Skip to content

Fræðin meiri: Inngangur

Hér fyrir neðan er frumþýðing Þorgils Hlyns Þorbergssonar á Fræðunum meiri.
Þýðingin var prentuð í Marteinn Lúther, Úrval rita 2, Reykjavík: Skálholtshútgáfan, 1918, þá í endurskoðun Gunnars Kristjánssonar.
Þýðingin er birt á netsíðunni með fyrirvara um mögulegar villur. Endurskoðun er í vinnslu.

Lengri inngangur Marteins Lúther [1]

            Það er ekki að ástæðulausu, að vér leggjum svo ríka áherslu á fræðin og bænina og biðjum aðra um og ætlumst til þess að þeir geri slíkt hið sama. Vér sjáum því miður, að margir prédikarar[2] og sóknarprestar[3] láta sér þau í léttu rúmi liggja og þeir fyrirlíta þannig bæði embætti sitt og þennan barnalærdóm, að sumu leyti vegna menntahroka, að öðru leyti vegna helberrar leti eða umhyggju fyrir holdinu. Þessir nautnaseggir þykjast vera sóknarprestar og prédikarar til þess eins að geta komið sjálfum sér á framfæri og telja sig ekkert hafa þarfara að gera en að njóta góðs af verkum sínum, vegna þess að þeir lifa eins og þeir hafa átt að venjast frá páfatímanum. Enda þótt þeir nú á dögum hafi allt í ríkum mæli, sem þeir eiga að kenna og prédika skýrt og greinilega í svo mörgum góðum og heilnæmum bókum, eins og þeim, sem fyrr á tímum voru nefndar „Sjálffluttar prédikanir“, „Sofðu rótt“, „Skýrt og greinilega“ eða „Skartgripageymsla“,[4] eru þeir hreint ekki svo guðræknir og samviskusamir, að þeir kaupi slíkar bækur, eða líti í þær og lesi þær, jafnvel þótt þeir eigi þær. Æ, þeir eru þvílíkir mathákar og nautnaseggir, að þeir hefðu fremur átt að verða lítilsvirtir svínahirðar eða hundaþjálfarar en sálnahirðar og sóknarprestar.

            Og vissulega myndu þeir gera vel, þar sem þeir eru nú lausir við hinar sjö fánýtu og tímafreku tíðagjörðir,[5] ef þeir læsu þess í stað að morgni, um hádegi og að kvöldi eina eða tvær blaðsíður úr fræðunum, bænabókinni,[6] Nýja testamentinu eða annars staðar úr Biblíunni eða færu með Faðir vor fyrir sjálfa sig og sóknarbörn sín![7] Með því sýndu þeir fagnaðarerindinu tilskilda virðingu og tjáðu þakklæti fyrir það, að þeir hafa staðist ýmiss konar raunir og mótbyr. Þeir ættu að skammast sín dálítið fyrir það, að líkt og svín og hundar hafa þeir ekki fengið annað út úr fagnaðarerindinu en slíkt heimskulegt, skaðlegt, viðurstyggilegt og holdlegt frelsi. Skríllinn gerir því miður allt of mikið af því að lítilsvirða fagnaðarerindið, og vér getum ekkert við því gert, þrátt fyrir að vér stritum og puðum bæði dag og nótt. Og hvað kemur svo út úr því, þegar vér vörpum allri eljusemi fyrir róða og viljum sitja löt með hendur í skauti, eins og vér gerðum á páfatímanum?

            Þar að auki brjótast hinn skammarlegi löstur og duldi óþverri sjálfbirgings og leiðinda fram, (sem er þung byrði að bera og er dulinn og erfiður sjúkdómur) sem fær marga til að halda, að fræðin séu einfalt og lítilfjörlegt námsefni, sem þeir renna einu sinni í gegnum og telja sig svo kunna þau, henda þeim síðan út í horn og skammast sín svo fyrir að líta aftur í þau. Já, einnig á meðal aðalsmanna finnum vér slíka fábjána og ónytjunga, sem halda því fram, að nú sé hvorki þörf á prestum né prédikurum lengur. Þetta sé allt saman í bókum og hægt sé að læra þetta af sjálfu sér. Síðan láta þeir prestaköllin grotna niður og standa auð, og þeir valda sóknarprestunum og prédikurunum gríðarlegum þjáningum, svo að þeir lifa við sult og seyru.[8] Þannig koma Þjóðverjar fram af ófyrirleitni enda erum vér Þjóðverjar ósvífin þjóð og hljótum að líða fyrir það.

