Hér fyrir neðan er frumþýðing Þorgils Hlyns Þorbergssonar á Fræðunum meiri. Þýðingin hefur verið prentuð í: Marteinn Lúther, Úrval rita 2, Reykjavík: Skálholtshútgáfan, 1918, þá í endurskoðun Gunnars Kristjánssonar. Þýðingin er birt á netsíðunni með fyrirvara um mögulegar villur.
Annar hluti: Um trúarjátninguna
Fram að þessu höfum vér heyrt fyrsta hluta hinnar kristnu kenningar og þar með séð allt sem Guð vill að vér gerum og látum ógert. Þeim hluta fylgir trúarjátningin, sem leggur oss það til, sem vér eigum að vænta af Guði og þiggja af honum, og í stuttu máli kennir oss að fullu og öllu að þekkja Guð. Þetta ætti einmitt að hvetja oss til þess að hlýða boðorðunum tíu. Krafa þeirra er umfram getu manna, eins og áður er bent á. Þess vegna er jafnnauðsynlegt að læra aðra hluta fræðanna og boðorðin, svo að menn læri, hvaðan og hvernig krafturinn til þess að hlýða Guði fæst. Ef vér gætum því í eigin mætti haldið boðorðin tíu, eins og þau eru fyrirskipuð, þyrftum vér ekkert frekar, hvorki trúarjátninguna né Faðir vor. En áður en greint verður frá því, hversu gagnleg og nauðsynleg trúarjátningin er, er fyrst og fremst nægilegt fyrir hina allra einföldustu, að þeir læri að skilja og þekkja trúarjátninguna sjálfa.
Fram að þessu hefur trúarjátningunni verið skipt í tólf greinar,[1] en ef taka ætti öll þau atriði fyrir, eins og þau standa í Ritningunni og tilheyra trúarjátningunni, hvert fyrir sig, er samt fleiri greinar að finna, sem ekki yrði gerlegt að tjá skýrt með svo fáum orðum. En til þess að mögulegt sé að skilja hana svo auðveldlega og hæglega, eins og hún er sett fram handa börnum, ætlum vér í stuttu máli að skipta trúarjátningunni niður í þrjár höfuðgreinar, eftir hinum þremur persónum guðdómsins, sem allt, sem vér trúum á, miðast við. Þannig myndi fyrsta greinin útskýra sköpun Guðs föður, önnur endurlausn sonarins og hin þriðja helgun heilags anda. Þannig væri trúarjátningin mæld fram í sínu allra stysta formi: „Ég trúi á Guð föður, sem hefur skapað mig, ég trúi á Guð soninn, sem hefur endurleyst mig, ég trúi á heilagan anda, sem helgar mig.“ Einn Guð og ein trú, en þrjár persónur og því þrjár greinar eða játningar. Þá skulum vér nú í stuttu máli gera grein fyrir þessum orðum.
Fyrsta grein:
Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.
