Skip to content

Fræðin meiri: Um skírnina

Hér fyrir neðan er frumþýðing Þorgils Hlyns Þorbergssonar á Fræðunum meiri.
Þýðingin var prentuð í Marteinn Lúther, Úrval rita 2, Reykjavík: Skálholtshútgáfan, 1918, þá í endurskoðun Gunnars Kristjánssonar.
Þýðingin er birt á netsíðunni með fyrirvara um mögulegar villur. Endurskoðun er í vinnslu.

Fjórði hluti: Um skírnina

Grundvöllur skírnarinnar

Vér höfum nú lokið umfjöllun um hina þrjá aðalhluta hinnar almennu, kristilegu kenningar. Auk þeirra sjálfra er sjálfsagt að greina frá þeim tveimur sakramentum, er Kristur hefur stofnsett, og sem sérhver kristinn maður ætti að fá stutta lágmarkskennslu í, vegna þess að án þeirra getur enginn maður verið kristinn, þrátt fyrir að fram að þessu hefur ekkert verið kennt um þau.[1] Fyrst munum vér taka skírnina fyrir, en fyrir hana vorum vér fyrst tekin inn í kristið samfélag. Til þess að hún verði hins vegar skilin til fullnustu, skulum vér fjalla skipulega um hana og staðnæmast einvörðungu við það, sem nauðsynlegt er að vita; en hins vegar skulum vér fela hinum lærðu mönnum að setja hana fram og verja frammi fyrir trúvillingum og sértrúarhópum.

Í fyrsta lagi skulum vér fyrir alla muni kunna þau orð vel, sem skírnin er byggð á og allt, sem um hana er að segja, á uppruna sinn í þeim, nefnilega þegar Kristur talar í seinasta kapítula Matteusarguðspjalls:

„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá nafni föður, sonar og heilags anda.“[2]

Á sama hátt segir Markús, einnig í seinasta kapítulanum:

„Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.“[3]

Í þessum orðum skalt þú fyrst og fremst taka eftir þessu, að hér standa boð Guðs og innsetning, svo að ekki leiki nokkur vafi á því, að skírnin er guðlegt fyrirbæri, hvorki upphugsað af mönnum né fundið upp. Ég fæ ekki betur séð, að boðorðin tíu, trúarjátningin og Faðir vor eru ekki heilaspuni nokkurs manns, heldur opinberuð og gefin af Guði. Ég get líka fullyrt, að skírnin er enginn mannlegur hégómi heldur er hún grundvölluð af Guði sjálfum, og af þeim sökum er alvarlega og stranglega minnt á, að vér verðum að láta skírast, ella munum vér enga sælu hljóta, og því skal enginn halda, að það sé jafnléttvægt og að klæðast nýjum, rauðum skrúða. Af þeim sökum er lögð gríðarleg áhersla á þetta, að skírnin sé stórkostleg, dásamleg og mikils metin, því að um hana sláumst vér og berjumst, því að heimurinn er nú svo fullur af trúarhópum, sem hrópa, að skírnin sé ytra fyrirbæri, ytra fyrirbæri, sem ekkert gagn sé af. En láttu ytra fyrirbæri liggja á milli hluta, að svo miklu leyti sem mögulegt er, orð Guðs og boð, sem stofnsetur skírnina, grundvallar hana og staðfestir, stendur þá eftir. Það sem Guð hins vegar staðfestir og byggir, má ekki líða undir lok, heldur á það að vera einskært hnoss, jafnvel þótt það sé talið minna virði en hálmstrá. Eins og það var mikils metið, að páfinn dreifði afláti með bréfum og bullum, staðfest ölturu eða kirkjur með tilstilli bréfa og innsigla einvörðungu, þá ættum vér að meta skírnina mun meira og telja hana dýrmætari, vegna þess að Guð hefur skipað svo fyrir og hún á sér stað í hans nafni. Þannig er þetta samkvæmt orðanna hljóðan: „Farið, skírið, en ekki í nafni yðar, heldur í nafni Guðs.“

Að vera skírður í nafni Guðs er ekki að vera skírður af manni, heldur af Guði sjálfum; og þrátt fyrir að hún eigi sér sér stað fyrir tilstilli mannlegrar handar, þá er hún samt sannarlega Guðs eigið verk, og því getur hver sem er ályktað sem svo, að það sé mun meira verk en nokkurt verk sem framkvæmt er af manni eða dýrlingi. Hvað getur því talist meira verk en verk Guðs?  En hér hefur djöfullinn nóg með að blinda oss undir fölsku yfirskini og yfirfæra verk Guðs á vort eigið. Það virðist því mikilsverðara, ef karþusiani[4] framkvæmdi erfiðara og meira verk, og megináherslan yrði lögð á það sem vér sjálfir gerðum og verðskulduðum. En Ritningin kennir: Ef öllum verkum munkanna yrði safnað saman í einn stóran bing, án tillits til þess hversu stórkostlega þau glitruðu, þá væru þau samt ekki álitin svo göfug og góð, þar sem Guð hefði alveg eins getað tekið fram hálmstrá. Hvers vegna?  Vegna þess að persónan er göfugri og betri. Hér má nú ekki dæma persónuna eftir verkunum, heldur verkin eftir persónunni, en göfgun þeirra er metin eftir henni. En hér gengur hin fávísa samviska í gildru: Vegna þess að hún glitrar ekki á sama hátt og þau verk, sem vér framkvæmum, þá er hún einskis metin.

