Skip to content

Lýður Guðs sameinaður (6. sunnudagur páskatímans)

Þátturinn er á dagskrá Lindarinnar þriðjudaginn 24. maí kl 9:00, og er endurfluttur fimmtudag kl 13:00 og laugardag kl 16:00. Þegar þátturinn kemur í app lindarinnar, kemur hér einnig tengill í upptökuna.

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna í spádómsbók Esekíel, 37. kafla. Lesturinn er því úr þriðja og síðasta hluta bókarinnar, sem nær yfir kafla 33-48. Þessir kaflar tala til hinnar herleiddu ísraelsþjóðar á tíma Babýlon, og um komandi endurreisn þjóðarinnar, sem og nýtt musteri í Jerúsalem frá og með kafla 40.

Það á við hér eins og um allar spádómsbækurnar í gamla testamentinu, að spámaðurinn talar eins og að hann sé að lýsa endanum á fjallakeðju. Hann sér fyrsta tindinn og lýsir honum vel, en það kemur líka fram að fyrir aftan eru fleiri tindar í beinni röð. Eins er það að spádómar Esekíel uppfyllast að ákveðnu leyti við endurreisn Jerúsalem og musterisins eftir útlegðina í Babylon. Þó alls ekki að fullu, heldur líta þessir spádómar framávið bæði til komu og til endurkomu Krists.

37. kafla má skipta í tvennt. Fyrri hlutinn, vers 1-14, er hin merkilega saga um beinin í dalnum, og má hér rýna spádóm um hvað prédikun fagnaðarerindisins er, sem og um upprisu holdsins við endurkomu Krists. Hinir dauðu rísa aftur upp samvkæmt orði Drottins.

15. vers markar svo upphaf nýrrar ræðu. Spámaðurinn á að taka sér stvo stafi og merkja þá annarsvegar Júda sem fulltrúa suðurríkisins og hins vegar Jósef sem fulltrúa norðurríkisins. Spámaðurinn á svo að tengja þá saman og búa til einn staf úr þeim. Þetta er til merkis um að Drottin mun safna lýð sínum aftur saman, og sameina haftur hina klofnu þjóð í eitt ríki, undir einum, eilífum, konungi. Hann er nefndur Davíð, sem var sami maðurinn og sigraðist á risanum Golíat. Það er þó ekki bókstaflega Davíð sjálfur sem er þessi eilífi konungur, heldur afkomandi og arftaki hans í beinni línu.

Hér er sannarlega verið að tala um manninn sem fæddist í ættborg Davíðs, Betlehem, fyrir um tvö þúsund árum síðan. Það er Jesús frá Nasaret. Hann mun vera hinn eilífi konungur og hirðir Ísraelsþjóðar, enda talar hann sjálfur um það þegar hann nefnir sig hinn góða hirði.

Þar kemur einnig fram að það er ekki bara klofningurinn í norður og suður sem Jesús mun binda endi á, hedlur klofningur milli gyðinga og heiðingja. Drottinn hefur einungis einn lýð, sem sameinast í Kristi. Í Jóhannesarguðspjalli, 10. kafla, 16. versi segir hann: Joh 10:16 “Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.”

Esekíel lýkur svo 37. kafla á því að tala um hvernig þessi sameinaði lýður muni lifa. Ekki framar mun hann saurga sig á skurðgoðum og hverfa frá Drottni, heldur mun hann lifa undir hinum eilífa réttlæstiskonungi og halda fast í orð hans.

Fyrri ritningarlestur þessa sunnudags eru svo síðustu þrjú vers kaflans. Við lesum úr spádómsbók Esekíel, kafla 37, vers 26-28. Fyrri ritningarlestur hljómar þannig:

26 Og ég mun gjöra við þá friðarsáttmála, það skal vera eilífur sáttmáli við þá, og ég mun láta þá búa að staðaldri í landinu og fjölga þeim og setja helgidóm minn meðal þeirra að eilífu. 27 Og bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. 28 Og þjóðirnar skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, sem helga Ísrael, þegar helgidómur minn verður meðal þeirra eilíflega.“

Esekíel 37:26-28

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Hér er eins og áður sagði talað um hið eilífa firðarríki Guðs: Hina nýju jörð og hinn nýja himinn, eins og einnig opinberunarbók Jóhannesar talar um sama hlut.

Veruleikinn á tíma Esekíel var sá að lýður Drottins var ekki bara klofinn, heldur hafði honum líka verið dreift eins og dufti. Norðurríkið var hertikið af Assýríumönnum og suðurríkið af Babýlon. Íbúar landsins voru herleiddir burt, án vonar um að snúa aftur í land sitt í bráð. 70 ár skyldu líða fyrst.

Engu að síður prédíkar Esekíel fyrirheit og loforð Drottins: Hann mun sækja aftur hina dreifðu þjóð, og sameina hina klofnu. Ekki nóg með það, heldur mun hann stækka þjóðina mikið með því að sameina hana við þá heiðingja sem tekið hafa trú á Krist. Og eilífur helgidómur þeirra skal vera Kristur sjálfur.

