Skip to content

Biblíulestur á Zoom

Velkomin á biblíulestur á Zoom fimmtudaginn 10. febrúar kl 19:00.

Við förum yfir þá ritningarlestra og guðspjall sem lesnir eru í kirkjum landsins næstkomandi sunnudag, sem er 1. sunnudagur í níuviknaföstu.

Til að tengjast Zoom, er hægt að nota eftirfarandi beinan tengil:

Beinn tengill: https://us02web.zoom.us/j/89214546933..

Eða opna Zoom-forritið og setja inn eftirfarandi upplýsingar:
Meeting ID: 892 1454 6933
Passcode: jelk

Fyrri ritningarlestur: Jer 9:22-23

Ath. Munur er á því hvernig versin eru merkt í 1981-útgáfunni og Biblíu 21. aldar.

23Svo segir Drottinn:

Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum. 24Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun – segir Drottinn.

Síðari ritningarlestur: 1 Kor 9:24-27

24Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau. 25Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan. 26Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær. 27Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.

Guðspjall: Matt 20:1-16

1Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. 2Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. 3Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. 4Hann sagði við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun.’ 5Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. 6Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: ,Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn?’ 7Þeir svara: ,Enginn hefur ráðið oss.’ Hann segir við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn.’

8Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: ,Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu.’ 9Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. 10Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. 11Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. 12Þeir sögðu: ,Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.’

13Hann sagði þá við einn þeirra: ,Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? 14Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. 15Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?’

16Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“