Skip to content

Þátturinn er á dagskrá Lindarinnar þriðjudaginn 10. maí kl 9:00, og er endurfluttur fimmtudag kl 13:00 og laugardag kl 16:00. Þegar þátturinn kemur í app lindarinnar, kemur hér einnig tengill í upptökuna.

Sunnudagurinn kemur er fjórði sunnudagur páskatímans og kirkjur landsins verða skreyttar með hvítum lit eða gylltum, sem er litur Krists og sérlegra hátíða hans. Við ætlum að lesa ritningarlestra sunnudagsins og tala aðeins um það samhengi sem þeir standa í.

Þegar textarnir eru notaðir í kirkjunni, þá eru þeir að mörgu leyti teknir úr sínu samhengi og settir inn í aðstæður nútímans í kirkjunni. Það þýðir að textinn er prédikaður fyrir áheyrendur dagsins í dag, og á að tala inn í líf þeirra. Að sama skapi er ákveðið samhengi í kirkjuárinu, og það kemur skemmtilega fram þessa sunnudaga, 3., 4., 5., og 6 sunnudag páskatímans, því guðspjöll þessara fjögurra sunnudaga eru öll úr kveðjuræðu Krists í 15. og 16. kafla Jóhannesarguðspjalls. Nær allur 16. kafli er lesinn þessa sunnudaga, og saman mynda þeir ákveðna heild.

Það er mikilvægt að taka fram, að þótt textarnir séu prédikaðir í aðstæðum sem eru frábrugðnar þeim aðstæðum sem upprunalegir lesendur áttu við að búa, er prédikarinn samt bundinn af upprunalegum skilningi textans. Það er hægt að túlka boðskapinn inn í nýjar aðstæður, en þó má ekki breyta boðskapnum. Fagnaðarerindið um Krist er alltaf hið sama. Þess vegna skiptir sköpum að skilja textann í sínu samhengi áður en hann er prédikaður í nýjum aðstæðum.

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna í spádómsbók Esekíel, 36. kafla.

Spámaðurinn var meðal þeirra Ísraelsmanna sem voru herleiddir til Babylon í hinn í svokölluðu fyrstu herleðingu og sá því ekki eyðileggingu musterisins með eigin augum, þótt hann hafa frétt af því þar sem hann var í útlegð. Esekíel var af prestaætt, sem sennilega er ástæðan fyrir því að hann var hluti af fyrstu herleiðingunni. Nebúkadneser Babýlonkonungur hefur viljað fjarlægja úr landinu áhrifamikla menn í mikilvægum embættum, eða í þessu tilviki mann sem síðar átti að sinna slíku hlutverki, því hann hafði enni ekki aldur til. Í Babýlon gat hann auðvitað ekki sinnt prestsþjónustunni, en Drottinn kallaði hann þess í stað sem spámann.

Spádómsbókin, er eins og spádómsbækur flestar í gamla testamentinu, safn spádóma í formi stuttra ræðna og frásagna. Spádómar Esekíel skipast í þrjá megin flokka, og koma sem þrír megin hlutar Esekíelbókar. Fyrsti hluti eru kaflar 1-24, annar hluti kaflar 25-32 og þriðji hluti er kaflar 33-48.

Fyrsti hluti, kaflar 1-24, inniheldur dómsorð til þeirra sem eftir voru af Ísraelsþjóð, þ.e. suðurríkisins Júda og borgarinnar Jerúsaleum. Hluti af vitrunum Esekíels eru opinberanir af himneskum veruleika, sem ísraelsmenn oft líta fram hjá. Til dæmis: Í fyrsta kafla sér spámaðurinn hásæti Drottins, og umhverfis það kerúbana, þ.e. himneska engla-verði, og lýsir þessu öllu í mörgum smáatriðum. Í framhaldi af þessum lýsingum, hljómar köllun spámannsins, þar sem hann er skipaður varðmaður, til þess að vara ísraelsþjóð við syndum sínum og fráhvarfi; og kalla þá til iðrunar. Það er það sem þessi fyrsti hluti sérstaklega gerir, og í 10. kafla er því lýst hvernig hásætið og kerúbarnir hefjast á loft og yfirgefa musterið og Jerúsalem.