            Ég segi hins vegar fyrir mitt leyti: Ég er einnig doktor og prédikari, já, álíka mikið menntaður og reyndur og allir þeir, sem kunna að vera ósvífnir og hreykja sér þannig upp! Samt fer ég að eins og barn, sem lærir fræðin, ég les þau og þyl þau upp fyrir sjálfan mig orð fyrir orð á morgnana og þegar ég hef tíma til; Faðir vor, Boðorðin tíu, trúarjátninguna, Davíðssálmana og svo framvegis. Daglega verð ég að lesa þau og leggja stund á þau en get samt ekki skilið þau til fulls, eins og ég gjarnan vildi og verð því að vera eins og barn og nemandi, sem er að læra fræðin, og það geri ég líka fúslega. En þessir veikgeðja og viðbjóðslegu seggir halda að með því að lesa fræðin einu sinni, verði þeir doktorar allra doktora strax, geti allt og þarfnist einskis meira.  En þetta er ekkert annað en greinilegt merki þess, að þeir fyrirlíta bæði embætti sitt og mannssálirnar, já, meira að segja Guð og orð hans. Þeir komast hjá falli, því að þeir hafa þegar orðið fyrir skelfilegu falli, en þeir þarfnast þess sárlega að verða börn og byrja á því að læra stafrófið, sem þeir telja sjálfir að þeir hafi löngu lært og kunni til hlítar.

            Þess vegna bið ég slíka letingja og ósvífna dýrlinga um það, að þeir láti sér segjast vegna Guðs og trúi því, að þeir séu hreint ekki svo hámenntaðir og svo miklir doktorar, eins og þeir vilja gefa í skyn, og þeir skulu heldur alls ekki halda, að þeir hafi lært þessi atriði í þaula, eða að þeir viti nógu mikið, þótt þeir telji það sjálfir. Því að jafnvel þótt þeir vissu og kynnu allt til hlítar (sem þó er ekki mögulegt í þessu lífi), þá er samt hægt að hafa mikið gagn og nytsemd af því að lesa daglega og ástunda í hugsun og máli, einmitt þetta, að heilagur andi er með í slíkum lestri, máli og hugsun og gefur skærara ljós og meiri íhugun, svo að hann vinnur sífellt á og og festist betur í minni, eins og Kristur hefur heitið í Matteusarguðspjalli: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“[9]

            Þar að auki er það ómetanleg hjálp gegn djöflinum, heiminum, holdinu og öllum illum hugsunum að fást við Guðs orð, tala um það og yrkja, eins og í 1. Davíðssálmi er sá talinn sæll, sem hugleiðir lögmál Drottins dag og nótt.[10] Án nokkurs vafa berð þú hvorki betri ilmkvoðu né reykelsi á borð, sem vinnur sterkar á djöflinum en þessi, að þú fæst við Guðs orð, talar um það, syngur um það eða hugsar um það. Það er reyndar rétta vígsluvatnið og táknið, sem djöfullinn fælist og flýr undan.[11] Nú skalt þú einmitt aðeins þess vegna glaður lesa, tala um, hugsa um og fást við þessi atriði, þótt þú hafir ekki aðra nytsemd og  gagn af þeim en að stökkva djöflinum og illum hugsunum á flótta. Djöfullinn þolir því ekki að heyra Guðs orð, því að það er ekki uppspuni, eins og til dæmis frásagan af Þiðreki af Bern,[12] heldur, eins og Páll postuli segir í Rómverjabréfinu; „kraftur Guðs“,[13] já, það er vissulega kraftur Guðs, sem fær djöfulinn til þess að engjast af kvölum, og hann styrkir, huggar og hjálpar oss svo ólýsanlega mikið.

