé mikils metið í heiminum, til þess að enginn megi lasta eða ávíta þig, eins og þú hafir áunnið þér það með órétti. Eðli náttúrunnar er nú þannig, að enginn ann neinum þess að eiga jafnmikið og maður á sjálfur og að sérhver maður vinnur sér ævinlega inn eins mikið og hann getur komist upp með, og einhver annar fær það sem eftir er til skiptanna. Og fyrir slíkt viljum vér teljast guðhrædd, getum skreytt oss með stolnum fjöðrum og hlíft illmenninu, uppgötvað ýmiss konar klæki og bellibrögð (eins og dagleg snilldaruppátæki sýna nú fram á), líkt og vér djarflega teljum oss mega skírskota til þessa réttar, þrjóskumst við og viljum ekki nefna slíkt undirferli, heldur dugnað og varkárni. Þarna hjálpa einnig lögfræðingar og málafærslumenn til við að snúa málum sér í vil, snúa út úr orðum sér til framdráttar, óháð sanngirni þeirra eða hagsmunum náungans. Í stuttu máli, í slíkum málum nýtur sá sem er hæfastur og hyggnastur mestrar hjálpar réttarins, eins og einnig er sagt: Vigilantibus iura subveniunt — Rétturinn kemur þeim forsjálu til hjálpar.
Af þeim sökum er þetta síðasta boðorð ekki tileinkað illgjörðamönnum heimsins, heldur einmitt sett fram fyrir hina guðhræddu, sem vilja njóta virðingar, sem kallast ráðvandir og heiðarlegir, eins og þeir hafi ekkert brotið gegn fyrri boðorðum, eins og Gyðingar vildu einkum gefa sig út fyrir að vera, og ekki síðri heiðursmenn, herrar og furstar. Almenningur situr hins vegar skör lægra samkvæmt sjöunda boðorðinu, þar sem hann spyr ekki mikið um það, hvernig hann geti áunnið sér það sem honum ber með sæmd og rétti.
Þannig á þetta sér nú stað að mestu leyti í málum, sem flutt eru fyrir rétti, þar sem tekið er fyrir að hafa eitthvað af náunganum og bola honum frá. Eins og þar sem deilt er um og fengist er við mikinn arf, eignir á glámbekk (eins og vér gefum dæmi um), þá er vísað til þess og það notað til framdráttar, sem aðeins er rétt að sáralitlu leyti, það blásið upp og fegrað, til þess að úrskurðurinn falli einum í skaut og eignum verði haldið undir því yfirskini, að enginn geti klagað eða gert kröfur til þess. Á sama hátt gerist það, þegar einhvern fýsir í höll, borg, lén eða eitthvað annað stórt, og fær til þess fjármuni fyrir vináttu og sér til þess með öllum tiltækum ráðum, að forræðið verði dæmt af öðrum og það sé honum sjálfum úrskurðað, staðfest með bréfi og innsigli, undirrituðu af furstanum, að hann hafi unnið heiðarlega fyrir því.
Á sama hátt gildir það í almennum viðskiptum, þar sem annar þrífur það fimlega úr hendi hins, sem gefur upp alla von um um að endurheimta, eða nær taki á honum og kúgar hann, þar sem hann sér hag sinn og kosti í því, að sá geti ef til vill ekki vegna nauðþurftar eða skulda átt það eða borgað lausnargjald fyrir það, sem leiðir til þess að sá borgar ekki nema hálfvirði eða minna, og getur samt sem áður ekki hafa tekið það eða hnuplað því, heldur hefur keypt það heiðarlega. Þá er tekið svo til orða: „Fyrstur kemur, fyrstur fær,“ og eins: „Maður, líttu þér nær.“ Hver og einn verður að ná í það, sem í boði er. Og hver vill teljast svo snjall að komast að öllum þeim brögðum, sem hægt er að beita undir svo fögru yfirskini til þess að ná því til sín, sem heimurinn telur á engan hátt rangt að gera og vill ekki sjá, að náunginn bíður skaða af því og verður að afsala sér því, sem hann á erfitt með að vera án, þar sem enginn vill láta gera sér slíkt? Þess vegna má ganga út frá því, að slík undanbrögð og yfirskin séu röng.