Hér er það dregið upp og tjáð í sem stystu máli, hver vera Guðs föður er, vilji, athafnir og verk. Þar sem boðorðin tíu hafa skipað svo fyrir, að ekki megi hafa fleiri en einn Guð, er nú mál að spyrja: „Hver er Guð, hvað gerir hann, hvernig er hægt að lofsyngja honum eða draga upp mynd eða lýsa honum, að mögulegt sé að þekkja hann?“ Það kennir nú þessi grein og næstu greinar. Þannig er því trúarjátningin ekkert annað en svar og játning kristinna manna, byggð á fyrsta boðorðinu. Það er rétt eins og einhver spyrði ungt barn svohljóðandi: „Kæra barn, hvers konar Guð hefur þú, hvað veist þú um hann?“ Þá gæti það svarað svo: „Minn Guð er í fyrsta lagi faðirinn, sem hefur skapað himin og jörð. Fyrir utan þennan eina hef ég engan annan Guð, því að enginn annar hefði getað skapað himin og jörð.“
En fyrir þá lærðu og hina örlítið fróðari menn, er vel hægt að tala um þessar þrjár greinar út frá víðari grundvelli og skipta þeim niður í hluta eftir orðum. En nú ætti að vera nægilegt fyrir unga nemendur að tileinka sér það nauðsynlegasta, sem er, eins og áður segir, að þessi grein snertir sköpunina,. Þess vegna stöldrum vér við orðin „skapari himins og jarðar“. Hvað er nú sagt eða hvað er átt við með orðunum; „ég trúi á Guð föður almáttugan skapara“ og svo framvegis? Svar: „Ég álít og trúi, að ég sé sköpun Guðs, og það þýðir, að hann hefur gefið mér líkama, sál og líf og heldur því stöðugt við, limi, smáa og stóra, alla hugsun, skynsemi og skilning og svo mætti lengi telja, mat og drykk, fatnað, næringu, maka og börn, þjónustufólk, hús og jarðeign og svo framvegis, auk alls þess sem skepnum er gagnlegt og bráðnauðsynlegt til framgangs og framvindu lífs, sól, tungl og stjörnur á himnum, dag og nótt, loft, eld, vatn, jörð og það sem hún ber og elur af sér, fugla, fiska, dýr, korn og alls kyns gróður, en einnig önnur líkamleg og andleg gæði, góða ríkisstjórn, frið, öryggi.“ Þannig má læra af þessari grein, að enginn af oss á líf eða getur haldið nokkru því við í eigin mætti, sem hér er upp talið, eða sem hægt væri að telja upp, og vér getum ekki viðhaldið því, sem frá honum er, sama hversu smátt og lítilfjörlegt það er. Allt þetta er því fólgið í orðinu „skapari“.
Þar að auki viðurkennum vér einnig, að Guð faðir hefur ekki einungis gefið oss það allt, sem vér eigum og sjáum með augum vorum, heldur verndar oss og ver daglega gegn öllu illu og ógæfu, kemur í veg fyrir alls kyns háska og vanda. Og þetta allt gerir hann fyrir oss óverðskuldað af hreinum kærleika og gæsku, eins og vingjarnlegur faðir, sem annast oss þannig, að ekkert illt kemur fyrir oss. En þaðan má segja, að það komi fyrir í hinum tveimur atriðum þessarar greinar, þegar sagt er; „föður almáttugan“.
Hér segir það sig nú sjálft og leiðir af sjálfu sér; að vegna alls þessa, sem Guð gefur daglega á himni og á jörðu, heldur við og verndar, eigum vér vissulega, að svo miklu leyti sem oss er það unnt, að elska hann án afláts, lofsyngja honum og þakka, og í stuttu máli þjóna honum, eins og hann hefur ætlast til og falið oss í boðorðunum tíu. Hér væri nú margt hægt að segja þessu til áherslu, að þeir eru fáir, sem trúa þessari grein. Vér tökum öll létt á henni, heyrum hana og segjum hana, en sjáum hvorki né hugleiðum, hvað orðin minna á. Ef vér tryðum henni af hjarta, myndum vér einnig framfylgja henni og hreyktum oss ekki upp, þrjóskuðumst við og stærðum oss, eins og vér hefðum þegið líf, ríkidæmi, vald, virðingu og svo framvegis af sjálfum oss, eins og þörf væri á að óttast oss og þjóna, líkt og hinn vansæli, rangsnúni heimur gerir, sem hefur sokkið til botns í blindu sinni, með því að misnota öll gæði og allar gjafir Guðs í hroka sínum, nísku, girnd og glaumi og kærir sig ekki einu sinni um Guð, vill ekki þakka honum eða viðurkenna hann sem Drottin og skapara. Þess vegna á þessi grein að auðmýkja oss og skelfa, svo að vér trúum. Vér syndgum því daglega með augum, eyrum, höndum, líkama og sál, fjármunum og eignum og með öllu sem vér höfum, sérstaklega þeir sem streitast á móti orði Guðs. Samt gefst kristnum mönnum kostur á því að vita til þeirrar skyldu sinnar að þjóna honum og vera honum hlýðnir.
