Skip to content

Fræðin meiri: Faðir vor

Hér fyrir neðan er frumþýðing Þorgils Hlyns Þorbergssonar á Fræðunum meiri.
Þýðingin var prentuð í Marteinn Lúther, Úrval rita 2, Reykjavík: Skálholtshútgáfan, 1918, þá í endurskoðun Gunnars Kristjánssonar.
Þýðingin er birt á netsíðunni með fyrirvara um mögulegar villur. Endurskoðun er í vinnslu.

Þriðji hluti: Faðir vor

            Nú höfum vér heyrt, hvað gera skal og hverju trúa ber, til þess að öðlast sem best og sælast líf. Nú siglir þriðji hlutinn í kjölfarið, sem kemur inn á það, hvernig á að biðja. Því er nú þannig háttað með oss, að enginn maður getur fullkomlega haldið boðorðin tíu, enda þótt hann hafi byrjað að trúa, þar sem djöfullinn ásamt öllum heiminum og voru eigin holdi veitir slíku viðnám. Þess vegna er ekkert nauðsynlegra en að liggja ætíð við eyru Guðs, hrópa og biðja, að hann gefi oss trúarjátninguna og uppfyllingu boðorðanna tíu, haldi þeim við og auki, og því verði rutt úr vegi, er tálmað geti eða hindrað. En hitt verðum vér að vita, um hvað eða hvernig vér eigum að biðja, og til þess hefur DROTTINN  vor Kristur sjálfur kennt oss orð og aðferð, eins og vér munum sjá.

            Áður en vér útskýrum Faðir vor, hverja bæn fyrir sig, er afar nauðsynlegt að uppörva og hvetja fólk til bænar eins og Kristur og postularnir höfðu einnig gert.[1] Og það ætti einmitt að vera forgangsatriði, að ljóst sé, hvernig oss ber vegna boðorða Guðs að biðja. Þetta höfum vér heyrt í öðru boðorðinu: Þú skalt ekki leggja nafn Drottins við hégóma. Þarna er ætlast til þess af oss að vér vegsömum hið heilaga nafn, áköllum það eða biðjum í allri neyð. Það að ákalla er því ekkert annað en að biðja. Þar sem það er því svo stranglega og alvarlega brýnt fyrir oss í öllum boðorðum, að hafa engan annan Guð, deyða ekki, stela ekki og svo framvegis, má enginn hugsa: Það kemur í sama stað niður hvort ég bið eða bið ekki. Margt siðlaust fólk venur sig á slíka hugsun og segir: Um hvað á ég að biðja, hver veit, hvort Guð kærir sig um bæn mína eða vill heyra hana?  Ef ég bið ekki, þá biður einhver annar og þá kemst það upp í vana, að það biður ekki lengur og notar sem átyllu, að vér höfnum röngum og hræsnifullum bænum, eins og vér hefðum kennt, að ekki mætti eða ætti að biðja.

            Það er þó satt, að það sem hingað til hefur verið álitið bæn, vælið og gólið í kirkjunum og svo framvegis, voru eiginlega ekki bænir. Slík ytri fyrirbæri, séu þau iðkuð réttilega, gæti verið ungum börnum, nemendum og almúgafólki æfing og hægt væri að tala um að syngja eða lesa, en það myndi eiginlega ekki kallast að biðja.[2] Það kallast hins vegar að biðja, þar sem annað boðorðið er kennt: Að hrópa til Guðs í allri neyð. Hann ætlast til þess af oss og það á ekki að ráðast af vorum eigin geðþótta, heldum eigum vér og þurfum að biðja, ef vér viljum teljast kristin, á sama hátt og vér þurfum að vera föður, móður og yfirvöldum hlýðin. Með ákalli og bæn er nafni Guðs sýnd virðing og það notað á gagnlegan hátt. Þú skalt fyrir alla muni gera þér grein fyrir því, að best er að þegja yfir og bægja frá sér röngum hugsunum, sem halda aftur af oss og skelfa oss frá henni. Rétt eins og það hefur ekkert að segja, þótt sonur vilji segja við föður sinn: „Hvaða máli skiptir hlýðni mín?  Ég vil fara og gera það sem ég get, það nær upp að vissu marki,“ þá segir boðorðið á hinn bóginn: Þú skalt og verður að gera þetta. Í þessu felst því einnig, að það sé ekki gert eða látið ógert í mínum vilja, heldur á og þarf að biðja.

            Nú skalt þú útiloka þetta og hugsa sem svo, að þar sem rík áhersla er lögð á að biðja, má ekki nokkur lifandi maður fyrirlíta bænir sínar, heldur meta þær mikils og hafa í hávegum. Og taktu ætíð mið af öðrum boðorðum. Barn á vissulega ekki að fyrirlíta hlýðnina gagnvart föður og móður, heldur hugsa alltaf sem svo: „Þetta verk er unnið í hlýðni, og það sem ég geri, geri ég ekki í öðrum tilgangi en þeim, að það sé í samræmi við hlýðni og boðorð Guðs, sem ég get byggt á og stuðst við, og ég met ekki svo mikils vegna eigin verðleika, heldur vegna boðorðsins. Á sama hátt eigum vér að líta á hana eins og Guð ætlist til þess af oss að vér gerum þetta í hlýðni við hann, án tillits til þess fyrir hverju eða um hvað vér biðjum, og hugsa þannig: Mig sjálfan gildir þetta einu, en það skal gilda, sem Guð hefur boðið. Þannig skal einn og sérhver, sem beðið hefur, koma fram fyrir Guð í hlýðni við þetta boðorð.

            Þess vegna biðjum vér og hvetjum hvern og einn rækilega, að slíkt verði haft í huga og bæn vor verði á engan hátt fyrirlitin. Hingað til hefur það verið kennt í nafni djöfulsins, að enginn hafi virt hana eða meint nokkuð með henni, það væri nóg að verkin væru unnin, Guð myndi hvorki bænheyra né hlýða á hana. Þetta kallast að gera bænina að hégóma og óráðshjali og þá telst bænin einskis nýt. Vér látum því slíkar hugsanir rugla oss og fæla oss frá: „Ég er hvorki nógu heilagur né verðugur þess; ef ég væri svo guðhræddur og heilagur eins og Pétur og Páll postular, þá myndi ég biðja.“  En slíkum hugsunum ber að bægja frá sér, vegna þess að einmitt þetta boðorð, sem snerti Pál, snertir einnig mig og er fólgið í öðru boðorðinu mín vegna rétt eins og hans vegna, og því getur hann hvorki hrósað sér af betra né heilagra boðorði. Þess vegna skalt þú segja sem svo: „Sú bæn, sem ég bið, er vissulega eins dýrmæt, heilög og Guði þóknanleg og bænir Páls postula og hinna allra heilögustu. Ástæða: Ég vil láta hann verða mér heilagri, ef um persónuna er að ræða, en ekki, ef um boðorðið er að ræða. Vegna þess að Guð lítur ekki á bænina vegna persónunnar heldur vegna orðs síns og hlýðninnar við sig, því að því að ég byggi einnig bæn mína á því boðorði, sem allir heilagir byggja á, bið ég þess einmitt, sem þeir biðja eða hafa beðið.“

            Þetta á að vera fyrsta og nauðsynlegasta atriðið, sem allar bænir vorar eiga að grundvallast og hvíla á, hlýðni við Guð, óháð því hver vér erum, hvort vér erum syndug eða guðhrædd, verðug eða óverðug. Og vér skulum vita, að Guð vill ekki að þessu verði slegið upp í grín heldur mun hann reiðast og refsa, þar sem vér biðjum ekki, á sama hátt og hann refsar fyrir hvers kyns aðra óhlýðni. Þar að auki vill hann ekki, að bænir vorar fari forgörðum eða glatist. Ef hann því vildi ekki bænheyra þig, myndi hann ekki heita á þig að biðja og leggja svo ríka áherslu á það boðorð sitt.