Í öðrum hluta bókarinnar, köflum 25-32, beinir Esekíel ræðu sinni til þjóðanna í kring um Ísrael, með sérstökum dómsorðum. Drottinn er nefnilega ekki bara Guð Ísrael, heldur er öll heimsbyggðin hans, og þurfa því allir menn að gera honum reikningsskil að lokum.

Síðasti hlutinn eru kaflar 33 til 48, og tala þeir um endurreisn þjóðarinnar og nýtt musteri í Jerúsalem. Dýrð Drottins, sem yfirgaf landið í kafla 10, snýr síðan aftur í kafla 43, og bókin endar á þessari von um endanlega endurreisn.

Þegar Ísraelsmenn komu aftur í land sitt eftir útlegðina í Babylon, varð snemma ljóst að sú endurkoma gat varla verið endanleg uppfylling þessara loforða, heldur einungis að hluta til. Opinberunarbók Jóhannesar, sem endurnýtir mörg táknanna úr Esekíelbók, sýnir að orðin verða ekki uppfyllt endanlega fyrr en við endurkomu Krists.

Þegar við lesum ritningarlesturinn verðum við því að hafa bæði hina takmörkuðu tímalínu Ísraelsþjóðar í huga, en einnig hina lengri tímalínu hjálpræðisins.

Fyrir tveimur vikum síðan, lásum við hluta úr 34. kafla, og núna á sunnudaginn kemur textinn úr 36. kafla. Þar eru allavega tvær, eða kannski þrjár stuttar ræður, og ritningarlesturinn er úr hinni síðustu, þar sem talað er um endurreisn þjóðarinnar, og hvernig Drottinn safna þjóð sinni aftur saman til átthaga sinna, lauga hana vatni, helga hana og hreinsa. Það er í því samhengi sem fyrri ritningarlestur er ritaður.

Þá lesum við fyrri ritningarlestur, úr Esekíel 36, versum 26-28, og hann hljómar svo.

26 Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi. 27 Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setninga mína og breytið eftir þeim. 28 Og þér skuluð búa í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, og þér skuluð vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð.

Esekíel 36:26-38

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Hver er þessi lýður, sem fyrr hefur haft hjarta af steini, hefur verið án Heilags anda í brjósti, og hvorki hlýtt boðurðum Drottins né virt þau? Í samhengi textans er auðvelt að benda á Ísraelsþjóð, sem endurtekið hvarf burt frá sáttmála sínum við Guð. En eins og ég benti á, talar Esekíelbók ekki bara til Ísraelsmanna, heldur hefur hún einnig dómsorð til annara þjóða, enda eru allir menn sköpun Guðs. Það er ekki bara Ísraelsþjóð, heldur allar þjóðir og allir menn, sem eiga þar við. Fyrirheitið um að Guð muni snúa þessum högum á fyrst við um Ísraelsmenn, en þar á eftir mun það einnig ná til allra þjóða.

Drottin Guð heitir því að hann muni hreinsa lýð sinn af öllum rangindum. Af syndum og skurðgoðadýrkun. Ekki nóg með það, heldur mun hann gefa þeim nýtt og hreint hjarta, og gefa þeim hlutdeild í Heilögum anda. Forsendan er sú að það það sé eitthvað, sem er hjartlægt sem er að.

