
Já, mér er sönn alvara þegar ég held því fram að áfengi, peningar og völd spilli engum. Og það þrátt fyrir þá staðreynd að þeir sem gefa sig á vald slíkra hluta virðist æ spilltara. Raunin er þó sú að áfengi er ekkert annað en tegund efnis. Peningar eru að mestu bara tölur í tölvukerfum banakanna. Vald er ekkert annað en ákveðin staða gangvart öðrum. Ekkert af þessu getur í raun spillt manni. Þetta eru verkfæri. En hvers vegna bendir þá öll reynsla til hins gagnstæða?
Hvað gerir mann óhreinan?
Ágæt leið til að svara því, er að skoða sögu sem við finnum í Markúsarguðspjalli 7:1–23 (hliðstætt í Matteusi 15:1–20.) Farísearnir koma til Jesú og spyrja hvers vegna postularnir neyti matar án sérstaks handþvottar, eða eins og þeir sjálfir segja orða það í bænum sínum: „Blessaður ert þú, Drottinn, Guð vor, konungur alheimsins, sem helgað hefur oss með boðum þínum og skipað oss að þvo hendurnar.“
Um verður umræða um trúarlegan hreinleika matarins. Jesús nálgast spurninguna með allt öðrum hætti en farísear. Hann útskýrir fyrir þeim að það það sem fer inn í mann saurgar mann ekki, heldur einungis það sem kemur út frá manni. Ástæðan er einföld: Hið illa býr nú þegar í hjarta mannsins.
Illar hugsanir og gjörðir koma ekki að utan, og inn í mann, heldur öfugt. Það byrjar innra með manninum – í hjarta hans – og kemur fram í hugsunum, orðum og gjörðum. Þar með er ekki endilega góð hugmynd „að fylgja hjartanu.“ Hjartað er nefnilega ekki hreint.
Þetta er það sem við köllum synd, eða nánar tiltekið erfðasynd, og hún býr í okkur öllum. Einföld hugleiðing um okkar eigin hvatir ætti að gera það öllum ljóst. Allavega ef maður er reiðubúinn til að vera heiðarlegur við sjálfan sig. Við eigum að elska bæði Guð og náungann, en í raun og veru elskum við okkur sjálf mest. Að hefja okkur upp yfir aðra er okkur algjörlega eðlislægt.
Á sama tíma hefur Guð einnig takmarkað okkur. Í fyrsta lagi hefur hann gefið okkur lög og boðorð sem sýna okkur muninn á réttu og röngu. Í öðru lagi hefur hann sett takmörk sem hann hefur ofið inn í umhverfi okkar og inn í þann veruleika sem við búum við. Þessi takmörk eru hluti af náttúrulegum orsökum og afleiðingum. Sá sem hagar sér stöðugt eins og fífl mun að lokum missa alla vini sína. Sá sem ítrekað stelur, verður fyrr eða síðar refsað.
Í skóladagbók sem ég átti á 10. áratugnum var brandari á þessa leið: „Það er mannlegt að gera mistök, en til þess að klúðra málunum alvarlega þarf tölvu.“ Það er nokkur sannleikur í því. Menn lifa innan ákveðinna ramma sem takmarka þá: Hingað og ekki lengra! Við venjumst slíkum mörkum smám saman og lærum hvað er ásættanleg hegðun. Við getum jafnvel lært að elska takmörkin, því þau eru góð fyrir okkur.
Þegar takmarkanirnar hverfa
Þá aftur að fullyrðingunni í upphafi þessa pistils, þ.e. að áfengi, peningar og völd spilla engum.
Þegar ég held því fram að þessir hlutir spilli engum, þá þýðir það ekki að þeir séu hlutlausir, eða geri ekkert. Þessir hlutir breyta hegðun okkar, fyrst og fremst með því að gefa okkur aukið svigrúm. Þeir leyfa okkar innri spillingu að koma upp á yfirborðið.
Peningar og völd gera það með því að skapa aukin tækifæri. Meðal þeirra er tækifærið til að fara yfir okkar eigin siðferðismörk, án þess að óttast afleiðingarnar. Ef maður hefur nóg af peningum getur maður borgað sig út úr hvaða vandamálum sem er. Kannski getur maður jafnvel hylmt yfir brot sín og mistök, þannig að enginn komist að þeim.
