Hér að neðan er að finna Fræði Lúthers minni í þýðingu Dr. Einars Sigurbjörnssonar, og eru þau tekin úr bók hans Kirkjan játar, með góðfúslegu leyfi höfundarréttarhafa og Skálholtsútgáfunnar. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar um þetta, og hvernig nálgast má eintak af bókinni. Vinsamlegast hafðu samband við okkur ef þú finnur prentvillur eða aðra galla á þessarri stafrænu útgáfu.
- Formáli
- Fyrsti hluti: Boðorðin tíu
- Annar hluti: Trúin
- Þriðji hluti: Faðir vor
- Fjórði hluti: Sakramenti heilagrar skírnar
- Fimmti hluti: Hvernig kenna ber fáfróðu fólki að skrifta
- Sjötti hluti: Altarissakramentið
- Sjöundi hluti: Morgun- og kvöldbæn
- Áttundi hluti: Bænir á undan og eftir máltíð
- Níundi hluti: Hússpjaldið
Formáli
Marteinn Lúther óskar öllum trúuðum og guðræknum sóknarprestum og prédikurum náðar, miskunnar og friðar í Jesú Kristi, Drottni vorum.
Hin hörmulega og sára neyð, sem ég nýlega komst að raun um, þegar ég var í yfirreið, hefur knúið mig til að færa þessi Fræði eða kristilegu kenningu í fáorðan, óbrotinn og einfaldan búning. Guð minn góður! Hvílíkri eymd hef ég kynnst, að almúgamenn, einkum til sveita, vita alls ekkert í kristilegri kenningu og margir sóknarprestar eru því miður nær óhæfir og ónýtir til þess að kenna. Þó eiga allir að heita kristnir, vera skírðir og neyta heilagrar kvöldmáltíðar. Þeir kunna hvorki Faðir vor né trúarjátninguna[1]né boðorðin tíu, en lifa eins og þæg húsdýr og skynlaus svín, og hafa, þegar fagnaðarerindið er komið fram, býsna vel lært að misnota allt frelsi.
Ó, biskupar! Hverju ætlið þér að svara Kristi síðar, þar eð þér hafið svo skammarlega látið lýðinn reika um og ekki nokkru sinni stundað embætti yðar eitt andartak? Vonandi komist þér hjá hvers kyns óhamingju! Þér skipið fyrir um, að máltíðar Drottins skuli neytt í annarri myndinni einni og haldið fram mannasetningum yðar, en spyrjið jafnframt ekkert um, hvort menn kunni Faðir vor, trúarjátninguna, boðorðin tíu eða nokkurt Guðs orð. Vei! Vei yður eilíflega!
Þess vegna bið ég yður alla, kæru herrar mínir og bræður, sem eruð sóknarprestar eða prédikarar, að þér sakir Guðs viljið af hjarta annast um embætti yðar, miskunna yður yfir fólk yðar, sem yður hefir verið trúað fyrir, og hjálpið oss til þess að koma Fræðunum inn í fólkið, einkum þó æskulýðinn, og að þeir sem ekki geta betur gert, vilji taka þessi spjöld og skýringar sér í hönd og lesa upp fyrir fólkinu orð fyrir orð. Og þá þannig:
Í fyrsta lagi: Prédikarinn á umfram allt að gæta sín og forðast margvíslega eða ólíka texta og skýringar á boðorðunum tíu, Faðir vori, trúarjátningunni, sakramentunum o.s.frv., heldur taka handa sér eina skýringu, halda sér svo við hana og fylgja henni ár eftir ár. Ungu og fáfróðu fólki verður nefnilega að kenna einn ákveðinn texta og skýringar, því annars er viðbúið að það ruglist, þegar einn daginn er kennt á þennan hátt og að ári liðnu á annan hátt alveg eins og maður vildi umbæta fyrra verkið og svo verður öll fyrirhöfnin og starfið að engu gagni. Þetta hafa hinir kæru feður einnig vel skilið og hafa því allir notað Faðir vor, trúarjátninguna og boðorðin tíu á sama hátt. Þegar átt er við unga menn og fáfróða, verðum vér þess vegna að kenna þeim slíkar greinar þannig, að vér hvorki færum nokkra samstöfu til né höldum fram eða flytjum þeim greinarnar í breyttri mynd frá ári til árs. Veldu þér því hverja þá skýringu sem þú vilt og haltu þér svo framvegis við hana. Ef þú aftur á móti prédikar yfir lærðum og gáfuðum mönnum, þá máttu sýna kunnáttu þína og gera þessar greinar svo margbreyttar sem þú vilt og snúa þeim eins snilldarlega og þú getur. En gagnvart æskulýðnum skaltu halda þér við eina fastákveðna mynd og aðferð, og kenndu þeim fyrst af öllu þessar greinar, er hér segir: Boðorðin tíu, trúarjátninguna, Faðir vor o.s.frv., eftir því sem orð textans hljóða, svo að þeir einnig geti haft það eftir á sama hátt og lært það utanbókar.
