Skip to content

Kennimerki kirkjunnar: Orðið

Kirkja Krists er í raun og veru ósýnileg. Hún er söfnuður heilagra og sanntrúaðra manna og kvenna. Því er sagt að kirkjan sé byggð með okkur sem lifandi steinum. Við tölum líka um hina sönnu kirkju sem eina, heilaga, almenna og postullega kirkju. Engu að síður hefur kirkjan einnig ytri stofnanir, og í þeim er að finna bæði hræsnara og vonda menn, sem ekki eru raunverulegur hluti af henni. Stundum verða kirkjustofnanir svo spilltar að þær geta ekki lengur talist vera sönn kirkja. En hvernig getum við greint þær hverja frá annarri, og hvernig þekkjum við hina sönnu kirkju?

Árið 1539 skrifaði Marteinn Lúther stutta bók sem svarar þessari spurningu með því að benda á sjö kennimerki kirkjunnar: Orðið, Skírnina, Altarissakramentið, Skriftir, Prestsembættið, Bænin og Krossinn. Hér á eftir finnur þú fyrsta hluta af sjö þar sem við skoðum hvert þessara sjö kennimerkja. Tilgangurinn er að sýna hvernig heilbrigður og kristinn söfnuður lítur út. Hvers konar samfélag er hann? Hver er sannur fjársjóður hans og innihald? Hvernig geturðu metið söfnuð? Við vonum að þessi greinaröð hjálpi lesandanum til meiri skýrleika, þótt svo að þessar stuttu greinar geti varla komist undir yfirborðið.

Orðið

Orðið, eða Orð Guðs, er á einum og sama tíma bæði vald kirkjunnar og fremsta náðarmeðal hennar. Orðið segir okkur sannleikann um okkur sjálf, um Guð og um heiminn. Það er sú heimild sem Guð býður okkur einlæglega að halda fast við, og játa bæði fyrir Guði og mönnum (Matt. 10:32). En ekki nóg með það, heldur helgar Orðið okkur líka. Orðið framkvæmir og veitir okkur nefnilega það sem það segir, það er, fyrirgefningu syndanna. Marteinn Lúther skrifar um Orðið á þessa leið:

Hvar sem þú heyrir eða sérð þetta orð prédikað, trúað, játað og lifað, máttu treysta því að þar sé hin heilaga almenna kirkja og samfélag heilagra, jafnvel þótt það sé fámennt. Því orð Guðs hverfur ekki aftur til hans tómt (Jes 55:11).

LW 41:150 Endurþýtt úr ensku

Þegar Lúther skrifar „jafnvel þótt það sé fámennt,“ bendir hann á atriði sem við þurfum að taka eftir: Kirkjan markast ekki á því hversu stór hún er. Stór söfnuður getur villst af leið, og eins eru til litlir söfnuðir sem einfaldlega ekki eru kristnir. Stærð kirkjunnar er einfaldlega ekki kennimerki sem hún þekkist á.

Það eru tvær alvarlegar ógnir við stöðu Biblíunnar sem yfirvald og náðarmeðal í dag. Hin fyrri kemur frá hinni karismatísku hlið kirkjunnar. Biblían er ekki lesin sem heild, heldur eru stakir Ritningarstaðir notaðir af geðþótta til að fá stuðning við eigin skoðun. Þannig lestur rýrir almennt vald og blessun Biblíunnar. Hin ógnin er hinn vísindalega frjálslynda gagnrýni á Biblíunni, sem kerfisbundið hefur brotið niður vald Orðsins, með því að halda fram öðrum útskýringum á opinberuninni og gera grín að henni. Þeir sem aðhyllast þessa stefnu lesa gjarnan Biblíuna, en trúa því ekki sem hún segir.

Áfram skrifar Lúther um þá sem hafna valdi Orðsins:

Látum þá fara sínar leiðir. Það er nóg fyrir okkur að vita hvernig þessi höfuðeign, sem er heilög, hreinsar, viðheldur, nærir, styrkir og verndar kirkjuna, eins og heilagur Ágústínus segir líka: „Kirkjan er getin, umönnuð, nærð og styrkt af orði Guðs.“

LW 41:151 Endurþýtt úr ensku

Það ræður því úrslitum fyrir okkur, sem kristið fólk, að leita staðar þar sem orð Guðs er prédikað hreint og skýrt. Megin áhersla okkar er ekki að segja nei, heldur já. Við verðum því fyrst og fremst að leita safnaðar þar sem við getum sagt „já og amen“ við boðuninni sem þar er. Því næst getum við hugað það því að segja nei við öllu því sem snýr sér gegn þessari boðun.

Orðið mætir okkur í messunni á margan mismunandi hátt. Við tökum virkan þátt í Orðinu, þegar við heyrum syndaaflausnina, ritningarlestrana, prédikunina og orð altarisgöngunnar. Því allt er þetta orð Guðs.

Það er auðvelt að líta á bænirnar sem presturinn les sem innantómar athafnir, og prédikunina sem fyrirlestur yfir ákveðnu þema. En svo er ekki raunin. Það er Kristur sjálfur sem talar til okkar fyrir munn prestsins, og sem þjónar okkur með höndum hans. Nákvæmlega þess vegna er það svo mikilvægt að hafa presta sem þekkja sína Biblíu og eru henni trúir í boðun sinni. Því ef prédikunin er ekki í samræmi við það sem ritað er, missir söfnuðurinn af þeim gjöfum Guðs, sem hann vill gefa okkur á hverjum Sunnudegi. Spurningin sem við ættum að spyrja okkur er, ekki hvort við getum verið án góðrar prédikunar á hverjum sunnudegi, heldur hvernig Guð vill að prédikunin sé. Því Guð er ríkur gjafari (Róm. 10:9-13), og hann hættir aldri að veita okkur gjafir sínar, til þess að við getum átt allt sem við þörfnumst til eilífs lífs.

Sr. Sebastian Grünbaum

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr sænsku. Höfundur er Sr. Sebastian Grünbaum, sem er fæddur og uppalinn í Helsinki. Hann lærði guðfræði við háskólann Åbo Akademi og vígðist til prests til að þjóna St. Gabríelssókn í Turku árið 2011. Á árunum 2011-2022 starfaði hann sem sóknarprestur í finnskri fríkirkju, með sérstakri áherslu á safnaðaruppbyggingu, starf með ungu fólki og guðfræðikennslu. Sem stendur stundar Sebastian nám með von um að ljúka doktorsnámi við Concordia Seminary St. Louis. Ritgerð hans mun skoða guðfræði altarissakramentisins í ritum Martins Chemnitz.