Skip to content

Kennimerki kirkjunnar: Prestsembættið

Kirkja Krists er í raun og veru ósýnileg. Hún er söfnuður heilagra og sanntrúaðra manna og kvenna. Því er sagt að kirkjan sé byggð með okkur sem lifandi steinum. Við tölum líka um hina sönnu kirkju sem eina, heilaga, almenna og postullega kirkju. Engu að síður hefur kirkjan einnig ytri stofnanir, og í þeim er að finna bæði hræsnara og vonda menn, sem ekki eru raunverulegur hluti af henni. Stundum verða kirkjustofnanir svo spilltar að þær geta ekki lengur talist vera sönn kirkja. En hvernig getum við greint þær hverja frá annarri, og hvernig þekkjum við hina sönnu kirkju?

Árið 1539 skrifaði Marteinn Lúther stutta bók sem svarar þessari spurningu með því að benda á sjö kennimerki kirkjunnar: Orðið, Skírnina, Altarissakramentið, Skriftir, Prestsembættið, Bænin og Krossinn. Hér á eftir finnur þú fimmta hluta af sjö þar sem við skoðum hvert þessara sjö kennimerkja. Tilgangurinn er að sýna hvernig heilbrigður og kristinn söfnuður lítur út. Hvers konar samfélag er hann? Hver er sannur fjársjóður hans og innihald? Hvernig geturðu metið söfnuð? Við vonum að þessi greinaröð hjálpi lesandanum til meiri skýrleika, þótt svo að þessar stuttu greinar geti varla komist undir yfirborðið.

Prestsembættið

Lúther telur upp hið heilaga prestsembætti sem fimmta kennimerki kirkjunnar. Nýja testamentið kennir með skýrum hætti að þetta embætti er embætti orðsins. Auðveldasta leiðin til að finna það í Nýja testamentinu er að skoða orð Jesú til hinna ellefu. Þetta er samstundis skýr skilgreining á þeirri köllun sem embættið hefur. Sá sem þjónar í því, er kallaður af Guði til að þjóna söfnuðinum með Orði Guðs og sakramentunum.

Hvert er verkefni prestanna?

Pestsembættið í nýja testamentinu hefur þrjú megin hlutverk:

  1. Að skíra og kenna: „Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: 2Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.  Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda,  og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matt. 28:18-20)
  2. Að úthluta sakramenti Drottins: „Þá er þeir mötuðust, tók Jesús brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: „Takið og etið, þetta er líkami minn.“ Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.“ (Matt. 26:26-28)
  3. Að fyrirgefa syndir: „Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“  Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.“ (Jóh. 20:21-23)

Þetta eru verkefni prestsins sem og ritningarstaðirnir þar sem Jesús stofnar embættið. Presturinn er sendur út og þjónar sem munnur og hendur Krists. Hann er sendur á sama hátt og Kristur var sendur í heiminn til að frelsa syndara. Nú þegar Kristur er stiginn upp til himna eru það þjónar hans sem taka við sömu köllun. Þessi köllun er að leita að hinum týndu sauðum (Lúk 15).

Prestur í réttu samhengi

Ef þú lest kaflana sem vitnað er í hér að ofan, tekur þú kannski eftir því að guðsþjónustan er megin starfsstöð prestsins. Það er í þessari þjónustu sem hann kennir söfnuðinum (prédikun), deilir út sakramentinu (altarisganga) og fyrirgefur syndir (syndaaflausn eftir játningu). Það þýðir auðvitað ekki að hann sé alltaf til staðar eða að hann sinni aldrei öðrum þörfum, en þetta sýnir þó hvað sé hans megin áhersla.

Prestsembættið er fagnaðarerindi, ekki lögmál

Að hafa sinn eigin prest sem maður getur treyst og sem sér um mann eru forréttindi. Það er ekki boð eða lögmáls sem maður þarf að uppfylla til að verða hólpinn. Embætti prests er gjöf meðal annarra gjafa sem Guð hefur veitt söfnuðinum (orð Biblíunnar, skriftir, altarisganga, prédikun o.s.frv.). Það er gjöf sem Guð lítur á með gleði.

Sá sem hefur sinn eigin prest, hefur því næst fengið það hlutverk og köllun frá Guði, að sjá fyrir honum, til þess að hann sé andlega, sálarlega og líkamlega hraustur. Prestinum er ekki ætlað að vera söfnuðinum byrði, heldur þjónn sem Guð gefur söfnuðinum, til að sýna meðlimum hans gæsku sína og náð. Þannig sækist hann eftir að fullvissa okkur um áætlun sína fyrir okkur. Hann vill að við getum treyst því að syndir okkar eru í raun og veru fyrirgefnar, vænta eilífs lífs á hinum.

Sr. Sebastian Grünbaum

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr sænsku. Höfundur er Sr. Sebastian Grünbaum, sem er fæddur og uppalinn í Helsinki. Hann lærði guðfræði við háskólann Åbo Akademi og vígðist til prests til að þjóna St. Gabríelssókn í Turku árið 2011. Á árunum 2011-2022 starfaði hann sem sóknarprestur í finnskri fríkirkju, með sérstakri áherslu á safnaðaruppbyggingu, starf með ungu fólki og guðfræðikennslu. Sem stendur stundar Sebastian nám með von um að ljúka doktorsnámi við Concordia Seminary St. Louis. Ritgerð hans mun skoða guðfræði altarissakramentisins í ritum Martins Chemnitz.