Áfengi og vímuefni ráðast á sama veikleika, en þá með því að deyfa meðvitundina um þau takmörk sem okkur eru sett. Víman svæfir samviskuna og leyfir syndinni að hegða sér eins og engin takmörk séu til. En syndin á engu að síður upptök sín í hjartanu. Kannski er það einmitt þess vegna að áhrifin eru svo mismundandi frá einstaklingi til einstaklings.
Með öðrum orðum: Þegar ég skrifa að áfengi, peningar og völd spilli ekki, þá er það vegna þess að ég er sannfærður um að við mannfólkið séum þegar spillt, áður en fyrsti sopinn er tekinn, og áður en maður hefur nokkra peninga. Venjulega lærum við þó með aldrinum hvernig við eigum að fela og bæla syndina, allavega nægilega mikið til að geta verið virk í samfélaginu. Við getum jafnvel talið okkur trú um að við séum harla góð.
Áfengi, peningar og völd spilla ekki manninum, heldur virka þessir hlutir eins og vítamínsprauta fyrir þá spillingu sem þegar býr í hjarta okkar. Góðu fréttirnar er að Guð fæðir okkur að nýju í vatni skírnarinnar, og skapar í okkur nýja, óspillta manneskju.
Syndin er engu að síður fyrirbæri og skemmd, sem læðist inn í hvern krók og kima veru okkar, og veldur þar áhrifum sínum. Þess vegna eru þau takmörk, sem halda syndugu eðli okkar í skefjum, góð fyrir okkur. Af sömu ástæðu geta þeir sem syndga í vímu, ekki afsakað sig með því að segja að þeir hafi verið drukknir. Við gætum líka sagt að enginn getur afsakað voðaverk með því að segja að hann hafi verið nógu ríkur til að framkvæma það, og þess vegna sé það ekki honum að kenna. Eða að hann hafi haft réttu tengslin eða nægilega mikil völd til þess. Tækifærið og möguleikarnir til að drýgja synd og gera það sem rangt er, er engin afsökun fyrir því að fremja syndina.
Hinn nýi maður
Sem kristið fólk megum við ekki vera svo góðtrúa að við höldum að syndin búi ekki lengur innra með okkur, og þess vegna þurfum við ekki að setja okkur nein takmörk. Þar að auki ætti það ekki að furða okkur þegar við föllum í synd, eins og allir aðrir. Þess í stað eigum við að játa syndina og þiggja fyrirgefningu. Þannig vöxum við í helgun Guðs.
En góðu fréttirnar enda ekki þar. Þegar Guð fæddi okkur að nýju í vatni skírnarinnar skapaði hann í okkur alveg nýja manneskju eða nýjan mann. Þessi nýi maður lifir samhliða hinum gamla. Hinn nýi maður er andi, sál og líkami, alveg eins og gamli maðurinn. Og svo lengi sem við lifum í þessum heimi, erum við á einum og sama tíma bæði gamli og nýi maðurinn (Róm 6:1–11). Hinn nýi maður er góð manneskja, sem eðlislægt elskar bæði Guð og náungann. Hinn nýi maður þráir að gera hið góða.
En fyrst við erum bæði gamli og nýi maðurinn samtímis, er eðlilegt að við upplifum átök innra með okkur. Þegar við freistumst til að drýgja einhverja synd, segir gamli maðurinn já, en hinn nýi nei. Þeir takast á innra með okkur. Páll postuli ritar um þetta í 5. kafla Galatabréfsins. Þar nefnir hann gamla manninn hold og nýja manninn anda. Hann ritar: „Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið.“
Þegar þú sem kristinn einstaklingur finnur fyrir slíkum átökum í samvisku þinni, þá er það sem sagt nýi og gamli maðurinn sem standa hver gegn öðrum. En það er nýi maðurinn sem er þín sanna ímynd, og það er sá sem á að lifa eilíflega með Kristi. Þannig hefur Jesús hafið gott verk í þér, en því er ekki enn lokið, svo lengi sem gamli maðurinn loðir við. Það verður veruleikinn þangað til Jesús sjálfur, á efsta degi, reisir þennan nýja mann upp á ný og leiðir hann út úr gröfinni.
Þá er gamli maðurinn með allri spillingu sinni, algerlega farinn. Þá hefur Jesús lokið því góða verki sem hann hóf í þér og fullkomnað það (Filippíbréfið 1:6).