En þeim er eigi vilja nema þetta, skal sagt, að þeir afneiti Kristi og séu ekki kristnir menn. Þeir eiga heldur ekki að fá aðgang að altarissakramentinu, ekki halda barni undir skírn né heldur njóta í neinu kristilegs frelsis, heldur ber umsvifalaust að vísa þeim til páfans og umboðsmanna hans og þar með til djöfulsins sjálfs. Jafnframt eiga foreldrar og húsbændur að neita þeim um mat og drykk og vekja athygli þeirra á því, að þjóðhöfðinginn muni reka slíka óuppfrædda menn úr landi o.s.frv.
Þótt menn hvorki geti neytt né eigi að neyða nokkurn mann til trúarinnar, þá ber þó að knýja fjöldann og reka til að vita hvað rétt sé og rangt hjá þeim sem þeir vilja vera í heimili hjá, njóta fæðis frá og lifa með. Því að sérhver maður sem vill hafa búsetu í einhverri borg, á að þekkja lög borgarinnar og halda þau, ef hann vill njóta góðs af þeim, eftir Guðs vilja, hvort sem hann er trúaður eða er í hjarta sínu fantur og fúlmenni.
Í öðru lagi: Þegar nemendur kunna vel textann, þá kenndu þeim því næst einnig að skilja hann, svo að þeir viti hvað sagt er. Og taktu á ný fram fyrir þig skýringar þessara spjalda eða einhverjar aðrar stuttar skýringar sem þér þóknast og haltu þér svo við þær og breyttu ekki um nokkra samstöfu eins og sagt hefur verið um textann og taktu þér tíma til þess. Því það er ekki nauðsynlegt, að taka fyrir öll atriði í einu, heldur skalt þú taka eitt fyrir í senn. Þegar þeir hafa í upphafi skilið fyrsta boðorðið vel, þá skalt þú taka fyrir annað boðorðið og svo áfram. Ef yfirferðin er of mikil, verður fólki ofþyngt og ekkert tollir í því.
Í þriðja lagi: Þegar þú hefir kennt þeim þessi stuttu Fræði, þá taktu einnig þér í hönd Fræðin meiri og veittu þeim frekari og víðtækari skilning. Þar skaltu leggja áherslu á hvert einstakt boðorð, bæn og atriði, ásamt hinum margvíslegu verkum þeirra, nytsemi, gagni, hættu og tjóni á þann hátt sem þú finnur allt þetta ríkulega í mörgum bókum, sem um það hafa verið ritaðar. Sérstaklega skaltu leggja áherslu á það boðorð og þau atriði, sem mest er brotið gegn í söfnuði þínum. T.d. verður þú einkanlega að leggja áherslu á sjöunda boðorðið, um þjófnaðinn, hjá handiðnamönnum, verslunarmönnum, jafnvel líka hjá bændum og vinnuhjúum, því að hjá slíku fólki er mikið um alls konar ótrúmennsku og hnupl. Sömuleiðis verður þú að brýna fjórða boðorðið fyrir börnum og almúgamönnum, svo að þetta fólk sé kyrrlátt, trúlynt, hlýðið og friðsamt og draga stöðugt fram mörg dæmi úr ritningunni, er sýni, að Guð hafi hegnt og umbunað slíku fólki.
Hvettu einnig sérstaklega yfirvöldin og foreldra til þess að stjórna vel og halda börnum sínum í skóla og sýn þeim fram á, að það sé skylda þeirra að gera þetta og þau drýgi andstyggilega synd, ef þau vanrækja að gera það. Því að með því háttalagi steypa þau og leggja í bæði ríki Guðs og manna í rúst eins og skæðir fjandmenn bæði Guðs og manna. Og sýndu alvarlega fram á, hvílíku tjóni þau valda, ef þau stuðla ekki að því að ala upp börn til að verða prestar, prédikarar, skrifarar o.s.frv., að Guð muni harðlega hegna þeim fyrir það. Því að hér er þörf á að prédika. Foreldrar og yfirvöld syndga nú svo í þessu efni, að eigi er orðum um það farandi. Djöfullinn hefir líka eitthvað ógurlegt í hyggju með þessu.
Að síðustu: Með því að harðstjórn páfans er nú afnumin, þá vilja menn ekki lengur ganga til Guðs borðs og fyrirlíta það. Hér er nauðsyn á hvatningu, þó með þessari leiðbeiningu: Vér megum engan neyða til trúarinnar eða að máltíð Drottins og eigi heldur setja nokkur lög eða ákveða stund og stað, en prédika þannig, að þeir hvetjist sjálfir án þess að þurfa lög frá oss og jafnvel neyði oss presta til að veita sér sakramentið. Þetta er gert þannig, að við menn er sagt: Ef einhver gengur ekki til altaris eða æskir þess a.m.k. einu sinni eða fjórum sinnum á ári, þá er hætta á, að hann fyrirlíti altarissakramentið og sé ekki kristinn maður alveg eins og Sá er ókristinn, sem hvorki trúir fagnaðarerindinu né hlustar á það. Því að Kristur sagði aldrei: „Hirð eigi um þetta“ eða: „Fyrirlít þetta“, heldur: „Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið“ o.s.frv. Hann vill sannarlega, að það sé gert og alls ekki að það sé vanrækt og fyrirlitið. „Gerið þetta,“ segir hann.