            Og hvað á ég að segja meira?  Ef ég ætti að tala um allt það gagn og alla þá nytsemd, sem hafa má af orði Guðs, hvaðan ætti ég þá að geta aflað mér nægilegs pappírs og tíma?  Djöfullinn er kallaður þúsundþjalasmiður. Hvað væri þá Guðs orð kallað, sem stekkur slíkum þúsundþjalasmið með öllum sínum brögðum og klækjum á flótta og gerir hann að engu?  Það hlýtur þá víst að vera rúmlega hundraðþúsundþjalasmiður. Ættum vér að fyrirlíta þvílík máttaröfl, nytsemd, kraft og ávöxt, sérstaklega vér, sem viljum vera sóknarprestar og prédikarar?  Væri svo, þá væri ekki bara réttast að hætta að gefa oss að eta, heldur líka siga hundum á oss og henda oss út með skít og skömm, vegna þess að vér þurfum ekki eingöngu daglega á Guðs orði að halda eins og daglegu brauði, heldur þurfum vér daglega á því að halda sem vernd gegn daglegum og linnulausum truflunum og vélabrögðum þúsundþjalasmiðsins djöfuls.

            Og sé þetta ekki nógu skýr áminning um það að lesa fræðin daglega, þá ættu boð Guðs ein og sér að minnsta kosti að vera nógu skýr, þar sem alvarlega er áréttað í Fimmtu Mósebók,[14] að „þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú ferð á fætur. Þú skalt binda þau til merkis á hönd þér og hafa þau sem minningarbönd á milli augna þinna.“

            Það er augljóst, að það er ekki að ófyrirsynju, sem Guð ætlast svo alvarlega til þess af oss, heldur gerir hann þetta, vegna þess að hann þekkir vanda vorn og neyð og hann veit, hvernig djöfullinn gerir stöðugar og tryllingslegar árásir á oss og ruglar oss í ríminu, hann vill vara oss við því, búa oss vopnum og vernda oss með því að klæðast „alvæpni Guðs“, til þess að vér stöndumst „hin eldlegu skeyti“[15] og með því að gefa oss gott lyf gegn smitandi eitri þeirra. Æ, þvílíkir fábjánar og óvitar erum vér, ef vér, sem búum á meðal svo máttugra óvina eins og djöflanna, fyrirlítum vopn vor og vörn gegn þeim og erum of værukær til þess að virða þau fyrir oss eða hugsa um þau.

            Og hvað gera þessir ömurlegu vindbelgir og ósvífnu dýrlingar, sem hvorki vilja né þola að lesa og læra fræðin daglega, annað en að álíta sig vera lærðari en Guð sjálfan og allir hans englar, spámenn, postular og allt kristið fólk?  Þar sem því Guð sjálfur skammast sín ekki fyrir að kenna oss þetta á hverjum degi, því að hann veit ekkert betra námsefni,. Þess vegna kennir hann oss þetta sama í sífellu og fer ekki út í nýja hluti og þegar allir heilagir hvorki þekkja nokkuð annað né nokkuð betra en að kenna oss og verða aldrei búnir að kenna, erum vér þá ekki heldur betur karlar í krapinu, þegar oss dettur í hug, að þegar vér höfum lesið og heyrt fræðin aðeins einu sinni, þá kunnum vér þetta allt og vér þurfum hvorki að lesa þau né læra lengur?  Og getum vér lært það til hlítar á einni klukkustund, sem sjálfur Guð verður aldrei búinn að kenna oss, þó að hann hafi kennt þetta frá upphafi heimsins til endimarka hans og sem allir spámenn og allir heilagir hafa numið en eru þrátt fyrir allt áfram nemendur og hljóta alltaf að verða það?

            Eitt verður því sannarlega að vera ljóst: Sá, sem á að kunna boðorðin tíu vel og vandlega, verður að kunna alla Ritninguna, svo að hann geti að öllu leyti og í öllum tilfellum ráðlagt, hjálpað, huggað, metið og dæmt, og bæði í andlegum og veraldlegum efnum verið dómari allra fræða, stétta, anda, réttarkerfa og alls þess, sem kann að vera í heiminum. Og hvað er allur Saltarinn annað en eintómar hugleiðingar og æfingar í fyrsta boðorðinu?  Nú veit ég fyrir víst, að slíkir letingjar og ósvífnir andar skilja ekki einn einasta sálm og þaðan af síður Ritninguna í heild, og síðan telja þeir sig kunna öll fræðin og fyrirlíta þau, sem eru útdráttur og samantekt á því, sem stendur í allri Heilagri ritningu.

