Skip to content

Að afneita sjálfum sér og elska náungann

Upphaf þáttar

Komiði sæl og velkomin í þáttinn Undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson og er prestur í verkefni sem kallast Játningarbundin Evangelísk-Lúthersk kristni. Þú finnur okkur á www.jelk.is, og við erum líka á facebook og YouTube.

Sunnudagurinn kemur er fyrsti sunnudagur í hinni svokölluðu níuviknaföstu, sem sumstaðar er kölluð forfasta. Hún á sér ákveðna sögu, og á sennilega uppaf sitt í klaustrum vesturkirkjunni í byrjun miðalda, en hefur aldrei fest seg almennilega í sessi, sérstaklega ekki sem tími sameiginlegrar og allmennrar föstu. Engu að síður loðir nafnið við, og kemur sem ákveðin áminning um að nú sé ekki langt til föstu.

Ef þú ert meðal þeirra sem halda föstu föstu, er gott að nota þessar vikur til að undirbúa föstuna., hverju þú vilt fasta frá, og hvernig þú vilt nota tíman sem þar af vinnst. Til dæmis er hægt að sleppa hádegisverðinum og nýta tíman til biblíulestrar og bænagjarðar. Ég hef sjálfur gert þetta fyrir nokkrum árum síðan. Þá skýrði ég kollegum mínum frá því stuttu áður en fastan hófst, og svo þegar kom hádegi, settist ég á rólegan stað og las í  tæpan hálftíma úr Biblíunni minni.

Á tíma stafrænnar menningar er það einnig orðið vinsælt að fasta frá samfélgasmiðlum, skjám, sjónvarpi og svipuðum truflunum. Aftur má þá nota tímann sem sparast til Biblíulesturs, bænagjarðar, og einnig til að gera vel við náungann.

Kirkjur landsins verða skreyttar með grænu á sunnudaginn kemur, sem er litur vaxtarins, og einnig mætti kalla lit venjulegra daga í kirkjuárinu. Fjólublár litur föstunnar kemur nefnilega ekki fyrr en á öskudag.

Við ætlum að lesa ritningarlestrana og tala aðeins um það samhengi sem þeir standa í, og byrjum þá á fyrri ritningarlestri.

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna í spádómsbók Jeremía, og kannski er best að segja stuttlega frá bókinni áður en ég les ritningarlesturinn. Spámaðurinn Jeremía prédíkaði spádóma sína í Júda og Jerúsalem yfir um 30 ára skeið, þar til Nebúkadneser, konungur Babylon, sigraðist á Júda, lagði borgina Jerúsalem í rúst, brenndi niður musterið og herleiddi stóran hluta þjóðarinnar til Babýlon. Jeremía prédikar lögmál Guðs fyrir ísraelsmönnum, bendir á hvernig þjóðin hefur ítrekað, aftur og aftur, endalaust, brotið gegn lögmálinu með bæði skurðgoðadýrkun og öðru óréttlæti. Hann varar þjóðina við afleiðingunum sem þar af hjótast — og heldur því ótrautt áfram, þótt ekki sé á hann hlustað, og honum jafnvel refsað fyrir.

Spádómar Jeremía voru þó ekki bara aðvörun fyrir herleiðinguna, heldur einnig huggun og fyrirmæli til hinna herleiddu. Jeremía talar bæði um endalok herleiðingarinnar eftirt 70 ár, og um komu hins nýja sáttmála í Kristi. Spádómsbókin inniheldur að auki marga sögulega kafla sem segja frá aðstæðum um þann tíma þegar herleiðingin átti sér stað.

Það er sorgarlesning að lesa um þjóð sem er í þann veginn að toríma sjálfri sér, og vill alls ekki hlusta á eina spámannin sem sér skýrt. Þar af leiðandi vill þjóðin alls ekki iðrast synda sinna.

Ritningarlesturinn kemur úr níunda kafla. Þar lýsir Jeremía vonbrigðum Drottins yfir hegðun Ísraelsmanna. Hann býður til iðrunar og einnig til sorgar — Því ekki er langt í að dómur Drottins muni opinberast. Spámaðurinn kallar eftir því að grátið sé yfir Jerúsalem, eins og ef um jarðarför væri að ræða. Enda er það ekki fjarri lagi. Það er í þessu samhengi að við lesum saman fyrri ritningarlestur úr Jeremíabók, níunda kafla, versum 22-23. (vers 23-24 í 1981-þýðingunni sem ég nota.) Eftir mikið harmljóð er okkur sagt hvað hinn hyggni gerir.