Þegar einhver hefur ekki altarissakramentið í miklum metum, þá auglýsir hann með því, að hann viðurkennir enga synd, ekkert hold, engan djöful, engan heim, engan dauða, enga hættu, ekkert helvíti, þ.e. hann trúir ekki að neitt af þessu sé til, jafnvel þótt viðbúið sé, að hann sé á kafi í því upp fyrir eyru og sé tvöföld eign djöfulsins. A hinn bóginn hefur hann líka enga þörf fyrir náð, líf, paradís, himnaríki, Krist, Guð né nokkuð það sem gott er. Því að ef hann tryði að hann hefði svo mikið af illu og hefði þörf fyrir svo mikið af góðu, mundi hann ekki vanrækja sakramentið, sem bætir úr svo mörgu böli og gefur svo mörg gæði. Þá þyrfti ekki nokkurt lögmál til að neyða hann til þess að neyta sakramentisins, heldur mundi hann sjálfur koma hraðfara og óðfús, sjálfur neyða sig og reka þig áfram, svo að þú yrðir að veita honum sakramentið.
Hér máttu því eigi, sem páfinn, setja nokkurt lögmál. Sýndu einungis fram á gagnið og tjónið, þörfina og nytsemina, hættuna og hjálpræðið í þessu sakramenti, þá munu þeir vissulega koma sjálfir án þess að þú neyðir þá til þess. En komi þeir ekki, þá láttu þá sjálfráða og segðu þeim, að þeir tilheyri djöflinum sem ekki virða eða finna sára neyð sína og náðarsamlega hjálp Guðs. En ef þú herðir ekki á þessu eða býrð til lögmál eða ólyfjan úr þessu, þá er það þér að kenna, að þeir fyrirlíta sakramentið. Hví skyldu þeir ekki vera hirðulausir, ef þú sefur og þegir? Hafðu því gát á þessu, sóknarprestur og prédikari! Embætti vort er nú orðið annað en það var undir páfanum. Nú er það orðið alvarlegt og til hjálpræðis. Það kostar því nú miklu meiri fyrirhöfn og starf, hættur og freistingar, og til viðbótar lítil laun og þakkir í heiminum. En Kristur vill sjálfur vera laun vor, þegar vér vinnum með trúmennsku. Til þess hjálpi oss faðir allrar náðar! Honum sé lof og þökk um eilífð fyrir Krist Drottin vorn. Amen.
Fyrsti hluti: Boðorðin tíu
svo sem húsfaðir á að halda þeim í einfaldleik að heimafólki sínu.
Fyrsta boðorð
Þú skalt ekki aðra guði hafa.
Hvað er það? Svar: Vér eigum umfram allt að óttast Guð og elska og honum að treysta.
Annað boðorð
Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi biðjum óbæna í hans nafni, sverjum, fjölkynngi fremjum, ljúgum né svíkjum, heldur áköllum það í allri þörf, biðjum, lofum og þökkum.
Þriðja boðorð
Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi fyrirlítum prédikunina né orð hans, heldur höldum það heilagt, heyrum það gjarnan og lærum.
Fjórða boðorð
Heiðra skaltu föður þinn og móður.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi fyrirlítum foreldra vora og yfirboðara né reitum þá til reiði, heldur höfum þá í heiðri, þjónum þeim og hlýðum, elskum þá og virðum.
Fimmta boðorð
Þú skalt ekki mann deyða.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi meiðum náunga vorn né vinnum honum nokkurt mein á líkama hans, heldur björgum honum og hjálpum í allri líkamlegri neyð.
Sjötta boðorð
Þú skalt ekki drýgja hór.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér lifum hreinlega og siðlega í orðum og verkum og sérhver hjón elski og virði hvort annað.
Sjöunda boðorð
Þú skalt ekki stela.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi tökum peninga eða fjármuni náunga vors né drögum oss það með svikinni vöru eða öðrum brögðum, heldur hjálpum honum að geyma eigna sinna og efla atvinnu sína.
Áttunda boðorð
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi ljúgum ranglega á náunga vorn, svíkjum hann, baktölum né ófrægjum, heldur afsökum hann, tölum vel um hann og færum allt til betra vegar.
Níunda boðorð
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi sækjumst eftir arfi eða húsi náunga vors með brögðum né drögum oss það með yfirskini réttinda o.s.frv., heldur styðjum hann og styrkjum að halda því.
Tíunda boðorð
Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi drögum, kúgum né tælum frá náunga vorum konu hans, hjú eða fénað, heldur höldum þeim til að vera kyrr og vinna það, er þeim ber.
Hvað segir nú Guð um öll þessi boðorð?
Svar: Hann segir svo: „Ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgerða feðranna á börnunum í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata; en auðsýni miskunn í þúsund liðu, þeim sem elska mig og varðveita boðorð mín.“ (2M 20.5-6).
