Skip to content

Hinn upprisni Jesús birtist lærisveinunum í Galíleu. Annar sunnudagur páskatímans

Fyrri ritningarlestur: Sálm 116:1–9

Fyrri ritningarlestur er að finna í Sálmi 116, versum 1-9. Áður en við lesum þessi vers ætla ég að gefa ykkur smá samhengi.

‌Við lesum í raun bara hálfan sálminn, en þó mynda þessi orð heild innan hans, og í grísku sjötíumannaþýðingunni svokölluðu, er honum reyndar skipt í tvennt eftir níunda vers.

‌Eins og við munum heyra hljómar það eins og að sálmurinn hafi orðið til við mjög persónulegar aðstæður. Höfundur sálmsins—sem ekki er nafngreindur—var sjálfur í sálarangist og fann síðan frið hjá Drottni. Fyrstu tvö versin gefa okkur þennan bakgrunn, og síðan er þetta ferli útskýrt nánar frá og með þriðja versi.

‌Sálmurinn telst ennfremur til hinna svokölluðu hallel-sálma, eða hallelúja-sálma, þ.e. 113–118, sem gyðingar syngja meðal annars við páskahátíðina, og gerðu þegar á tíma Krists. Sálmurinn tengist þannig boðskap páksanna: Björgun frá glötun.

‌Jesús og lærisveinar hans sungu þessa sálma við síðustu kvöldmáltíðina, og það er þetta sem minnst er á í 26. kafla Matteusarguðspjalls:

30 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins.

Matt 26:30

‌Lofsöngurinn eða réttara sagt lofsöngvarnir eru þessir Hallel-sálmar, 113–118. Áður en við höldum lengra, skulum við lesa sálminn. Ég ætla að koma honum hérna á skjáinn hjá mér fyrst.

‌1 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann. 3 Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.4 Þá ákallaði ég nafn Drottins: „Ó, Drottinn, bjarga sál minni!“ 5 Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.6 Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.7 Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.9 Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.

Sálm 116:1–9

‌Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

‌Það ætti ekki að vera allt of erfitt að setja sig í spor höfundar þessa sálms. Öll vitum við að dauðinn bíður okkar við lok æfinnar. Vald hans er óumflýjanlegt, og öll verðum við að lokum hnignun og dauða að bráð. Við berjumst auðvitað á móti. Reynum að seinka öldrun, rækta líkamann og líta út eins og að við séum yngri en við erum í raun og veru. Sumir þoka alls ekki að vera spurðir um aldur sinn, og skrökva jafnvel og þykjast vera yngri en þeir eru. Það er auðvelt að heillast af hollywood-störnum sem eytt hafa formúgum til þess að líta unglega út.

‌En öll þurfum við að lokum að horfast í augu við staðreyndirnar, og þessi sálmur gefur okkur orðin til þess. Snörur dauðans munu umkringja okkur, og kannski finnur þú nú þegar fyrir angist heljar. Við erum algerlega varnarlaus og máttvana gagvart dauðanum. Hann tekur okkur öll.

‌En þessi sálmur hefur meira á hjarta, því Drottinn er sá sem varðveitir varnarlausa og hjálpar hinum máttvana. Við þurfum því að játa að svo sé. Við erum varnarlaus og máttvana frammi fyrir dauðanum. En Drottinn er sá sem bjargar, jafnvel úr dauða. Eins og sálmurinn segir í síðustu tveimur versunum:

​8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.9 Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.

Sálm 116:8–9

‌Hvernig getum vitað að svo sé? Svarið er eins og alltaf Jesús.

‌Hann hefur gengið þessa leið nú þegar. Hann dó og hann reis aftur upp frá dauðum, og opnaði leiðina fyrir okkur: Fyrir hverjum þeim sem lifir í honum. Sá sem er skírður til Krists er íklæddur honum samkvmæt þriðja kafla Galatbréfsins (Gal 3:27). Sá sem deyr með honum, mun einnig rísa að nýju eins og hann.

‌Síðari ritningarlestur: 1 Kor 15:12–21

‌Komið þið sæl aftur. Þetta er þátturinn undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson, og við erum að fara yfir ritningarlestra og guðspjall næstkomandi sunnudags. Í síðust viku lásum við fyrstu 8 versin í 15. (1 Cor 15) kafla fyrra korintubréfs. Þar segir postulinn Páll frá öllum þeim sjónarvottum sem sáu hinn upprisna Krists með egigin augum. Á skrifandi stundu voru flestir þeirra enn á lífi og hægt var að leita þá uppi og fá söguna staðfesta beint.