23 Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum. 24 Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun – segir Drottinn.

Jer 9:23-24

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Hér er um iðrunartexta að ræða, og spámaðurinn hefur lýst því hvernig dómur Guðs muni vera. Og þegar hann kemur, þýðir þýðir ekki að vísa í eigin visku, styrk eða auð. Það mun ekki hjálpa. Það þýddi heldur ekki láta eins og þeir hefðu ekki heyrt, og hefðu ekki verið varaðir við, því Jeremía spámaður gerir vart nokkuð annað.

Og allan þennan tíma þarf spámaðurinn að kjást við falsspámenn, sem spá á móti honum, og halda því fram að Guð muni aldri leiða þannig ógæfu yfir sína heitt elskuðu þjóð. Jafnvel þegar spádómar Jeremía taka að rætast, sýna þeir lítil eða engin merki um sanna iðrun, heldur halda þeir sínu striki áfram. Til dæmis spáir falsspámaðurinn Hananja því að útlegðinni munu ljúka á innan við tveimur árum.

En hvað er þá til ráða? Jú, það eitt að þekkja Drottin með því að hlusta á orð hans. Það er Drottinn sem auðsýnir miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni.

Rétt eins og boðskapur Jeremía átti að kalla Ísraelsþjóð til iðrunar, ætti hann einnig að kalla okkur til iðrunar vegna synda okkar. Sú iðrun er ekki annað en það að kannast við syndir okkar og játa þær frammi fyrir Guði, og því næst að trúa því og treysta að Kristur hafi nú þegar gert allt saman upp fyrir okkur á krossinum. Því það er Drottinn Jesús Kristur sem auðsýnir okkur miskunnsemi og réttlæti.

Eftir örlítið hlé höldum við áfram með síðari ritningarlesturinn, sem er að finna í fyrra Korintubréfi, kafla 9, versum 24-27.

Síðari ritningarlestur

Sæl aftur, og til ykkar sem hafið bæst við eftir að við byrjuðum: Velkomin í þáttinn Undirbúningur fyrir Sunnudag. Við vorum að enda við að skoða fyrrri ritningarlestur næstkomandi sunnudags, sem er fyrsti sunnudagur í níuviknaföstu. Við höldum þá áfram með síðari ritningarlestur, sem kemur úr fyrra bréfi Páls postula til korintumanna.

Síðari ritningarlestur er að finna í fyrra Korintubréfi, kafla 9, versum 24-27

24 Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau. 25 Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan. 26 Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær. 27 Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.

1 Kor 9:24-27

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Að mörgu leyti má segja að kjarni fyrra Korintubréfs sé kærleikur Krists til safnaðarins, sem á að endurspeglast í kærleika kristinna manna og kvenna til náungans. Þess vegna þarf postulinn Páll að benda á ýmsar aðstæður þar sem kærleika Korintumanna er ábótavant. Fyrst er að nefna flokkadrátt, klíkuskap og jafnvel stéttaskiptingu innan safnaðarins, sem engan veginn er hægt að réttlæta. Togstreyta milli einstaklinga gat jafnvel gengið svo langt að leysa þurfti ágreininginn fyrir dómstólum. Í Guðsþjónustu safnaðarins virðast sumir vera meira áhugasamir um að sýna sjálfa sig og virðast guðræknir, heldur en að leyfa orði Guðs að komast að. Afleiðingin verður sú að þeir sem ramba inn á guðsþjónustu, segja “Þetta er bara klikkun” og snúa við í dyrunum. Fremur ætti að tala orð Guðs, sem dæmir syndina í hjarta þeirra, og kallar þá til iðrunar og eilífs lífs. Það væri kærleikur til náungans.

Svo eru aðrir sem eltast við kynferðislegar nautnir. Margir halda að einmitt það sé jú ást og kærleikur, en orð Páls sýna þeim að svo er alls ekki. Það er ekki kærleikur sem knýr menn til að brjóta gegn boðorðum Guðs.

Í köflum 8-10 er fjallað um það að nálgast kjöt til matar.

Í Korintu, eins og í öðrum rómverskum borgum, voru það aðallega goðahof sem sáu um alla slátrun, og var það gert í sambandi við fórnarathafnirnar í hofinu. Hluti af kjötinu sem var fórnað það, var steikt og tilreytt sem fórnarmáltíð, sem þá var hægt að kaup í hofinu. Hluti af starfsemi hofanna var sem sagt að vera veitingarstaðir.

Það kjöt sem ekki nýttist til fórnarmáltíðanna var að mestu leyti sendur á kjötmarkaðinn á torgi borgarinnar.