            Af þeim sökum bið ég enn einu sinni alla kristna menn, sérstaklega alla sóknarpresta og prédikara, að þeir kalli sig ekki lærða doktora of snemma eða telji sig vita allt (því að það er eins með slíkar ranghugmyndir og ný föt; þau krumpast), heldur ástundi þeir fræðin vel. Að lokum bið ég þá um að þeir með hinni mestu umhyggju og eljusemi verjist hinum eitraða óþverra sjálfbirgings og hroka. Þvert á móti bið ég þá um að halda stöðugt áfram og láta ekki af að lesa, fræða, læra, hugsa og yrkja og hætta ekki fyrr en sýnt þykir að þeir hafi komið djöflinum fyrir kattarnef og séu lærðari en Guð sjálfur og allir hans heilögu. Séu þeir nú svona kappsamir, skal ég segja þeim, og þá eiga þeir að vita það hið innra með sjálfum sér, hvílíkan ávöxt þeir munu bera af því, og að hvílíkum heiðursmönnum Guð gerir þá, svo að þeir viðurkenni sjálfir með tímanum, að því meira sem þeir ástunda fræðin, þeim mun minna vita þeir um þau og þeim mun meira þurfa þeir að læra í þeim. Og þar sem þetta yrði þeim allra fyrsti rétturinn, sem hungruðum og þyrstum er ætlað að bragða á, þá eru þeir svo pakksaddir og leiðir á honum, að þeir geta ekki svo mikið sem þefað af honum. Guð gefi þá sína náð til þess. Amen.

Styttri inngangur Marteins Lúthers [16]

Þessari prédikun er frá upphafi ætlað að kenna börnum og almúgafólki. Af þeim sökum hefur hún frá fornu fari verið nefnd á grísku máli „katekismus“, en það merkir barnalærdómur eða „fræði“, og með því er átt við það, sem öllu kristnu fólki er nauðsynlegt að vita. Sá, sem ekki veit þetta, getur ekki talist á meðal kristins fólks og ætti ekki að neyta nokkurs sakramentis. Það er rétt eins og með handverksmann, sem stendur sig ekki í starfi. Vér rekum hann heim til sín og teljum hann iðjuleysingja. Af þeim sökum ber oss að kenna æskulýðnum það, sem prédikað er um barnalærdóminn eða fræðin, og prófa börnin í honum, svo að þau kunni hann vel og vandlega. Af þeim sökum hafa einnig allir húsbændur þeirri skyldu að gegna að minnsta kosti einu sinni í viku að yfirheyra börn sín og þjónustufólk, hvert og eitt, til þess að kanna, hvað þau kunna og eru í þann veginn að læra, og kunni þau það ekki, skal hann alvarlega hirta þau. Ég man því vel þá tíð, já, enn má daglega finna fullorðið og aldrað fólk, sem er svo fávíst, að það hefur ekkert numið af barnalærdóminum og kann þar af leiðandi ekkert í honum, og samt tekur það skírn og neytir altarissakramentanna og nýtur góðs af öllu því sem kristið fólk hefur. Nærri lagi hefði verið, að það fólk, sem neytti sakramentanna, vissi meira og hefði meiri skilning á kristindómnum en börnin og byrjendurnir.  Vegna hinna ólærðu skulum vér fyrst og fremst láta oss þessa þrjá hluta nægja, sem frá öndverðu hafa bent oss á það, hvað felst í því að vera kristinn — þó svo að of lítið hafi verið kennt og brýnt fyrir þeim — þar til fólk, sem vill vera kristið, hefur lært þá og kann þá, bæði ungt og gamalt.

Þessir þrír hlutar eru:

Í fyrsta lagi: Boðorðin tíu:

1. boðorð: Þú skalt ekki aðra guði hafa.

2. boðorð: Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.

3. boðorð: Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.

4. boðorð: Heiðra skaltu föður þinn og móður.

5. boðorð: Þú skalt ekki mann deyða.

6. boðorð: Þú skalt ekki drýgja hór.

7. boðorð: Þú skalt ekki stela.

8. boðorð: Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

9. boðorð: Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.

10. boðorð: Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað, né nokkuð það, sem náungi þinn á.