Hvað er það? Svar: Guð hótar að hegna öllum þeim, sem brjóta þessi boðorð. Þess vegna eigum vér reiði hans að óttast og ekki gegn slíkum boðum að breyta. En öllum þeim, sem halda boðorð þessi, lofar hann náð og öllu góðu. Þess vegna eigum vér og hann að elska, honum að treysta og eftir hans boðum gjarnan að breyta.
Annar hluti: Trúin
svo sem húsfaðir á að halda henni í einfaldleik að heimafólki sínu.
Fyrsta grein: Um sköpunina
Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.
Hvað er það? Svar: Ég trúi að Guð hafi skapað mig og alla hluti, hafi gefið mér líkama og sál, augu, eyru og alla limi, skynsemi og öll skilningarvit og haldi því enn við; auk þess klæði og skæði, mat og drykk, hús og heimili, maka og börn, akur, fénað og öll gæði; sjái mér ríkulega og daglega fyrir öllum þörfum og fæðslu þessa líkama og lífs; verndi mig gegn allri hættu, og gæti mín og varðveiti mig frá öllu illu; og allt þetta af einskærri, föðurlegri, guðlegri gæsku og miskunn, án allrar minnar verðskuldunar og tilverknaðar. En fyrir allt þetta ber mér skylda til að þakka honum og vegsama hann, þjóna honum og hlýða. Það er vissulega satt.
Önnur grein: Um endurlausnina
Ég trúi á Jesú Krist,[2] hans einkason Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Hvað er það? Svar: Ég trúi, að Jesús Kristur, sannur Guð, af föðurnum fæddur frá eilífð, og sömuleiðis sannur maður, fæddur af Maríu mey, sé minn Drottinn, sem mig, glataðan og fyrirdæmdan mann, hefur endurleyst, friðkeypt og frelsað frá öllum syndum, frá dauðanum og frá djöfulsins valdi, ekki með gulli né silfri, heldur með sínu heilaga, dýrmæta blóði og með sinni saklausu pínu og dauða, til þess að ég sé hans eign og lifi í hans ríki, undir hans valdi og þjóni honum í eilífu réttlæti, sakleysi og sælu, eins og hann er frá dauðanum upprisinn, lifir og ríkir að eilífu. Það er vissulega satt.
Þriðja grein: Um helgunina
Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Amen.
Hvað er það? Svar: Ég trúi, að ég geti ekki af eigin skynsemi eða mætti trúað á Jesú Krist, Drottin minn né til hans komist, heldur hafi heilagur andi kallað mig með gleðiboðskapnum, upplýst mig með gjöfum sínum, helgað mig og haldið mér í réttri trú eins og hann kallar gjörvalla kirkjuna á jörðu, safnar henni saman, upplýsir hana og helgar, og heldur henni við Jesú Krist í hinni réttu, einu trú. Í þessari kirkju fyrirgefur hann dag hvern ríkulega mér og öllum trúuðum allar syndir og á síðasta degi mun hann uppvekja mig og alla dauða og gefa mér og öllum trúuðum í Kristi eilíft líf. Það er vissulega satt.
Þriðji hluti: Faðir vor
svo sem húsfaðir á að halda því í einfaldleik að heimafólki sínu.
Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Hvað er það? Svar: Guð vill með því laða oss til að trúa því, að hann sé vor sanni faðir og vér hans sönnu börn, til þess að vér skulum biðja hann örugg og með fullu trausti sem elskuleg börn sinn elskulega föður.
Fyrsta bæn
Helgist þitt nafn.
Hvað er það? Svar: Guðs nafn er að sönnu í sjálfu sér heilagt, en vér biðjum í þessari bæn, að það verði einnig heilagt hjá oss.
Hvernig verður það? Svar: Þegar Guðs orð er kennt rétt og hreint og vér lifum einnig heilaglega eftir því sem Guðs börn. — Hjálpa þú oss til þess, elskulegi faðir á himnum. — En hver sem kennir og lifir öðruvísi en Guðs orð kennir, sá vanhelgar nafn Guðs meðal vor. — Varðveit þú oss frá því, himneski faðir.
Önnur bæn
Til komi þitt ríki.
Hvað er það? Svar: Guðs ríki kemur að sönnu án vorrar bænar af sjálfu sér, en vér biðjum í þessari bæn, að það komi einnig til vor.
Hvernig verður það? Svar: Þegar vor himneski faðir gefur oss sinn heilaga anda, svo að vér fyrir náð hans trúum hans heilaga orði og lifum guðlega hér í tímanum og annars heims að eilífu.
Þriðja bæn
Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Hvað er það? Svar: Guðs góði, náðugi vilji verður að vísu án bænar vorrar, en vér biðjum í þessari bæn, að hann verði einnig hjá oss.
Hvernig verður það? Svar: Þegar Guð ónýtir og hindrar öll ill ráð og vilja, sem vill aftra því, að Vér helgum Guðs nafn og ríki hans komi, en það er vilji djöfulsins, heimsins og holds vors, en styrkir oss og heldur oss staðföstum í orði sínu og trú til æviloka. Það er hans náðugi, góði vilji.