            Í öðru lagi ætti það að hvetja oss og fá til þess að biðja, að Guð hefur gefið oss fyrirheit og sagt fyrir um það, að hvaðeina mun vissulega verða, já, hvað sem vér biðjum um, eins og hann segir í 50. Davíðssálmi: „Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig“,[3] og Kristur segir í Matteusarguðspjalli: „Biðjið og yður mun gefast… …Því að hver sá öðlast sem biður.“[4]  Á þann hátt á sérhvert hjarta vor á meðal að vakna og ljóma af löngun og kærleika til bænar, vegna þess að hann vitnar um það í orði sínu, að honum eru bænir vorar þóknanlegar. Því verða þær heyrðar og metnar, til þess að vér hvorki vanvirðum þær né látum sem vind um eyru þjóta og biðjum í óvissu. Þannig getur þú komist í snertingu við Guð og sagt: „Hér kem ég, Kæri faðir, og bið þig, ekki að eigin ákvörðun eða verðleika, heldur samkvæmt boðorði þínu og fyrirheiti, sem hvorki getur brugðist né logið.“  Sá sem nú trúir ekki slíku fyrirheiti, skal hins vegar vita, að það vekur reiði Guðs, þar sem það í hæsta máta vanvirðir hann og gerir hann að lygara.

            Ennfremur ætti það einnig að laða oss og hvetja, að auk boðorðs og fyrirheita hefur Guð líka látið oss í té orðin og aðferðina og lagt þau oss í munn, hvernig og um hvað vér eigum að biðja, til þess að vér sjáum. hversu hjartanlega hann tekur við neyð vorri. Vér megum ekki um það efast, að honum eru slíkar bænir þóknanlegar og hann mun vissulega heyra þær. Slíkt telst góður kostur umfram allar aðrar bænir, og að slíku getum vér sjálfir komist. Annars myndi samviskan ætíð vera í vafa og segja: „Ég hef beðið, en hver veit, hvernig hún þóknast Guði, eða hvort ég hef fundið réttan mælikvarða og aðferð?“  Þess vegna er enga æðri bæn að finna á jörðu, því að hún hefur svo ágætan vitnisburð, að Guð heyrir svo hjartanlega og fúslega, að vér getum ekki skipt á henni og heimsins gæðum.

            Og þess vegna er einnig skipað svo fyrir, að vér sjáum og hugleiðum neyðina, sem á að knýja oss og þvinga til þess að biðja án afláts. Sá sem því vill biðja, verður að koma með eitthvað, draga fram og nefna það, sem hann girnist. Ef það gerist ekki, þá er það ekki bæn. Þess vegna höfum vér ekki að ástæðulausu varpað bænum munkanna og prestanna fyrir róða, sem dag og nótt væla og góla ákaflega, en engum þeirra dettur í hug að biðja um nokkurn skapaðan hlut.[5] Og ef safnað væri saman öllum kirkjum ásamt hinum andlegu, þá yrðu þeir að viðurkenna, að þeir hafa aldrei af hjarta beðið um svo mikið sem smádropa af víni. Engum þeirra hefur því verið skipað að biðja samkvæmt hlýðni við Guð og trú á fyrirheitið, og enginn hefur litið á neyðina, heldur hafa þeir í besta falli aðeins talið það vera gott verk, sem þeir borguðu Guði með, eins og þeir vildu ekki þiggja frá honum heldur gefa.

            Þar sem bænin á hins vegar að vera sönn, þá þarf alvara að koma til, og vér þurfum að finna þá neyð, sem íþyngir oss og fær oss til að hrópa og kveina. Þá kemur bænin eins og af sjálfri sér eins og hún á að koma, og ekki þarf að læra, hvernig á að búa sig undir hana og búa til hugleiðingu um hana. Hins vegar munt þú finna nóg af þeirri neyð, sem á að hvíla á oss og sérhverjum manni í bæninni Faðir vor. Þess vegna á hún einnig að þjóna þeim tilgangi, að neyðarinnar sé minnst, henni gefinn gaumur og hún verði lögð á hjarta, svo að vér látum ekki af að biðja. Það er einmitt svo ótal margt sem oss brestur, en hins vegar vantar talsvert upp á, að vér finnum það og sjáum. Þess vegna ætlast Guð til þess, að þú kvartir og kveinir vegna slíkrar neyðar og háska, ekki af því að hann viti ekki um það, heldur því að hjarta þitt brennur í þrá, að það biður þeim mun ákafar og sterkar og krefjist meira og að þú breiðir út skikkju þína og opnir hana til þess að taka við svo mörgu.

            Þess vegna ætti sérhver af oss að venja oss á allt frá barnæsku að biðja daglega fyrir allri neyð, þar sem mæða er eða eitthvað bjátar á, og einnig fyrir öðru fólki, er umhverfis oss, eins og prédikurum, yfirvöldum, nágrönnum og vinnufólki. Og eins og áður segir skulum vér ætíð halda boðorð Guðs og fyrirheit og vita, að hann vill alls ekki, að þau séu fyrirlitin. Þetta segi ég, vegna þess að ég vil gjarnan, að slíkt verði aftur gert lýðum ljóst, að menn læri að biðja rétt og verði ekki svo hranalegir og kaldrifjaðir. Ósiðsamir biðja daglega eftir vilja djöfulsins sem beitir öllum kröftum til fulltingis, því að hann veit vel, hvað veldur honum leiða og tjóni, þegar bænin kemst rétt til skila.

            Það skulum vér því vita, að öll vor vernd og varðveisla felst aðeins í bæninni. Vér erum miklu veikbyggðari en djöfullinn ásamt öllu valdi sínu og fylgifiskum, sem beint er gegn oss, að þeir geti troðið oss undir fótum sér. Þess vegna þurfum vér að hugsa og grípa til vopna, svo að kristnir menn verði þess albúnir að standa gegn djöflinum. Hvers vegna álítur þú annars að fram að þessu hafi svo miklu verið komið til leiðar, þar sem ráðagerðir óvina vorra, áform, morð og uppreisnir hafa verið brotnar á bak aftur eða bældar niður, þar sem djöfullinn ætlaði sér að undiroka oss ásamt fagnaðarerindinu, nema vegna þess að bænir nokkurra guðhræddra manna hafa myndað nokkurs konar járnmúr vor megin víglínunnar?  Annars hefðu þeir sjálfir séð allt öðruvísi leik, þar sem djöfullinn hefði drekkt gjörvallri fósturjörðinni í sínu eigin blóði.[6] Nú mega þeir ókvíðnir hafa oss að háði og spotti, en vér skulum samt sem áður láta oss nægja að bera þá ofurliði með bæninni einni, þar sem vér höldum oss stöðugt að henni og letjumst ekki. Þar sem því guðhræddur, sannkristinn maður biður: „Kæri faðir, verði vissulega þinn vilji,“ þá mælir hann til vor úr hæðum: „Já, kæra barn, hann skal sannarlega vera og verða, hvað sem djöflinum og öllum heiminum líður.“

            Megi þetta verða sagt til áminningar, að fyrir alla muni verði kennt að meta bænina mikils og verðgildi hennar, og að þekkja hinn rétta mismun á því að þylja upp og biðja einhvers. Vér vörpum því ekki bæninni á nokkurn hátt fyrir róða, heldur höfnum vér hinu gagnslausa væli og góli, eins og Kristur sjálfur forsmáir og bannar langar bænir undir yfirskini.[7] Nú ætlum vér að fjalla um Faðir vor í sem stystu og skýrustu máli. Það er nú myndað úr sjö greinum eða bænum, sem koma hver á eftir annarri, fyrir allri neyð, sem stöðugt þjakar oss, og sérhver þeirra er svo mikil, að hún ætti að fá oss til þess að biðja ævina á enda.