Í öðru lagi: Aðalgreinarnar í trú vorri:

Ég trúi á Guð Föður, almáttugan skapara himins og jarðar.

Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn var af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til Heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs Föður almáttugs, og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.

Ég trúi á Heilagan anda, heilaga almenna[17] kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Amen.

Í þriðja lagi: Bænin eða Faðir vor, eins og Kristur hefur kennt:

Faðir vor, þú sem ert á himnum, helgist þitt nafn. Tilkomi þitt ríki. Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Amen.[18]

Þetta eru nauðsynlegustu atriðin, sem vér verðum fyrst og fremst að læra og þylja frá orði til orðs. Á hverjum degi eigum vér að venja börnin á að fara með þessa hluta, þegar þau fara á fætur á morgnana, þegar þau setjast til borðs og þegar þau leggjast til svefns á kvöldin. Og þau eiga hvorki að fá neitt að eta né drekka, fyrr en þau hafa farið með þá. Sömuleiðis er sérhverjum húsbónda skylt að halda fólki sínu, þjónum og þernum, við fræðin. Kunni þau ekki þessa þrjá hluta og vilji þau ekki læra þá, á hann ekki að hafa þau hjá sér. Það ætti ekki að líðast á nokkurn hátt, að nokkur maður sé svo tornæmur og tregur, að hann geti hvorki né vilji læra þessa þrjá hluta. Í stuttu og kjarnyrtu máli og á auðskilinn hátt er allt það tekið saman, sem vér höfum í Ritningunni. Kirkjufeðurnir og postularnir (hverjir sem þeir eru) hafa sett það saman í stuttu máli, sem er kennsla, líf, viska og list hinna kristnu, sem þeir tala um, ástunda og lifa eftir.[19]

Þegar búið er að læra þessa þrjá hluta ættu menn að kunna skil á sakramentunum, (sem Kristur sjálfur hefur stofnsett,) skírninni og hinum heilaga líkama og blóði einmitt samkvæmt þeim textum Matteusar og Markúsar, sem þeir skrifa í lok guðspjallanna um það, hvernig Kristur kvaddi lærisveina sína að skilnaði og sendi þá út.

Um skírnina

„Farið því og gjörið allar þjóðir[20] að lærisveinum og skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda.

Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.“[21]

Hinum ólærðu nægir að kunna þetta úr Ritningunni. Á sama hátt eiga þeir í fáum og einföldum orðum að kunna skil á hinu sakramentinu samkvæmt texta Páls postula.

Um altarissakramentið

„Vor Drottinn Jesús Kristur tók brauðið, nóttina sem hann svikinn var, gjörði þakkir og braut það, og gaf sínum lærisveinum og sagði: „Takið og etið. Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn, gjörði þakkir, gaf þeim hann og sagði: „Drekkið allir hér af. Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna. Gjörið þetta svo oft sem þér drekkið í mína minningu“.“[22]

Þannig eru samtals fimm hlutar í allri kristinni uppfræðslu, sem ætíð ber að ástunda og krefjast þess, að fólk kunni þá frá orði til orðs. Þú skalt nefnilega ekki halda það, að æskulýðurinn læri og hugfesti sér allt með prédikuninni einni saman. Þegar búið er að læra þessa hluta vel, væri einnig hægt að taka fram nokkra sálma og söngva, sem fjalla um þetta, til þess að læra fræðin enn betur og styrkjast í þeim til þess að gera Ritninguna handgengnari æskulýðnum, svo að honum vaxi daglega ásmegin.

En það er ekki nóg að bera skynbragð á orðin og geta þulið þau. Fáðu því æskulýðinn líka til þess að hlýða á prédikunina, sérstaklega þar sem talað er um fræðin, til þess að hann fái að heyra þau útlögð og læri þannig að skilja, hvert er innihald hvers hluta fyrir sig og geti endurtekið það sem hann hefur lært og gefið greinargóð svör, þegar hann er spurður, svo að ekki verði prédikað til ónýtis og án þess að bera ávöxt. Þess vegna kappkostum vér að prédika fræðin og innræta þau æskulýðnum, ekki með torskildum og fræðilegum orðum, heldur í stuttu og einföldu máli, til þess að þau festist í minni og hann hugfesti sér þau. Af þeim sökum skulum vér því taka alla hlutana fyrir, hvern fyrir sig, og tala eins skýrt um þá eins og við á og eins mikið og þurfa þykir.


