Skip to content

Biblíulestur á Zoom

Velkomin á biblíulestur á Zoom fimmtudaginn 20. janúar kl 19:00.

Við förum yfir þá ritningarlestra og guðspjall sem lesnir eru í kirkjum landsins næstkomandi sunnudag, sem er 3. sunnudagur eftir þrettánda.

Til að tengjast Zoom, er hægt að nota eftirfarandi beinan tengil:

Beinn tengill: https://us02web.zoom.us/j/89214546933..

Eða opna Zoom-forritið og setja inn eftirfarandi upplýsingar:
Meeting ID: 892 1454 6933
Passcode: jelk

Fyrri ritningarlestur: 5 Mós 10:17-21

17Því að Drottinn Guð yðar, hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð, sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur. 18Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði.

19Elskið því útlendinginn, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi.

20Drottin Guð þinn skalt þú óttast, hann skalt þú dýrka, við hann skalt þú halda þér fast og við nafn hans skalt þú sverja. 21Hann er þinn lofstír og hann er þinn Guð, sá er gjört hefir fyrir þig þessa miklu og óttalegu hluti, sem augu þín hafa séð.

Síðari ritningarlestur: Róm 12:16-21

16Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður. 17Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. 18Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. 19Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.“ 20En „ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ 21Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.

Guðspjall: Matt 8:1-13

1Nú gekk Jesús niður af fjallinu, og fylgdi honum mikill mannfjöldi. 2Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“

3Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. 4Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum, en far þú, sýn þig prestinum, og færðu þá fórn, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“

5Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: 6„Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“

7Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“

8Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. 9Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,’ og hann fer, og við annan: ,Kom þú,’ og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,’ og hann gjörir það.“

10Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. 11En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki, 12en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ 13Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“

Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.