Hvað er skírnin?

Af þessu ættir þú að læra að öðlast réttan skilning og svara þeirri spurningu, hvað skírnin er: Skírnin er ekki bara vatnið eitt og sér, heldur vatn, sem staðfest er með orði Guðs og boðum og helgast í henni, Hún er því ekkert annað en vatn Guðs; ekki þannig að vatnið í sjálfu sér sé göfugra en annað vatn, heldur hitt, að orð Guðs og boð liggja til grundvallar. Þess vegna telst það hreint og klárt níðingsverk og djöfullegt guðlast, að hinir nýju andar vorir,[5] sem hallmæla skírninni, undanskilja hana orði Guðs og boðum og horfa ekki á neitt annað en vatnið, sem ausið er upp úr brunninum og malda svo í móinn: „Hvernig ætti ein handfylli af vatni að gera sálirnar hólpnar?“  Já, minn kæri, hver veit ekki, að vatn er vatn, þó að annar hlutinn sé skilinn að frá hinum?  En hvernig vogar þú þér að skipta þér af skipulagi Guðs og nema á brott fegursta djásnið, sem Guð hefur tengt saman og ákvarðað, og vill ekki, að skilið verði á nokkurn hátt að?  Kjarni vatnsins er því í þessu fólginn: Orð Guðs eða boð og nafn Guðs, sem er stærsti og göfugasti fjársjóður á himni og jörðu.

Þannig ber að skilja mismuninn. Skírnin er allt annað fyrirbæri en annað vatn, ekki vegna hins náttúrulega veruleika, heldur vegna þess að eitthvað göfugra siglir í kjölfarið, því sjálfur Guð setur allan heiður sinn í hana og gefur allan kraft sinn og vald í hana. Þess vegna er það ekki aðeins náttúrulegt vatn, heldur guðlegt, himneskt, heilagt og blessað vatn, og hvernig sem annars er hægt að dásama það. Þetta allt er skírnin vegna orðsins, sem er himneskt, heilagt orð, sem enginn getur tignað nógsamlega, því að það hefur og megnar allt, sem Guðs er. Það er einnig þetta, sem gerir hana að sakramenti, eins og heilagur Ágústínus hefur kennt: „Accedat verbum at elementum et fit sacramentum,“ það merkir; þegar orðið kemst í snertingu við frumefnið eða náttúrulega efnið, þá verður úr því sakramenti, það er heilagt, guðlegt fyrirbæri og tákn.[6]

Þess vegna kennum vér stöðugt, að sakramenti og öll ytri fyrirbæri, sem Guð skipar og stofnsetur má ekki skoða út frá hinni ytri, grófu ásýnd, eins og sjá má hnotskurnina, heldur út frá því að Guðs orð sé þar innifalið. Á þann hátt tölum vér því um foreldra og veraldleg yfirvöld, eins og vér viljum sjá þau fyrir oss; rétt eins og annað fólk með nef, augu, húð og hár, hold og bein, og þau líta út rétt eins og Tyrkir og heiðingjar, og þá gæti einhver haldið áfram og sagt: „Hvers vegna ætti ég að láta mig þau varða meira en annað?“  Það er vegna boðorðsins: „Heiðra skaltu föður þinn og móður þína,“ að ég sé annan mann, skartbúinn og íklæddan dýrð og hátign Guðs. Ég segi, að boðorðið er gullkeðjan, sem hann ber um hálsinn, já, kórónan á höfði hans, sem bendir mér á, hvernig og hvers vegna heiðra beri þetta hold og blóð. Á þann hátt og ennþá frekar skalt þú heiðra skírnina og hafa hana í hávegum vegna orðsins, af því að hann sjálfur hefur heiðrað hana bæði í orði og verki og auk þess staðfest hana með kraftaverki af himni. Heldur þú virkilega, að það hafi verið hugsað sem skemmtiatriði, þegar Kristur tók skírn, himnarnir opnuðust, heilagur andi varð sýnilegur og steig niður og einskær dýrð og hátign Guðs réð ríkjum?  Af þeim sökum vara ég hins vegar við því að þetta tvennt sé skilið hvort frá öðru og aðgreint, orð og vatn. Þar sem því orðið er tekið frá, stendur ekkert annað eftir en vatnið sem þernan sýður og kalla mætti „baðvatn“,[7] en ef orðið er tekið með, eins og Guð hefur boðið, þá er það orðið sakramenti og kallast skírn Krists. Það ætti að vera fyrsta atriðið um veruleika og gildi hins heilaga sakramentis.