Fjórða bæn
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Hvað er það? Svar: Guð gefur að sönnu daglegt brauð einnig án vorrar bænar jafnvel öllum vondum mönnum, en vér biðjum í þessari bæn, að hann láti oss við það kannast og vort daglega brauð með þakklæti þiggja.
Hvað er þá nefnt daglegt brauð? Svar: Allt sem heyrir til fæðslu líkamans og þarfa, svo sem matur, drykkur, klæði, skæði, hús, heimili, jarðnæði, fénaður, peningar, fjármunir, guðhræddur maki, guðhrædd börn, guðhrædd hjú, guðhræddir og trúir yfirmenn, góð landstjórn, góð veðrátta, friður, heilbrigði, siðsemi, heiður, góðir vinir, trúir nágrannar og þvíumlíkt.
Fimmta bæn
Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Hvað er það? Svar: Vér biðjum í þessari bæn, að faðirinn á himnum vilji eigi á synd vora líta né hennar vegna oss bænheyrslu synja — því að vér erum einskis þess makleg, sem vér biðjum um, og höfum ekki verðskuldað það — heldur að hann vilji gefa oss það allt af náð, því að daglega syndgum vér mikið og verðskuldum einbera hegningu. Svo viljum vér þá og aftur á móti af hjarta fyrirgefa og gera gott þeim er við oss misgera.
Sjötta bæn
Og eigi leið þú oss í freistni.
Hvað er það? Svar: Guð freistar að sönnu einskis manns, en vér biðjum í þessari bæn, að Guð vilji vernda oss og varðveita, svo að djöfullinn, heimurinn og hold vort svíki oss eigi né tæli til vantrúar, örvæntingar og annarrar stórrar svívirðingar og lasta og vér fáum, þótt vér freistumst af þessu, að lyktum unnið sigur og sigri haldið.
Sjöunda bæn
Heldur frelsa oss frá illu.
Hvað er það? Svar: Vér biðjum í þessari bæn í stuttu máli, að faðirinn á himnum frelsi oss frá alls konar böli á líkama og sálu, eignum og mannorði og unni oss að lyktum, þá er stund vor kemur, sælla æviloka, og taki oss í náð úr þessum eymdadal til sín í himininn.
[Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.][3] Amen.
Hvað er það? Svar: Að ég má vera viss um, að slíkar bænir séu þóknanlegar föðurnum á himnum og verði bænheyrðar, því að hann hefir sjálfur boðið oss að biðja þannig og heitið oss bænheyrslu sinni. Amen, amen, það þýðir: Já, já, svo skal verða.
Fjórði hluti: Sakramenti heilagrar skírnar
svo sem húsfaðir á að halda því í einfaldleik að heimafólki sínu.
Í fyrsta lagi: Hvað er skírnin?
Svar: Skírnin er ekki eingöngu venjulegt vatn, heldur er hún vatnið umvafið boði Guðs og samtengt orði Guðs.
Hvert er þá slíkt Guðs orð?
Svar: Það er Kristur, Drottinn vor, segir hjá Matteusi í síðasta kapítula: „Farið út um allan heiminn, og kennið öllum heiðingjum og skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda.“ (Mt 28.19).
Í öðru lagi: Hvað gefur eða gagnar skírnin?
Svar: Hún veldur fyrirgefningu syndanna, frelsar frá dauðanum og djöflinum og gefur eilífa sáluhjálp öllum, sem trúa því, eins og orð Guðs og fyrirheit hljóða.
Hver eru slík orð Guðs og fyrirheit?
Svar: Þau er Kristur, Drottinn vor, segir hjá Markúsi í síðasta kapítula: „Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki , mun fyrirdæmdur verða.“ (Mk 16.16).
Í þriðja lagi: Hvernig fær vatn gert svo mikið?
Svar: Vatn gerir það sannarlega ekki, heldur orð Guðs sem er með og hjá vatninu, og trúin sem treystir slíku orði Guðs í vatninu. Því að án orðs Guðs er vatnið venjulegt vatn og engin skírn, en með orði Guðs er það skírn, það er náðarríkt lífsins vatn og laug nýrrar fæðingar í heilögum anda, svo sem Páll postuli segir í bréfinu til Títusar í 3. kapítula: „Hann frelsaði oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja. Hann úthellti anda sínum yfir oss ríkulega fyrir Jesú Krist, frelsara vorn, til þess að vér, réttlættir fyrir náð hans, yrðum í voninni erfingjar eilífs lífs.“ (Tt 3.5-8) Það er vissulega satt.
Í fjórða lagi: Hvað merkir þá slík vatnsskírn?
Svar: Hún merkir það, að hinn gamli Adam í oss á að drekkjast fyrir daglega iðrun og yfirbót og deyja með öllum syndum og vondum girndum og aftur á móti daglega fram að koma og upp aftur að rísa nýr maður, Sá er lifi að eilífu í réttlæti og hreinleik fyrir Guði.
Hvar stendur það skrifað?
Svar: Páll postuli segir í bréfinu til Rómverja í 6. kapítula: „Vér erum dánir og greftraðir með Kristi í skírninni til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var uppvakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins.“ (Rm 6.4)
Fimmti hluti: Hvernig kenna ber fáfróðu fólki að skrifta
Hvað eru skriftir?
