Skip to content

Kennimerki kirkjunnar: Skriftir

Kirkja Krists er í raun og veru ósýnileg. Hún er söfnuður heilagra og sanntrúaðra manna og kvenna. Því er sagt að kirkjan sé byggð með okkur sem lifandi steinum. Við tölum líka um hina sönnu kirkju sem eina, heilaga, almenna og postullega kirkju. Engu að síður hefur kirkjan einnig ytri stofnanir, og í þeim er að finna bæði hræsnara og vonda menn, sem ekki eru raunverulegur hluti af henni. Stundum verða kirkjustofnanir svo spilltar að þær geta ekki lengur talist vera sönn kirkja. En hvernig getum við greint þær hverja frá annarri, og hvernig þekkjum við hina sönnu kirkju?

Árið 1539 skrifaði Marteinn Lúther stutta bók sem svarar þessari spurningu með því að benda á sjö kennimerki kirkjunnar: Orðið, Skírnina, Altarissakramentið, Skriftir, Prestsembættið, Bænin og Krossinn. Hér á eftir finnur þú fjórða hluta af sjö þar sem við skoðum hvert þessara sjö kennimerkja. Tilgangurinn er að sýna hvernig heilbrigður og kristinn söfnuður lítur út. Hvers konar samfélag er hann? Hver er sannur fjársjóður hans og innihald? Hvernig geturðu metið söfnuð? Við vonum að þessi greinaröð hjálpi lesandanum til meiri skýrleika, þótt svo að þessar stuttu greinar geti varla komist undir yfirborðið.

Skriftir

Fjórða kennimerki kirkjunnar eru skriftir. Í þessari grein eru hugtökin skriftir og lykilvald notuð sem samheiti. Skriftir eru í raun það vald sem Kristur gaf kirkjunni til að fyrirgefa syndir eða synja fyrirgefningar. Þetta kemur skýrt fram í Jóhannesarguðspjalli 20:22-23:

Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda.  Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.“

Jóh 20:22-23

Í Fræðunum minni skriftir útskýrðar með eftirfarandi hætti. „Skriftir taka yfir tvö atriði: Annað er, að maður játi syndina, hitt er, að hann veiti aflausninni eða syndafyrirgefningunni viðtöku af skriftaföðurnum svo sem af Guði sjálfum væri og efist svo ekki um þetta, heldur trúi fastlega, að syndirnar séu með því fyrirgefnar hjá Guði á himnum.“ Þessi stutta tilvitnun í Fræðin sýnir okkur nokkur mikilvæg atriði varðandi skriftir.

  1. Skriftir felast í því að einstaklingur eða hópur fólks játar syndina og er veitt syndaaflausn. Að því leyti til eru skriftir mjög einfaldar. Þær snúast um að játa syndir og fá fyrirgefningu.
  2. Skriftir snýst um að fá fyrirgefningu fyrir þá tilteknu synd sem játuð er. Skriftirnar hafa þann tilgang að hugga okkur og sannfæra okkur um að við eigum frið við Guð. Syndaaflausn er skilyrðislaus syndaaflausn gefin af Guði. Trúin skapar ekki fyrirgefningu, heldur tekur hún við fyrirgefningunni. Þessu er eins farið og varðandi skírnina.
  3. Iðrun í skriftum snýst ekki um að finna einhverja innri iðrunartilfinningu, heldur þess í stað að segja eins og Fræðin kenna okkur: „Ég aumur syndari, játa mig sekan fyrir Guði í alls konar syndum.“ Þessi játning er ekki fyrst og fremst tjáning á eigin iðrun, heldur samþykki við orð Guðs sem segir: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð“ (Róm 3:23)
  4. Skriftir eru hlutlægar. Það er Guð sjálfur sem talar fyrir munn prestsins. Þegar fyrirgefning syndanna er boðuð opinberlega eða einslega er það ekki maður, heldur Kristur sjálfur sem fyrirgefur (Jóh. 20:21-23).

Skriftir eru, þegar allt kemur til alls, leið til hjálpræðis.

Biblían kennir það, að fyrirgefningu á ekki að veita þeim sem neita að snúa sér frá því sem Biblían kallar synd. Á hinn bóginn er það líka þannig að ef einhver iðrast syndar sinnar, þá verður honum fyrirgefið þótt hann falli aftur og aftur.

En er það ekki mjög kærleikslaust ef öllum er ekki veitt fyrirgefning? Þessi röksemdafærsla virðist mjög Biblíuleg, en í rauninni er hún einmitt hið gagnstæða. Það væri kærleikslaust að láta einhvern trúa því að hann eða hún eigi frið við Guð, ef það er ekki raunin. Páll segir skýrt í fyrra Korintubréfi:

Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar,  þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.

1 Kor 6:9–10

Fyrst þetta er raunin, hvers konar embættismenn værum við prestarnir, ef við vottum þeim alls góðs og friðar við Guð, þegar þeir lifa með þessum hætti?

Nei, í slíkum tilvikum verður prestur að nota lyklavöldin til að synja fyrirgefningunni. Prestunum er ekki gefinn þessi lykill til að líta niður á menn sem lifa í synd, eða gera þeim illt. Þvert á móti. Til að leiða þá til iðrunar, þarf að sýna skýrt fram á það að sá sem ekki iðrast á enga arfleið á himnum. Það má líkja þessu við lækni sem greinir krabbameinssjúkling. Þegar Guð gefur greininguna í orði sínu, á það við um alla menn, einmitt til þess að hann geti læknað þá aftur með fyrirgefningu syndanna.

Stutt samantekt og hvatning til að skrifta.

Þegar við tökum saman umfjöllun okkar um skriftir, tökum við eftir því að hún er tjáning á hinum mikla kærleika Guðs. Sérstaklega eru skriftir mikil huggun fyrir hrelldar sálir, enda er enginn annar en Kristur sjálfur sem gefur fyrirgefninguna. Sérstaklega má mæla með iðkun einkaskrifta. Mundu að þegar þú talar við prestinn er það Kristur sem í raun hlustar á játningu þína, og þegar prestur lýsir yfir fyrirgefningunni, er það Kristur sem í raun fyrirgefur. Þegar þú ert farinn stendur þetta á milli Krists og þín. Ég tel að ef við skildum þetta til hlítar myndum við ekki bíða með að ganga til skrifta.

Sr. Sebastian Grünbaum

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr sænsku. Höfundur er Sr. Sebastian Grünbaum, sem er fæddur og uppalinn í Helsinki. Hann lærði guðfræði við háskólann Åbo Akademi og vígðist til prests til að þjóna St. Gabríelssókn í Turku árið 2011. Á árunum 2011-2022 starfaði hann sem sóknarprestur í finnskri fríkirkju, með sérstakri áherslu á safnaðaruppbyggingu, starf með ungu fólki og guðfræðikennslu. Sem stendur stundar Sebastian nám með von um að ljúka doktorsnámi við Concordia Seminary St. Louis. Ritgerð hans mun skoða guðfræði altarissakramentisins í ritum Martins Chemnitz.