Af þeim sökum skulum vér ástunda þessa grein daglega, tileinka oss hana í öllu, sem fyrir augu ber og í því góða, sem á sér stað. Minnumst þess þegar oss er bjargað undan neyð eða háska, hvernig Guð gefur oss það og gerir fyrir oss, svo að vér skynjum og sjáum föðurlegt hjarta hans og ólýsanlegan kærleika gagnvart oss. Vegna þessa myndi oss hlýna um hjarta og það myndi ljóma af þakklæti og öll gæði þess yrðu notuð Guði til lofs og dýrðar. Þarna höfum vér því í sem stystu máli merkingu þessarar greinar, að svo miklu leyti sem almúganum er fyrst og fremst nauðsynlegt að læra hana, bæði það sem vér höfum frá Guði og þiggjum frá honum, og það sem vér skuldum honum fyrir það. Þetta er mikil og ágæt vitneskja, en miklu dýrmætari fjársjóður.[2] Þarna sjáum vér því, hvernig faðirinn hefur gefið oss sjálfan sig ásamt allri sköpun sinni og séð ríkulega fyrir oss í þessu lífi. Þar að auki hefur hann veitt oss svo ólýsanlega mikið af sínum eilífu gæðum fyrir son sinn og heilagan anda, eins og vér munum heyra.
Önnur grein:
Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn var af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs, og mun þaðan koma í dýrð að dæma lifendur og dauða.
Hér kynnumst vér annarri persónu guðdómsins, þar sem vér sjáum, hvað vér eigum umfram fyrrnefnd tímanleg gæði frá Guði, einmitt hvernig hann að fullu og öllu hefur lagt sjálfan sig í sölurnar og ekkert dregið undan, sem hann hefur ekki gefið oss. Þessi grein er mjög innihaldsrík og víðfeðm, en til þess að vér getum tekið hana fyrir í stuttu máli og á barnslegum nótum, skulum vér taka hana fyrir orð fyrir orð og þannig skilja hana í meginatriðum, til þess, eins og áður segir, að læra megi af því, hvernig vér erum endurleyst. Það felst í þessum orðum; „á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn“.
Þegar nú er spurt: „Hverju trúir þú í annarri greininni um Jesú Krist?“ Þá svarar þú í stuttu máli: „Ég trúi því, að Jesús Kristur, sannur sonur Guðs, sé orðinn Drottinn minn.“ Hvað er nú það „að verða Drottinn“? Það er þetta, að hann hefur frelsað mig frá syndum, frá djöfli, frá dauða og allri ógæfu. Hingað til hef ég engan annan Drottin eða konung haft, heldur var ég á valdi djöfulsins, dæmdur til dauða og flæktur í synd og blindu.
Þegar vér höfðum verið sköpuð og þegið alls kyns gæði frá Guði Föður kom djöfullinn og leiddi oss í óhlýðni, synd, dauða og alla ógæfu, svo að vér kölluðum yfir oss reiði Guðs og ónáð og vorum dæmd til eilífrar glötunar, eins og vér höfðum unnið oss til og verðskuldað. Það voru engin ráð, engin hjálp eða huggun í þessari eymd og volæði, þar til hinn eini og eilífi sonur Guðs miskunnaði oss í takmarkalausri gæsku sinni og kom ofan frá himni oss til hjálpar. Þannig eru nú þessir harðstjórar og fangaverðir reknir á brott og í þeirra stað er kominn Jesús Kristur, Drottinn lífsins, réttlætisins, allra gæða og sælu. Hann hefur hrifið oss auma menn úr viðjum heljar, unnið, frelsað og tekið oss á ný undir verndarvæng og náð föðurins og verndað oss og varðveitt sem sinn eignarlýð, að hann stýri oss fyrir réttlæti sitt, visku, vald, líf og sælu.