Hvernig gagnar skírnin?

Af því að vér vitum nú, hvað skírnin er og hvað vér eigum að halda um hana, verðum vér í öðru lagi að læra, hvers vegna og til hvers hún er innsett, hvernig hún nýtist, hvað hún gefur og skapar. Slíkt er heldur ekki hægt að skilja betur en með orðum Krists, sem vísað er til hér að ofan: „Hver sem trúir og tekur skírn verður hólpinn.“  Þess vegna ber að skilja þetta svo á einfaldastan hátt, að kraftur, verknaður, gagn, ávöxtur og takmark skírnarinnar veita sælu. Enginn er skírður til þess að hann verði fursti, heldur samkvæmt orðanna hljóðan, að „hann verði hólpinn“. Að vera hólpinn þýðir, eins og allir vita, ekkert annað en þetta, að verða laus frá syndum, dauða og djöfli í ríki Guðs og lifa með honum eilíflega. Þarna sérð þú enn og aftur, hversu dýrmæt og mikils metin skírnin á að vera, því að í henni öðlumst vér svo ósegjanlega mikinn fjársjóð. Þetta minnir einnig á að hér getur ekki verið um hreint og eintómt vatn að ræða. Eintómt vatn getur ekkert gert í sjálfu sér, en það gerir orðið sem, eins og áður segir, felur í sér nafn Guðs. Þar sem Guðs nafn er á hinn bóginn innifalið, hljóta að vera líf og sæla, þar sem um guðlegt, blessað, ávaxtasamt og náðarríkt vatn er að ræða. Fyrir orðið fær hún því kraftinn sem þarf til að vera laug endurfæðingarinnar, eins og Páll nefnir hana í Títusarbréfinu[8].

Þar sem hins vegar snillingar vorir, hinir nýju andar, halda því fram, að trúin ein frelsi en verkin og ytri fyrirbæri geri ekkert til þess, svörum vér því svo til, að vissulega er það ekkert annað en trúin sem frelsar, eins og vér munum heyra meira um. En hinir blindu leiðtogar vilja ekki sjá, að trúin verður að hafa eitthvað til að trúa á, halda sig við það og hafa eitthvað til að styðjast við og byggja á. Þannig byggist trúin á vatninu og trúir því, að það sé skírn, þar sem er einskær sæla og líf, ekki fyrir vatnið, eins og iðulega hefur komið fram, heldur fyrir það, sem holdgast í Guðs orði og skikkan og samtengist nafni hans. Þegar ég nú trúi þessu, á hvaða Guð trúi ég annan en þann, sem hefur gefið orð sitt og gróðursett það í skírninni og leggur oss til þetta ytra fyrirbæri, þar sem vér öðlumst slíkan fjársjóð?

Nú eru þeir svo fávísir, að þeir skilja trúna frá því fyrirbæri sem hún tengist og binst, út frá því að það sé ytra fyrirbæri. Já, hún hlýtur og þarf að vera ytra fyrirbæri, til þess að hægt sé að hugfesta sér hana og skilja og hún nái til hjartans, rétt eins og fagnaðarerindið er ytri munnleg prédikun. Í stuttu máli, því sem Guð gerir og starfar í oss, vill hann miðla í gegnum slík ytri fyrirbæri. Hvar sem hann nú talar, já, hvert eða hvernig sem hann talar, verður trúin að snúast um og halda sig við það. Nú höfum vér orðin: „Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða.“  Um hvað getur verið að ræða annað en skírnina, sem er vatnið, er grundvallað er á skikkan Guðs?  Af því leiðir, að sá sem fyrirlítur skírnina, fyrirlítur Guðs orð, trúna og Krist, sem vísar oss veginn og tengir oss skírninni.

Hver sem tekur við skírninni.

Í þriðja lagi, þegar vér höfum hin miklu not og kraft skírnarinnar, þá skulum við skoða áfram, hver sú persóna er, sem tekur við því, sem skírnin gefur og nýtist. Það er enn og aftur best og skýrast tjáð með orðunum: „Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða.“  Það merkir, að trúin ein gerir persónuna verðuga þess að taka við hinu líknsama, guðlega vatni á nytsaman hátt. Einmitt vegna þess að þetta stendur oss til boða og oss er lofað þessu samkvæmt orðinu í og með vatninu, er ekki hægt að taka við því á annan hátt en að vér trúum slíku heils hugar. Án trúarinnar er ekkert gagn af skírninni, jafnvel þótt hún sé í sjálfri sér guðdómlegur og ólýsanlegur fjársjóður. Þess vegna duga þessi orð ein og sér, „sá sem trúir“ til þess að útiloka öll þau verk, sem vér getum gert í þeim tilgangi að öðlast og ávinna oss sælu og halda aftur af þeim. Í þessu felst þetta: Þar sem ekki er trú, er ekkert hægt að gera og ekkert er heldur fengið.