Sá sem trúir á Krist og treystir orðum hans er hluti af þessum mikla lýð.

Síðari ritningarlestur

Síðari ritningarlestur er að finna í Fyrra allmenna bréfi Péturs postula. Rétt eins og Esekíel, ritar Pétur til hins dreifða lýðs Guðs. Kveðjan í upphafi bréfsins hljómar þannig:

Pétur postuli Jesú Krists heilsar hinum útvöldu, sem eru dreifðir sem útlendingar í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu, 2 en útvaldir samkvæmt fyrirvitund Guðs föður og helgaðir af anda hans til að hlýðnast Jesú Kristi og verða hreinsaðir með blóði hans. Náð og friður margfaldist með yður.

1 Pét 1:1-2

Þannig hljómar kveðjan. En hverjir eru þessir útvöldu, sem dreifðir eru? Bréf Péturs er sérstaklega ritað til þeirra heiðingja sem tekið hafa trú á Krist, og þáð gjöf endurfæðingarinnar í heilagri skírn. Þess vegna ritar hann þannig í öðrum kafla, tíunda versi:

Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir „Guðs lýður“. Þér, sem „ekki nutuð miskunnar“, hafið nú „miskunn hlotið“.

1 Pét 2:10

Bréfið allt talar tungu huggunar í hrellingum, sem og hvatningar til að haga lífi sínu eins og lýður Guðs á að gera. Jafnvel þótt heimurinn í kringum þá, telji Kristilegt hugarfar vera heimskulegt og kannski jafnvel óðsiðlegt eða meira að segja hættulegt. Svoleiðis mótmæli var frumkirkjan vön að heyra, og við heyrum þau líka í dag í æ auknum mæli. Á tíma frukmkirkjunnar var hún jafnvel ofsótt og beitt miklu ofbeldi fyrir vikið, og gerist það líka víða um heim, allt til okkar daga.

Í öðrum til fjórða kafla gefur Pétur fyrirmæli um hvað sé rétt að gera í ýmsum aðstæðum, til dæmis varðandi yfirvöld, lífið á heimilinu og í hinum kristna söfnuði. Pétur bendir á að heimurinn sem við búum í, er ekki eilífur, og Drottinn sjálfur mun að lokum dæma heiminn. Hann hvetur því lesendur sína til þess að binda vonir sínar við Krist, og vera alltaf reiðubúnir til að svara með hógværð og virðingu, hverjum þeim sem krefur þá raka fyrir voninni.

Síðari ritningarlestur, sem er ú 4. kafla, versum 7-11 er nokkurskonar samantekt á fyrirmælum Péturs, og minnir lesendur sérstaklega á að hafa þjónustulund hver til annars. Síðari ritningarlestur hljómar þannig:

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. 8 Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. 9 Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. 10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. 11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

1 Pét 4:7-11

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Loforð Krists um að koma aftur til að dæma lifendur og dauða er tilhlökkunarefni fyrir þá sem fyrirfram hafa verið sýknaðir af Drottni, á grundvelli dauða og upprisu Krists. Sá sem trúir honum, og treystir þessu fyrirheiti, þarf því ekki að óttast dóm Guðs.

Samt sem áður er vilji þess sem tilheyrir Kristi að vera reiðubúinn þegar hann kemur. Sá undirbúingur er einfaldur: Hann er kærleikur Guðs í verki þess sem trúir. Hann sýnir gestrisni með þeim hætti sem hann hefur tök á, og hagar lífi sínu til að þjóna náunga sínum. Hér segir kristin siðfræði því skilið við hugarfar heimsins.

Heimurinn kennir okkur að leita að, og finna okkur sjálf. Skilgreina og tjá okkar eigin ímynd, og leggja áherslu á okkar eigin frægð og frama. Lifa í samræmi við okkur sjálf.

Nýja testamentið kennir okkur hinsvegar að afneita sjálfum okkur, taka upp kross okkar daglega og fylgja Kristi framar öllu. Það þýðir að haga lífi sínu eins og Kristur, í þjónustu við náungann, og setja náunga okkar framar okkur sjálfum. Sá sem náðargáfu hefur á ekki að nýta hana í eigin þjónustu, eða til að draga að sér athygli, heldur til að þjóna náunganum.

Æðsta boðorðið er það að við eigum að elska Drottin Guð af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga. En jafn mikið er þetta boðorð, að við eigum að elska náungann eins og okkur sjálf. Allt lögmál Guðs hvílir á þessum tveimur boðorðum, og útskýrir fyrir okkur hvernig sá kærleikur lítur út í verki. Hann er gestrisni. Hann er sá að prédíkari eða prestur, flytur ræðu sína samkvæmt því orði Guðs sem hann prédikar yfir. Hann er sá að hjón elski hvert annað. Hann er sá að þjóna ekki öðrum guðum. Hann er sá að hvorki stela né bera ljúgvitni gegn náunganum. Og þannig mætti lengi áfram halda. Kærleikurinn í verki mótast af boðum Guðs.