Megininnihald þessarar greinar ætti nú að vera á þessa leið, að þetta litla orð, DROTTINN, merkir í sinni einföldustu mynd það sama og endurlausnari, það er að segja, sá sem hefur fært oss frá djöflinum til Guðs, frá dauða til lífs, frá synd til réttlætis og heldur oss við það. Þau atriði, sem koma á eftir þessari grein gera ekkert annað en að útskýra og tjá slíka endurlausn. Þau tjá hvernig og fyrir hvern það hefur gerst, það er, hvaða verði það er keypt og hvernig hann hefur beitt sér og hversu langt hann hefur gengið til þess að vinna oss og leiða oss til dýrðar sinnar. Í þeim tilgangi gerðist hann maður, syndlaus getinn og fæddur af heilögum anda og Maríu mey, að hann yrði herra syndarinnar, til þess píndur, dáinn og grafinn, til þess að hann gerði það fyrir mig og borgaði það sem mér bar að gjalda, hvorki í silfri né gulli, heldur með sínu eigin dýrmæta blóði. Allt þetta hefur átt sér stað, svo að hann mætti verða minn Drottinn. Hann hefur hvorki gert þetta né þurft á því að halda fyrir sjálfan sig. Því næst reis hann upp frá dauðum, svelgdi dauðann og át hann, og steig loks upp til himna og hefur tekið við stjórninni við hægri hönd föðurins, þar sem djöfullinn og allt vald verða honum undirgefin og liggja honum til fóta, þar til hann skilur oss að fullu og öllu frá hinum vonda heimi, djöfli, dauða og synd og svo framvegis. En túlkun þessa einstaka atriðis tilheyrir ekki hinni stuttu barnaprédikun heldur henta þær stóru prédikununum árið um kring, sérstaklega því tímabili sem kemur inn á ítarlega yfirferð á fæðingunni, þjáningunni, upprisunni, uppstigningunni og svo framvegis. Allt fagnaðarerindið sem vér prédikum veltur á því, hvort vér skiljum þessa grein, sem allt vort frelsi og sæla hvílir á, og sem eru svo rík og víðfeðm, að vér lærum það aldrei til hlítar.
Þriðja grein:
Ég trúi á Heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Amen.
Eins og fyrr greinir get ég ekki staðsett þessa grein betur en við helgunina. Hér er nefnilega embætti heilags anda lýst út frá því að hann helgar. Þess vegna verðum vér að einblína á orðið heilagur andi, sem er svo stutt skírskotun, að hún á engan sinn líka. Það eru því margs konar andar í Ritningunni, eins og mennskur andi, himneskir andar og illur andi. En andi Guðs einn nefnist heilagur andi. Það þýðir að hann hefur helgað oss og helgar oss enn. Eins og því faðirinn er skapari, sonurinn kallast endurlausnari, þá á heilagur andi einnig samkvæmt verki sínu einnig að nefnast helgari eða „sá sem gerir oss heilög“. En hvernig fer slík helgun fram? Svar: Rétt eins og sonurinn ávann oss dýrð, fyrir fæðingu sína, dauða og upprisu og svo framvegis, þannig framkvæmir heilagur andi helgun sína fyrir eftirfarandi atriði: Fyrir samfélag heilagra eða kristinnar kirkju, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Það er að segja, fyrst leiðir hann oss í sinn heilaga söfnuð og leggur oss í fang kirkjunnar, þar sem hann prédikar fyrir oss og færir oss til Krists.
Hvorki þú né ég gætum því nokkurn tímann kynnst Kristi betur, trúað á hann eða gert hann að Drottni, nema ef vera skyldi fyrir prédikun fagnaðarerindisins fyrir Heilagan anda, sem er oss blásinn í brjóst. Verkið er fullnað og því er lokið, því að Kristur hefur falið oss fjársjóðinn og unnið hann fyrir oss fyrir þjáningu sína, dauða og upprisu og svo framvegis. En ef verkið væri oss hulið, svo að enginn vissi af því, væri það til ónýtis og engum til gagns. Nú má því ekki grafa þennan fjársjóð niður í jörð, heldur á að nota hann og njóta hans, enda hefur Guð látið orðið út ganga til boðunar, og til þess gefið oss Heilagan anda, svo að þessi fjársjóður og endurlausn verði oss handgengin og vér gætum tileinkað oss hann. Þess vegna er helgunin ekkert annað en það að fela sig Drottni Kristi, þiggja gæði hans, sem vér gætum ekki aflað oss í eigin mætti.