‌Við sem lifum 2000 árum síðar erum sem betur fer ekki mikið ver sett. Við höfum nefnilega hið niður ritaða orð postulanna í guðspjöllunum og í bréfum nýja testamentisins. Eins og ég nefndi síðast er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu enn að Kristur sé upp risinn, nema að maður sé of fordómafullur eða hrokafullur til að taka vitnisburð postulanna alvarlega.

‌En postulinn stoppar ekki þarna. Hann heldur áfram og talar út frá þessu um afleiðingar upprisu Krists fyrir okkur sem á hann trúum. Hann talar meira að segja um þær afleiðingar sem myndu hljótast af því, ef upprisa Krists hefði aldri átt sér stað. Það var þá áskorun á alla þá sem afneituðu upprisunni, um að finna hinn greftraða líkama hans. Við skullum lesa þetta

‌Síðari ritningarlestur er að finna í fyrra Korintubréfi, kafla 15, versum 12-21:

‌12 En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp? 13 Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn. 14 En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar. 15 Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. 16 Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn. 17 En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar, 18 og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir. 19 Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna. 20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru. 21 Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann.

1 Cor 15:12–21

‌Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

‌Það ætti ekki að fara fram hjá okkur að það er algerlega óumdeilanleg grundvallarforsenda kristinnar trúar að Jesús hafi raunverulega risið upp frá dauðum. Það er ekki nóg að Jesús hafi verið raunveruleg persóna, eða að hann hafi verið svakalega misskilinn. Það er ekki nóg að halda í boðskapinn einann. Grundvallarforsendan er að Jesús reis upp frá dauðum. Því ef svo er ekki, þá er ekki til upprisa frá dauðum, og þá er engin friðþæging fyrir syndir okkar.

‌Þá er það líf sem við lifum hér og nú allt sem við höfum. Þá er í besta falli ekkert meira, og í versta falli eilíf refing. Og þá er boðskapurinn ekki bara hindurvitni, heldur gerir hann okkur að hinum aumkunarverðustu mönnum sem til eru. Það eru ekki mín orð, heldur postulans Páls.‌

Ef svo væri, þá hefðum við sem trúum á Krist enga ástæðu til að þola einelti, hrakyrði, alls konar skammir, og að endalaust sé litið niður á okkur. Við þolum allt þetta og meira til vegna þess að við höfum Jesú Krist sem okkar Drottinn og Guð. Hann er þess verðugur að við þolum hvað sem er.

‌Einmitt þess vegna er vitnisburðurinn um upprisuna svo mikilvægur, og við getum ekki án hans verið. En eins og við vorum að lesa:

‌20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.

1 Kor 15:20

‌Og fyrst svo er, hefur það þær afleiðingar að við verðum að taka orð Krists alvarlega. Ef hann er risinn upp frá dauðum, sem frumgróði þeirra sem sofnaðir eru, þ.e. dánir eru, þá hlýtur hann að vera sá sem hann sagðist vera. Hann er Kristur, Drottinn, sonur hins lifanda Guðs. Þar með verðum við að taka öll orð hans alvarlega.

‌Þar með talin eru orð hans um heilaga ritningu, þ.e. um gamla testamentið. Jesús talar um Adam og Evu, um Abarham, Isak og Jakob, um Davíð Konung, Jesaja spámann og fleiri sem sögulegar persónur. Hann staðfestir að heilög ritning er orð Guðs, og er bindandi fyrir okkur. Og það er bindandi fyrir Guð líka. Loforð hans, sem gefin eru í ritningunni eru sönn, og við meigum treysta þeim.

‌Þannig að: (Joh 3:16) Hver sá sem trúir á Jesú, þ.e. treystir á hann, mun ekki glatast heldur eiga eilíft líf í honum.

‌Guðspjall: Jóh 21:1–14

‌Komið þið sæl aftur. Þetta er þátturinn undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson, og við erum að fara yfir ritningarlestra og guðspjall næstkomandi sunnudags. Rétt fyrir hlé.

‌Guðspjall þessa fyrsta sunnudags eftir páska, eða annars sunnudagas páskatímans, er að finna í Jóhannesarguðspjalli, 21. kafla, versum 1–14 (Joh 21:1). Þessi saga á sér stað eftir upprisu Krists. Postularnir eru farnir til Galíleu, og bíða þess þar að mæta Jesú.

‌Ég vil benda á að hér er talað um Tíberíasvatn, sem er kennt við borgina Tíberías, sem liggur við vesturströnd vatnsins. En vatnið er líka kennt við stærra umráðasvæði, sem kallast Galílea. Þ.e. Galíleuvatn.

