Hér fyrir neðan er frumþýðing Þorgils Hlyns Þorbergssonar á Fræðunum meiri. Þýðingin hefur verið prentuð í: Marteinn Lúther, Úrval rita 2, Reykjavík: Skálholtshútgáfan, 1918, þá í endurskoðun Gunnars Kristjánssonar. Þýðingin er birt á netsíðunni með fyrirvara um mögulegar villur.
Stutt áminning um skriftir
Um skriftirnar höfum vér ævinlega kennt, að þær eigi að vera frjálsar og einræðisvald páfa virt að vettugi, svo að vér leysumst frá þvingun hans og hinni gríðarlegu byrði og þunga, sem lögð hefur verið á kristnina, verði létt af oss. Fram til þessa hafa aldrei komið fram meiri erfiðleikar, eins og vér höfum öll reynt, þar sem hver og einn hefur verið þvingaður til skrifta, að viðlagðri hinni mestu dauðasynd, þar sem viðkomandi hefur verið íþyngt og samviskan pínd til þess að greina frá margs kyns syndum, svo að enginn hefur getað gert nógu hreint fyrir sínum dyrum við skriftirnar. Og það sem er ennþá hryggilegra, enginn hefur lært eða vitað, hvað skriftirnar fælu í sér eða hversu nytsamar og huggunarríkar þær væru, heldur eru allir skelfingu lostnir og hafa liðið vítiskvalir vegna þeirra, og vissulega hefur ekkert fjandsamlegra verið til. Þessi þrjú atriði hafa nú verið tekin frá og gefin, svo að vér megum án þvingunar og óttalaust og kvalalaust greina nákvæmlega frá öllum syndum. Vér njótum góðs af því að vita, hvernig á að nota þær til huggunar og styrkingar samvisku vorrar, svo að vér verðum hólpin.
En slíkt geta nú allir lært og það hefur allt of oft átt sér stað, að þeir gera það sem þeim sýnist og taka sér þannig frelsi til þess, eins og þeir hvorki skyldu né mættu framar skrifta. Það hefur því fljótlega komist til skila, hvað gerir oss gott og hefur auðveldlega síast inn hjá fjöldanum, þar sem fagnaðarerindið er milt og blítt. En eins og ég hef sagt, ættu slíkir sóðar hvorki að koma nálægt fagnaðarerindinu né að fá nokkuð út úr því, heldur lúta páfanum og láta hann kúga og þjaka, svo að þeir þurfi að skrifta, fasta og svo framvegis, meira en nokkru sinni fyrr. Hver sem vill því hvorki trúa fagnaðarerindinu né lifa samkvæmt því og gerir ekki það sem kristnum manni ber að gera, á heldur ekki að njóta góðs af verkum sínum. Hvaða gildi hefði það, sem aðeins þú vildir njóta góðs af og vildir sjálfur ekkert gera eða gefa af þér? Þess vegna viljum vér ekki að prédikað verði slíkum mönnum, né heldur að vér viljum kannast við þá af fúsum og frjálsum vilja og láta þá njóta góðs af því, heldur felum vér þá páfanum eða hans líkum, sem kúgar þá að hætti sannra einræðisherra. Þetta á því við um skrílinn, er vill ekki hlýða fagnaðarerindinu, sem ekki er hægt að líkja við annað en slíkan fangavörð, sem er djöfull Guðs og böðull. En hinum, sem vilja láta sér segjast, verðum vér alltaf að prédika, veita þeim aðhald, laða þá og lokka, svo að þeir öðlist þennan dýra og verðmæta fjársjóð, sem fyrir fagnaðarerindið er veittur, en láti hann ekki fara forgörðum. Af þeim sökum viljum vér einnig fjalla dálítið um skriftirnar, til þess að kenna almúganum og áminna hann.