Lærðu því að skilja þessa grein eins skýrt og mögulegt er. Þegar spurt er: „Hvað átt þú við með orðunum: „Ég trúi á Heilagan anda?““, þá getur þú svarað: „Ég trúi því, að heilagur andi helgi mig, eins og nafn hans bendir til.“ En hvernig gerir hann slíkt, eða í hverju er háttur hans eða aðferð fólgin? Svar: „Fyrir kristna kirkju, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Fyrst og fremst á hann sérstakt sameiningartákn í heiminum, og það er móðirin, sem fæðir og klæðir sérhvern kristinn mann fyrir orð Guðs, sem hann opinberar og boðar, upplýsir hjörtun og upptendrar, svo að þau skilji og taki það til sín, treysti á það og haldi sig við það.
Þar sem hann því lætur ekki prédika það og vekur hjörtun til skilnings, þá er það til einskis nýtt, eins og gerst hefur í páfadóminum, þar sem trúnni var ýtt til hliðar, enginn þekkti Krist sem Drottin eða Heilagan anda sem helgara. Það þýðir: Enginn trúði því, að Kristur væri Drottinn, sem án vorra verka og vorrar verðskuldunar hefði aflað oss þessa fjársjóðs og gert oss Föðurnum þóknanleg. Hvað var þá að? Það, að heilagur andi hefur ekki verið til staðar, sem hefði opinberað það og látið prédika það, heldur hafa menn og illir andar verið þar, sem hafa kennt, að vegna verka vorra yrðum vér hólp og nytum náðar. Þess vegna var heldur engin kristin kirkja. Þar sem því er ekki prédikað út frá Kristi, þá er enginn heilagur andi sem myndar kristna kirkju, stofnar til hennar og kallar hana saman, og án hennar getur enginn komist til Drottins Krists. Þetta ætti að nægja um meginatriði þessarar greinar; en þar sem atriðin, sem hér eru tíunduð, eru almúganum ekki alveg ljós, skulum vér einnig líta á þau.
Hina heilögu, kristnu kirkju kallar trúarjátningin „Communionem sanctorum“, „samfélag heilagra“. Hvort tveggja felur þetta í sér, en fyrr á tímum var annað atriðið ekki haft með, enda einnig illa þýtt og óskiljanlegt, „samfélag heilagra“. Þegar tala á skýrt um þetta, þarf að koma orðum að þessu á allt annan hátt í íslenskunni. Orðið „ecclesia“ merkir eiginlega „söfnuður“ á íslensku.[3] Vér erum hins vegar vön orðinu „kirkja“, sem almenningur skilur ekki sem safnaðarhópinn, heldur sem hið vígða hús eða hina vígðu byggingu. Auðvitað á húsið sjálft ekki að kallast kirkja, nema vegna þess að vér, sem komum saman í henni tökum oss sérstakan stað og skipum sess og gefum húsinu nafn eftir söfnuðinum. Þannig merkir orðið „kirkja“ ekkert annað en almennur söfnuður og er upprunalega ekki þýskt, heldur grískt eins og reyndar orðið „ecclesia“. Hún heitir á því tungumáli „kyria“ eins og hún er nefnd „curia“ á latínu.[4] Þess vegna ætti hún að kallast á þýsku og réttri íslensku „kristinn söfnuður eða samkunda“ eða á langbestan og skýrastan hátt „heilög kristni“.[5]
Þannig er því einnig háttað með orðið „communio“, sem hangir saman við þetta. Það á að merkja „söfnuður“ en ekki „samfélag“, og er ekkert annað en innskot eða útlegging, sem einhver hefur viljað þýða sem kristna kirkju. Þeir af oss, sem hvorki hafa kunnað latínu né grísku, hafa kallað þetta „samfélag heilagra“, þrátt fyrir að enginn af oss tali eða skilji tungumálið á þann hátt. En á réttri þýsku {íslensku} á að tala um „söfnuð heilagra“, það er söfnuður, þar sem sannheilaga er að finna eða í skýrara máli „heilagur söfuður.“ Þetta segi ég til þess að skilja megi orðið, vegna þess að það hefur komist upp í vana, sem svo aftur reynist erfitt að venja sig af, og það er álitið vera villukenning, þar sem einu orði er breytt.[6]