Fyrsta bæn: Helgist þitt nafn.

            Þetta er nú dálítið óskýrt og ekki vel tjáð á þýsku {íslensku}, því að á móðurmáli voru myndum vér segja sem svo: „Himneski faðir, hjálpaðu til þess að aðeins nafn þitt verði heilagt.“ Hvers konar bæn er það nú, að nafn hans helgist? Var það ekki heilagt áður fyrr?  Svar: Jú, það er ætíð heilagt í sjálfu sér, en á þann hátt sem vér notum það er það ekki heilagt. Guðs nafn er oss gefið, af því að vér erum orðin kristin og skírð, til þess að vér megum kallast Guðs börn og þiggja sakramentin, þar sem hann hefur sameinað oss sínum líkama, þannig að allt sem frá Guði er, uppfylli vorar þarfir. Þar er nú hin mikla neyð, sem vér eigum helst að sinna, að nafn hans verði heiðrað, heilagt og hátt upphafið eins og hinn mesti fjársjóður vor og helgidómur, og að vér líkt og guðhrædd börn biðjum um það, að nafn hans, sem annars er heilagt á himni, verði einnig heilagt á jörðu og helgist oss og öllum heiminum.

            Hvernig verður það heilagt á meðal vor? Því svörum vér best með því að segja: Þegar bæði kenning vor og líf eru guðleg og kristileg. Þar sem vér því köllum Guð föður vorn í þessari bæn, þá ber oss skylda til að hegða oss og koma fram eins og guðhrædd börn, svo að vér verðum oss ekki til skammar fyrir hann heldur til sæmdar og vegsemdar. Nú getum vér vanhelgað hann annaðhvort með orðum eða verkum, því að það sem vér gerum á jörðinni hlýtur annaðhvort að vera orð eða verk, ræða eða gjörningar. Í fyrsta lagi er, þegar það er prédikað, kennt og rætt í Guðs nafni, sem er rangt og vanhelgað, og nafn hans hlýtur að vera notað til þess að skreyta lygarnar og breiða yfir þær. Það er nú hin mesta skömm og vanvirðing við Guðs nafn, og líka þegar heilagt nafn Guðser notað sem yfirvarp vegna formælinga, bölvunar, töfra og svo framvegis. Í öðru lagi er nafn Guðs vanhelgað þegar menn lifa í opinberum ólifnaði og illum verkum, þegar þeir, er eiga að kallast kristnir og Guðs lýður, eru hórkarlar, ofdrykkjumenn, aurasálir, öfundarmenn og baktalarar. Þá hlýtur nafn Guðs aftur á móti að verða haft að háði og spotti. Rétt eins og það er jarðneskum föður til skammar og vansæmdar að eiga slæmt og spillt barn, sem hefur snúist gegn honum í orði og verki, svo að hann verður fyrirlitinn og hæddur, þá telst það einnig Guði til vansæmdar. Vér erum nefnd eftir nafni hans og eigum alls konar gæði frá honum, en lærum, tölum og lifum öðruvísi en guðhrædd og himnesk börn. En það hlýtur hann að heyra, sem um oss er sagt, að vér getum ekki verið börn Guðs, heldur börn djöfulsins.

            Þarna sérð þú. að vér biðjum einmitt í þessum hluta um þetta, sem Guð ætlast til af oss í öðru boðorðinu, nefnilega um það, að nafn hans verði ekki misnotað til formælingar, bölvunar, lyga, svika og svo framvegis, heldur notað á gagnlegan hátt Guði til lofs og vegsemdar. Sá sem því leggur Guðs nafn við einhvers konar ódyggð, vanhelgar og vanheiðrar þetta heilaga nafn, eins og kirkjan  var vanheiðruð fyrr á tímum, þegar morð eða önnur ódæði voru framin þar, eða þegar helgiskrín[8] eða helgigripir, sem í sjálfum sér voru heilög, urðu vanheilög við notkun. Þannig er þetta atriði skýrt og ljóst, samkvæmt orðanna hljóðan, þar sem „að helga“ merkir einnig á voru máli að „lofa, tigna og heiðra,“ bæði í orði og verki.

            Líttu nú á, hversu brýnar slíkar bænir í neyð eru. Vegna þess að vér sjáum, hversu fullur heimurinn er af spellvirkjum og ranglátum kennurum, sem allir nota hið heilaga nafn til þess að breiða yfir og hylja djöfullegar kenningar sínar, ættum vér með réttu að hrópa og kalla gegn öllum slíkum, bæði fölskum prédikunum og trúarskoðunum og því sem stríðir gegn, ógnar og dregur úr fagnaðarerindi voru og hinni hreinu kenningu, eins og biskupum, einræðisherrum, trúarofstækismönnum og svo framvegis. En vér eigum einnig að biðja fyrir oss sjálfum. Vér höfum Guðs orð, en erum hvorki þakklát fyrir það né lifum eftir því, eins og vera ber. Ef þú biður um slíkt af hjarta, getur þú verið viss um það, að Guði er það þóknanlegt. Ekkert er honum ljúfara að heyra en þetta, að sæmd hans og tign sé öllu æðra, orð hans sé kennt hreint og metið sem dýrmætt og mikils virði.

Önnur bæn: Til komi þitt ríki.

            Í fyrsta hlutanum höfum vér beðið um það, sem snertir sæmd Guðs og nafn, að koma í veg fyrir að heimurinn bendli lygar sínar og illsku við það, heldur verði það hátt upp hafið og heilagt bæði í lærdómi og lífi, að það verði lofað og vegsamað á meðal vor. Á líkan hátt biðjum vér þess hér, að ríki hans megi einnig koma. En rétt eins og nafn Guðs er heilagt í sjálfu sér og vér biðjum þess samt, að það verði einnig heilagt hjá oss, þá kemur einnig ríki hans án bænar vorrar af sjálfu sér. Samt biðjum vér þess þrátt fyrir allt, að það komi til vor, það sé á meðal vor og hjá oss, svo að vér verðum einnig hluti þeirra, sem helgast af nafni hans og koma ríki hans til leiðar.