En þeir tala eins og þeir eiga vanda til: „Já, en skírnin sjálf er víst verknaður, en samt segir þú að verkið sjálft varði sæluna engu. Hvað verður þá um trúna?“  Svar: „Já, verkin hafa sannarlega engin áhrif á sæluna, en skírnin er hins vegar ekki vort verk heldur verk Guðs, því að þú verður, eins og áður segir, að gera greinarmun á skírn Krists og venjulegu baði. Verk Guðs eru líknsöm og nauðsynleg til sælu og útiloka ekki trúna, heldur efla hana, því að án trúar gæti enginn skilið skírnina. Með því að þú verður vatni ausinn, hefur þú hvorki tekið á móti skírninni né þegið hana á þann hátt, að hún verði þér að einhverju gagni. En hún verður þér að gagni, ef þú tekur skírn með því hugarfari, að hún sé samkvæmt boði Guðs og skikkan og þar með í nafni Guðs, þannig að þú ert þeirrar sælu aðnjótandi, sem heitið hefur verið, í vatninu. Slíkt getur hvorki hnefinn né líkaminn gert, heldur verður hjartað að trúa. Hér sérð þú glöggt, að hér er ekki um verknað frá oss að ræða, heldur fjársjóð, sem hann gefur oss og trúin tekur á móti, á sama hátt og DROTTINN Kristur á krossinum er ekki verknaður, heldur fjársjóður, sem skilinn er samkvæmt orðanna hljóðan, er oss býðst og vér tökum við í trú. Þess vegna beita þeir oss valdi, þegar þeir saka oss um að prédika gegn trúnni, þar sem vér leggjum aðeins áherslu á hana, þar sem hún er svo nauðsynleg, þar sem vér hvorki öðlumst nokkuð né megum njóta hennar án þess að hún komi til.

Þannig höfum vér þessi þrjú atriði, sem þarf að kunna skil á um þetta sakramenti, sérstaklega þar sem þetta er skikkan Guðs, sem halda ber í heiðri. Þetta myndi nægja, væri allt þetta aðeins ytra fyrirbæri. Boðorðinu „heiðra skaltu föður þinn og móður þína“ er beint til líkamlegs holds og blóðs. Samt lítum vér ekki á hold og blóð heldur á boð Guðs, og þess vegna nefnum vér þetta hold föður og móður. Jafnvel þótt vér hefðum ekkert annað fyrir oss en orðin: „Farið því og skírið“ og svo framvegis, yrðum vér samt að taka við því sem fyrirskipun frá Guði og famkvæma það. Í þessu eru heldur ekki einvörðungu fólgin boðið og skipunin, heldur einnig fyrirheitið. Þess vegna er það svo miklu dásamlegra, sem Guð hefur annars boðið og fyrirskipað, í stuttu máli svo huggunarríkt og náðugt, að himinn og jörð gera sér ekki grein fyrir því. En listin er sú að trúa þessu, því að það vantar ekkert upp á fjársjóðinn, heldur skortir upp á að hann sé rétt skilinn og að haldið sé fast við hann.

Þess vegna hefur sérhver kristinn maður nóg að læra ævina á enda með því að halda sig að skírninni, því að hann hefur fullt í fangi með að trúa því sem hún segir og hefur í för með sér: Yfirburðasigur á djöfli og dauða, fyrirgefningu syndanna, náð Guðs, Krist allan og Heilagan anda ásamt öllum hans gjöfum. Í stuttu máli er hann svo yfirþyrmandi, að þegar hið fávísa eðli hugsar út í það, ætti það að efast um það, hvort þetta fái staðist. Hugsaðu þér bara, ef til væri sá læknir, sem kynni list sína svo vel, að fólkið dæi ekki, og jafnvel þótt það dæi, myndi það svo lifa að eilífu, myndi þá heimurinn ekki láta snjóa og rigna peningum, svo að enginn kæmist til hans vegna hinna ríku?  En hér í skírninni fær hver og einn slíkan fjársjóð og læknislyf, sem brýtur dauðann á bak aftur og heldur lífi í öllu fólki, alveg ókeypis heim að dyrum. Þannig á að líta á skírnina og hagnýta sér hana, svo að vér styrkjumst og látum huggast af henni, þegar synd vor eða samviska íþyngir oss og vér segjum: „Ég er samt skírður og þar sem ég er skírður, þá er mér einnig sagt, að ég eigi að vera hólpinn og eiga eilíft líf, bæði á sál og líkama.“  Þess vegna gerist þetta hvort tveggja í skírninni, að líkaminn verður vatni ausinn, þótt hann geti ekki gert sér annað í hugarlund en vatnið, og auk þess er það orð talað, sem sálin skilur einnig. Vegna þess að þetta hvort tveggja, vatn og orð, felst í skírninni, þá hljóta bæði líkami og sál að vera hólpin og lifa eilíflega, sálin vegna orðsins sem hún trúir á, en hins vegar líkaminn þar sem hann hefur sameinast sálinni og tekur á móti skírninni að svo miklu leyti sem honum er það unnt. Þess vegna eigum vér hvorki á líkama vorum né sál meira djásn. Vegna hennar verðum vér heilög og hólpin, þar sem ekkert líf, ekkert verk á jörðu fær staðist.