Þetta eru hins vegar merking og meginatriði þessa viðauka: Ég trúi því, að til sé heilög samkunda eða söfnuður sannheilagra á jörðu. Höfuð hans er eitt, Kristur. Heilagur andi hefur kallað þennan söfnuð saman í einni trú, einum huga og skilningi, með ýmsum gjöfum, en þó samhuga í kærleika, án flokkadrátta og klofnings. Ég er einnig hluti og meðlimur þessa safnaðar, og á hlutdeild í öllum gæðum hans og nýt þess, sem heilagur andi hefur leitt mig til og innlimað mig í, þar sem ég hef heyrt Guðs orð og heyri enn, en það er forsenda þess að komast inn. Því að fyrrum, áður en við komumst inn, vorum vér undir djöflinum, þar sem vér vissum ekkert um Guð og Krist. Þannig verður heilagur andi hjá hinni heilögu samkundu eða kristni fram að efsta degi, er hann sækir oss og notar hana til þess að vér berum fram orðið og boðum það, þar sem hann síðan framkvæmir helgunina og eykur hana, svo að hún taki það daglega til sín og styrkist í trúnni og ávöxtum hennar, er hann skapar.
Ennfremur trúum vér því, að í kristninni höfum vér fyrirgefningu syndanna, sem á sér stað fyrir sakramentin og aflausnina,[7] auk ýmissa huggunarorða í öllu fagnaðarerindinu. Þess vegna á það einnig við, sem prédikað er út frá sakramentunum, í stuttu máli, allt fagnaðarerindið og öll embætti kristninnar. Hitt er einnig nauðsynlegt, að það gerist í sífellu. Þrátt fyrir að náð Guðs sé oss því áunnin fyrir Krist og helgunin framkvæmd fyrir Heilagan anda, fyrir Guðs orð í einingu kristinnar kirkju, þá erum vér þó aldrei án syndar, sem umkringir oss vegna holdsins. Þess vegna er skipað svo fyrir í gjörvallri kristni, að einskærri fyrirgefningu syndanna verði daglega náð fyrir orð og tákn, til þess að hugga og rétta við samvisku vora, á meðan vér lifum hér. Þannig vinnur heilagur andi, syndin getur ekki gert oss mein, jafnvel þótt vér höfum hana, vegna þess að vér erum í kristninni, þar sem er einskær fyrirgefning syndanna, bæði á þann hátt að Guð fyrirgefur oss og vér fyrirgefum hvert öðru, umberum hvert annað og hjálpumst að. En fyrir utan kristnina, þar sem er ekkert fagnaðarerindi, er heldur alls engin fyrirgefning, og á sama hátt getur engin helgun komið til. Af þeim sökum hefur þeim, sem ekki hafa sótt sér eða áunnið sér helgunina fyrir fagnaðarerindið og fyrirgefningu syndanna, heldur sín eigin verk, verið varpað út.
Þar sem helgunin hefur í millitíðinni hafist og er daglega ástunduð, bíðum vér þess, að hold vort verði deytt og grafið ásamt öllum óhreinleika sínum, en komi fram í dýrð og rísi upp til algjörrar og fullkominnar helgunar í nýju, eilífu lífi. Nú verðum vér hálfhrein og hálfheilög, þannig að heilagur andi vinnur ætíð með oss í gegnum orðið, og veitir fyrirgefninguna daglega fram að því lífi, þar sem fyrirgefningin verður ekki til, heldur fullkomlega tandurhreinir og heilagir menn, fullir guðhræðslu og réttlætis, frelsaðir og leystir frá synd, dauða og allri ógæfu í nýjum, ódauðlegum, dýrlegum líkama. Sjáðu til, allt þetta á að vera embætti og verk Heilags anda, sem byrjar helgunina á jörðu og eykur hana daglega með þessum tveimur atriðum; kristinni kirkju og fyrirgefningu syndanna. En þar sem vér rotnum, mun hann á andartaki fullkomna það og halda því eilíflega við með þessum tveimur síðastnefndu atriðum. En þar sem hér stendur „upprisu holdsins,“ telst það heldur ekki góð þýska {íslenska}. Þar sem vér því heyrum „hold“, hugsum vér ekki lengra en til kjötborðsins. Á réttri þýsku {íslensku} myndum vér hins vegar tala um „upprisu líkamans eða skrokksins“. Samt er þetta ekkert stórmál, svo framarlega sem orðin eru rétt skilin.