Þannig átti þetta sér stað á meðal kvenna fyrr á tímum: Brögð gátu verið að því, væri karlmaður hrifinn af konu, að annaðhvort hann sjálfur eða einhver annar gat með ýmsum hugsanlegum aðferðum eða brögðum búið svo um hnútana, að eiginmaður hennar yrði leiður á henni og losaði sig við hana eða hann hegðaði sér þannig við hana, að hún yrði honum fráhverf, þannig að hann neyddist til þess að skilja við hana og láta hana náunganum eftir. Slíkt hefur vafalaust haft sterk áhrif á lagasetninguna, eins og lesa má í guðspjallinu um Heródes konung, sem gekk að eiga eiginkonu síns eigin bróður, á meðan sá var enn á lífi, en þó vildi hann vera sómakær og guðhræddur maður eins og vitnisburður Markúsarguðspjalls[55] felur í sér. En ég vona að slík dæmi muni ekki eiga sér stað á meðal vor, því að samkvæmt Nýja testamentinu eru hjónaskilnaðir bannaðir. Í slíkum tilfellum væri því svo háttað, að einhver myndi með slægð ná ríkri brúði frá öðrum. Það vekur hins vegar enga furðu á meðal vor, að einhver myndi laða þjón annars manns eða þernu til sín ellegar narra með fögrum fyrirheitum.
Þetta verður allt að hafa sinn gang. Vér skulum vita, að Guð vill ekki hafa það, að þú takir nokkuð það frá náunga þínum, sem honum tilheyrir, svo að hann skorti það og þú fáir síngirni þinni fullnægt, hvort sem þú heldur sæmd þinni frammi fyrir heiminum eður ei. Þetta er af þeim sökum leynilegur og lymskulegur fláttskapur þar sem leikið er tveimur skjöldum, eins og sagt er, svo ekkert beri á. Þótt þú látir eins og þú hafir engum gert rangt til, þá ert þú samt of ásækinn gagnvart náunga þínum. Og ef það kallast hvorki að stela né svíkja, þá kallast það samt að girnast eignir náunga síns; þ.e. að sækjast eftir því sem hans er og hnupla því gegn vilja hans og unna honum þess ekki, sem Guð hefur eignað honum. Og hvort sem dómarinn eða einhver annar felur þér það, þá líður Guð slíkt ekki, því að hann sér hið slóttuga hjarta þitt og hinn lymskulega verknað heimsins, þar sem öll höndin er tekin þegar litli fingur er boðinn fram, og opinber óréttur og valda-græðgi sigla í kjölfarið.
Þannig skiljum vér þessi boðorð almennt. Fyrst og fremst er bent á, að ekki má girnast nokkuð það, sem orðið gæti náunganum til tjóns, og hjálpi heldur hvorki til þess né gefi tilefni til þess, heldur unna honum þess og láta hann halda því sem hann á. Auk þess ætti að efla og ýta undir það sem gæti orðið að gagni og þjónustu, eins og vér sjálfir vildum. Þessu er þannig sérstaklega stillt upp gegn þeirri óvild og hinni hvimleiðu síngirni, sem Guð vill uppræta með öllum ráðum, en þar er undirrót alls þess, sem náunginn getur beðið skaða af. Þess vegna er þetta einnig orðað svo skýrt: „Þú skalt ekki girnast…“ og svo framvegis. Hann vill því einkum, að hjörtun séu hrein, þótt vér, sem hér lifum, komumst ekki svo langt. Þessi boðorð eru þannig eins og öll hin, stöðug ákæra gegn oss og sýnir oss, hversu réttlát vér erum frammi fyrir augliti Guðs.
Niðurlag boðorðanna tíu í heild.
