Skip to content

Kennimerki kirkjunnar: Krossinn

Kirkja Krists er í raun og veru ósýnileg. Hún er söfnuður heilagra og sanntrúaðra manna og kvenna. Því er sagt að kirkjan sé byggð með okkur sem lifandi steinum. Við tölum líka um hina sönnu kirkju sem eina, heilaga, almenna og postullega kirkju. Engu að síður hefur kirkjan einnig ytri stofnanir, og í þeim er að finna bæði hræsnara og vonda menn, sem ekki eru raunverulegur hluti af henni. Stundum verða kirkjustofnanir svo spilltar að þær geta ekki lengur talist vera sönn kirkja. En hvernig getum við greint þær hverja frá annarri, og hvernig þekkjum við hina sönnu kirkju?

Árið 1539 skrifaði Marteinn Lúther stutta bók sem svarar þessari spurningu með því að benda á sjö kennimerki kirkjunnar: Orðið, Skírnina, Altarissakramentið, Skriftir, Prestsembættið, Bænin og Krossinn. Hér á eftir finnur þú sjöunda hluta af sjö þar sem við skoðum hvert þessara sjö kennimerkja. Tilgangurinn er að sýna hvernig heilbrigður og kristinn söfnuður lítur út. Hvers konar samfélag er hann? Hver er sannur fjársjóður hans og innihald? Hvernig geturðu metið söfnuð? Við vonum að þessi greinaröð hjálpi lesandanum til meiri skýrleika, þótt svo að þessar stuttu greinar geti varla komist undir yfirborðið.

Krossinn

Kirkjan, sem er líkami Krists, er sameinuð honum á margan hátt. Í þessari greinaröð, höfum við nú tekist á við sex mismunandi kennimerki sem kirkjan þekkist á. Að minnsta kosti hin fyrstu fimm, (þ.e. Orðið, Skírnin, Altarissakramentið, Skriftir og Prestsembættið,) snúast öll um það hvernig Guð kemur til okkar gegnum náðarmeðul sín, sem prestur deilir út. Sjötta kennimerkið sýnir það líka hvernig Guð kemur til okkar í messunni, en um leið hvernig við bregðumst við orði Guðs með ákalli, bæn og lofgjörð. Sjöunda kennimerkið fjallar um ákveðnar afleiðingar sem þetta hefur, og hvernig Guð snýr þeim í huggun og sigur fyrir þá sem tilheyra honum. Því hið sjöunda og síðasta kennimerki kirkjunnar, sem Marteinn Lúther telur upp, er hinn heilagi kross.

Jesús þjáist

Biblían lítur á þjáningu sem raunverulegan þátt í lífi kristins manns. Höfundur Hebreabréfsins kallar lesendur sína til eftirfylgdar með þessum orðum: „Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar. Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.“ (Heb 13:11–14)

Hebreabréfið lítur á Jesú sem syndafórn. Ferlið í Gamla testamentinu var þannig að fórnin var brennd fyrir utan herbúðir Ísrael í eyðimörkinni. Nú segir Hebreabréfið að Jesús sé eins og þetta fórnardýr sem er rekið út fyrir. Hann verður fyrir skömm, misnotkun og ofbeldi. Því ættu þeir sem fylgja honum, ekki að stinga höfðinu í sandinn, heldur að ganga hugrakkir með Drottni sínum og takast á við þjáningarnar.

Þjáning eða þjáning?

Við megum ekki rugla saman þjáningu almennt (sem Guð getur líka notað) og þeirri þjáningu sem einkennist af krossinum. Þegar við tölum um krossinn sem þjáningu, er það sú þjáning, sem stafar af því að við játum Drottin Krist fyrir öðrum (Matt 10:38). Hún er frábrugðin þjáningu eins og veikindum, vondum mönnum, ofbeldi og öðru sem allir þurfa sennilega að takast á við fyrr eða síðar. Ástæðan fyrir þess konar þjáningu er erfðasyndin og djöfullinn, sem er „höfðingi þessa heims.“ Þetta þýðir þó ekki að Guð geti ekki snúið öllu þessu til góðs.

Þjáningin sem tákn um réttlátan dóm og miskunn Guðs

Jesús segir í fjallræðunni: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.“ (Matt 5:11–12)

Ég vil vekja athygli á að minnsta kosti tveimur atriðum. Í fyrsta lagi er Drottinn Jesús ekki að tala um það hvort þú munir rata í þjáningar, heldur um hvað þú eigir að gera þegar það gerist. Þetta þýðir að þjáning krossins er raunverulegur hluti af lífi þeirra sem vilja lifa guðrækilega. Hún er ekki eitthvert valfrjálst atriði sem hinir guðræknu geta gengist undir af eigin vilja, heldur er hún hlutur sem Guð úthlutar hverjum og einum eftir þeim mæli sem hann sjálfur ákvarðar.

Í öðru lagi er þjáning krossins ekki einungis neikvæður hlutur. Það er auðvitað ömurlegt þegar einhver gerir grín að okkur og ofsækir, eða lýgur og talar illa um okkur. Það veit Drottinn líka. Engu að síður hvetur Ritningin endurtekið til gleði og fagnaðar í þjáningunni miðri. Þjáning fyrir sakir Krists, þótt hún sé neikvæður hlutur í sjálfri sér, er engu að síður kennimerki kirkjunnar.

Flest höfum við gaman af alls konar upplifunum, og við leitum í alls konar upplifanir til að finnast við vera lifandi. Þjáning krossins er ekki alltaf skemmtilegasta upplifunin, en hún getur samt sem áður haft þessi sömu áhrif. Í ljósi ritninganna sjáum við nefnilega það, að þegar við mætum andstöðu, háði og þjáningu þá er þetta einmitt vitnisburður Guðs um að við séum hans eigin, ástkæru börn — allt til þess að styrkja okkur í trú, von og kærleika.

Sr. Sebastian Grünbaum

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr sænsku. Höfundur er Sr. Sebastian Grünbaum, sem er fæddur og uppalinn í Helsinki. Hann lærði guðfræði við háskólann Åbo Akademi og vígðist til prests til að þjóna St. Gabríelssókn í Turku árið 2011. Á árunum 2011-2022 starfaði hann sem sóknarprestur í finnskri fríkirkju, með sérstakri áherslu á safnaðaruppbyggingu, starf með ungu fólki og guðfræðikennslu. Sem stendur stundar Sebastian nám með von um að ljúka doktorsnámi við Concordia Seminary St. Louis. Ritgerð hans mun skoða guðfræði altarissakramentisins í ritum Martins Chemnitz.