            Hvað kallast nú Guðs ríki?  Svar: Ekkert annað en það, sem vér höfum hér að framan heyrt í trúarjátningunni, að Guð hefur sent son sinn Krist, Drottin vorn, í heiminn, til þess að endurleysa oss og frelsa frá valdi djöfulsins og færa oss til sín og ríkja sem konungur réttlætisins, lífsins og sælunnar gegn synd, dauða og slæmri samvisku. Í því samhengi hefur hann einnig gefið oss heilagan anda, sem lét oss þetta í té fyrir sitt heilaga orð og lýsti upp trú vora og styrkti hana fyrir kraft sinn. Þess vegna biðjum vér nú þess fyrst og fremst, að slíkt gerist af krafti hjá oss og nafn hans verði þannig vegsamað fyrir heilagt orð hans og kristilegt líf. Vér biðjum þess líka, að vér, sem höfum tekið við því, höldum oss við það og vöxum daglega í því, og að það megi vinna fylgi og ná hylli á meðal annars fólks. Vér biðjum þess, að orð Guðs megi fara sem eldur í sinu um heiminn, svo að margir komist í náðarríkið og megi eiga hlutdeild í endurlausninni, leiddir þangað af heilögum anda, og vér megum öll sem eitt dvelja um eilífð í konungsríki, sem nú þegar er byrjað.

            Það, að „Guðs ríki kemur til vor,“ gerist á tvennan hátt; annars vegar kemur það hér í tíma og rúmi, fyrir orðið og trúna, og hins vegar kemur það í eilífðinni fyrir opinberunina.[9] Nú biðjum vér þannig um hvort tveggja, að það komi til þeirra, sem enn eru ekki komnir inn, og vor, sem höfum komist inn, að vér vöxum daglega í því og öðlumst eilíft líf. Allt þetta er blátt áfram sagt á þennan hátt: „Kæri faðir, vér biðjum þig um að gefa oss í fyrsta lagi orð þitt, svo að fagnaðarerindið verði réttilega prédikað út um heiminn. Gefðu, að við því verði tekið fyrir trú, að það verki og lifi í oss, svo að ríki þitt komi á meðal vor fyrir orðið og kraft Heilags anda og ríki djöfulsins verði að engu gert, svo að hann hafi engan rétt á eða vald yfir oss, allt þar til það verður endanlega lagt í rúst. Megi syndin, dauðinn og heljan verða afmáð, svo að vér lifum um eilífð í fullu réttlæti og sælu.“

            Af þessu sérð þú, að vér biðjum ekki um ölmusu eða tímanleg, forgengileg gæði, heldur um eilífan, ómetanlegan fjársjóð og allt sem Guð sjálfur er fær um að veita. Það er allt of mikið til þess að mannlegu hjarta dirfðist að detta í hug að girnast það, nema af því að hann hefur sjálfur boðið oss að biðja um það. En af því að hann er Guð, vill hann einnig hljóta sæmdina, sem hann gefur meira og ríkulegar af en hægt er að gera sér í hugarlund, líkt og eilíf, ótæmandi lind, er eftir því sem hún flæðir og meira streymir úr henni gefur hann meira. Hann þráir ekkert heitar en að vera beðinn um mikla og stóra hluti, en aftur á móti reiðist hann, ef ekki er beðið í trausti. Það er rétt eins og hinn ríkasti, voldugasti keisari héti á auman betlara að biðja um allt, sem hann girntist, og væri reiðubúinn að gefa stóra, keisaralega gjöf, og flónið myndi ekki lengur betla svo mikið sem ölmususúpu.[10] Sá betlari myndi líklega verða álitinn þrjótur og illvirki, og skipað yrði svo fyrir að hann væri hafður að háði og spotti frammi fyrir hinni keisaralegu tign og hann yrði ekki verðugur þess að láta sjá sig frammi fyrir augliti hennar. Það væri þannig einnig Guði til mikillar smánar og vansæmdar, ef vér, sem hann hefur boðið og veitt svo mikil, ólýsanleg gæði, fyrirlítum slíkt eða treystum oss ekki til þess að þiggja það og höfum varla döngun í oss til þess að biðja um brauðbita. Allt er þetta vorri skammarlegu vantrú að kenna, sem væntir einskis góðs frá Guði, sem vér fæðum líkamann með, og vér trúum því þaðan af síður, að eflaust megi vænta eilífra gæða. Af þeim sökum eigum vér þvert á móti að eflast og láta þetta vera vora fyrstu bæn, og þá mun vissulega einnig allt annað veitast, eins og Kristur kennir í Matteusarguðspjalli: „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“[11]  Hvernig ætti hann ella að láta oss líða tímanlegan skort og hörgul, þar sem hann heitir hinu eilífa og óforgengilega?

Þriðja bæn: Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

            Fram að þessu höfum vér beðið þess, að nafn hans verði heiðrað og ríki hans verði á meðal vor, en í þessu tvennu er það fólgið, sem snertir sæmd Guðs og sælu vora, að vér eignumst Guð ásamt öllum hans gæðum. En hér er það sannarlega svo bráðnauðsynlegt, að vér höldum oss fast við það og látum ekkert slíta oss frá því. Það er eins og í góðri ríkisstjórn, að ekki þurfa aðeins þeir að vera til staðar, sem byggja og stjórna vel, heldur einnig þeir, sem verja, vernda og koma á reglufestu. Þannig er það einnig hér, að þegar vér höfum beðið fyrir því allra nauðsynlegasta, það er að segja, fagnaðarerindinu, trúnni og heilögum anda, að hann stjórni oss, leysi oss undan valdi djöfulsins, þá verðum vér einnig að biðja þess, að hann láti vilja sinn verða. Undur og stórmerki munu gerast, þar sem höldum oss við það, en vér verðum að þola miklar árásir og raunir frá öllum þeim, sem voga sér að hindra og koma í veg fyrir tvö fyrrnefndu atriðin.

            Enginn trúir því, hversu mikið djöfullinn streitist á móti og berst gegn þessu, þar sem hann þolir ekki, að nokkur kenni eða trúi rétt. Það veldur honum óbærilegum kvölum, þegar skammarlegar lygar hans og ódæði, sem hann hefur svo fagurlega skreytt og prýtt með nafni Guðs, opinberast, og hann verður rekinn úr hjartanu, svo að brestur kemur í ríki hans. Þess vegna ólmast hann og hamast líkt og trylltur fjandi af öllum lífs og sálar kröftum, situr um allt sem honum heyrir til, og til þess nýtur hann fulltingis heimsins og vors eigin holds. Hold vort hneigist í sjálfu sér til hins ljóta og vonda, jafnvel þótt það hafi tekið við orði Guðs og trúi því. Heimurinn er hins vegar illur og vondur. Hann æsir hann upp, hvæsir og fnæsir til þess að hindra oss og halda aftur af oss, fella oss og fá oss undir sitt vald. Allt þetta er vilji hans, hugur og hugsun, sem hann stefnir að dag og nótt, og hvílist ekki eitt andartak, heldur beitir hann til þess öllum brögðum, klækjum, ráðum og prettum, sem honum geta komið til hugar.