Nú höfum vér lokið yfirferð boðorðanna tíu, sem er samantekt hinnar guðdómlegu kenningar um það, sem vér þurfum að gera til þess að allt vort líf þóknist Guði, og hinn rétti brunnur, hin sanna uppspretta allra góðra verka. Það er sú lind sem allt streymir frá og allt á að renna til, sem nefna skal góð verk, þannig að hvaðeina, sem stendur utan við boðorðin tíu, hvort sem um er að ræða verk eða veruleika, getur ekki verið Guði þóknanlegt, hversu mikilfengleg eða stórkostleg þau kunna að vera í augum heimsins eins og raun ber vitni. Sjáðu nú til, hvernig vorir miklu dýrlingar geta hrósað sér af sínum andlegu reglum og miklu og erfiðu verkum, sem þeir hafa sjálfir fundið upp og tekið upp á, á meðan þeir hafa sleppt hinum, eins og þau þættu of lítilfjörleg eða fyrir löngu til lykta leidd. Ég álít, að menn ættu að hafa fullt í fangi með að halda til fullnustu boðin um mildi, þolgæði og kærleika gagnvart óvinum, skírlífi, velgjörðir og svo framvegis, og það sem þarna er komið inn á. En slík verk eru einskis virði og augu heimsins taka ekki eftir þeim. Þau vekja enga furðu og eru ekki blásin upp og bundin tilteknum tíma, stað, háttum og tilburðum, heldur almennum, daglegum heimilisverkum, sem einn getur gert gagnvart náunga sínum. Þess vegna er þeim enginn gaumur gefinn. Hins vegar glenna sumir upp augun og sperra eyrun, og þeir sjálfir gera sitt til þess með mikilli viðhöfn, tilkostnaði og glæsilegum byggingum sem þeir skreyta svo, að allt hlýtur að ljóma og lýsa, þar er kveikt á reykelsi, þaðan berast ómar og hljómar, þar er kveikt á kertum og ljósum, svo að hvorki sé hægt að sjá né heyra nokkuð annað fyrir þessu. Þegar prestur stendur þar skrýddur gylltum hökli eða leikmaður liggur allan daginn á knjánum í kirkjunni, kallast slíkt stórkostlegur verknaður sem enginn fær nógsamlega lofað. En þegar fátæk stúlka gætir ungabarns og sinnir því af trúmennsku, sem henni er falið, þá er það einskis metið. Hvers ættu annars munkar og nunnur að leita í klaustrum?
En sjáðu til, er það ekki fáheyrð ósvífni hinna efagjörnu dýrlinga, þar sem þeir dirfast að telja sig æðri og betri þeim stéttum, sem læra boðorðin tíu og það sem þau standa fyrir, eins og sagt er? Þess háttar líferni hæfir almúgamanninum, en hitt er ætlað hinum heilögu og fullkomnu. Og sjá þeir ekki hið aumkunarverða, blinda fólk, sem enginn maður getur fylgt svo áleiðis, að það haldi eitt boðorðanna tíu, eins og ætlast er til. Trúarjátningin og Faðir vor verða á hinn bóginn að koma til hjálpar eins og vér munum heyra, þar sem fyrir slíkt er leitað eftir hjálp, beðið um og tekið við aðstoð án afláts? Þess vegna hrósa þeir sér beinlínis of mikið, rétt eins og ég sjálfur hrósaði mér og segði: „Ég hef að vísu engan smáeyri á mér til að borga, en tíu gyllini treysti ég mér hins vegar til að borga.“[56]
Þetta mæli ég og vek athygli á því, svo að hinni hvimleiðu misnotkun verði eytt, sem hefur skotið svo djúpum rótum og loðir við alla, og séð verði til þess, að allar stéttir á jörðinni venji sig við þau {boðorðin} og sinni þeim. Enn um sinn mun engin sú kenning eða stétt koma fram, sem jafnast á við boðorðin tíu, því að þau eru svo háleit, að enginn mannlegur kraftur fær þau staðist, og sá sem fær þau staðist, er himneskur engill í mannsmynd, hafinn yfir alla helgi heimsins. Gefðu þeim því gaum og leggðu þig fram af öllum lífs og sálar kröftum, svo að þú munir hafa það mikið fyrir stafni, að þú leitir ekki annarra verka eða helgi eða veitir þeim athygli. Þetta ætti að nægja um fyrsta hlutann, bæði til lærdóms og áminningar. Samt ættum vér í lokin að endurtaka textann, sem vér fjölluðum einnig áður um í fyrsta boðorðinu, þar sem læra skal, hvílíka áherslu Guð leggur á þetta, að kennt verði að tileinka sér og iðka boðorðin tíu:
