Skip to content

Kennimerki kirkjunnar: Skírnin

Kirkja Krists er í raun og veru ósýnileg. Hún er söfnuður heilagra og sanntrúaðra manna og kvenna. Því er sagt að kirkjan sé byggð með okkur sem lifandi steinum. Við tölum líka um hina sönnu kirkju sem eina, heilaga, almenna og postullega kirkju. Engu að síður hefur kirkjan einnig ytri stofnanir, og í þeim er að finna bæði hræsnara og vonda menn, sem ekki eru raunverulegur hluti af henni. Stundum verða kirkjustofnanir svo spilltar að þær geta ekki lengur talist vera sönn kirkja. En hvernig getum við greint þær hverja frá annarri, og hvernig þekkjum við hina sönnu kirkju?

Árið 1539 skrifaði Marteinn Lúther stutta bók sem svarar þessari spurningu með því að benda á sjö kennimerki kirkjunnar: Orðið, Skírnina, Altarissakramentið, Skriftir, Prestsembættið, Bænin og Krossinn. Hér á eftir finnur þú annan hluta af sjö þar sem við skoðum hvert þessara sjö kennimerkja. Tilgangurinn er að sýna hvernig heilbrigður og kristinn söfnuður lítur út. Hvers konar samfélag er hann? Hver er sannur fjársjóður hans og innihald? Hvernig geturðu metið söfnuð? Við vonum að þessi greinaröð hjálpi lesandanum til meiri skýrleika, þótt svo að þessar stuttu greinar geti varla komist undir yfirborðið.

Skírnin

Í öðru lagi þekkist lýður Guðs eða hin heilaga kristna kirkja á heilögu sakramenti skírnarinnar, hvar sem það er kennt, trúað og gefið réttilega samkvæmt fyrirskipun Krists. Skírnin er enn fremur opinbert tákn og dýrmæt, heilög eign sem lýður Guðs er helgaður með. Það er hin heilaga laug endurnýjunar fyrir tilstilli Heilags Anda (Tít. 3:5). Þar laugumst við, þar hreinsar Heilagur Andi af okkur syndina og dauðann, með hinu heilaga og saklausa blóði Guðs lambs.

LW 41:151 Endurþýtt úr ensku

Siðbótarmaðurinn skrifar víða að Guð feli gjafir sínar og eiginleika í því sem virðist vera andstæða þeirra. Þessi skilningur er ekki eitthvað sem Lúther sjálfur kom með, heldur er hún að öllu leyti guðlegur sannleikur sem Ritningin vitnar um. Því, eins og ritað er:

Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs. . . en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku,  en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.  Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.

1 Kor 1:18, 23–25

Á sama er skírnin kannski ómerkileg, lítið og veik í útliti sínu. Þar er í raun ekkert að sjá, nema venjulegt ómerkilegt vatn. En jafnvel þótt svo sé, þá er skírnin samt sem áður hin dýrmætasta gjöf sem við höfum fengið. Því skírnin frelsar okkur frá eilífum dómi. Hún inniber og veitir okkur allt friðþægingarverk Jesú Krists frá upphafi til enda. Einmitt þess vegna bauð Drottinn Jesú postulum sínum að fara út um allan heim, skíra og prédika fagnaðarerindið.

En nú gæti einhver spurt; er það ekki Guð sem bjargar? Af hverju ertu að tala um skírn eins og að það sé hún sem bjargar okkur? Að þessu leyti má líkja skírninni við eirorminn í eyðimörkinni (4 Mós. 21). Þeir Ísraelsmenn sem bitnir voru af höggormunum, gátu horft upp á eirorminn, og þá var þeim bjargað. En hvers vegna var þá ekki öllum bjargað? Var það vegna þess að þeir höfðu of litla trú á kraft Guðs, eða vegna þess að þeir voru óæðri hinum? Nei, ástæðan var sú að þeir fyrirlitu meðalið eða aðferðina sem Guð hafði gefið til að bjarga þeim. Við ættum því ekki að fyrirlíta þetta ytra náðarmeðal, heldur meta það meira en nokkuð annað, einmitt vegna þess að Guð hefur gefið okkur það sem ytri leið til hjálpræðis.

Skírn ber okkur alla ævi, eins og ritað er:

Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins. . . Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú. Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans.  Ljáið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur bjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn.  Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð

Róm 6:4, 11–18

Jafnvel þótt við tökum skírn aðeins einu sinni, ber hún okkur sem sagt alla ævi. Í skírninni kemur Kristur til okkar sem frelsari okkar, með allar sínar góðu gjafir, og meðal þeirra gjafa er trúin til hjálpræðis.

Þegar við tökum við Kristi í skírninni, er það upphafið að hinu nýja lífi okkar í honum. Það erum ekki við sjálf, heldur Kristur, sem er uppspretta kraftsins í kristilegu lífi. Í fræðunum minni er það orðað svona:

[skírn í vatni] merkir það, að hinn gamli Adam í oss á að drekkjast fyrir daglega iðrun og yfirbót og deyja með öllum syndum og vondum girndum og aftur á móti daglega fram að koma og upp aftur að rísa nýr maður, Sá er lifi að eilífu í réttlæti og hreinleik fyrir Guði.

Fræðin minni
Sr. Sebastian Grünbaum

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr sænsku. Höfundur er Sr. Sebastian Grünbaum, sem er fæddur og uppalinn í Helsinki. Hann lærði guðfræði við háskólann Åbo Akademi og vígðist til prests til að þjóna St. Gabríelssókn í Turku árið 2011. Á árunum 2011-2022 starfaði hann sem sóknarprestur í finnskri fríkirkju, með sérstakri áherslu á safnaðaruppbyggingu, starf með ungu fólki og guðfræðikennslu. Sem stendur stundar Sebastian nám með von um að ljúka doktorsnámi við Concordia Seminary St. Louis. Ritgerð hans mun skoða guðfræði altarissakramentisins í ritum Martins Chemnitz.