Barnaskírnin.

Látum þetta nú nægja um veruleika, gagnsemi og notkun skírnarinnar, svo langt sem það nær. Enn er þó einni spurningu ósvarað um barnaskírnina, sem djöfullinn ruglar heiminn með í gegnum sértrúarhópa sína, hvort börn trúa líka eða skírast með réttu. Við þessu segjum vér í stuttu máli: Almúginn á að vísa þessari spurningu á bug og láta lærða menn um hana. Viljir þú hins vegar svara henni, svaraðu henni þá þannig: Að barnaskírnin sé Kristi þóknanleg, sést best á hans eigin verki. Guð hefur nefnilega helgað þau og gefið þeim Heilagan anda, sem skírð voru sem börn. Nú á dögum er fleiri að finna, sem skynja má út frá verkum þeirra og lífi, að hafi hlotið Heilagan anda. Á sama hátt er hann oss einnig gefinn af náð Guðs, svo að vér getum lagt út af Ritningunni og þekkt Krist, en það getur ekki gerst nema fyrir Heilagan anda. Ef Guð viðurkenndi hins vegar ekki barnaskírnina, myndi hann ekki gefa þeim Heilagan anda eða snefil af honum. Í stuttu máli hefði enginn maður orðið kristinn um langa hríð allt fram á þennan dag. Vegna þess að Guð hefur nú staðfest skírnina með því að senda sinn Heilaga anda, eins og sjá má hjá nokkrum feðrum líkt og heilögum Bernharði af Clairvaux,[9] Jóhanni Gerson,[10] Jóhanni Húss[11] og fleiri, og þar sem hin heilaga kirkja mun ekki líða undir lok allt til enda veraldarinnar, hljóta þeir að viðurkenna að hún er Guði þóknanleg. Hann getur því hvorki verið sjálfum sér sundurþykkur né hjálpað lyginni og illskunni með því að gefa til þess náð sína og anda. Þetta er næstum því besta og sterkasta sönnunin fyrir hina einföldu og ólærðu, því að þessa grein: „Ég trúi á heilagan anda, heilaga, almenna kirkju, samfélag heilagra“ og svo framvegis er hvorki hægt að taka frá oss né hrekja.

Síðan höldum vér áfram og segjum, að það skiptir oss ekki meginmáli, hvort sá sem skírður er trúir eða trúir ekki, því að við þetta verður trúin ekki ósönn, þar sem öll áherslan liggur á orði Guðs og boði. Þarna er nú tekið nokkuð djúpt í árinni, en það byggist á því, sem ég hef þegar sagt, að skírnin er ekkert annað en vatn og orð Guðs, í og með hvort öðru, það er; þegar orðið er í vatninu, þá er skírnin rétt, jafnvel þótt trúin sé ekki til staðar, því að trú mín býr ekki til skírnina heldur þiggur hana. Nú verður skírnin ekki röng fyrir það, jafnvel þótt ekki sé hún þegin eða notuð á réttan hátt, þar sem hún tengist, eins og áður segir, ekki trú vorri heldur orðinu. Ef Gyðingur léti til dæmis skírast í dag af uppgerð og illu ráði og vér skírðum hann í fullri alvöru, eigum vér ekki að telja skírnina síður rétta fyrir bragðið. Vatnið er til staðar ásamt orði Guðs, jafnvel þótt hann tæki ekki við þeim eins og vera ber; rétt eins og þeir sem neyta altarissakramentisins óverðugir, fá rétt sakramenti, jafnvel þótt þeir trúi ekki.