„Því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.“[57]
Þó að þessari skipun sé, eins og áður hefur verið nefnt, skeytt aftan við fyrsta boðorðið, er hún sett fram með hliðsjón af öllum boðorðunum, þar sem þau miða öll að sama marki og ganga út frá því. Þess vegna hef ég sagt, að slíku ætti að halda að æskulýðnum og blása þeim honum í brjóst, svo að hann læri þau og haldi, og sjái það sem knýr oss og þvingar til þess að halda þessi tíu boðorð. Og það ætti ekki að líta á þessa tilvísun öðruvísi en þannig, að henni sé skeytt sérstaklega við sérhvert þeirra eins og hún gangi sem rauður þráður í gegnum þau. Nú eru (eins og áður segir) bæði reiðiþrungin ógnarorð og vingjarnleg fyrirheit tekin saman í þessum orðum, oss til skelfingar og viðvörunar, til þess ætluð að leiða oss og laða að orði hans. Guði er alvara með boðorð sín og oss ber að meta þau mikils, því að hann sjálfur gefur í skyn, að hann leggur ríka áherslu á þau og rækilega hlýðni við þau. Hann mun einmitt refsa öllum þeim grimmilega og skelfilega, sem fyrirlíta boðorð hans og traðka á þeim, en á hinn bóginn vill hann launa þeim ríkulega, gera þeim gott og gefa þeim af gæsku sinni, sem meta þau mikils og vilja fúslega framkvæma þau og lifa eftir þeim. Þannig krefst hann þess, að þau verði öll haldin af hjarta, sem óttast Guð einvörðungu og hafi hann að leiðarljósi og í þeim ótta láti af öllu því, sem stendur gegn vilja hans til þess að reiði hans verði ekki vakin. Þvert á móti treystir það á hann einvörðungu og framkvæmir vilja hans af elsku, því að hann kemur fram sem vingjarnlegur faðir og býður oss alla náð sína og mildi.
Þessi er einmitt líka merkingin og hin rétta útlegging fyrsta og æðsta boðorðsins, sem öll hin eiga að spretta upp af og ganga út frá. Þessi orð, „þú skalt ekki aðra guði hafa“, segja ekkert annað en það, sem hér er einfaldlega krafist: „Þú skalt aðeins óttast mig sem hinn eina rétta Guð þinn, elska og treysta á mig.“ Þar sem hjartað hegðar sér svo gagnvart Guði, hefur það uppfyllt þetta og öll önnur boðorð. En hins vegar mun sá, sem óttast og elskar eitthvað annað á himni og á jörð, hvorki halda þetta né nokkurt annað boðorð. Öll Ritningin hefur prédikað þessi boðorð alls staðar og heimfært allt til þessara tveggja hugtaka, guðsótta og guðstrausts. Einkum og sér í lagi gengur þetta eins og rauður þráður í gegnum sálma Davíðs spámanns, eins og hann segir í 147. sálmi: „Drottinn hefur þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans,“[58] rétt eins og allt boðorðið endurspeglaðist í einu versi og segir alveg það sama og hér stendur: „Drottinn hefur þóknun á þeim, sem enga aðra guði hafa.“
Þannig á fyrsta boðorðið að lýsa og veita öllum hinum af skini sínu, og þess vegna þarft þú líka að láta þennan hluta ganga í gegnum alla hina, eins og lás við hlekkjajárn, sem bindur endana saman frá upphafi og heldur öllu saman, þannig að þau verði sífellt endurtekin og ekki gleymd. Í öðru boðorðinu er oss er skipað að óttast Guð og leggja nafn hans ekki við hégóma með bölvi, lygum, svikum og öðrum vélabrögðum eða illgjörðum, heldur nota það vel og réttilega með ákalli, bæn, lofgjörð og þakklæti af kærleika og trausti, sem oss er áskapað samkvæmt fyrsta boðorðinu. Á sama hátt eiga slíkur ótti, kærleikur og traust að efla og koma í veg fyrir að orðið verði fyrirlitið, heldur lært, heyrt, haldið heilagt og virt.