            Þess vegna þurfum vér, sem viljum verða kristin, vissulega að gæta vor á því og hafa hugfast, að vér eigum óvini í djöflinum og öllum hans árum,[12] sem valda oss allri ógæfu og þjáningu. Þar sem Guðs orð er þannig prédikað, viðtekið í trú og ber ávöxt, þá má ekki skilja hinn kæra, heilaga kross undan. Og hreint enginn skal halda það, að hann öðlist frið, heldur verður að leggja allt til hliðar, sem á jörðinni er; eignir, sæmd, hús og jarðeign, maka og börn, líkama og líf. Af þessu verður holdi voru og hinum gamla Adam illt, því að þetta kallast að halda út og þjást þolgóður, hvernig sem á oss er ráðist og að það sé látið laust, sem tekið er frá oss. Þess vegna er það alveg eins nauðsynlegt hér eins og í öllu öðru samhengi, að biðja án afláts: „Kæri faðir, verði þinn vilji, en ekki djöfulsins og óvina vorra eða þeirra, sem vilja ofsækja þitt heilaga orð og kæfa það eða hindra ríki þitt. Og gef oss, vegna alls þess sem vér þurfum að líða, að vér fyrir þolgæði megnum að afbera og sigrast á því, þannig að vort auma hold víki hvorki né falli frá vegna veikleika og leti.“

            Sjáðu til, í þessum þremur bænum höfum vér á einfaldan hátt tekið saman þá neyð, sem beint er til Guðs sjálfs, en samt allt vegna vor sjálfra, því að það sem vér biðjum um, varðar einvörðungu oss sjálf, einmitt þannig, að það gerist einnig innra með oss, sem annars hlýtur að gerast fyrir utan oss. Eins og nafnið hans helgast því án bænar vorrar og ríki hans hlýtur að koma, þá hlýtur vilji hans að verða og ná fram að ganga, jafnvel þótt djöfullinn ásamt öllum sínum fylgifiskum berjist fyrir því með látum, ofsa og brjálæði að fagnaðarerindið verði alveg máð út. En vor vegna verðum vér að biðja þess, að þrátt fyrir brjálæði þeirra nái vilji Guðs óhindrað fram að ganga á meðal vor, svo að þeir geti ekki aflað sér neins, en vér verðum að berjast hart gegn öllu valdi og öllum ofsóknum, og þóknast á þann hátt vilja Guðs.

            Slík bæn á nú að vera vernd vor og vörn, sem kemur í veg fyrir og bælir niður allt sem djöfullinn, biskupar, einræðisherrar og villutrúarmenn megna að stríða gegn fagnaðarerindi voru. Látum þá alla með tölu reiðast, rembast, beita ráðum og brögðum, til þess að þeir bæli oss niður og uppræti, svo að vilji þeirra nái fram að ganga og ráði ríkjum. Einn kristinn maður eða tveir geta með þessari litlu bæn reist múr sem þeir ráðast gegn og stranda á. Vér treystum því og erum þess fullviss, að vilji og fyrirætlanir djöfulsins og allra óvina vorra falla til grunna og verða að engu gjörð, hversu stolta, örugga og volduga sem þeir telja sig vera. Þar sem því vilji þeirra yrði hvorki brotinn á bak aftur né komið yrði í veg fyrir hann, þá gæti ríki Guðs hvorki staðist á jörðu né nafn hans helgast.[13]

Fjórða bæn: Gef oss í dag vort daglegt brauð.

            Hér höfum vér hina vesælu brauðkörfu í huga, sem er lífsnauðsynleg líkama vorum og jarðnesku lífi. Þetta er stutt og einfalt orð, en er samt afar víðtækt. Þegar þú því nefnir „daglegt brauð“ og biður um það, þá biður þú um allt, sem fylgir því að hafa daglegt brauð og njóta þess, og á hinn bóginn gegn öllu því, sem aftrar slíku. Þess vegna verður þú að opna huga þinn og víkka hann, svo að hann nái ekki aðeins til bökunarofnsins og mjölpokans, heldur út á hinn víða akur og um allt landið, sem aflar daglegs brauðs og ýmiss konar næringar og færir oss slíkt. Ef Guð léti því kornið ekki vaxa, blessaði og héldi því á jörðinni, myndum vér aldrei taka brauð úr bökunarofnum vorum eða bera þau á borð.

            Í stuttu máli snertir þessi bæn allt það sem heyrir til öllu voru lífi í heiminum, vegna þess að það er aðeins vegna þess sem vér þörfnumst hins daglega brauðs. Nú heyrir það ekki aðeins lífinu til, að líkami vor hefur fæði og klæði og aðrar nauðþurftir, heldur einnig hitt, að vér lifum í friði og sátt við annað fólk, sem á vegi vorum er og vér umgöngumst í verslun og viðskiptum og alls kyns samböndum. Í stuttu máli snýst málið um allt sem varðar tjáskipti á milli heimilisfólks, nágranna, um tengsl við borgarana og samskipti við stjórnvöldin. Þar sem erfiðleikar steðja að á þessum tveimur sviðum. þannig að ekki gengur sem skyldi, eru brýnustu nauðsynjarnar sjálfar í hættu, svo að lífið getur ekki undir nokkrum kringumstæðum haldist við. Og það er svo sannarlega bráðnauðsynlegt að beðið sé fyrir veraldlegum yfirvöldum og stjórnvöldum, þar sem það er fyrir tilstilli þeirra sem Guð gefur oss daglegt brauð og heldur við öllum skilyrðum þessa lífs. Ef vér því höfum þegar þegið öll lífsgæði frá Guði í ríkum mæli, þá gætum vér samt hvorki haldið í nokkuð af þeim né notið þeirra öruggir og glaðir, ef hann gæfi oss ekki stöðug og friðsöm stjórnvöld. Þar sem því ófriður, hatur og stríð ráða ríkjum, þá er daglegt brauð frá oss tekið eða vandfengið.

            Af þeim sökum væri réttast að grafa brauð í skjöld guðhrædds fursta í stað ljóns eða rúðumynsturs,[14] eða hægt væri að slá brauð í myntirnar, til þess að minna bæði þá og þegnana á það, að vegna embættis þeirra njótum vér verndar og friðar og án þeirra gætum vér hvorki etið né átt hið kæra brauð. Þess vegna eru þeir verðir allrar sæmdar, svo að vér gefum þeim eftir efnum og ástæðum sem oss ber, því að það er þeim að þakka að vér höfum allt til alls og njótum þess í friði og ró, þar sem vér annars myndum ekki halda einum eyri eftir, og því ber einnig að biðja fyrir þeim, að Guð veiti oss þeim mun meiri blessun og gæði fyrir tilstilli þeirra.

            Vér skulum nú í stuttu máli skoða og gera oss ljóst, hversu vítt þetta boðorð tekur til hvers kyns tengsla á jörðu. Úr þessu gæti orðið mikil bænagjörð þar sem öll þessi atriði, sem heyra til þessari bæn, væru tíunduð í löngu máli. Hér biðjum vér þess vissulega, að Guð gefi oss mat og drykk, fatnað, hús og jarðeign og heilbrigðan líkama, að Guð láti korn og ávexti vaxa á akrinum og þroskast vel. Síðan biðjum vér þess, að hann hjálpi oss við að viðhalda góðum samskiptum heima fyrir, gefi oss guðhræddan maka, börn og þjónustufólk og varðveiti þau. Þá biðjum vér fyrir atvinnu vorri, handverki eða hverju því sem vér tökum oss fyrir hendur, að hann láti það heppnast og takast vel, að hann gefi oss trausta nágranna og góða vini og svo framvegis. Á sama hátt mætti halda áfram: Megi hann gefa keisara, konungi og öllum stéttum og sérstaklega landsfurstum vorum ásamt öllum ráðgjöfum, yfirmönnum og embættismönnum visku, styrk og gæfu til þess að stjórna vel og bera Tyrki og alla aðra fjandmenn ofurliði og gefa undirmönnum og almennum þegnum hlýðni, frið og eindrægni til þess að lifa saman hver með öðrum. Og á hinn bóginn, að hann varðveiti oss gegn alls kyns líkamlegu tjóni og vannæringu, óveðri, hagléljum, eldi, vatni, drepsóttum, fjárdauða, stríði og blóðsúthellingum, dýrtíð, hættulegum dýrum, vondu fólki og svo framvegis. Allt þetta er gott að innræta almúganum, að Guð hlýtur að gefa það sem vér biðjum um.