Þetta er nú greinin, sem sífellt verður að vera í gangi og halda áfram verki sínu. Sköpunin er að baki, og endurlausnin hefur einnig átt sér stað en heilagur andi heldur áfram verki sínu án afláts allt til efsta dags. Þess vegna hefur hann stofnað heilagan söfnuð á jörðu, þar sem hann talar allt og framkvæmir. Hann hefur því enn hvorki safnað gjörvallri kristni sinni saman né veitt fullnaðarfyrirgefningu sína. Þess vegna trúum vér á þann, sem daglega nær í oss fyrir orðið og gefur oss trúna, eykur hana og styrkir fyrir orðið og fyrirgefningu syndanna, sem hann, þegar allt er yfirstaðið og vér deyjum frá heiminum og allri ógæfu, mun loks helga það fullkomlega um eilífð, sem vér nú bíðum eftir fyrir orðið í trú.
Sjáðu til, í trúarjátningunni hefur þú alla guðlega veru, vilja og verk í stuttu en þó ríflegu máli, dregna upp á fegurstan hátt, er öll vor viska hvílir á, sem æðri er og svífur yfir visku, huga og skynsemi allra manna. Þó að allur heimurinn hafi einsett sér af kappi að komast að því, hver Guð sé og hvað hann hefur í huga, hefur hann samt aldrei fengið úr því skorið. Hér hefur þú það hins vegar svart á hvítu. Hér hefur hann því sjálfur opinberað og lokið upp dýpstu leyndardómum föðurhjarta síns og einskærum, ólýsanlegum kærleika sínum í öllum greinunum þremur. Til þess skapaði hann oss, að hann endurleysti oss og helgaði. Þar að auki hefur hann gefið oss og falið allt, sem er á himni og jörðu, og hann hefur einnig gefið oss son sinn og heilagan anda, en fyrir þá leiddi hann oss til sín. Vér gátum því, eins og að ofan greinir, aldrei komist svo langt að þekkja mildi föðurins og náð nema fyrir Drottin Krist, sem er spegilmynd hins föðurlega hjarta, en fyrir utan hann sjáum vér ekkert annað en reiðan og skelfilegan dómara. Um Krist gætum vér heldur ekkert vitað, væri það ekki opinberað fyrir heilagan anda.
Þannig skilja þessar greinar trúarjátningarinnar oss kristna menn sérstaklega frá öðru fólki á jörðinni. Þeir sem eru fyrir utan kristnina, hvort sem um er að ræða heiðingja, Tyrki, Gyðinga, falskristna eða hræsnara, hvort sem þeir trúa á einn sannan Guð og tilbiðja hann, þá vita þeir ekki, hvað hann hugsar gagnvart þeim, geta hvorki vænst kærleika né gæsku frá honum, vegna þess að þeir lenda í eilífri reiði og fordæmingu. Þeir hafa því ekki DROTTIN Krist, og þeir eru því ekki upplýstir með neins konar náðargjöfum fyrir Heilagan anda.