Síðan er haldið áfram í gegnum næstu boðorð gagnvart náunganum á sama hátt, allt út frá kraftinum í fyrsta boðorðinu; að borin sé virðing fyrir föður og móður, húsbændum og öllum yfirvöldum, undirgefni og hlýðni auðsýnd, ekki þeirra vegna, heldur vegna Guðs. (Þú skalt því hvorki virða né óttast föður né móður eða gera þeim til geðs eða láta það vera, veittu því frekar eftirtekt sem Guð ætlast til af þér og heimtar; ef þú lest það, þá hefur þú reiðan dómara eða á hinn bóginn náðugan föður.) Á sama hátt skalt þú ekki vinna náunga þínum nokkurt mein, tjón og sýna yfirgang eða gerast á nokkurn hátt svo nærgöngull. Einu gildir, hvort um er að ræða líkama hans, maka, eignir, sæmd eða réttindi, eins og boðið er samkvæmt réttri röð. Það skalt þú heldur ekki gera, jafnvel þótt þú hafir tækifæri eða ástæðu til þess og enginn maður myndi refsa þér fyrir slíkt, heldur skalt þú gera hverjum manni gott, hjálpa honum og aðstoða hann, hvernig og hvar sem þú færð því við komið, elska aðeins Guð og þóknast honum í trausti þess, að hann muni launa þér allt ríkulega. Af þessu sérð þú, að fyrsta boðorðið er meginmálið, svalalindin, sem streymir í gegnum öll hin og þau sækja sífellt í og byggjast á, þannig að endir og upphaf tengjast og bindast saman.
Þannig tel ég nú ætíð gagnlegt og nauðsynlegt að halda slíku að æskulýðnum, hvetja og áminna, svo að hann verði ekki alinn upp með barsmíðum og kúgun eins og búfénaðurinn, heldur í guðsótta og góðum siðum. Þar sem það er ígrundað og íhugað, að þetta eru ekki mannasetningar, heldur boðorð hinnar hæstu konungstignar, sem hann vakir svo alvarlega yfir, reiðist og refsar þeim sem fyrirlíta þau, og hins vegar endurgeldur þeim svo ólýsanlega mikið, sem halda þau, og af því leiðir hvatning og áskorun til þess að framkvæma fúslega Guðs vilja. Þess vegna er ekki að ástæðulausu skipað svo fyrir í Gamla testamentinu,[59] að skrifa eigi boðorðin tíu á alla veggi og í alla afkima, já, á flíkurnar, ekki einungis í þeim tilgangi að þau skyldu skrifuð upp og höfð til sýnis, eins og Gyðinga er háttur, heldur að þau séu án afláts höfð fyrir augum og hugleidd í verki og háttum. Hver og einn ætti einnig að iðka það daglega við allar aðstæður, í verslun og viðskiptum eins og stæði það skrifað á öllum stöðum, þar sem sjá má það, já, hvar sem gengið er eða staðið. Þannig gæfist kostur á því, bæði á eigin heimili og gagnvart nágrannanum, að fylgja boðorðunum tíu, án þess að nokkur þyrfti af þeirri ástæðu að leita langt yfir skammt.
Af þessu má enn og aftur sjá, hversu háleit og mikils metin boðorðin tíu eru, æðri öllum stéttum, boðum og verkum, sem annars ber að hafa fyrir að læra. Hér getum vér sagt drýgindalega: Láttu alla vitra og heilaga stíga fram og sýna, hvort þeir geta komið fram með verk sem slær þessum boðorðum við, sem Guð felur oss og skipar að halda, gegn þyngstu reiði sinni og refsingu, en gefur hið dásamlegt fyrirheit, að hann vill úthella yfir oss öllum gæðum og allri blessun. Af þeim sökum ber að meta þau umfram allt annað sem hina dýrustu og verðmætustu kenningu, eins og hið mesta hnoss, gefið af Guði.
[1] Hún var drepin í ofsóknum gegn kristnum mönnum árið 248 eða 249. Þar sem tennur hennar voru slegnar úr henni, var hún talin veita góða hjálp við tannpínu.
[2] Rómverskur djákni og píslarvottur, brenndur á báli árið 258.
[3] Píslarvottur, sem á að hafa verið drepinn með ör á 4. öld.
[4] Dýrlingur á miðöldum (1295-1327). Hann annaðist sjúka, sem voru langt leiddir.
[5] Líklega er Lúther að hugsa um söguna af dr. Faust, sem hann talar annars staðar um. Faust var töframaður og skottulæknir á 16. öld sem varð frægur í goð- sögnum og bókmenntum.
[6] Júpíter var æðsti guðinn samkvæmt trú Rómverja.
[7] Sú trú var ríkjandi, að Herkúles (gríska: Herakles) og Merkúr (gríska: Hermes) veittu ríkidæmi og hagsæld.