            Umfram allt er þessari bæn hins vegar stillt upp gegn vorum mesta óvini, djöflinum. Öll hans viðleitni og fýsn felst þannig í því að taka allt frá oss eða hindra það sem vér höfum frá Guði. Og hann lætur sér ekki nægja að hindra og eyðileggja hina andlegu ríkisstjórn með því að ofsækja sálirnar með lygum sínum og færa þær undir vald sitt, heldur kemur hann einnig í veg fyrir og hindrar að nokkur ríkisstjórn fái staðist á jörðinni með hagkvæmum og friðsömum hætti. Þannig veldur hann svo miklu hatri, morðum, uppreisnum og styrjöldum; sömuleiðis með því að spilla korni og fénaði með óveðri og hagléljum, eitrun loftsins og svo framvegis. Í stuttu máli veldur það honum ama ef einhver þiggur brauðbita frá Guði og neytir hans í næði. Og ef það stæði honum til boða, þar sem bæn vor til Guðs kæmi ekki í veg fyrir það, myndum vér ugglaust ekki halda strái eftir á akrinum eða eyri í húsinu, já, vér værum ekki einu sinni á lífi, sér í lagi þeir sem hafa Guðs orð og vilja fúslega teljast kristnir.

            Sjáðu til, þannig vill Guð benda oss á þetta, að hann tekur að sér alla vora neyð og svo trúfastlega sér oss einnig fyrir tímanlegum gæðum; og jafnvel þótt hann gefi guðleysingjum og þrjótum ríkulega af þeim, þá vill hann samt, að vér biðjum um það, svo að vér viðurkennum, að vér höfum þegið það úr hendi hans, og skynjum þannig hina föðurlegu gæsku hans gagnvart oss. Þar sem hann því dregur höndina að sér, getur ekkert raunverulega dafnað eða þroskast, eins og daglega má sjá og finna. Hvers konar plága viðgengst ekki hér á jörðinni, með fölsun myntar, já, daglegu braski og okri í almennum viðskiptum, kaupum og vinnu þeirra, sem samkvæmt eigin geðþótta kúga vesalings fátæklingana og svipta þá daglegu brauði?  Vér verðum víst að láta oss þetta lynda, en þeir verða að vara sig á því að glata ekki almennri virðingu sinni, og gæta þess, að þessu atriði bænarinnar verði ekki beint gegn þeim.

Fimmta bæn: Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

            Þessi bæn snertir nú snautt og aumkunarvert líf vort. Jafnvel þótt vér eigum Guðs orð, trúum því, framkvæmum vilja hans, þjáumst og nærumst af gjöfum Guðs og blessun, er aldrei hægt að losna við syndina. Vér hrösum daglega og göngum of langt, af því að vér lifum í heiminum á meðal fólks, sem veldur oss allt of miklum ama og gefur oss ástæðu til óhlýðni, reiði, hefndar og svo framvegis, auk þess sem djöfullinn er fyrir aftan oss. Hann situr um oss alls staðar og berst, eins og áður segir, gegn öllum ofangreindum bænum, þar sem ekki er gerlegt að vera ætíð staðfastur í svo sífelldri baráttu. Þess vegna er hér aftur á móti bráðnauðsynlegt að biðja og hrópa: „Kæri faðir, fyrirgef oss vorar skuldir.“  Það er ekki svo að hann fyrirgefi ekki syndirnar án þess að vér biðjum og áður en vér höfum beðið. Hann hefur gefið oss fagnaðarerindið, þar sem veitt er einskær fyrirgefning, áður en vér höfum svo mikið sem beðið um hana eða leitt hugann að henni.  En það er svo gríðarlega mikilvægt að vér viðurkennum slíka fyrirgefningu og tökum við henni. Holdið, sem vér lifum í daglega, er þess eðlis að það hvorki trúir né treystir Guði, heldur æsist upp í illum löstum og lymskubrögðum, þar sem vér drýgjum synd í orðum og verkum, með verkum og látæði, svo að samviskan fær ekki frið og óttast reiði og ónáð Guðs, þannig að huggun og trúnaðartraust fagnaðarerindisins gengur oss úr greipum. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að grípa til þessarar bænar og sækja til hennar huggun til þess að friða samviskuna.

            Í öðru lagi þjónar þessi bæn þeim tilgangi, að Guð lækki í oss rostann og haldi oss við auðmýktina. Ef einhver vill stæra sig af réttsýni sinni og fyrirlíta aðra, svo að hann lítur stórt á sig með hliðsjón af þessari bæn, hefur Guð áskilið sér rétt til þess að sýna honum fram á, að hann er alveg sama marki brenndur og aðrir. Vér þurfum að brjóta odd af oflæti voru frammi fyrir Guði og gleðjast vegna þess, að vér hljótum fyrirgefningu hans. Og það skal enginn halda, að hann þarfnist ekki slíkrar fyrirgefningar á meðan vér lifum hér. Í stuttu máli: Ef Guð fyrirgæfi ekki án afláts, værum vér glötuð.

            Sú er nú merking þessarar bænar, að Guð vill ekki horfa á syndir vorar og meta oss eftir daglegum verðleikum vorum, heldur vill hann auðsýna oss náð og fyrirgefa oss, eins og hann hefur heitið oss og gefa oss þar með góða og óflekkaða samvísku, svo að vér getum staðið frammi fyrir honum og beðið. Þar sem því afstaða hjartans getur ekki talist rétt og skapað slíkt trúnaðartraust, mun það aldrei aftur voga sér að biðja. Slíku trúnaðartrausti og glöðu hjarta er aldrei hægt að ná, nema haft sé hugfast, að syndirnar eru oss fyrirgefnar.

            Auk þess er nauðsynlegum og huggunarríkum viðauka skeytt aftan við: „Svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“  Hann hefur heitið því, að vér megum vera þess fullviss, að allt er oss fyrirgefið og eftirlátið, en þó svo framarlega sem vér fyrirgefum náunga vorum. Vér drýgjum því margar syndir daglega og hann fyrirgefur oss allt af náð. Þannig verðum vér ævinlega að fyrirgefa náunga vorum, sem veldur oss tjóni og beitir oss valdi, órétti og lymskubrögðum og svo framvegis. Ef þú nú fyrirgefur ekki, þá skalt þú ekki hugsa þér að Guð fyrirgefi. Ef þú hins vegar fyrirgefur, þá berðu þá huggun og það öryggi úr býtum, að þér verður fyrirgefið á himnum. Það er þó ekki vegna þess að hþú fyrirgefur að hann fyrirgefur, þar sem hann gerir það fús af hreinni náð, vegna þess að hann hefur heitið því, eins og fagnaðarerindið kennir. Hann skeytir þessu aftan við til þess að styrkja oss og veita oss fullvissu og sem tákni um fyrirheitin, sem eiga við þessa bæn. Í Lúkasarguðspjalli segir: „Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða.“[15]  Á sama hátt endurtekur Kristur þetta rétt á eftir Faðir vor og segir í Matteusarguðspjalli: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður“[16] og svo framvegis.