Það er dálítið áhugavert, hvernig okkar menning leggur áherslu á hið hjartlæga sem hið hreina og góða í manninum. Við segjum gjarnan “Þú er góð eða góður innst inni” eða “þú verður að fylgja hjarta þínu.” En biblían talar um hjarta mannsins, sem staðinn þar sem spilling syndarinnar býr. Í Markúsarguðspjalli, kafla 7 segir Jesús:

20 Og hann sagði: „Það sem fer út frá manninum, það saurgar manninn. 21 Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, 22 hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska. 23 Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninn.“

Mark 7:20-23

Esekíel talar um það sem hjarta úr steini, sem þá getur ekki slegið. Ef einhver hefði bókstaflega hjarta úr steini, gæti hann ekki lifað, og væri þá bókstaflega stein dauður. Og það er einmitt þannig sem Biblían talar um ástand syndugra manna. Í öðrum kafla Efesusbréfsins ritar postulinn Páll: “Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda,”

Þess vegna er það Guð einn sem getur hreinsað af okkur afbrotin. Það er hann einn sem skapaði okkur, sem einnig getur gefið okkur hreint hjarta á ný. Sá sem Guð hefur laugað og hreinsað, er hreinn frammi fyrir honum, og á þá að eilífu samleið með honum.

Síðari ritningarlestur

En þá örstutt að síðari ritningarlestrinum, sem er úr bréfi Jakobs, hins almenna. Frumkirkjan taldi höfund bréfsins vera Jakob, bróður Jesú, sem er getið í Galatabréfinu 1:19 og á nokkrum stöðum í Postulasögunni (12:17, 15:13, 21:18). Bréfið fær oft sérstaklega athygli fyrir það að leggja áherslu á að sannri trú fylgi góð verk sem sönnun trúarinnar. Á siðbótartímum, og eftir siðbótina, hafa nokkur vers í öðrum kafla verið ágreiningsefni, og sumir skilið þau sem afneitun hjálpræðis fyrir trúna eina. Skilningur siðbótarinnar hefur verið að góð verk eru allaf fylgifiskur sannrar trúar.

Síðari ritningarlestur er að finna í almennu bréfi Jakobs, fyrsta kafla, versum 17-21, og hljómar svo.

17 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara. 18 Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans.

19 Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. 20 Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði. 21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.

Jak 1:17-28

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Í þessum orðum kemur forsendan fyrst, og þar á eftir afleiðing hennar. Forsendan er sú að allar góðar gjafir, og allt gott kemur að ofan. Hér má fyrst nefna allt það sem heyrir til fæðslu líkamans og þarfa, svo sem matur, drykkur, fatnaður, heimili, fjármunir og svo framvegis. Enn fremur guðhræddur maki og börn, trúir yfirmenn, góð landstjórn, góð veðrátta, heilbrigði og góðir vinir, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta eru góðar gjafir Guðs.

En áfram ber að nefna endurfæðinguna, trú á Krist, hreint hjarta, góða samvisku, kærleika til náungans, bænaranda, hjálpsemi, gleði, frið, hógværð o. s. frv. Þetta eru verk, gjafir og ávextir andans. Og það er einmitt það sem Jakob er að tala um. Sá sem ber ávexti andans á að vera seinn til reiði, leggja af sér saurugleik og vonsku, og þess í stað að leggja kapp á að þekkja orð Guðs, og haga munni sínum samkvæmt því.

En aftur er það Heilagur andi sem kemur öllu þessu til leiðar, fyrir orð sitt, sem við tökum við í trú. Að leggja kapp á góð verk, er því, samkvæmt ritningunni, einungis mögulegt þegar vil leggjum kapp á að þekkja orð Guðs.

Guðspjall

Þessa sunnudaga núna fram að Hvítasunnu, koma guðspjallstextarnir úr 16. kafla Jóhannesarguðspjalls, sem er hluti af kveðjuræðu Krists, og nær hún frá 13. kafla, þegar Jesús þvær fætur lærisveina sinna í upphafi páskamáltíðarinnar, og til 17. kafla, þar sem hann biðst fyrir í Getsemane-garðinum. Í þessari ræðu gefur Jesús lærisveinum sínum innlit í það sem á að eiga sér stað eftir einungis nokkrar klukkustundir, hvaða afleiðingar það mun hafa, og hvaða áhrif það á að hafa í lífi lærisveina hans.