[8] Venus var hin rómverska ástar- og frjósemigyðja (hin gríska Afródíta).
[9] Díana var veiðigyðja, en einnig frjósemigyðja sem tilbeðin var við barns- fæðingar.
[10] Lúsía var einnig tilbeðin við barnsfæðingar.
[11] Gjafir í formi erfða eða jarðeigna í góðum tilgangi, voru hugsaðar Guði til vegsemdar.
[12] Á föstu var, ásamt bænum og ölmusum, litið sem athöfn, sem ávinningur var talinn í.
[13] Á miðöldum (og æ síðan innan rómversku kirkjunnar) var algengt að telja hag sínum best borgið um eilífð með því að halda fjölskyldu sinni, maka sínum og öðrum nákomnum messu (það eru hinar svokölluðu „sálumessur“).
[14] „Yfirdrifin verk“: Því var almennt trúað, að með því að Kristur og dýrlingarnir gerðu meira en þeir þyrftu, strangt til tekið, hefðu þeir aflað „fjársjóðs“ góðra verka, sem nota mætti þeim til hjálpar, sem minna máttu sín. Þannig byggðist kenningin um aflát, þ.e.a.s. uppgjöf saka fyrir syndir, bæði hér á jörðu og í hreinsunareldinum, á hugsuninni um fjársjóð annarra góðra verka, sem kirkjan gæti ráðstafað.
[15] Á þýsku nefnist Guð „Gott“ og góður merkir „gut“. Þó svo að orðin séu lík, eins og raunin er í öllum germönskum tungumálum, er ekki um sama orð að ræða, eins og Marteinn Lúther telur.
[16] 2M 20.5-6.
[17] Hér hefur Lúther auðvitað í huga alla þá boðun, sem að hans mati er röng, en örugglega fyrst og fremst þá andstæðinga sína á meðal boðendanna, sem hann kallar „vingltrúarmenn“.
[18] Hér eru allir þeir hafðir í huga, sem hafa dæmt boðun Lúthers og fylgismanna hans sem villutrú, en ekki síst þeir furstar, sem hafa staðið í vegi fyrir því, að fagnaðarerindið verði prédikað.
[19] 2M 20.7 (samkvæmt þýðingu Lúthers).
[20] Sl 50.15.
[21] Lúther hefur í huga Mt 5.33-37.
[22] Samkvæmt helgisögn var hann biskup í Myra í Litlu-Asíu (Tyrklandi) á 4. öld. Á miðöldum var sérstaklega litið á hann sem barnavin, en síðan hefur það tengt hann undirbúningi jólanna samkvæmt þjóðtrúnni, þar sem hann er hin eiginlega fyrirmynd jólasveinsins (Santa Claus).
[23] Hér er talað um hina svonefndu „karþeusarsinna“ eða karþusiana, sem var munkaregla, stofnsett árið 1084. Hún er oft nefnd, þegar Lúther nefnir dæmi um sérstaklega stranga reglu.
[24] Sjá 1M 2.3.
[25] Sjá til dæmis Mt 12.1-13.
[26] Það varð snemma hinn almenni, kristni skilningur innan fornkirkjunnar, að þau lög, sem skrifuð standa í Mósebókunum og í dag eru við lýði í gyðingdómi, eiga ekki við um kristna trú. Hér segir Lúther, að boðorð Gyðinga um hvíldardaginn eigi við um kristindóminn. Í því samhengi má benda á, að Lúther tók boðorðin tíu með í Fræðin, vegna þess að hann áleit, að í þeim væri skýrt og greinilega gerð grein fyrir því, hvaða merking væri lögð í kærleikann til Guðs og náungans. Hann tók þau ekki með, vegna þess að honum bæri skylda til þess, heldur aðeins vegna þess að hann taldi þau gagnleg.
[27] Hér sést greinilega, að Lúther ætlast ekki til þess að það sem átti við um hvíldardaginn (laugardaginn) samkvæmt Móselögum verði yfirfært á sunnudaginn. Hann bendir á tvennt: 1) Hvíldardagur er einfaldlega nauðsynlegur manninum sjálfum. 2) Fram að þessu hefur guðsþjónustuhald átt sér stað á sunnudögum og það er ástæðulaust að hrófla við því. En hjá kristnu fólk er eiginlega ekki um „helgar tíðir“ að ræða.