            Þess vegna er slíku tákni aukið við þessa bæn, svo að vér munum eftir þessu fyrirheiti í bæn vorri og hugsum sem svo: „Kæri faðir, af þeim sökum kem ég og bið þess, að þú fyrirgefir mér, ekki af því að ég hef gert eða áunnið mér svo margt til þess, heldur vegna þess að þú hefur heitið því og sett innsigli því til staðfestingar, að svo skyldi vissulega verða, líkt og ég fengi aflausn, sem þú hefðir sjálfur mælt af munni fram. Líkt og skírnin og sakramentið eru sett fram sem ytri tákn, megnar þetta tákn einnig að styrkja samvisku vora og friða hana og er umfram allt sett fram, til þess að vér mættum iðka það og ástunda alla tíð, þar sem vér höfum það ævinlega hjá oss.

Sjötta bæn: Eigi leið þú oss í freistni.

            Vér höfum nú heyrt nógu mikið um það, hversu mikið erfiði og strit það hefur í för með sér að öðlast allt sem beðið er um, hafa tak á því og halda í það, og það gengur ekki án þess að oss verði á eða vér hrösum. Þrátt fyrir að vér höfum hlotið fyrirgefningu og hreina samvisku og verið sýknuð, þá er því svo háttað með lífið, að einhver stenst í dag og fellur á morgun. Þess vegna verðum vér enn og aftur að biðja þess, þó að vér séum guðhrædd og getum með góðri samvisku staðið frammi fyrir Guði, að hann láti oss ekki falla á ný og láta undan raunum og freistingum. Hins vegar eru freistnin (eða freistingin, eins og hún er venjulega kölluð) þrenns konar; holdsins, heimsins og djöfulsins. Það er vegna þess að í holdinu búum vér og drögnumst með hinn gamla Adam, sem minnir á sig og æsir oss upp til siðleysis, leti, ofáts og ofdrykkju, ágirndar og blekkinga, sviksemi og ranginda gagnvart náunganum. Í stuttu máli er um að ræða alls kyns ljótar girndir, sem loða við oss af náttúrunnar hendi og brjótast fram við samneyti við annað fólk og heyra má og sjá dæmi þess, hversu oft saklaust hjarta særist og hrærist. Síðan er það heimurinn, er í orði og verki veldur oss ama og vekur reiði og bráðlæti. Í stuttu máli er um ekkert annað að ræða en hatur og öfund, fjandskap, yfirráð og ranglæti, ótryggð, hefnd, bölvun, skammaryrði, baktal, dramb og stolt með yfirgengilegri skreytni, sæmd, hrósi og valdi, þar sem enginn vill vera í stöðu hins lítilmótlegasta heldur sitja efst og láta allra augu hvíla á sér.

            Loks kemur nú djöfullinn, sem hvæsir og blæs í áttina að öllum, og sérstaklega sækist hann eftir þeim, sem láta sig samviskuna og andleg málefni varða, einmitt þannig að orð Guðs og verk verði látin sem vindur um eyru þjóta og fyrirlitin, svo að hann rífi af oss trú, von og kærleik og færi oss vantrú, flónsku og þvermóðsku ellegar efa, guðsafneitun og guðlast og óteljandi aðra, hryllilega hluti. Þetta eru nú þær snörur og þau net, já, hin réttu eldlegu skeyti, sem hvorki hold né blóð, heldur djöfullinn, skýtur með eitri í hjörtu vor.

            Hér er um mikla og harða neyð og raun að ræða, sem sérhver kristinn maður verður að takast á við, jafnvel þótt um aðeins eina væri að ræða, og rekur oss áfram í að biðja og hrópa allar stundir. Vegna þess að vér lifum þessu skammarlega lífi, þá erum vér umkringdir frá öllum hliðum, veidd og rekin áfram og verðum að biðja þess, að Guð láti oss ekki mæðast og lýjast og falla aftur í synd, skömm og vantrú. Annars er ómögulegt að sigrast á hinni allra lítilfjörlegustu raun.

            Það er nú kallað að „leiða ekki í freistni,“ þegar Guð gefur oss kraft og styrk til þess að standast raunina, þótt hún verði hvorki tekin frá oss né upphafin. Freistingar og áeggjanir getur enginn forðast, því að vér lifum í holdinu og djöfullinn umkringir oss. Og úr því verður ekkert annað en það, að vér verðum að þola raunir, já, sitja fastir í þeim. En þá biðjum vér þess, að vér gefum hvorki eftir né látum þær drekkja oss. Þess vegna er það tvennt ólíkt að verða fyrir freistingunum eða samþykkja þær og kveða já við þeim. Vér hljótum öll að finna fyrir þeim, þótt ekki sé það með einum, sérstökum hætti. Þær eru harðari og þyngri hjá sumum en öðrum. Æskulýðurinn finnur einkum fyrir holdinu, og hinn fullorðni og aldraði finnur fyrir heiminum, og þeirra sem umgangast andleg málefni, það er, hinna sterktrúuðu, kristnu manna, er freistað af djöflinum. En slík tilfinning getur engum manni gert mein, vegna þess að henni er beint gegn vorum vilja og vér vildum heldur vera lausir við hana. Ef enginn því fyndi fyrir henni, gæti hún ekki kallast raun. Hins vegar kallast það viðurkenning, þegar henni er gefinn laus taumurinn og hvorki er staðið né beðið gegn henni.

            Þess vegna verðum vér kristnir menn að vera þess albúnir og vænta þess, að á oss verði ráðist án afláts, svo að enginn geti talið sig öruggan og áhyggjulausan, eins og djöfullinn væri fjarri oss, heldur sæta færis og ráðast gegn honum. Jafnvel þótt ég sé því nú siðsamur, þolinmóður, vingjarnlegur og trú mín standi traustum fótum, ætti djöfullinn samt á þessari stundu að geta skotið slíku skeyti í hjarta mitt, svo að ég fái varla staðist. Hann er slíkur óvinur, sem aldrei hættir eða þreytist, þar sem sífellt koma fram aðrar, nýjar raunir þegar ein raun er yfirstaðin. Þess vegna er ekkert annað ráð eða önnur huggun til en að hlaupa til og fara með Faðir vor og tala af hjarta við Guð: „Kæri faðir, þú hefur hvatt mig til þess að biðja, láttu mig ekki falla á ný fyrir freistninni.“  Þá munt þú sjá, að hún verður loks að láta undan og játa sig sigraða. Þar sem þú annars með hugsunum þínum og eigin ráðum reynir að bjarga eigin skinni, gerir þú aðeins illt verra og gefur djöflinum meira svigrúm. Hann hefur nefnilega ormshöfuð og þar sem hann finnur gat, sem hann getur smogið í gegnum, þá siglir allur líkaminn óhindraður í kjölfarið, en bænin getur varnað honum inngöngu og haldið aftur af honum.

Seinasta bæn: Heldur frelsa oss frá illu. AMEN.

