Skip to content

Kennimerki kirkjunnar: Bænin

Kirkja Krists er í raun og veru ósýnileg. Hún er söfnuður heilagra og sanntrúaðra manna og kvenna. Því er sagt að kirkjan sé byggð með okkur sem lifandi steinum. Við tölum líka um hina sönnu kirkju sem eina, heilaga, almenna og postullega kirkju. Engu að síður hefur kirkjan einnig ytri stofnanir, og í þeim er að finna bæði hræsnara og vonda menn, sem ekki eru raunverulegur hluti af henni. Stundum verða kirkjustofnanir svo spilltar að þær geta ekki lengur talist vera sönn kirkja. En hvernig getum við greint þær hverja frá annarri, og hvernig þekkjum við hina sönnu kirkju?

Árið 1539 skrifaði Marteinn Lúther stutta bók sem svarar þessari spurningu með því að benda á sjö kennimerki kirkjunnar: Orðið, Skírnina, Altarissakramentið, Skriftir, Prestsembættið, Bænin og Krossinn. Hér á eftir finnur þú sjötta hluta af sjö þar sem við skoðum hvert þessara sjö kennimerkja. Tilgangurinn er að sýna hvernig heilbrigður og kristinn söfnuður lítur út. Hvers konar samfélag er hann? Hver er sannur fjársjóður hans og innihald? Hvernig geturðu metið söfnuð? Við vonum að þessi greinaröð hjálpi lesandanum til meiri skýrleika, þótt svo að þessar stuttu greinar geti varla komist undir yfirborðið.

Bænin

Kristin kirkja einkennist af bæn. Hans Urs von Balthasar skrifaði um vandamál kristinnar guðfræði og kirkjunnar á þessa leið: Vandamál nútíma-guðfræði er að fyrstu 1800 árin stundaði kristin kirkja guðfræði á hnjánum, en á síðustu öldum hefur hún gert það sitjandi á rassinum. Þessu orð eru augljóslega sögð í svolitlu gríni, en öllu gríni fylgir þó einhver alvara. Og alvaran í orðum Balthasars er sú að guðfræði eða trú sem er aðskilin frá bæn og persónulegri trúariðkun, kemst ekki hjá því að verða köld og fræðileg, og jafnvel furðuleg.

Hið sama á augljóslega við um lífið í kirkjunni, og það í enn ríkari mæli. Kirkja sem ekki hagar helgisiðum sínum samkvæmt þeirri trú sem hún hefur fengið, verður furðuleg, veruleikafirrt og brengluð. Ég er ekki að hvetja til þess að dæma andlegt líf annara hópa, heldur til þess að við skoðum okkar eigið andlega líf: Bænalífið sem við lifum heima fyrir, og ekki síst það andlega líf sem fer fram í sunnudagsmessunni.

Ég tel að einmitt þetta, sem líka endurspeglast í guðfræði hennar, sé einn helsti styrkur kirkjunnar sem ég þjóna í. Það er að segja, að við höfum haft þetta virka bænalíf á heimilunum, og sérstaklega í guðsþjónustunum. Okkur hefur verið gefin mikil gjöf, sem við eigum að nota og fara vel með. Við skulum sjá til þess að þessi mikla hefð, að vera kirkja sem leggur ríka áherslu á guðsþjónustuna, vaxi og breiðist út til ástvina okkar. Sú staðreynd að Guð hefur leyft svo ríkulegu bænalífi og helgisiðum að mótast í löndum okkar er mikil gjöf sem Guð notar til að varðveita og styrkja það góða sem hann hefur gefið okkur í skírninni.

Bæn sem skylda og forréttindi

Bænin er ekki aðeins forréttindi heldur einnig skylda. Marteinn Lúther skrifar í fræðunum að kristinn maður þurfi bæn til að varðveitast í trúnni hér á jörðu, og til að komast heim til himna. En þetta virðist vera hlutur sem kristnir menn eiga til að gleyma. Þess vegna hefur Guð gefið okkur boðorð sín. Boðorð Guðs býður okkur að ákalla hann í sérhverri þörf, sem andstæðu þess að leggja nafn hans við hégóma. Við eigum að nota nafn hans rétt, til að ákalla hann og biðja. Allir sem trúa á Krist mega vita að Guð heyrir bæn þeirra með velþóknun.

Johannes Bäck skrifar fallega um bænina:

Nú kem ég, Guð minn,
glaður, í Jesú nafni,
og segi í traustri trú:
Ég er þitt barn, og þú minn faðir!
Því bið ég, trúi og veit,
að þú heyrir mína bæn;
Þú vilt, þú megnar og þú efnir,
þín fyrirheit til mín.

Sr. Sebastian Grünbaum

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr sænsku. Höfundur er Sr. Sebastian Grünbaum, sem er fæddur og uppalinn í Helsinki. Hann lærði guðfræði við háskólann Åbo Akademi og vígðist til prests til að þjóna St. Gabríelssókn í Turku árið 2011. Á árunum 2011-2022 starfaði hann sem sóknarprestur í finnskri fríkirkju, með sérstakri áherslu á safnaðaruppbyggingu, starf með ungu fólki og guðfræðikennslu. Sem stendur stundar Sebastian nám með von um að ljúka doktorsnámi við Concordia Seminary St. Louis. Ritgerð hans mun skoða guðfræði altarissakramentisins í ritum Martins Chemnitz.