Skip to content

Að þekkja góða boðun

Kristin boðun getur komið í ýmsu formi, og kemur hún víða við ef hún á að endurspegla boðskap Biblíunnar í heild sinni. Hér að neðan koma fjögur atriði sem ég hef í huga þegar ég hlusta á kristna boðun.

Þessi atriði ber ekki að skilja sem gátlista, heldur sem hjálpartæki til að hlusta á kristna boðun með gagnrýnni hugsun og opinni Biblíu.

1. Fylgir ræðan texta úr Biblíunni?

Kristin boðun byggir á texta Ritningarinnar sem lesinn er og útskýrður á eigin forsendum og í réttu samhengi.

Biblíuleg boðun þarf að fylgja texta Biblíunnar, og ganga út frá því að hann sé raunverulega orð Guðs. Fyrri ekki löngu heyrði ég prest lesa söguna um þegar Jesús mettaði fjölda manns með fáeinum brauðum og nokkrum fiskum. Að lestrinum loknum vogaði prestur sér að segja þessi saga væri bull, allavega ef taka ætti hana bókstaflega. Augljóslega er ekki hægt að taka alvarlega prédikara sem talar þannig um orð Guðs.

En ekki eru allir svo beinskeyttir. Sumir prédikarar lesa kannski stakt vers, og nota það svo sem stökkbretti til að tala um eitthvað allt annað. Enn verra er það auðvitað ef prédikarin snýr út úr textanum til þess að laga hann að boðskap sem hvergi er að finna í Biblíunni. Það er auðvelt að fletta ofan af slíku með því að hafa eigin Biblíu og lesa allt samhengið.

Sumir kjósa frekar að byggja boðun sína á tilfinningaþrungnum sögum af eigin reynslu, sem þeir segja með mikilli áherslu, og krydda kannski með stöku versi sem oft er tekið úr samhengi. Ef þeir taka svo til táranna, verður áherslan enn sterkari, og öll gangrýn hugsun verður óhjákvæmilega óviðeigandi. Eða kannski fá þeir tónlistarfulltrúa til að spila lágværa tónlist til þess að fá áheyrendur til að slappa vel af.

Kristin boðun á að byggjast á orðum Krist í gamla og nýja testamentinu, eins og ritað er í 10. kafla Rómberjabréfsins: „Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.“

2. Er Kristur nefndur (og hversu oft)?

Kristin boðun er boðskapurinn um Jesú Krist krossfestan.

Grundvallarboðskapur kristinnar trúar er koma Krists til að frelsa til að frelsa menn frá syndum sínum og veita þeim eilíft líf. Þessi boðskapur er ekki bara fyrir þá sem ekki þekkja Krist, heldur er hann sá grundvallarboðskapur sem gegnumsýrir líf kristinna manna.

Í fyrra Korintubréfi talar postulinn Páll um boðun sína þegar hann fyrst heimsótti söfnuðinn í Korintu.

„Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki. Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan.“ (1 Kor 2:1-2)

Í kaflanum á undan tekur hann jafnvel enn sterkara til orða:

„Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki, en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku, en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.“ (1 Kor 1:22-24)

Verkefni kirkjunnar er að boða Krist krossfestan. Ef Kristur er ekki einu sinni nefndur, eða ef hann er aukaatriði í ræðunni, getur varla verið um kristna boðun að ræða.

3. Hvað er sagt um Krist?

Jesús Kristur er ekki fyrst og fremst fyrirmynd kristinna manna, heldur frelsari þeirra og Drottinn.

Þegar ég var unglingur gekk ég með armband með skammstöfuninni W.W.J.D? Skammstöfunin merkir „What would Jesus do?“ eða „Hvað hefði Jesús gert?“. Spurningin var vel meint, sem einföld nálgun við kristið siðferði. Því miður missir hún marks.

Í fyrsta lagi er ekki sjálfgefið að við tafarlaust vitum hvað Jesús hefði gert í öllum aðstæðum. Í öðru lagi er Kristur ekki fyrst og fremst fyrirmynd kristinna manna, þótt hann sé það sannarlega líka, heldur er Kristur fyrst og fremst frelsari okkar og Drottinn. Þar af leiðandi er markmið kristinnar boðunnar fyrst og fremst að sýna fram á hvað Kristur hefur gert fyrir okkur, en ekki að lýsa honum sem fullkominni fyrirmynd okkar. Enn síður hefur boðunin heimild til að taka Krist úr samhengi og gera hann að fánabera einhvers málsstaðar sem prédikaranum er annt um.

Það er að sjálfsögðu ekkert rangt við það að lýsa Kristi sem fyrirmynd okkar. En það þarf líka að vera á hreinu að Kristur er fyrirmynd sem við getum aldrei lifað fullkomlega eftir. Einmitt þess vegna er hann ekki bara fyrirmynd, heldur frelsari okkar.

4. Hvert er „vandamálið“?

Dauði og upprisa Krists er ekki rétt svar nema að spurningin sé rétt.

Flestar, er ekki allar ræður sem þú kemur til með að heyra í kirkjum og samkomuhúsum benda á vandamál sem þarf að leysa. Samkvæmt Biblíunni er grundvallarvandamál mannsins uppreisn hans gegn Guði og öll ill verk, orð og hugsanir sem þar af fylgja. Þetta er það sem Biblían kallar synd, og eina lausnin á syndinni er dauði og upprisa Krists.

Mörgum prédikurum og prestum líkar hins vegar illa að tala um synd. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Sumir óttast að nýir áheyrendur geti ekki skilið hugtakið, sumir trúa því ekki að maðurinn sé syndugur, og sumir telja að það geti skemmt góðu stemmninguna. Kannski er ástæðan allt önnur, en hver sem hún er, veldur það því að slíkir prédikarar leita að öðrum vandamálum sem þeir geta leyst.

Sumir beina sér þá helst að pólitískum málum, meinum kerfislægum vandamálum, eða t.d. umhverfismálum. Aðrir benda á vandamál sem tengjast sálfræði, sjálfshjálp og almennri velgengni í lífinu, til dæmis því að sigrast á erfiðleikum. Svoleiðis boðun getur byrjað á spurningu eins og: „Er Golíat í lífi þínu sem þú þarft að sigrast á?“ eða „ert þú að ganga gegn um slæma árstíð eða jafnvel eyðimörk í lífi þínu?“ Kannski vill prédikarinn kenna þér velgengni í vinnu, hjónabandi eða jafnvel kynlífi.

Ég vil ekki gera lítið úr þessum vandamálum, og eiga þau gjarnan rétt á sér. Það þýðir þó ekki að guðsþjónusta safnaðarins sé réttur vettvangur. Ef Kristur krossfestur kemur viðfangsefni boðunarinnar ekkert við, þá á viðfangsefnið ekkert erindi á ræðupúlti kirkjunnar.

Að lokum

Ritningin öll vitnar um Krist, um dauða hans fyrir syndir okkar og um upprisu hans og sigur yfir dauðanum (Luk 24:27, 44-49; Jóh 5:39, 46). Markmið boðunarinnar er að segja frá Kristi, til þess að við getum átt eilíft líf í trúnni á hann (Jóh 20:30-31; Róm 10:9-16; Gal 3:2). Á því þekkist sönn kristin boðun, að hún hefur sama markmið.