Af þessu sérð þú nú, að trúarjátningin er af allt öðrum toga en boðorðin tíu. Þau kenna það sem oss ber að gera, en þessi hluti segir hins vegar, hvað Guð gerir fyrir oss og gefur. Boðorðin tíu eru auk þess skrifuð í hjörtu allra manna,[8] en á trúarjátningunni getur ekkert mannlegt hyggjuvit náð tökum og verður að læra hana af heilögum anda. Þess vegna gera boðorðin oss ekki kristin, því að reiði Guðs og ónáð vofa sífellt yfir oss, því að vér getum ekki staðið undir því sem Guð ætlast til af oss. En þessi grein færir einskæra náð, gerir oss fróm og Guði velþóknanleg. Fyrir þessa játningu fáum vér löngun og kærleika til allra boðorða Guðs, vegna þess að hér sjáum vér, hvernig Guð að fullu og öllu gefur oss sjálfan sig til hjálpar og stuðnings við að halda boðorðin tíu: Faðirinn gefur alla sköpun, sonurinn öll verk sín, heilagur andi allar gjafir sínar. Þetta ætti nú að nægja um trúarjátninguna sem grundvallaratriði fyrir almúgann, til þess að honum verði ekki íþyngt, en þegar hann skilur loks meginatriði hennar, getur hann sjálfur haldið áfram og tekið til sín það sem kennt er í Ritningunni og í sífellt ríkari mæli numið og vaxið. Vér höfum því daglega þörf fyrir að prédika hana og læra ævina á enda.
[1] Skiptingin í 12 greinar eftir postulunum 12, sem hver og einn átti að hafa mælt fram sinn hluta, á sér enga stoð í sögunni. Þess í stað velur Lúther að tala um 3 greinar, því að það er innihaldið, sem ákvarðar skiptinguna.
[2] Lúther á við, að það sé í sjálfu sér mikilsvert, að Guð sér okkur fyrir jarðneskum gæðum okkar, en hann gerir miklu meira en það, eins og kemur sérstaklega fram í tveimur næstu greinum.
[3] „Ecclesia“ er grískt orð, sem beinlínis merkir „söfnuður“. Í kristna söfnuðinum var það yfirfært frá grískri þýðingu Gamla testamentisins, þar sem það var heimfært upp á Ísraelslýð. Kirkjan skildi sjálfa sig sem hið nýja Ísraelsríki.
[4] Þýðing Lúthers á orðinu „kirkja“ á ekki við rök að styðjast, og latneska orðið „curia“ kemur málinu ekkert við. Sjálfsagt er um að ræða írsk-keltneskt orð, sem greiddi sér leið inn í germönsk mál með írsku kristniboðunum.
[5] Óvild Lúthers í garð orðsins „kirkja“ stafar af því, að það tjáir ekki skýrt þá staðreynd, að kirkjan er fólk. Hún samanstendur af trúuðum mönnum út um alla jörðina. Þess vegna notaði hann orðið „kristni“, sem hann hafði miklar mætur á. En í okkar huga hefur þetta afskaplega lítið að segja.
[6] Það er rétt, að setningarhlutinn „communio santorum“ er viðbót, en það er varla hægt að útleggja hann á þann hátt sem Lúther gerir það. Að minnsta kosti eru til túlkanir frá þvi snemma á miðöldum, sem hníga í aðra átt. Að hluta til var hann skilinn sem „hlutdeild í hinu heilaga“, þ.e.a.s. í sakramentunum, að hluta til um samfélag heilagra, þ.e.a.s. engla og dýrlinga á himni og heilagra á jörðu. En eftir því sem leið á miðaldir varð sú túlkun ríkjandi, að þessi hluti yrði nánari útskýring á hugtakinu „heilög almenn kirkja“.
[7] Skriftirnar, þar sem presturinn boðar fyrirgefningu syndanna, skiptu Lúther áfram miklu máli, þrátt fyrir að hann vísaði því á bug, að nokkur yrði þvingaður til skrifta.
[8] Með þessu á Lúther við „náttúrulögmálið“, þ.e. kröfuna um kærleikann til Guðs og náungans, sem hann taldi, með hliðsjón af guðfræði miðalda og í samræmi við Rómverjabréfið 2.14, að væri meðfædd öllu fólki. Merkingin er þannig ekki sú, að boðorðin tíu, eins og þau eru sett fram samkvæmt lögmáli Móse, ættu að vera „skrifuð í hjörtu allra manna“, heldur að boðorðin tíu væru einfaldlega útlegging náttúrulögmálsins.