Í fyrsta lagi hef ég sagt, að í þessum skriftum, sem vér fjöllum nú um, er um tvenns konar skriftir að ræða, sem ættu raunar frekar að nefnast almenn játning allra kristinna manna, einmitt þetta, að skriftað er aðeins frammi fyrir Guði sjálfum eða náunganum einvörðungu og beðið fyrirgefningar, eins og sett er fram í Faðir vori, þar sem vér segjum: „Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“ og svo framvegis. Já, allt Faðir vor er því ekkert annað en slíkar skriftir. Hvað er því bæn vor annað en það, sem vér viðurkennum að eiga ekki eða gera ekki það sem oss ber skylda til og þrá náð og góða samvisku? Slíkar skriftir skulu og verða að eiga sér stað án afláts ævina á enda. Á þessu byggist eiginlega kristinn veruleiki, að vér viðurkennum að vér erum syndarar og biðjumst vægðar.
Þessu líkur er hinn háttur skriftanna, þar sem einn og sérhver gerir á hlut náunga síns, það er einnig fólgið í Faðir vori að vér játum sekt vora hvert fyrir öðru og fyrirgefum, áður en vér komum fram fyrir Guð og biðjum um fyrirgefningu. Nú erum vér öll sek hvert frammi fyrir öðru, þess vegna skulum vér og megum sannarlega játa opinberlega hvert fyrir öðru og enginn skal óttast annan. Það er nú svo, eins og sagt er: „Ef einn er guðhræddur, þá eru það allir,“ og enginn gerir reikningsskil, hvorki gagnvart Guði né náunganum. Samt sem áður er fyrir utan hina almennu sök önnur sér á parti, þar sem annar aðilinn hefur reiðst hinum fyrir að hafa beðið hann afsökunar. Þannig höfum vér í Faðir vori tvær aflausnir, þar sem oss er fyrirgefið það sem vér höfum til saka unnið gagnvart Guði og náunganum, og þar sem vér fyrirgefum náunganum og sættumst við hann.
Æðri slíkum opinberum, daglegum og nauðsynlegum skriftum eru nú þessar leynilegu skriftir, sem eiga sér aðeins stað bræðra á milli og eiga að þjóna þeim tilgangi að veita ráð, huggun og styrk, þar sem eitthvað sérstakt bjátar á eða þjakar, þannig að vér berjumst um og verðum ekki ánægð eða finnum oss ekki nógu sterk í trúnni til þess að kveina við bróður vorn, hvenær og hversu oft sem vér viljum. Þær eru því ekki fólgnar í skipun, eins og tvennt hið fyrrnefnda (skírnin og altarissakramentið), heldur er hverjum og einum gert það ljóst, að hann þarfnast þeirra í neyð sinni. Og þaðan er það komið og er skipað svo fyrir, að Kristur hefur sjálfur mælt aflausn kristni sinnar af munni fram og skipað svo fyrir, að vér yrðum leyst undan syndum. Þar sem nú er hjarta að finna, sem kannast við syndir sínar og sækist eftir huggun, á það skjól í þeirri fullvissu, að í Guðs orði sé það að finna og heyrir, að Guð leysir fjötra synda mannsins og frelsar hann.
Taktu því nú vel eftir því, sem ég hef oft sagt, að skriftirnar eru í tveimur hlutum. Annars vegar eru verk vor og gjörðir, þar sem ég kveina vegna synda minna og sækist eftir huggun og hressingu sálar minnar. Hins vegar er það verk, sem Guð framkvæmir, þar sem hann fyrir orðin, sem hann leggur mönnunum í munn, leysir mig undan synd minni, sem er það mikilvægasta og æðsta sem til er og gerir þau ástúðleg og huggunarrík. Nú hefur fram að þessu aðeins verið einblínt á verkin og þess hefur vissulega aðeins verið gætt, að vér skriftuðum oss hrein og hvorki hefur verið hugað að hinu né það prédikað, rétt eins og það væri aðeins með einu góðu verki, sem Guði væri borgað, og þar sem skriftirnar væru hvorki fullkomnar né ýkja nákvæmar, ætti aflausnin hvorki að skipta nokkru máli né að syndir væru fyrirgefnar. Með því að fólkið hefur þurft að ganga svo langt, að allir hafi þurft að efast um nauðsyn þess að gera svo hreint fyrir sínum dyrum við skriftirnar (en það var þá ekki hægt) hefur engin samviska getað verið í rónni, hvað þá reitt sig á aflausnina. Þannig hafa þeir ekki aðeins gert skriftirnar gagnslausar, heldur einnig þungbærar og erfiðar, þannig að þær valda tjóni og spillingu í sálinni.