Nú sérð þú, að mótmæli sértrúarandanna koma að engum notum. Eins og áður segir, jafnvel þótt börnin trúðu ekki, sem fær samt ekki staðist, eins og nú verður sýnt fram á, myndi trúin eftir sem áður vera rétt og enginn á að endurskíra þau. Á sama hátt fer altarissakramentið ekki til spillis, jafnvel þótt einhver myndi neyta þess af illu ráði. Og ekki skal það líðast, að hann taki aftur við sakramentinu á sömu stundu vegna þessarar misnotkunar, eins og hann hefði sannarlega ekki áður tekið við sakramentinu. Slíkt yrði því sakramentinu til háborinnar skammar. Hvernig kæmumst vér að þeirri niðurstöðu, að Guðs orð og fyrirætlun ættu að teljast röng og marklaus, þó að vér misnotuðum þau?  Þess vegna segi ég: Hafir þú ekki trúað því, trúðu því þá og segðu: „Skírnin hefur verið rétt, en ég hef hins vegar ekki tekið rétt við henni.“  Ég sjálfur og allir þeir sem skírast þannig, verða að segja þetta frammi fyrir Guði: „Ég kem hér í trú minni og einnig hinna, en samt get ég ekki tekið því sem gefnu, að ég trúi og fjöldi fólks biður fyrir mér, heldur byggi ég á því, að það sé orð þitt og fyrirskipun,“ rétt eins og ég geng ekki til altaris fyrir trú mína, heldur fyrir orð Krists. Hvort ég er sterkur eða veikur fel ég mig Guði á vald. Hins vegar veit ég, að hann býður mér að fara, eta og drekka og svo framvegis, og gefur mér líkama sinn og blóð, með því svíkur hann hvorki né lýgur. Eins gerum vér nú með barnaskírnina: Vér berum barnið til skírnar í þeirri vissu og von, að það trúi, og biðjum þess að Guð gefi því trúna, en það er ekki sakir þess að vér skírum, heldur sakir þess, að Guð hefur skipað svo fyrir. Hvers vegna er það svo?  Vegna þess að vér vitum, að Guð lýgur ekki. Ég og náungi minn, í stuttu máli, allir menn, geta brugðist og svikið, en orð Guðs getur ekki brugðist.

Þess vegna má finna ósvífna, illgjarna anda, sem draga af því rangar ályktanir og segja: Þar sem trúin er ekki til staðar, getur skírnin ekki verið rétt. Alveg eins og ég vildi álykta sem svo: Ef ég vil ekki trúa, þá er Kristur ekki neitt, eða þannig: Ef ég er ekki hlýðinn, þá eru faðir, móðir og yfirvöld ekki neitt. Er rétt að álykta, þar sem enginn gerir það sem honum ber að gera, þá sé það sem hann gerir einskis metið og hafi enga þýðingu?  Kæri vinur, snúðu þessu við og ályktaðu fremur sem svo: Skírnin hefur þýðingu og er rétt, þótt tekið hafi verið við henni á rangan hátt. Ef hún væri ekki rétt í sjálfri sér, þá væri hvorki hægt að syndga gegn henni né misnota hana. Þetta nefnist: Abusus non tollit sed confirmat substantiam — Misnotkun fellir ekki veruleikann úr gildi heldur staðfestir hann. Gull missir því ekki verðgildi sitt, jafnvel þótt vændiskona hafi áunnið sér það með synd og skömm.

Þess vegna ber að leggja áherslu á það, að skírnin er ávallt rétt og í fullu gildi, jafnvel þótt einhver maður sé skírður og hann sé ekki guðhræddur og trúi því ekki. Skikkan Guðs og orði getur enginn maður breytt eða skipt út. Hins vegar eru þeir, villutrúarandarnir, svo blindir, að þeir sjá hvorki orð Guðs né boðorð og líta hér eftir hvorki á skírnina né yfirvöld nema sem vatnið í læknum og krukkunni eða hvern annan mann, og af því að þeir sjá hvorki trú né hlýðni, á það í sjálfu sér ekki að vera nokkurs virði. Þarna liggur uppreisnargjarn djöfull í leyni, sem gjarnan vill þrífa kórónuna af yfirvöldunum, til þess að hún verði síðan fótum troðin, og snúið verði út úr öllum verkum Guðs og skikkan og þau að engu gjörð. Þess vegna verðum vér að vera vakandi og algáðir og láta hvorki reka né beina oss frá orðinu, svo að vér lítum ekki á skírnina sem marklaust tákn, líkt og villutrúarmenn láta sig dreyma um.

Hvað boðar skírnin?

            Að lokum ber að hafa það á hreinu, hvað skírnin merkir og hvers vegna Guð hefur einmitt ákvarðað slíkt ytra tákn og athöfn sem sakramenti, þar sem vér erum fyrst tekin inn í kristið samfélag. Þetta verk eða athöfn felst í því, að oss er dýft niður í vatnið, sem umlykur oss og síðan lyft upp úr því aftur. Þessi tvö atriði, að vera dýft ofan í vatn og koma svo upp úr því aftur, táknar kraft og verknað skírnarinnar, sem felst ekki í neinu öðru en dauða hins gamla Adams og síðan upprisu hins nýja manns. Hvort tveggja á sér síðan stað hið innra með oss ævina á enda, þannig að kristilegt líferni verði ekkert annað en dagleg skírn, sem eitt sinn hófst og heldur síðan áfram. Það verður því að gerast án afláts, svo að það sem eftir er af hinum gamla Adam verði hreinsað út og það sem heyri hinum nýja manni til, komi í staðinn. Hvað er eiginlega hinn gamli maður?  Hann hefur þá eiginleika, sem vér höfum tekið í arf frá Adam, reiði, hatur, öfund, saurlífi, nísku, leti, dramb, já vantrú. Hann er fullur af alls kyns löstum og af náttúrunnar hendi án allra gæða. Þegar vér nú komum inn í Guðs ríki, þá mun draga úr slíku þannig að því mildari, þolinmóðari og þýðlyndari sem vér verðum smám saman, þeim mun meira mun níska, hatur, öfund og dramb þverra.