Páll ítrekar að ekki séu til aðrir Guðir, þannig að ekki er raunverulega hægt að fórna til þeirra, og þá má líta þannig á að það skiptir ekki máli hvaðan kjötið kemur. Samt sem áður réttlætir það ekki að kaupa sér máltíð og sitja til borðs í goðahofi, jafnvel maður þeir taki ekki þátt í fórnarathöfninni sjálfri, og viðurkenni ekki goð hofsins. Það er auðvitað ekkert að kjötinu, en hér þarf sérstaklega að taka tillit til þeirra bræðra og systra í trúnni sem eiga erfitt með að varast skurðgoðadýrkuninni. Það er því rétt að neita sér um ákveðna hluti, sem í sjálfu sér gætu verið í lagi, af tilliti og kærleika til náungans. Sannur kærleikur „leitar ekki síns eigin” heldur er góðviljaður og fórnar með gleði, náungans vegna, því sem hann getur átt rétt á.

Í níunda nefnir tvö dæmi, fyrst sjálfan sig, sem hefur ekki hefur viljað taka við launum fyrir starf sitt í þágu kristniboðsins. Ekki að það hefði verið rangt, en þá gat hann betur bent á þá staðreynd að fagnaðarerindið er gefið án endurgjalds, sem og allar gjafir Guðs. Þær eru einmitt gjafir, og Páll sjálfur ber út þessa gjöf án þess að taka borgun fyrir.

Að sama skapi bendir hann á Íþróttafólk sem ágætis dæmi, og það er það sem var ritningarlesturinn. Þeir sem vilja komast á toppinn sem íþróttafólk, svo ekki sé talað um að sigra, þurfa að neita sér um ýmislegt. Og vonin sem þeir hafa er semsagt lítill sigursveigur, og auðvitað heiðurinn sem fylgir með, en hvort tveggja eru hlutir sem vara einungis í stuttan tíma. Það sama á við um sigurvegarana í Ólympíuleikum okkar tíma, þótt gullmedalían sé meira virði endist lengur en sigursveigur úr greinum ólífutrés eða lárviðar.

Rökin eru þá þessi: Þegar íþróttafólk er tilbúið til að neita sér um hluti sem þeir eiga auðvitað fullan rétt á, til þess eins að eignast svona smáhluti, hvað þá um okkur sem getum eignast eilífa vini í ríki Guð. Kærleikurinn til bræðra okkar og systra í trúnni, sem og til þeirra sem enn ekki þekkja fagnaðarboðskapinn, ætti að vera nógur tilgangur til þess.

Kærleikur Guðs til okkar, sem og til náunga okkar, birtist í því að hann neitaði sér um himneska hátign sína, fæddist sem maður við fátæklegar aðstæður, og tók á sig mynd þjóns. Hann læknar sjúka, huggar hrellda og þvoði jafnvel fætur lærisveina sinna. Síðan gekk hann í sjálfan dauðann okkar vegna.

Ættum við þá ekki að geta neitað okkur um ákveðna smáhluti, eða lagt pínulítið á okkur, til þess að náungi okkar eingist hlutdeild í hjálpræðinu, eða til þess að hjálpa honum að halda þeirri hlutdeild? Samkvæmt hugsunarhætti postulans ættum við að vera viljug til að neita okkur um hvað sem er, jafnvel því sem við eigum fullan rétt.

Við tökum aftur örlítið hlé, og lesum svo Guðspjall sunnudagsins.

Guðspjall

Sæl aftur, þetta er þátturinn Undirbúningur fyrir sunnudag.

Guðspjall þessa fyrsta sunnudags í níuviknaföstu er að finna í Matteusarguðspjalli, kafla 20, versum 1-16. Þetta er dæmisaga sem einungis er að finna hér í Matteusarguðspjalli. En áður en við lesum hana, skulum við kíkja á síðuna á undan og skoða aðeins samhengið sem þessi dæmisaga stendur í.

Í kafla 19 kemur til Jesú auðugur ungur maður, sem spyr hvað hann eigi að gera til að eignast eilíft líf. Þegar hann segist hafa fylgt öllum boðorðunum, biður Jesús hann um að selja allar eignir sínar og gefa fátækum og koma svo og fylgja honum. Það var ekki alveg það sem hann hafði vonað, og hann fór leiðar sinnar mjög svekktur. Jesús segir þá við lærisveina sína:

Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“

Matt 19:23-24

Lærisveinar hans hugsa þá: Jæja, en hvað með okkur? Lærisveinarnir voru ekki ríkir. Þvert á móti höfðu þeir ekki bara neitað sér um marga góða hluti, heldur höfðu þeir yfirgefið allt sem þeir áttu, og fylgtu nú Jesú. Jesú svarar þeim með tvennu móti.

