Skip to content

Kennimerki kirkjunnar: Altarissakramentið

Kirkja Krists er í raun og veru ósýnileg. Hún er söfnuður heilagra og sanntrúaðra manna og kvenna. Því er sagt að kirkjan sé byggð með okkur sem lifandi steinum. Við tölum líka um hina sönnu kirkju sem eina, heilaga, almenna og postullega kirkju. Engu að síður hefur kirkjan einnig ytri stofnanir, og í þeim er að finna bæði hræsnara og vonda menn, sem ekki eru raunverulegur hluti af henni. Stundum verða kirkjustofnanir svo spilltar að þær geta ekki lengur talist vera sönn kirkja. En hvernig getum við greint þær hverja frá annarri, og hvernig þekkjum við hina sönnu kirkju?

Árið 1539 skrifaði Marteinn Lúther stutta bók sem svarar þessari spurningu með því að benda á sjö kennimerki kirkjunnar: Orðið, Skírnina, Altarissakramentið, Skriftir, Prestsembættið, Bænin og Krossinn. Hér á eftir finnur þú þriðja hluta af sjö þar sem við skoðum hvert þessara sjö kennimerkja. Tilgangurinn er að sýna hvernig heilbrigður og kristinn söfnuður lítur út. Hvers konar samfélag er hann? Hver er sannur fjársjóður hans og innihald? Hvernig geturðu metið söfnuð? Við vonum að þessi greinaröð hjálpi lesandanum til meiri skýrleika, þótt svo að þessar stuttu greinar geti varla komist undir yfirborðið.

Altarissakramentið

Þriðja kennimerki kirkjunnar í upptalningu Lúthers, er altarissakramentið. Í því veitum við viðtöku líkama og blóði Krists. Þá er eðlilegt að maður spyrji: Hvers vegna erum við að þessu, að eta og drekka líkama og blóð Krists. Í Fræðunum minni er svarið orðað svona:

Það sýna oss þessi orð: „Fyrir yður gefinn og fyrir yður úthellt til fyrirgefningar syndanna.“ Það er að skilja: Fyrir þessi orð er oss í sakramentinu veitt fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp.

Fræðin minni

Í mörgum söfnuðum er lofsöngur Símeons sunginn rétt eftir altarisgönguna. Þessi lofsöngur á mjög vel við, því Símeon hafði verið lofað því að hann myndi ekki deyja áður en hann hefði séð blessun Guðs handa heiminum. Lúk 2:26–32 segir frá því þegar Símeon fékk að sjá þessa blessun og ganga í friði til síðustu hvílu sinnar. Blessunin sem um er að ræða, er Kristur sjálfur, og í honum er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp. Á jafn áþreifanlegan hátt og Símeon er okkur líka veitt blessun Guðs handa heiminum á hverjum sunnudegi í altarisgöngunni. Eins og Símeon fáum við líka að fara í friði.

Þetta er enn fremur leyndardómurinn og styrkurinn í starfi okkar. Það sem heimurinn sér ekki, þ.e.a.s. að starf okkar byggist ekki á eigin hugsunargáfu, bænum eða jafnvel trú, heldur á Drottni Jesú einum, sem kemur til okkar á sýnilegan og áþreifanlegan hátt og byggir upp kirkju sína. Þú færð sannarlega að fara heim úr kirkjunni og vera fullviss um það, að þú hafir átt raunverulegan fund með Guði. Þú þarft ekki að efast um að hann sé þér sannarlega náðugur eða að hann hafi góðar áætlanir fyrir líf þitt. „Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?“ (Róm 8:32).

Þannig byggir Guð sjálfur upp kirkju sína og dreifir gjöfum sínum á meðal manna hér á jörðu. Hina sönnu sjálfsmynd safnaðarins er að finna í Kristi, sem altarisgangan gefur okkur hlutdeild í. Því má segja að altarisgangan opinberi hinn sanna kjarna safnaðarins, nefnilega þá staðreynd að hann er líkami Krists hér á jörðu. Hinn raunverulegi söfnuður samanstendur af þeim sem eiga hlutdeild í Kristi sjálfum, eins og gamalt guðfræðilegt spakmæli segir: Ubi Christus, ibi ecclesia: Þar sem Kristur er, þar er kirkjan einnig.

Að lokum vil ég benda á að altarisgangan sameinar okkur hvert við annað. Það á ekki bara við um þá sem saman eru komnir í kirkjunni á tilteknum tíma og stað, heldur sameinar hún alla trúaða á öllum tímum. Þetta er vel orðað í Samlyndisreglunni, sem er síðasta játningarrit lútersku kirkjunnar:

Þessi sanni, almáttugi Drottinn, skapari okkar og endurlausnari, Jesús Kristur, stofnaði þetta háverðuga sakramenti eftir síðustu kvöldmáltíðina, með mikilli yfirvegun og alúð, á þessari sorglegu lokastund, í þann mund þegar hann var að hefja sína bitru þjáningu og dauða fyrir syndir okkar. Allt til enda veraldar á að halda sakramentið í heiðri með mikilli lotningu og hlýðni. Það á að vera stöðug áminning um bitra þjáningu og dauða hans, sem og allra gæða. Það er innsigli hins nýja sáttmála (testamentis), huggun allra hryggra hjartna, og stöðugt samband hina kristnu hver við annan, og við höfuð sitt, Krist. Við stofnun sakramentisins sagði hann: „Takið og etið! Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn.“ Sömuleiðis um bikarinn eða vínið: „Þetta er blóð mitt, hins nýja sáttmála (testamentis), sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna.“

SD VII:44. Þýtt úr Þýsku, Concordia Triglotta
Sr. Sebastian Grünbaum

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr sænsku. Höfundur er Sr. Sebastian Grünbaum, sem er fæddur og uppalinn í Helsinki. Hann lærði guðfræði við háskólann Åbo Akademi og vígðist til prests til að þjóna St. Gabríelssókn í Turku árið 2011. Á árunum 2011-2022 starfaði hann sem sóknarprestur í finnskri fríkirkju, með sérstakri áherslu á safnaðaruppbyggingu, starf með ungu fólki og guðfræðikennslu. Sem stendur stundar Sebastian nám með von um að ljúka doktorsnámi við Concordia Seminary St. Louis. Ritgerð hans mun skoða guðfræði altarissakramentisins í ritum Martins Chemnitz.