En krafturinn sem heldur honum gangandi, er fagnaðarerindið um dauða og upprisu Krists, og fyrirheitið um hann muni aftur koma að dæma lifendur og dauða.

Guðspjall

Við höfum lesið ritningarlestrana úr spádómsbók Esekíel og Fyrra Pétursbréfi. Drottinn talar í báðum tilvikum til hinnar dreifðu og klofnu þjóðar sinnar, sem hann mun aftur sameina í einn lýð á efsta degi. Hvar sem þessi lýður er saman kominn, kallar Guð hann til að lifa í þjónustu við við Guð og náungann.

Eins er það í kveðjuræðu Krists í Jóhannesarguðspjalli. Hún hefst á því að Jesús þvær fætur lærisveina sinna og hefur hann með þeim hætti sett þeim viðmið. Lærisveinn Jesu má ekki gera sig hærri heldur en meistari hans er. Og meistari hans kom ekki til að láta þjóna sér, heldur til að þjóna sjálfur og leggja líf sitt í sölurnar til lausnargjalds fyrir marga. Jesús sýndi með fordæmi sínu hvernig kristnir menn eiga að vígja líf sitt til þess að þjóna náunganum.

Fyrir þá þjónustu var Jesús hataður, bæði af kennimönnum sem og af stórum hluta almúgans, enda voru margir sem komu saman við höll Pontíusar Pílatuar og hrópuðu: Krossfestu, krossfestu! Jesús segir við lærissveina sína í lok 15. kafla að heimurinn hafi hatað hann, eins og ritað er: Þeir hötuðu mig án saka! Að sama skapi mun heimurinn þá líka hata lærisveina Jesú, og þá allra fyrst postulana, en einnig þá sem eftir komu. Eins og ég benti á í sambandi við síðari ritningarlesturinn úr fyrra Pétursbréfi mátti frumkirkjan þola margar raunir og ofsóknir, og jafnvel líflát. Og þótt það hafi síðar breyst þar sem kristin trú varð að trú meirihlutans, hafa ófsóknirnar haldið áfram víða um heim allt til okkar daga. Margir kristnir menn lifa í dag við ógnanir um ofbeldi og jafnvel líflát.

Til að styrkja lærisveina sína í slíkum heimi, hefur Jesús sent lærisveinum sínum Heilagan anda. Þetta talar hann um í guðspjalli sunnudagsins, Jóhannesarguðspjalli 15:26 til 16:4. Guðspjallið hljómar svo:

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. 27 Þér skuluð einnig vitni bera, því þér hafið verið með mér frá upphafi. 1 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá. 2 Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. 3 Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. 4 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur.

Jóh 15:26-16:4

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Heimurinn skiptist í tvær fylkingar. Annars vegar eru það þeir sem ekki trúa. Það eru þeir sem ganga á hinum breiða vegi sem liggur til glötunar. Hinir fordæmtu. Bæði skurðgoðadýrkendur og þeir sem eru án Guðsótta og segja í hjarta sínu: Enginn guð er til. Hinir vantrúuðu sem þrjóskast við. Kristur kallar þennan hóp “heiminn,” og í guðspjalli dagsins er hann einfaldlega kallaður “þeir.”

Í raun ættu allir menn samkvæmt ritningunni að vera í þessum hópi. Og svo væri einnig, ef Drottinn hefði ekki eftir náð sinni myndað annan hóp, og sjálfur greitt aðgangseyrinn fyrir hann.

Það er hópur þeirra sem óttast Guð, en sem einnig trúa fyrirheitum hans og treysta þeim. Þess vegna er það er lýður Guðs: Þeir sem hólpnir verða, hinir kristnu, þeir sem fylgja gömlu götunum eða mjóa veginum, þeir sem fæddir eru að nýju, þeir sem tilheyra honum, sem fengið hafa rétt til að kallast börn Guðs. Ekki er það fyrir eigin verk, heldur einungis fyrir hjálpræðisverk Krists, þ.e.a.s fyrir dauða hans og upprisu. Það sem hefði átt að vera sigur andstæðinganna er í raun og veru orðinn sigur Krists og þeirra sem honum fylgja.

En jafnvel eftir sigur Krists á krossinum, eru litlir bardagar hér og þar. Fréttirnar hljóma í prédikuninni: Kristur hefur unnið sigurinn. Samt sem áður þrjóskast sumir við, og Jesús segir við lærisveina sína: “Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.”

Það breytir þó ekki því að Kristur hefur raunverulega unnið sigurinn, og sá sem deyr í honum, á hið eilífa líf. Þess vegna veitir Kristur okkur Heilagan anda sinn, til að styrkja okkur í trúnni þar til við mætum honum að nýju.