  • [1] Frá árinu 1530.
  • [2] Prédikarar (Prediger) voru eingöngu skipaðir til þess að prédika.
  • [3] Sóknarprestar standa hér fyrir þýska orðið „Pfarrherren“ eða Pfarrer, sem eru þeir prestar, sem á miðöldum báru í meginatriðum ábyrgð á skriftum og sálgæslu.
  • [4] Þau hugtök, sem hér eru nefnd innan gæsalappa, eru titlar á prédikanasöfnum frá   síðmiðöldum. Lúther notar latnesku titlana: „Sermones per se loquentes“, „Dormisecure“, „Paratos“ og „Thesauros“. Slíkar fyrirsagnir á prédikunum voru   til í ríkum mæli. Áður hafði Lúther kallað þær „Asnatað, dreift af djöflinum“. Í raun og veru hefur hann þessi verk ekki í huga, heldur prédikanasöfn út frá    fagnaðarerindinu, eins og hans eigin postillur.
  • [5] Tíðagjörðirnar áttu prestar og munkar að halda 7 sinnum á hverjum degi.
  • [6] Hér hefur Lúther sína eigin bænabók „Betbüchlein“ (Litlu bænabókina) sem kom út árið 1522, í huga.
  • [7] Lúther lítur svo á, að stuttar, daglegar guðsþjónustur sem innihalda þessi atriði,  séu tíðagjörðir, byggðar á fagnaðarerindinu.
  • [8] Það er að segja, lifa við hungurmörk. Margar kirkjur voru í eigu aðalsins.  Eigandinn hafði svokallaðan „yfirráðarétt“, sem meðal annars fól í sér rétt á því að tilnefna prestinn eða prestana við kirkjuna.
  • [9] Mt 18.20.
  • [10] Sl 1.2.
  • [11] Reykelsi og vígt vatn voru notuð til þess að reka út illa anda.
  • [12] Frásagan af Þiðreki af Bern, sem var hinn austurgotneski konungur Þeódórik, en hann stofnaði ríki á Ítalíu við lok 5. aldar. Lúther nefnir hana oft sem gott dæmi um lygi og uppspuna.
  • [13] Rm 1.16.
  • [14] 5M 6.6-8.
  • [15] Sjá Efesusbréfið, 6. kapítula, vers 11 og 16.
  • [16] Prentaður árið 1529. Er að stofni til úr prédikun frá 18. maí 1528.
  • [17] Í texta sínum talar Lúther um heilaga, kristilega kirkju, „Eine heilige Christliche kirche“. Á latínu er hins vegar talað um almenna kirkju, „sanctam universalem Ecclesiam“, eða „sanctam Ecclesiam catholicam“. Latneska orðið „catholica“ merkir, að kirkjan er ætluð öllu fólki. Þess vegna er sú þýðing, sem við erum vön, þar sem talað er um „heilaga, almenna kirkju“, betri en þýðing Lúthers, þar sem hann talar um „heilaga, kristilega kirkju“. Sjá þar: Luther; Martin, 1910:130 (Weimarer Ausgabe, 30. Band, 1. Abteilung, neðanmálstilvísun).
  • [18] Einar Sigurbjörnsson, 1991: Kirkjan játar, bls. 262-270.
  • [19] Hér hefur Lúther auðvitað trúarjátninguna í huga. Eins og sjá má skiptir það Lúther ekki meginmáli, hver setti hana saman. Það sem mestu varðar er hitt, að innihald hennar dregur saman boðun Ritningarinnar að hans mati.
  • [20] Orðrétt; „alla heiðingja,“ auk þess sem það er málfræðilega réttara. Sjá hér: Einar Sigurbjörnsson, 1991: Kirkjan játar, bls. 271. Hins vegar voru Fræðin  minni gefin út aftur árið 1993 og þá var textanum breytt aftur til samræmis við núgildandi biblíuþýðingu. Sjá þar: Einar Sigurbjörnsson, 1993: Fræðin minni, bls. 33.
  • [21] Mt 28.19 og Mk 16.16.
  • [22] 1Kor 11.23-25. Sjá einnig: Einar Sigurbjörnsson, 1991: Kirkjan játar, bls. 275.