            Þetta er hin rétta notkun skírnarinnar á meðal kristinna manna, þar sem vatnið hefur þessa þýðingu. Þar sem slíkt á sér ekki stað, heldur gefum vér hinum gamla manni lausan tauminn, þannig að hann verður aðeins sterkari, kallast það ekki að nota skírnina heldur að snúast gegn henni. Þeir sem eru án Krists, geta ekki komist hjá því að reiðast daglega, eins og spakmælið hljóðar og í því er fólginn sannleikur: „Því lengur, þeim mun verr.“  Hafi einhver verið stoltur og nískur í fyrra, þá er hann stoltari og nískari núna, þannig að allt frá barnæsku hefur þessi ódyggð vaxið með honum og dafnað. Ungbarn hefur enga sérstaka ódyggð í sér. En þegar það vex úr grasi, verður það óhlýðið og ósiðað. Þegar það kemst til fullorðinsára, þá komast hinir sönnu lestir á kreik, því lengur, þeim mun verr. Þess vegna heldur hinn gamli maður óhindrað sínu striki, þar sem kraftur skírnarinnar kemur hvorki í veg fyrir slíkt né hindrar það. Þar sem aftur á móti er um þá að ræða, sem eru orðnir kristnir, nemur hann það daglega á brott, allt þar til hann loks verður að engu gerður. Þetta kallast sannarlega að vera dýft niður í skírninni og koma daglega upp aftur. Þannig er hið ytra tákn sett fram, ekki aðeins á þann hátt að það virki kröftuglega, heldur hafi einnig einhverja þýðingu. Þar sem trúin ber ávöxt, er hún ekki merkingarlaus, heldur er verkið auk þess til staðar. Þar sem trúin er hins vegar ekki til staðar, þá verður hún aðeins tákn, sem engan ávöxt ber.

            Og hér sérð þú, að skírnin snertir einnig með krafti sínum og merkingu þriðja sakramentið, sem kallað hefur verið yfirbótin, sem er eiginlega ekkert annað en skírnin. Hvað kallast yfirbótin annað en að bera hinn gamla mann ofurliði og hefja nýtt líf?  Þess vegna tekur þú skírn, sem merkir ekki aðeins nýtt líf, heldur felur hún það einnig í sér, byrjar það og ástundar það einnig, þegar þú lifir í yfirbót. Því að í henni er gefin náð, andi og kraftur til þess að yfirbuga hinn gamla mann, svo að hinn nýi komi fram og styrkist. Þess vegna fær skírnin ævinlega staðist, og jafnvel þótt einhver falli frá henni og syndgi, þá tökum vér skírnina aðeins einu sinni, til þess að hinn gamli maður verði æ ofan í æ gerður afturreka. En vatninu þarf ekki að ausa yfir oss í sífellu. Þrátt fyrir að einhver léti dýfa sér hundrað sinnum niður í vatnið, þá er það samt sem áður ekki nema ein skírn, en hins vegar felur slíkt í sér merkinguna og verkið sem eru varanleg. Þannig er yfirbótin ekkert annað en afturhvarf og samfundur við skírnina, þannig að það er endurtekið og ástundað, sem eitt sinn hófst, en látið var niður falla.

            Þetta segi ég til þess að enginn komist að þeirri niðurstöðu, eins og vér höfum lengi gert og vanist, að skírnin væri nú frá og vér hefðum ekkert frekar við hana að gera, þar sem vér hefðum nú enn á ný fallið í synd; sem gerir það að verkum að ekki er litið á hana nema út frá hinum ytri verknaði, sem einu sinni hefur átt sér stað. Og hér er ugglaust þessum skrifum heilags Hieronymusar um að kenna: „Yfirbótin er hin fjölin, sem vér verðum að halda oss á floti með og komast af, eftir að skipið hefur brotnað,“ og ná landi og halda lífi, þegar vér verðum kristin. Þar með er notkun skírnarinnar nú varpað fyrir róða, þannig að hún nýtist oss ekki lengur. Þess vegna er ekki réttlætanlegt að taka þannig til orða, vegna þess að skipið brotnar ekki, því að skírnin er, eins og áður segir, fyrirskipun frá Guði og ekki í vorum verkahring. Hins vegar gerist það, að vér hrösum og föllum útbyrðis, og ef einhver á annað borð fellur útbyrðis, þá skal sá gæta þess að synda til baka og halda sér í skipið, þar til honum verður aftur borgið og halda áfram, þar sem frá var horfið.[12]