Fyrst fullvissar hann þá um að þeim verði sannarlega launað þegar Kristur kemur aftur. Postularnir tólf munu sitja í tólf hásætum, þegar Kristur er kýndur konungur. Þar að auki ýjar hann að því að ákveðin laun felast í því að vera hluti af kirkju Krists, sem á að vera eins og stór fjölskylda. En síðari hlutinn af svari Jesú, virðist eiga að koma í veg fyrir að þessi opinberun stigi þeim til höfðus og geri þá montna og hreykna. Postularnir, sem í skyndi yfirgáfu allt og fylgdu honum, munu sannarlega fá sín laun. En það þýðir ekki að kærleikur Krists sé minni til þeirra sem eru tregari til, eða til þeirra sem ekki höfðu eins miklu að tapa á því að fylgja honum. Dæmisagan kennir okkur því hvernig ríki Guðs er.

Við lesum nú guðspjall sunnudagsins, Matteus 20:1-16:

1 Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. 2 Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. 3 Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. 4 Hann sagði við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun.’ 5 Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. 6 Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: ,Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn?’ 7 Þeir svara: ,Enginn hefur ráðið oss.’ Hann segir við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn.’ 8 Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: ,Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu.’ 9 Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. 10 Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. 11 Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. 12 Þeir sögðu: ,Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.’ 13 Hann sagði þá við einn þeirra: ,Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? 14 Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. 15 Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?’ 16 Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“

Matt 20:1-16

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Ef maður les þessa dæmisögum með augum hagfræðinnar, er manni varla mikið skemmt. Hvað gerist eiginlega næsta dag þegar það hefur frést að það þarf bara að vinna síðasta hálftímann til að fá full laun fyrir daginn? Hver nennir eiginlega að bera hita og þunga dagsins, þegar maður tapar engu á því að sleppa því.

Húsbóndi víngarðsins gefur öllum jafnt kaup, bæði þeim sem koma snemma og þeim sem koma seint. Allir fá nóg laun til að kaupa brauð handa fjölskyldu sinni, og borga fyrir nauðsynjar dagsins. Og enginn fær meira heldur en hann þarfnast. Enginn þeirra sem starfa í víngarðinum verða auðugir af því, heldur er þeim gefin venjuleg daglaun, sem, er einn denar.

Víngarðurinn þarfnast þess samt sem áður að unnið sé allan daginn, ef koma á ávextinum í hús áður en hann skemmist. En hvers vegna ættu verkamennirnir að skipta sér að því? Er ekki best að gera það sem þjónar þeim sálfum best? Eða er rétt að þeir fórni sjálfum sér, öðrum til góðs?

Takið líka eftir því að vandamálið verður ekki til fyrr en í lok dæmisögunnar. Húsbóndinn samdi nefnilega um sanngjörn laun í upphafi dags, og þá var enginn óánægður. Allt sem gerðist var einfaldlega að hann sló ekki af gagvart þeim sem komu seint. Hann vildi líka að þeir gætu sett mat á borðið. Fyrstu verkamennirnir voru því óánægðir með að þeir fengu ekki meira heldur en þeir höfðu samið um.

Dæmisagan fjallar því fyrst og fremst um góðvild húsbóndans, og bendir hún á góðvild Guðs. Í ríki hans taka allir við gjöfum Guðs af náð hans einni. Eða eins og við lásum í fyrri ritningarlestrinum

23 Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum. 24 Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun – segir Drottinn.

Jer 9:23-24

Vissulega er munur á því hvað kristnir menn og konur leggja af mökum til ríkis hans, en sama hversu mikið það er, jafnvel þótt þeir hafi yfirgefið allt og fylgt honum, jafnvel þótt þeir neiti sér um laun fyrir þjónustu sína, eða njóti ekki gæða sem þeir hafa rétt á, jafnvel þá taka þeir við öllu sem þeir eignast af góðvild og miskunnsemi Drottins.

Þáttarlok

Ég þakka ykkur fyrir samfylgdina í dag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson og er prestur í verkefni sem kallast Játningarbundin Evangelísk-Lúthersk kristni. Þú finnur okkur á www.jelk.is, og við erum líka á facebook og YouTube.

Ég vona að þátturinn hafi verið til gagns og uppbyggingar, og ekki síst góður undirbúningur fyrir messu á sunnudag.

Verið þið sæl.