            Á grísku[17] hljóðar þessi hluti þannig: „Frelsa eða vernda oss frá hinum vonda eða illgjarna.“  Þannig virðist Kristur einmitt tala um djöfulinn, eins og hann vilji setja allt undir sama hatt, þar sem meginatriðum allrar bænarinnar sé beint gegn erkióvini vorum. Hann er því sá, sem hindrar allt það sem vér biðjum um oss til handa: Nafn Guðs eða heiður, ríki Guðs og vilja, daglegt brauð, hreina og góða samvisku og svo framvegis. Þess vegna sláum vér þessu loks saman og segjum: „Kæri faðir, hjálpaðu oss, að vér losnum við alla ógæfu.“  Þarna er ekki síður tekið með í reikninginn hið illa, sem beint er gegn oss og heyrir undir ríki djöfulsins og er fátækt, skömm, dauði og í stuttu máli alls kyns hugsanleg eymd og volæði, sem er svo ólýsanlega mikil á jörðinni. Djöfullinn, sem ekki er einungis lygari, heldur einnig morðingi, sækist því án afláts eftir lífi voru og hann fær útrás fyrir reiði sína á þann hátt, að hann getur valdið oss slysum og líkamlegu tjóni. Af þessu leiðir, að hann hálsbrýtur suma eða sviptir þá vitsmunum, nokkrum drekkir hann í vatni og marga fær hann til þess að svipta sig lífi, auk annarra voveiflegra atburða. Þess vegna höfum vér ekkert annað að gera á jörðinni en að biðja án afláts gegn þessum erkióvini. Þar sem Guð héldi oss því ekki uppi, værum vér ekki öruggir fyrir honum nokkra stund.

            Af þessu sérð þú, hvernig Guð vill að beðið sé einnig fyrir því, sem hrjáir oss líkamlega, svo að hjálpar sé ekki leitað eða vænst annars staðar en hjá honum. Á hinn bóginn hefur hann geymt þetta þangað til síðast. Ef vér eigum að varðveitast og losna undan hinu illa, verður nafn hans að helgast í oss fyrst, ríki hans að vera hjá oss og vilji hans að verða. Þá vill hann vernda oss fyrir synd og skömm, auk alls þess, sem særir oss og veldur oss tjóni.

            Þannig hefur Guð í stuttu máli sýnt oss fram á alla þá neyð, sem ævinlega íþyngir oss, svo að vér höfum enga afsökun fyrir því að láta ógert að biðja. En þá er einnig lögð rík áhersla á, að vér lærum að segja „AMEN“ við því, en það merkir, að vér efumst ekki um það, að vér verðum vissulega bænheyrð og svo verði. Það er ekkert annað en ófrávíkjanlegt orð trúarinnar, þar sem ekki er beðið með óráðshjali heldur í fullvissu þess, að Guð lýgur ekki, því að hann hefur heitið því að gefa oss það. Þar sem slíka trú er ekki að finna, getur rétt bæn ekki heldur verið til. Þess vegna telst það skelfileg villa þeirra sem þannig biðja, að þeir voga sér ekki að segja „já“ af hjarta og ganga ekki út frá því sem vísu, að Guð bænheyri, heldur verða efagjarnir og segja: „Hvernig ætti ég að voga mér að hrósa mér af því að Guð bænheyri mig?  Ég, sem er aumur syndari…“ og svo framvegis. Þetta gerir það að verkum, að þeir horfa ekki á fyrirheit Guðs, heldur á verk sín og eigin verðleika, svo að þeir fyrirlíta Guð og bera á hann lygar. Þess vegna bera þeir heldur ekkert úr býtum, eins og heilagur Jakob segir í bréfi sínu: „En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, reikull og tvílyndur á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð frá Drottni“.[18] Sjáðu til, svo ríka áherslu leggur Guð á þetta, að vér megum vera þess fullviss, að vér biðjum ekki til einskis og vér fyrirlítum bæn vora ekki á nokkurn hátt.


[1]           Sjá t.d. Mt. 7.7; Lk 18.1; Rm 12.12; 1Þ 5.17; 1Pt 4.8.

[2]           Lúther hefur í huga lestur tíðagjörða 7 sinnum á hverjum degi.

[3]           Sl 50.15.

[4]           Mt 7.7-8.

[5]           Sjá hér tilvísun 93.

[6]           Lúther hefur hér í huga alla þá erfiðleika, sem herjuðu á siðbreytinguna í Þýska-          landi þess tíma. Bændauppreisnin mikla í Þýskalandi 1524-1525 er honum      einnig hugleikin, en hann áleit hana vera tilraun djöfulsins til þess að halda aftur     af boðun fagnaðarerindsins.

[7]           Sjá hér Mt 6.7 og 23.14.

[8]           Það rými eða herbergi, þar sem hið vígða brauð (oblátan), sem samkvæmt       skilningi rómversku kirkjunnar er líkami Krists sem umbreyst hefur í brauð, er      notað við tilbeiðslu.

[9]           Það gerist við endurkomu Krists.

[10]         Það er sú súpa, sem betlurunum var gefin í garðinum og nefnist „Hofesuppe“ á þýsku.

[11]         Mt 6.33.

[12]         Sjá hér Mt 25.41.

[13]         Það sem Lúther segir hér um áhlaup djöfulsins gegn fagnaðarerindinu og trúnni,    mótast mjög sterkt af þeirri reynslu, sem hann hafði orðið fyrir og þeirri þýðingu         sem það hafði fyrir hann að vera undirorpinn þeim atburðum, sem hann hafði             staðið mitt í. Það voru árásir djöfulsins, þegar Ríkisdagurinn í Worms bannaði           boðun Lúthers og krafðist þess, að rit hans yrðu brennd, og þegar furstarnir     reyndu að fylgja þessari ákvörðun eftir. En það var einnig djöfullinn, sem að mati Lúthers stóð að baki páfanum og öllum þeim biskupum, sem aðhylltust   hann. Ástæðan var sú, að mótstaða þeirra við Lúther braust fram í því, að þeir             vildu hindra, að fagnaðarerindið næði fram að ganga. Inn í þessar ytri kringum-    stæður kom til innbyrðis flokkadráttur á þriðja áratug sextándu aldar á milli trú-        boðanna. Úr því að djöfullinn megnaði ekki að stöðva útbreiðslu     fagnaðarerindisins með valdi, vakti hann upp falsspámenn. Þannig skildi Lúther     andstæðinga sína, sem hann nefndi „vingltrúarmenn“. Hann hefur einmitt þá             sérstaklega í huga, þegar hann í Fræðunum andæfir gegn þeim, sem rengja orð            Guðs.

[14]         Hér er vísað til tákna í skjaldarmerki saxnesku furstanna.

[15]         Lk 6.37.

[16]         Mt 6.14.

[17]         Í fyrstu útgáfunni, sem hér er stuðst við, stóð ranglega: „Á hebresku“. Sjá þar:     Weimarer Ausgabe, 30. bindi, bls. 210. Þetta var leiðrétt í síðari útgáfum. Í latnesku þýðingunni á Bekenntnisschriften der evangelisch-lutherischen Kirche,    bls. 689, stendur: „Á grísku“. Sjá einnig: Weimarer Ausgabe, 30. bindi, bls. 108.

[18]         Jk 1.6-8.