            Þannig má sjá, hversu stórkostleg og ágæt skírnin er, hún losar heljartak djöfulsins um hálsinn og felur oss Guði, yfirbugar og tekur frá oss syndina og styrkir síðan daglega hinn nýja mann, hún varir sífellt og fær staðist, þangað til vér komumst úr þessari eymd og inn í eilífa dýrð. Þess vegna á hver og einn að halda í skírnina eins og daglegan klæðaburð, svo að hann finni sig ævinlega heima í trúnni og öllum hennar ávöxtum, þannig að hann kæfi hinn gamla mann og vaxi í hinum nýja. Ef vér því viljum kallast kristin, þá verðum vér að halda oss að því verki, sem gerði oss kristna, ef einhver fellur frá, þarf hann að snúa aftur. Eins og Kristur, náðarstóllinn,[13] víkur aldrei frá oss eða varnar því að vér komum aftur til hans, jafnvel þótt vér syndgum, þá verðum vér öll fjársjóður hans og gjöf. Eins og vér höfum nú hlotið fyrirgefningu syndanna í skírninni, þá verður hún daglega viðvarandi í oss, ævina á enda, það er, á meðan vér drögnumst með hinn gamla mann um hálsinn.


[1]           Skiptingin á útskýringum Lúthers á skírn og kvöldmáltíð er sett fram til glöggvunar.
[2]           Mt 28.19.
[3]           Mk 16.16.
[4]           Hér er talað um hina svonefndu „karþeusarsinna“ eða karþusiana, sem var munkaregla, stofnsett árið 1084. Hún er oft nefnd, þegar Lúther nefnir dæmi um sérstaklega stranga reglu.
[5]           Þær deilur, sem á þriðja áratug sextándu aldar klufu þau öfl, sem höfðu gert uppreisn gegn páfanum og rómversku kirkjunni, snerust ekki síst um sakramentin. Vægi skírnarinnar snerist gegn barnaskírninni sem aðeins ytri   athöfn og krafðist „andaskírnar“, þ.e. fullorðinsskírn, sem byggðist á trú skírnarþegans. Mótrökin gegn skírurunum og öðrum „vingltrúarmönnum“ eru að miklu leyti í samræmi við hluta Fræðanna um sakramentin.
[6]           Algeng tilvísun í Lúther. Hún á rót sína að rekja til útleggingar Ágústínusar kirkjuföður í Jóhannesarguðspjall (Tractatus in Johannis Evangelium 80,3).
[7]           Orðalagið á rót sína að rekja til andstæðinga barnaskírnarinnar.
[8]           Tt 3.5.
[9]           Bernharður af Clairvaux (u.þ.b. 1090-1153) var sistersianamunkur (hvítmunkur) og guðfræðingur. Lúther nefnir hann oft sem dæmi um mann sem átti sanna, kristna trú.
[10]         Jóhann Gerson (1363-1429) var franskur guðfræðingur og kirkjustjórnmálamaður. Hann var einn þeirra guðfræðinga á miðöldum, sem Lúther bar mesta virðingu fyrir.
[11]         Jóhann Húss (u.þ.b. 1370-1415) var brenndur á báli fyrir villukenningar. Sú hreyfing, sem hann hafði staðið fyrir, stuðlaði að þjóðernislegri og kirkjulegri  sjálfstæðisbaráttu Bæheimsmanna.
[12]         Skilgreining kirkjuföðurins Hieronymusar (u.þ.b. 347-421), hafði mikil áhrif á miðöldum, en Lúther hafði ekki mikið álit á henni. Orðin sem vísað var í skiptu    miklu máli fyrir skilninginn á náðarmeðali yfirbótarinnar, þ.e.a.s. skriftunum og aflausninni á grundvelli iðrunar og yfirbótarverka (bæn, föstu, ölmusu). Reiði Lúthers stafar af þeirri hugsun, að fyrirgefning syndanna í skírninni fellur úr gildi við dauðasyndina, þar sem iðrunin kemur inn á svið skírnarnarinnar. Auk þessa staðhæfði Lúther, að iðrun væri ekkert annað en afturhvarf til skírnarinnar. Þó að   maðurinn snúi sér frá Guði, fellur kraftur skírnarinnar ekki úr gildi. Þess vegna er alltaf hægt að iðrast og snúa aftur til skírnarinnar. Út frá sama hugsunarhætti stimplar Lúther þá menn, sem vilja gera skírnina óháða því, hvort trúin er til staðar hjá skírnarþeganum, sem guðlausa vingltrúarmenn, eins og kemur fram í útskýringu hans á skírninni.
[13]         Sjá Rm 3.25 og Heb 4.16.