Þess vegna eigum vér að líta þannig á þær, að vér greinum skýrt á milli þessara tveggja atriða og metum verk vor lítils, en orð Guðs eigum vér að meta mikils og gefa þeim gaum og ekki megum vér ganga þannig fram, eins og vér vildum framkvæma stórkostlegt verk og gefa honum, heldur aðeins taka frá honum og þiggja. Þú mátt ekki koma til hans og segja, hversu guðhræddur eða reiður þú sért. Ef þú ert kristinn, veit ég það mætavel, en ef þú ert það ekki, þá veit ég það ennþá betur. En þess vegna varðar það mestu, að þú kvartir undan neyð þinni og leitir þér hjálpar og öðlist glatt hjarta og góða samvisku.
Þess vegna má nú enginn ógna þér með boðum, heldur segjum vér þetta: „Hver sem er kristinn eða vildi gjarnan vera það, hefur hér hollráð til þess að ganga fram og sækja hið dýrmæta hnoss.“ Ef þú ert ekki kristinn eða sækist ekki eftir slíkri huggun, þá látum vér það öðrum eftir að þvinga þig. Með því upphefjum vér einræðisvald páfans, boð og þvingun, allt í senn, eins og þeir sem honum tilheyra, megi ekkert gera, vegna þess að vér kennum, eins og áður segir, á þessa leið: „Hver sem ekki gengur fús og vegna aflausnarinnar til skrifta, á bara að láta þær eiga sig.“ Já, hver sem gengur einnig fram í verkum sínum, sama hversu hreinn hann er í skriftum sínum, haldi sig einnig fjarri þeim. Vér hvetjum þig hins vegar til þess að skrifta og gefa neyð þína til kynna, ekki til þess að þú gerir þetta eins og hvert annað verk þitt, heldur hlýðir á það, sem Guð hefur við þig að segja. Orðið, segi ég, eða aflausnina skalt þú meta mikils og hafa í hávegum eins og hið ágætasta hnoss, sem þú þiggur með hinni mestu sæmd og þakklæti.
Þegar slíkt er látið í ljósi og neyðin gefin til kynna á þann hátt að oss verði bilt við og á oss slái felmtur, þarf ekki mikið til þess að neyða eða þvinga, heldur ætti samviska hvers og eins að knýja til þess og skelfa svo, að hann yrði frá sér numinn af gleði og gerði eins og vesall betlari, svo að hann heyri, að hann á að gefa til staðar eða ríkis og deili út peningum eða fatnaði: Þá væri engin þörf á böðli, sem ræki á eftir honum og slægi, hann myndi líkast til sjálfur hlaupa eins og fætur toguðu, til þess að vanrækja þær ekki. Ef því boði yrði bætt við, að allir betlarar yrði að hlaupa fram án nokkurra málalenginga og þegðu yfir því sem þar væri leitað og fundið, hvað væri það annað en að ganga fram í áhugaleysi og án þess að leita nokkurs, heldur til þess eins að gera sér grein fyrir því, hversu aumur og vesall betlari hann sé? Úr þessu yrði ekki mikil gleði eða huggun, heldur yrði boðorðið þeim mun fjandsamlegra.
