Skip to content

Babel og Hvítasunna

Í fyrstu ellefu köflum sínum segir Biblían frá sköpun heimsins, uppreisn mannsins gegn Guði og þar með tilurð syndar, böls og þjáningar í heiminum. Afleiðingar syndarinnar létu ekki á sér standa, og innan skamms hafði fyrsta manndrápið átt sér stað: Bróðurmorðið þar sem Kain drap Abel.

Smám saman, sem mönnunum fjölgaði, óx einnig syndin, og sagt er frá því að Guð hafi iðrað þess að hann skapaði heiminn (1 Mós 6:6). Hann lét allsherjar flóð koma yfir jörðina, en bjargaði Nóa og fjölskyldu hans, ásamt nokkrum einstaklingum af hverri dýrategtund í örkinni sem hann lét Nóa smíða. En þegar flóðinu linnti og örkin var opnuð, var augljóst að syndin var ekki horfin, heldur var hún borin áfram til komandi kynslóða gegnum Nóa og fjölskyldu hans.

Í upphafi 11. kafla er svo sagt frá því hvernig mennirnir sjálfir reyndu að glíma við og finna lausn á syndinni. Þeir vildu taka höndum saman og bjarga málunum sjálfir. Með framförum í byggingartækni ákváðu þeir að búa sér til turn, sem ná átti til himins.

1Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð. 2Og svo bar við, er þeir fóru stað úr stað í austurlöndum, að þeir fundu láglendi í Sínearlandi og settust þar að. 3Og þeir sögðu hver við annan: „Gott og vel, vér skulum hnoða tigulsteina og herða í eldi.“ Og þeir notuðu tigulsteina í stað grjóts og jarðbik í stað kalks. 4Og þeir sögðu: „Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla jörðina.“

1 Mós 11:1-4

En Guð vissi að mennirnir gátu ekki leyst vandamál syndarinnar með þessum hætti. Og svolítið kaldhæðnislega er fyriræki mannana, sem teygðu sig upp til himins, svarað með því að Guð steig niður frá himni.

5Þá steig Drottinn niður til þess að sjá borgina og turninn, sem mannanna synir voru að byggja. 6Og Drottinn mælti: „Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál, og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra. 7Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál.“ 8Og Drottinn tvístraði þeim þaðan út um alla jörðina, svo að þeir urðu af að láta að byggja borgina. 9Þess vegna heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar, og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina.

1 Mós 11:5-9

Bæði það að Drottinn steig niður frá himni og tungumálaruglingurinn sem því fylgdi, voru hvort tveggja fyrirboðar um það sem átti að koma síðar. Guð ætlaði sér sannarlega að stíga niður af himni, og ekki bara til að sjá fyrirtæki mannana, heldur til að frelsa þá frá syndum sínum. Í Níkeujátninguni játum við:

Vegna vor mannana og vorrar sáluhjálpar steig hann niður af himni, klæddist holdi fyrir Heilagan Anda af Maríu meyju og gjörðist maður.

Handbók íslensku kirkjunnar, s. 21

Tungumálaruglingurinn var til merkis um það að Drottinn myndi sjálfur efna sín loforð (1 Mós 3:15, 12:3, 22:18) án hjálpar mannana, rétt eins og Sakaría prestur varð mállaus frá því Guð gaf honum loforð um soninn Jóhannes, og fram til hann fæddist (Lúk 1:20 og 63-64). Að sama skapi varð ekki endir á tungumálaruglingnum þar til sonur Guðs hafði stigið niður til jarðar og gerst maður, verið píndur undir Pointíusi Pílatusi, krossfestur, dáinn, grafinn og stiginn upp til himna.

Hann skildi eftir sig lærisveinana, með leiðbeiningar um að þeir áttu að bíða í Jerúsalem þar til Heilagur Andi birtist. Á hvítasunnudag lesum við hvernig það átti sér stað:

1Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. 2Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. 3Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. 4Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. …

11Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs

Post 2:1-4 og 11

Á Hvítasunnudag lokast hringurinn frá Babel, og tungumálaruglingurinn haftar ekki lengur. Það þýðir ekki að öll tungumál heyri sögunni til, heldur að fagnaðarerindið um Jesú Krist skyldi boðað á þeim öllum. Boðskapurinn átti að ná til allra þjóða á þeirra eigin tungu.

Þess til merkis er þessi hugleiðing skrifuð — ekki á hebresku eða grísku eins og frumrit Biblíunnar — heldur á íslensku.

Að fagnaðarerindið um Jesú Krist hljómar á okkar eigin tungu, er merki um það að Guð efnir loforð sín. Hann hefur sigrast á syndinni og dauðanum, og veitir hjálpræði og eilíft líf hverjum þeim sem festir traust sitt á honum.

Dýrð sé Guði: Föður og Syni og Heilögum Anda, sem var frá upphafi, er enn og verður til eilífðar, einn sannur Guð, blessaður um aldir. Amen.