Svar: Skriftir taka yfir tvö atriði: Annað er, að maður játi syndina, hitt er, að hann veiti aflausninni eða syndafyrirgefningunni viðtöku af skriftaföðurnum svo sem af Guði sjálfum væri og efist svo ekki um þetta, heldur trúi fastlega, að syndirnar séu með því fyrirgefnar hjá Guði á himnum.
Hvaða syndir ber manni þá að skrifta?
Svar: Fyrir Guði ber oss að játa oss sek af öllum syndum líka þeim sem vér vitum ekki um eins og vér gerum í Faðir vorinu. En fyrir skriftaföðurnum eigum vér aðeins að játa þær syndir sem vér vitum um og finnum til í hjartanu.
Hverjar eru þær?
Svar: Líttu á stöðu þína með boðorðin tíu í huga, hvort sem þú ert faðir, móðir, sonur, dóttir, húsfaðir, húsmóðir, þjónn, hvort þú hafir verið óhlýðinn, svikull, latur, hvort þú hafir gert nokkrum manni rangt til í orði eða verki, hvort þú hafir stolið, verið vanrækslusamur, skeytingarlaus, valdið tjóni.
Gefðu mér vinsamlegast stutta reglu að skrifta eftir.
Svar: Þannig átt þú að segja við skriftaföðurinn: Virðulegi góði herra. Ég bið yður að gera svo vel að hlýða á skriftamál mín og boða mér samkvæmt Vilja Guðs fyrirgefningu syndanna.
Seg þú: „Ég aumur syndari, játa mig sekan fyrir Guði í alls konar syndum. Sérstaklega játa ég fyrir yður, að ég er þjónn, þerna o.s.frv., en því miður þjóna ég húsbændum mínum með ótrúmennsku, því að stundum hef ég eigi gert það sem þeir buðu mér. Ég hef móðgað þá og komið þeim til að formæla, hef sýnt vanrækslu og látið þá verða fyrir tjóni, hef einnig sýnt ósvífni í orði og verki, hef rifist við jafningja mína, möglað við húsmóður mína og formælt o.s.frv. Allt hetta angrar mig og bið ég um náð og vil betra mig.“
Húsfaðir eða húsmóðir mæli þannig: „Ég játa sérstaklega fyrir yður, að ég hef eigi með trúmennsku leitt börn mín, hjú mín, maka minn, Guði til dýrðar. Ég hef formælt, gefið illt eftirdæmi með saurugum orðum og verkum, gert nágranna mínum skaða og talað illa um hann, selt of dýrt, látið af hendi sviknar og ónógar vörur.“ Og sérhvað annað, sem hann hefur brotið á móti boðorðum Guðs og stöðu sinni.
En finni einhver sig ekki sekan um slíkar eða stærri syndir, þá þarf hann eigi þess vegna að vera angurvær eða leita lengra eftir syndum eða ljúga heim upp og gera skriftirnar með því að kvöl, heldur skaltu nefna eina eða tvær, sem bú veist um þannig:
„Sérstaklega játa ég, að ég einu sinni hef formælt, einu sinni talað ósæmilega, einu sinni verið vanrækinn í einu og öðru efni“, o.s.frv. Láttu það duga.
Vitir þú um alls enga (sem þó varla er mögulegt), þá nefndu heldur enga sérstaklega, heldur taktu á móti fyrirgefningunni upp á almennu skriftirnar, sem þú hefir gert fyrir skriftaföðurnum, í augsýn Guðs.
Við því á skriftafaðirinn að segja: „Guð sé þér náðugur og styrki trú þína. Amen.“
Ennfremur: „Trúir þú líka, að fyrirgefning mín sé fyrirgefning Guðs?“
Svar: „Já, herra.“
Við því segir hann: „Verði þér svo sem þú trúir! Og eftir skipun Drottins vors Jesú Krists fyrirgef ég þér syndir þínar í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Amen. Far burt í friði.“
En þá, sem finna til þungrar sektar í samvisku sinni eða eru hryggir og hugsjúkir, verður skriftafaðirinn að geta huggað með ýmsum ritningargreinum og laðað til trúarinnar. Þetta eiga einungis að vera hin almennu skriftamál fyrir fáfróða menn.
Sjötti hluti: Altarissakramentið
svo sem húsfaðir á að halda því í einfaldleik að heimafólki sínu.
Hvað er altarissakramentið?
Svar: Það er hinn sanni líkami og blóð Drottins vors Jesú Krists undir brauðinu og víninu, handa oss kristnum mönnum að eta og drekka, sett af Kristi sjálfum.
Hvar stendur það skrifað?
Svar: Svo skrifa hinir heilögu guðspjallamenn, Matteus, Markús og Lúkas og Páll postuli: „Vor Drottinn Jesús Kristur tók brauðið, nóttina sem hann svikinn var, gjörði þakkir og braut það, og gaf sínum lærisveinum og sagði: „Takið og etið. Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.“
Sömuleiðis tók hann og kaleikinn eftir kvöldmáltíðina, gjörði þakkir og gaf þeim hann og sagði: „Drekkið allir hér af. Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna. Gerið þetta svo oft sem þér drekkið í mína minningu“.“
Hvað stoðar þá að eta og drekka þannig?