Einmitt af þeim sökum hafa prédikarar páfans þagað yfir hinum ágætu, ríku ölmusum og ólýsanlegu auðæfum og rekið hópana aðeins áfram, ekki lengra en svo að sjá mætti. hversu óhreinn og sóðalegur lýður vér værum. Hver gengi þá fús til skrifta? Vér segjum hins vegar ekki, að augljóst eigi að vera, hversu sóðalegur þú sért og spegla þig í því, heldur ráðleggja og segja: „Ef þú ert aumur og vesall, gakktu þá fram og neyttu hins heilnæma læknislyfs. Hver sem nú finnur fyrir eymd sinni og volæði, mun krefjast þess og síðan öðlast það, er hann hleypur til þess glaður. Ef þetta er hvorki virt né frá honum sjálfum komið, látum vér hann lönd og leið. Þeir þurfa samt ekki að vita, að vér teljum þá ekki til kristinna manna.
Þannig kennum vér nú, hversu ágætt, dýrmætt og huggunarríkt það er að hafa skriftir og leggjum áherslu á það, að svo dýrmætt hnoss fari ekki í súginn, hvað sem vorri miklu neyð líður. Ef þú ert nú kristinn, þá þarft þú ekki að gera nokkurn skapaðan hlut, hvorki eftir þvingun minni né fyrirskipun páfans, heldur munt þú þvinga sjálfan þig og biðja mig þess, að þú mættir taka þátt í slíku. Ef þú vilt hins vegar fyrirlíta það og fara hnarreistur leiðar þinnar án þess að ganga til skrifta, þá göngum vér út frá því að þú sért ekki kristinn og þú skalt heldur ekki neyta altarissakramentisins; þar sem þú fyrirlítur það sem enginn kristinn maður á að fyrirlíta og gerir þar með að verkum, að þú getur ekki öðlast fyrirgefningu syndanna. Og það er einnig skýrt merki þess, að þú fyrirlítur einnig fagnaðarerindið.
Í stuttu máli viljum vér ekki kannast við neina þvingun, en hver sem hvorki heyrir né fylgir prédikun vorri og áminningu, á enga samleið með oss og hann skal heldur ekkert fá af fagnaðarerindinu. Ef þú værir kristinn, ættir þú að gleðjast, þótt þú þyrftir að hlaupa rúmlega hundrað mílur í þeim tilgangi án þess að þú yrðir neyddur til þess, heldur komir og þvingir oss. Þvingunin hefur því hlutverkaskipti, þannig að vér komum fyrir tilskipun og þú komir af fúsum og frjálsum vilja; vér neyðum engan, heldur leiðum, svo að vér verðum neydd, rétt eins og vér erum þvinguð til þess að prédika og veita altarissakramenti.
Þegar ég áminni um skriftirnar, geri ég þess vegna ekkert annað en að beina fólki til kristninnar; þegar ég vísa þér veginn þangað, þá hef ég á sama hátt farið með þig til skrifta. Þá sem sækjast eftir því að verða kristnir og losna við syndir sínar og öðlast góða samvisku, hungrar og þyrstir þegar á réttan hátt, líkt og að glefsa í brauð eins og hindum, sem þorna upp af hita og þorsta, er tamt, eins og segir í 42. Davíðssálmi: „Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.“[1] Þetta þýðir: Hversu heitt og innilega sem vér þráum ferskar vatnslindir, þá þrái ég Guðs orð eða aflausn og altarissakramentið jafnheitt og í angist og svo framvegis. Sjáðu til, ef þannig væri kennt réttilega um skriftirnar, þá væri hægt að ná fram löngun og kærleika til þess að fá fólkið fram og það hlypi til vor í stríðum straumum svo að vér fengjum ekki við neitt ráðið. Páfadýrkendum leyfum vér að pína og kvelja sig og aðra, sem líta ekki við slíkum fjársjóði og útiloka sjálfa sig frá honum. Vér skulum hins vegar hefja hendur til himins, lofsyngja Guði og þakka honum fyrir það að hafa komist í kynni við slíka náð.
[1] Sl 42.2.