[28] Hinar „upplognu“ stéttir eru andlegar stéttir, vegna þess að allir skírðir menn eru prestar. Þeir geta þar með komið fram fyrir Guð án allra annarra milligöngu- manna en Jesú Krists. Það embætti kirkjunnar, sem Lúther á hér við, er þjónusta orðsins í söfnuðinum. Það gerir þjón orðsins ekki hærra settan en söfnuðinn, eins og hin andlega stétt var talin taka öllum veraldlegum stéttum fram. Það er því fyrst og fremst skilningur rómversku kirkjunnar á prestsembættinu, sem Lúther hefur hér í huga.
[29] Orðið „acedia“ er skrifað með k í þýsku, dönsku og færeysku. Hér er hins vegar notast við latneska stafsetningu.
[30] þ.e. foreldrarnir.
[31] Líklega hefur Lúther hér haft í huga spekinginn Aristóteles.
[32] 2M 20.12.
[33] Ef 6.2-3.
[34] Böðullinn er sá maður, sem framkvæmir þá refsingu sem dómstóllinn úrskurðar.
[35] Sl 109.13.
[36] Pater patriae, eiginlega „faðir föðurlandsins“, var rómverskur sæmdartitill, sem féll keisaranum sjálfkrafa í skaut á keisaratímanum.
[37] Lúther hefur hér í huga áminningu til presta: Pater, þ.e.a.s. faðir. Einnig má telja hugsanlegt að um páfann sé að ræða. Papa merkir einnig faðir og á sér trúlega skírskotun í íslenska gæluheitið „pabbi“.
[38] 1Kor 4.15.
[39] 1Kor 4.13.
[40] 5M 21.18-20.
[41] Mt 5.20-26. Lengi vel var þetta guðspjallstexti 6. sunnudags eftir þrenningar- hátíð.
[42] Mt 25.42-43.
[43] Mt 5.46-47.
[44] Lúther víkur hér að aðskilnaði miðalda á „guðlegum boðorðum“ og „ráðleggingum fagnaðarerindisins“. Eftir þessa aðgreiningu bar aðeins að fara eftir boðorðunum, á meðan ekki þurfti nauðsynlega að fara eftir ráðleggingunum, sem gátu meðal annars átt við fátækt eða einlífi, en einnig kærleik til óvina, þar sem þetta voru einmitt aðeins ráðleggingar, ætlaðar þeim sem vildu lifa fullkomnu lífi. Lúther var mótfallinn þessari aðgreiningu, vegna þess að hún gerði á vissan hátt lítið úr boðorðum Guðs. Að hluta til leiddi hún til sóknar eftir „góðum verkum“, eins og hann áleit að einkenndi klausturlifnaðinn.
[45] Á miðöldum var algengt að kalla klausturlifnað „stétt fullkomnunarinnar“, einmitt vegna þess að klausturheitin gáfu þau loforð, að allt rættist, sem skilja mátti sem „ráðleggingar fagnaðarerindisins“.
[46] Það er alveg ljóst hér, rétt eins og á einnig við um 3. boðorðið, hvernig Lúther hagnýtir sér boðorðin tíu sem kennslu í því, sem kærleikur til Guðs og náungans felur í sér, án þess að hann sé á nokkurn hátt bundinn af gyðinglegri merkingu boðorðsins.
[47] Sjá hér Ef 5.21-22 og 5.25: „Konurnar (undirgefnar) eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn.“ Og: „Þér menn, elskið konur yðar, eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“
[48] Lúther hefur í huga skattlagningu páfans af kirkjulegum embættum og talsverða fjárhæð, sem reiða þurfti fram í hvert sinn, sem þurfti að reka mál við páfadómstólinn í Róm. Aflátssala páfa, sem upprunalega hafði knúið Lúther fram á ritvöllinn, (tesurnar 95 þann 31. október 1517) á rót sína að rekja hingað.
[49] Ok 19.17.
[50] Mt 18.15.
[51] Mt 18.15.
[52] Mt 18.16.
[53] Mt 7.12.
[54] 1Kor 12.22-23.
[55] Sjá Mk 6.20.
[56] Eitt gyllini jafngilti 21 skildingi.
[57] 2M 20.5-6.
[58] Sl 147.11.
[59] 5M 6.8-9 og 11.20.