Velkomin á biblíulestur á Zoom fimmtudaginn 3. mars kl 19:00.
Til að tengjast Zoom, er hægt að nota eftirfarandi beinan tengil:
Beinn tengill: https://us02web.zoom.us/j/89214546933..
Eða opna Zoom-forritið og setja inn eftirfarandi upplýsingar:
Meeting ID: 892 1454 6933
Passcode: jelk
Biblíulestur: Matt 5:17-48
Ath: Fyrirsagnirnar eru ekki hluti af biblíutextanum, heldur eru þær settar inn af útgefanda til að gera textann læsilegri. Hér að neðan hefur þessum fyrirsögnum verið skipt út til að benda sérstaklega á tengslin við boðorðin tíu.
Jesús uppfyllir lögmálið
17Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. 18Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. 19Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. 20Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki.
Fimmta boðorð: Þú skalt ekki mann deyða
21Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi.’ 22En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis. 23Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, 24þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.
25Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi. 26Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.
Sjötta boðorð: Þú skalt ekki drýgja hór
27Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt ekki drýgja hór.’ 28En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu. 29Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti. 30Ef hægri hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en allur líkami þinn fari til helvítis.
31Þá var og sagt: ,Sá sem skilur við konu sína, skal gefa henni skilnaðarbréf.’ 32En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.
Áttunda boðorð: Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum
33Enn hafið þér heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki vinna rangan eið, en halda skaltu eiða þína við Drottin.’ 34En ég segi yður, að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs, 35né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs. 36Og eigi skaltu sverja við höfuð þitt, því að þú getur ekki gjört eitt hár hvítt eða svart. 37En þegar þér talið, sé já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er, kemur frá hinum vonda.
Sjöunda boðorð: Þú skalt ekki stela
38Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.’ 39En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina. 40Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka. 41Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær. 42Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.
Kærleiksboðorðið
43Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.’ 44En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, 45svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. 46Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? 47Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama? 48Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.
Úr fræðunum
Fjórða boðorð
Heiðra skaltu föður þinn og móður.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi fyrirlítum foreldra vora og yfirboðara né reitum þá til reiði, heldur höfum þá í heiðri, þjónum þeim og hlýðum, elskum þá og virðum.
Fimmta boðorð
Þú skalt ekki mann deyða.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi meiðum náunga vorn né vinnum honum nokkurt mein á líkama hans, heldur björgum honum og hjálpum í allri líkamlegri neyð.
Sjötta boðorð
Þú skalt ekki drýgja hór.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér lifum hreinlega og siðlega í orðum og verkum og sérhver hjón elski og virði hvort annað.
Sjöunda boðorð
Þú skalt ekki stela.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi tökum peninga eða fjármuni náunga vors né drögum oss það með svikinni vöru eða öðrum brögðum, heldur hjálpum honum að geyma eigna sinna og efla atvinnu sína.
Áttunda boðorð
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi ljúgum ranglega á náunga vorn, svíkjum hann, baktölum né ófrægjum, heldur afsökum hann, tölum vel um hann og færum allt til betra vegar.