‌1 Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: 2 Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. 3 Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“ Þeir segja við hann: „Vér komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert. 4 Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús. 5 Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þér nokkurn fisk?“ Þeir svöruðu: „Nei.“ 6 Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir.“ Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. 7 Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík – hann var fáklæddur – og stökk út í vatnið. 8 En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum. 9 Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð. 10 Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða.“ 11 Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir. 12 Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir, að það var Drottinn. 13 Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. 14 Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.

Jóh 21:1–14

‌Hvers vegna er postulinn Jóhannes að eyða bleki og papyrusrúllu í það að segja þessa sögu. Við vitum frá kaflanum á undan að Jóhanns hefur valið þær frásagnir sem hann skifaði niður með mikilli vandvirkni (Joh 20:30). Jóhannesarguðspjall býður yfirleitt líka upp á ræðu Krists sem útskýrir málið nánar.

‌Þessi saga er ekki útskýrð frekar, en: hún er heldur ekki alveg búin. Það sem kemur strax á eftir, þegar Jesú og postularnir hafa matast og borðað fiskinn sinn, þá spyr Jesús Símon Petur þrisvar sinnum hvort hann elski hann. Hann kallar hann áfram til að gefa sauðum sínum mat. Hér fær Pétur uppreisn æru, og er minntur á hlutverk sitt sem postula.

‌En aftur að guðspjalli sunnudags. Það fyrsta sem við tökum eftir er að postularnir eru ekki allir saman komnir, heldur eru þetta þeir sem kunnu að veiða fisk. Þeir eru Símon Pétur og Sebedeussynirnir Jakob og Jóhannes. Að auki er þarna Tómas, Natanael, sem virðist hafa heitið Bartólómeus öðru nafni, og tveir ónafngreindir. Þeir eru úti á vatni í alla nótt en fá ekki fisk.

‌Jesús stendur þá á ströndinni og kallar til þeirra, og spyr hvort þeir hafi fengið fisk. Okkur er sagt að þeir hafi verið nokkuð langt frá landi, augljóslega það langt að þeir sáu ekki að það var Jesús, en þeir heyrðu samt í honum. Það þýðir einfaldlega að það hefur verið blankandi logn þarna um morguninn. Jesús segir þeim að kasta netinu hægra megin við bátinn, og þeir fara eftir því. Þá fyllast netin. Þetta er augljóslega mikið tákn, og það er furðulegt að Pétur áttar sig ekki strax á hliðstæðunni við það kraftaverk sem átti sér stað þegar hann var kallaður til að fylgja Jesú. (Luk 5). Þá hafði Jesús sagt við Pétur: “Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.”

‌Jakob kannast þó við það, og segir: “Þetta er Drottinn” (Joh 21:6).

‌Þegar þeir svo koma í land, hefur Jesús þegar kveikt eld og lagt bæði brauð og fisk á glóðirnar. Sami matur og Jesús notaði til að metta mannfjöldan, við allavega þrjú mismunandi tilefni. Hér biður hann Pétur um að bæta svolítið við úr aflanum, og Pétur fer strax af stað að skoða netið. Og hér kemur atriði sem sem margir hafa reynt að skilja, en vantar gott svar við: Af hverju er okkur sagt að það séu eitt hundrað fimmtíu og þrír fiskar í netinu? Augljóslega er þetta atriði sem sýnir okkur hversu mikill aflinn var fyrir lítinn fiskibát á Galíleuvatni, enda er líka tekið fram að þeir voru stórir. Og samt sem áður rifnaði netið ekki, eins og það hafði gert þegar við köllun Péturs. Hér þarf ekki að rýna meira heldur en nákvæmni Jóhannesar í frásögninni. Það er ekkert í frásögninni sjálfri sem bendir til þess að talan sé táknræn.

‌Þetta er sem sagt þriðja skiptið sem Jesús birtist postulunum. Hann sýnir þeim tákn sem skýrir fyrir okkur að hinn upprisni Kristur er hinn sami Kristur sem lærisveinarnir höfðu þekkt. Sá sem kallaði Pétur og vildi láta hann menn veiða, hafði ekki gleymt kölluninni, né heldur því að Pétur var nú sendiboði fyrir fagnaðarerindið.‌

Þar að auki sýnir þessi saga okkur þjónustulund Krists: Hvernig hann sá fyrir postulunum, og gaf þeim jafnvel mat. Kirkja Krists á að taka sér þessa þjónustulund sér til fyrirmyndar. Til dæmis er hlutverk prestanna að þjóna söfnuði sínum með orði Guðs og sakramentinu.