Rétt eins og Jesús þvoði fætur lærisveina sinna, eiga þeir að þjóna hver öðrum og auðmýkja sig. Þeir eiga ekki að sækjast eftir eigin frægð, heldur eftir því að gera vel við náunga sinn. Þeir eiga að prédika hinn kristna boðskap, bæði lögmál Guðs, sem flettir ofan af syndinni, og fagnaðarerindið um Jesú Krist, sem gengið hefur í dauðan fyrir þá. Jesús mun senda Heilagan Anda yfir þá, sem réttlættir eru í Kristi, til að hjálpa þeim, og halda þeim við í sannri trú og heilögu líferni.

Það eru augljós tengsl milli ritningarlestranna og Guðspjallsins. Það er Drottinn sjálfur sem laugar, hreinsar og helgar lýð sinn, fyrir verk Heilags anda. Og verk hans, hefur þær afleiðingar að það hreinsar líka verk þess sem hreinsaður hefur verið, og skapar þannig í honum góð verk. Hinu illa hjarta, sem er uppsprette illra verka, er skipt út fyrir gott hjarta, sem er uppspretta góðra verka.

Guðspjall dagsins talar um þennan veruleika

Við lesum guðspjallið, úr Jóhannesarguðspjalli, kafla 16, versum 5-15. Það hljómar svo:

5 En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?’ 6 En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta. 7 En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar. 8 Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, – 9 syndin er, að þeir trúðu ekki á mig, 10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur, 11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.

12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú. 13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á. 14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. 15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

Jóh 16:5-15

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Þetta er kveðja. Jesús er að fara. Og þegar hann fer, mun hann senda Heilagan anda yfir lærisveina sína, en hér er þó ekki verið að tala um það að Jesús þurfi að vera á öðrum stað. Ef við lesum lokaræðuna í heild sinni, er ekki erfitt að sjá hvað það er sem Jesús á við. Til dæmis, lesum við í byrjun 14. kafla: “2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?”

Jesús á hér við dauða sinn, upprisu og himnaför. Jesús fór til að deyja og rísa aftur, og til að ganga inn í hinn himneska helgidóm, og fórna sjálfum sér okkar vegna. Þannig vann hann okkur fyrirgefningu syndanna og eilíft líf. Og þessi góða gjöf er gefin okkur fyrir starf Heilags anda í orði hans og sakramentunum.

Því það er Heilagur andi, sem fyrir orð sitt, fullvissar okkur um syndir okkar. Og ekki bara um stakar syndir, þ.e. þegar við brjótum gegn boðorðum hans, eða gerum ekki það sem hann býður okkur, heldur einnig um syndugleika okkar. Þ.e. að við, af náttúrunnar hendi, fæðumst með hjarta úr steini. Okkur liggur alltaf beinast við að gera það sem hagnast okkur sjálfum, það sem tjáir okkur sjálf, og staðfestir okkur sjálf. Það liggur ekki í náttúru okkar að gera eins og Kristur segir: Að afneita sjálfum okkar, taka upp kross okkar daglega og fylgja honum. Með boðum og bönnum, kennir Heilagur andi okkar að þekkja okkur sjálf, og þekkja syndina í hjarta okkar. Enn fremur kennir hann okkur um dóm Guðs. Höfðingi þessa heims er dæmdur, og með honum allir sem heyra honum til.

En að lokum kennir Heilagur andi okkur um réttlætið, sem kemur frá Kristi. Án dauða hans og upprisu, ættum við engan möguleika. Þá hefðu ekki verið neinar gjafir í boði. En nú hefur sá sem gekk saklaus í dauðan fyrir okkur, unnið réttlæti handa okkur. Þess vegna segir Jesús: Það er til góðs að ég fari burt.

Það er til góðs, vegna þess að hann tók á sig syndir okkar þegar hann fór burt. Hann dó dauða okkar. Og það tilreiknast okkur fyrir starf Heilags anda.