Svar: Það sýna oss þessi orð: „Fyrir yður gefinn og fyrir yður úthellt til fyrirgefningar syndanna.“ Það er að skilja: Fyrir þessi orð er oss í sakramentinu veitt fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp, því að þar sem fyrirgefning syndanna er þar er einnig líf og sáluhjálp.
Hvernig fær það að eta og drekka líkamlega afrekað svo mikið?
Svar: Það að eta og drekka líkamlega afrekar það sannarlega ekki heldur orðin sem þar standa: „Fyrir yður gefinn og fyrir yður úthellt til fyrirgefningar syndanna.“ Því að þau orð eru, ásamt því að eta og drekka líkamlega höfuðatriðið í sakramentinu og hver sem trúir þessum orðum, hann hefur það er þau segja og svo sem þau hljóða, það er að segja: Fyrirgefningu syndanna.
Hver meðtekur þá maklega þetta sakramenti?
Svar: Fasta og líkamlegur undirbúningur er að vísu fögur ytri siðsemi, en sá er réttilega maklegur og vel hæfur sem trúna hefur á þessi orð: „Fyrir yður gefinn og fyrir yður úthellt til fyrirgefningar syndanna.“ En hver sem ekki trúir þessum orðum eða efast um þau, hann er ómaklegur og óhæfur, því að orðið: „Fyrir yður“ krefst algerlega trúaðra hjartna.
Sjöundi hluti: Morgun- og kvöldbæn
Hvernig húsföður ber að kenna hjúum sínum að biðjast fyrir á morgnana og á kvöldin
Athugasemd
7. – 9. hluti fræðanna hefur að geyma hagnýtar reglur um bænagjörð kvölds og morgna, um borðbænir og loks hússpjaldið.
Morgunbæn
Þá er þú á morgnana rís úr rekkju, áttu að signa þig með hinu helga krossmarki og segja:
I nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Amen.[4]
Því næst (mælirðu fram) krjúpandi eða standandi trúarjátninguna og Faðir vor. Ef þú vilt, getur þú bætt þessari smábæn við:
Ég þakka þér, himneski faðir minn, fyrir Jesú Krist, þinn elskulega son, að þú í nótt hefur varðveitt mig frá öllu tjóni og háska, og ég bið þig að vernda mig einnig á þessum degi frá synd og öllu illu, svo að allt starf mitt og lifnaður þóknist þér. Ég fel mig, líkama minn og sálu og sérhvað eina í hendur þínar. Heilagur engill þinn veri hjá mér, svo að óvinurinn illi nái engu valdi yfir mér. Amen.
Gakk svo með gleði til iðju þinnar, og syngdu lika vers, t.d. um boðorðin tíu, eða eitthvað sem guðrækni þín blæs þér í brjóst.
Kvöldbæn
Þá er þú á kvöldin gengur til hvílu þinnar, áttu að signa þig með hinu helga krossmarki og segja:.
I nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Amen.[5]
Því næst (mælirðu fram) krjúpandi eða standandi trúarjátninguna og Faðir vor. Ef þú vilt, getur þú bætt þessari smábæn við..
Ég þakka þér, himneski faðir minn, fyrir Jesú Krist, þinn elskulega son, að þú í dag hefur náðarsamlega varðveitt mig. Og ég bið þig að fyrirgefa mér allar syndir mínar, þar sem ég hef ranglega breytt, og varðveita mig náðarsamlega í nótt. Ég fel mig, líkama minn og sálu og sérhvað eina í hendur þínar. Heilagur engill þinn veri hjá mér, svo að óvinurinn illi nái engu valdi yfir mér. Amen.
Og síðan tafarlaust og með fögnuði til svefns.
Áttundi hluti: Bænir á undan og eftir máltíð
Hvernig húsföður ber að kenna hjúum sínum að biðjast fyrir á undan og eftir máltíð
Á undan máltíð
Börn og hjú eiga að ganga að borðinu hógværlega og með spenntum greipum og segja:
Allra augu vona á þig, Drottinn, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt, sem lifir, með blessun. (SI 145.15-16).
Stutt skýring: Blessun merkir, að allar skepnur fái svo mikla fæðu, að þær séu glaðar og ánægðar af því, því að áhyggjur og ágirnd eru slíkri blessun til fyrirstöðu.
Þar á eftir Faðir vor og þessi eftirfarandi bæn:
Drottinn Guð, himneski faðir. Blessa þú oss og þessar gjafir þínar sem vér þiggjum af mildri miskunn þinni, fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.
Þakklætið
Sömuleiðis eiga þau einnig eftir máltíðina að gera á sama hátt og með spenntum greipum og segja hógværlega:.
Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. Hann gefur fæðu öllu holdi, hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla. Hann hefur eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins. Drottinn hefir þóknun á þeim, er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans. (SI 106.1; 136.25; 146.9-11)
Þar á eftir Faðir vor og þessi eftirfarandi bæn:
Vér þökkum þér Drottinn, Guð faðir, fyrir Jesú Krist Drottin vorn, allar velgerðir þínar. Þú sem lifir og ríkir að eilífu. Amen.
Níundi hluti: Hússpjaldið
Nokkur ritningarorð fyrir alls konar heilaga stöðu og stétt, svo að sérhver maður við eigin lestur minnist sjálfur á skyldur embættis síns og þjónustuverka
Fyrir biskupa, presta og prédikara
Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einnar konu eiginmaður, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn. Hann á að vera maður sem veitir góða forstöðu heimili sínu, og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði, ekki nýr í trúnni. Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla. (1Tm 3.2-6 og Tt 1.7-9).
Skyldur áheyrendanna við kennimenn þeirra[6]
Drottinn hefur fyrirskipað, að þeir, sem prédika fagnaðarerindið, skuli lifa af fagnaðarerindinu, (1 Kor 9.14). Sá, sem uppfræðist í orðinu, veiti þeim, sem uppfræðir, hlutdeild með sér í öllum gæðum. (Gl 6.6). Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu. Því að ritningin segir: „Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir,“ og „verður er verkamaðurinn launa sinna.“ (1 Tm 5. 17,18). Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir, til þess að þeir geti gert það með gleði, ekki andvarpandi, því að yður væri það til ógagns (Heb 13.17).
Um veraldlega valdstjórn
Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði. Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa. (Rm 13.1-2,4).
Skyldur undirmanna við yfirvöld sín[7]
Gjaldið keisaranum, það sem keisarans er. (Mt 22.21). Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn o.s.frv. Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar. Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta. Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber (Rm 13.1, 5-7). Fyrst af öllu áminni ég þá um, að fram fari ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði (1 Tm 2. ln). Minn þá á að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, o.s.frv. (Tt 3.1). Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðstu, og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel. (1 Pt 2.13-14).
Fyrir eiginmenn
Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki. Og verið ekki beiskir við þær. (1 Pt 3.7; Kól 3.19).
Fyrir eiginkonur
Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar eins og það væri Drottinn, eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra, og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður. (1 Pt 3.1, 6; Ef 5.22).
Fyrir foreldra
Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, svo að þau verði ekki ístöðulaus, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins. (Ef 6.4; Kól 3.21).
Fyrir börn
Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. „Heiðra föður þinn og móður,“ — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti — „til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðunni.“ (Ef 6.1-3).
Fyrir þjóna, þernur, daglaunamenn og verkafólk
Þér þjónar,[8]hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og væri það Kristur. Ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur eins og þjónar Krists, er gjöra vilja Guðs af heilum huga. Veitið þjónustu yðar eins og Drottinn ætti í hlut og ekki menn. Þér vitið og sjálfir, að sérhver mun fá aftur af Drottni það góða, sem hann gjörir, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður (Ef 6.5-8).
Fyrir húsfeður og húsmæõur
Þér sem eigið þræla, breytið eins við þá. Hættið að ógna þeim. Þér vitið, að þeir eiga í himnunum sama Drottin og þér og hjá honum er ekkert manngreinarálit (Ef 6.9).
Fyrir æskulýð almennt
Þér yngri menn, verið öldungunum undirgefnir og skrýðist allir lítillætinu. Því að Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð. Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður (1 Pt 5.5n).
Fyrir ekkjur
Sú, sem er í raun og veru ekkja og er orðin munaðarlaus, festir von sína á Guði og er stöðug í ákalli og bænum nótt og dag. En hin bílífa er dauð, þó að hún lifi. (1 Tm 5.5n)
Fyrir söfnuðinn
„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Í þessari grein er hvert annað boðorð innifalið. Verið staðfastir í bænum fyrir öllum mönnum (Rm 13.9; 1 Tm 2.1).
Ef sérhver lærir sína grein,
þá sækja húsið engin mein.[9]
[1] Orðrétt „trúna.“
[2] Orðrétt: „Og á Jesú Krist.“
[3] Í upphaflegri útgáfu Fræðanna var niðurlagið aðeins „amen,“ en lofgjörðinni var bætt við síðar og hefur fylgt útgáfum í fermingarkverum. BSLK, s. 515.
[4] Samkvæmt latneska textanum. þýska textanum stendur orðrétt: „Hjálpi mér Guð, faðir, sonur og heilagur andi. Amen.“
[5] Samkvæmt latneska textanum. þýska textanum stendur orðrétt: „Hjálpi mér Guð, faðir, sonur og heilagur andi. Amen.“
[6] Þessi grein kom í latnesku útgáfunni 1529 og var bætt inn í þýsku útgáfuna 1540 með samþykki Lúthers, BSLK s. 524.
[7] Þessi grein var sett í útgáfuna 1540, BSLK s. 525.
[8] Í Biblíunni, Reykjavík 1981, stendur „þrælar.“
[9] Ein jeder lern sein Lection
so wird es wohl im Hause stohn. (Hendingar eftir Lúther)