Skip to content

Biblíulestur síðasta sunnudag kirkjuársins

Síðasta sunnudag kirkjuársins er litið til hinna síðustu tíma og endurkomu Krists.

Fyrri ritningarlestur: Sálm 63.2-9

Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.

2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég,
sál mína þyrstir eftir þér,
hold mitt þráir þig,
í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum
til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið.
Varir mínar skulu vegsama þig.

5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi,
hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti,
og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni,
hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi,
í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig,
hægri hönd þín styður mig.

Síðari ritningarlestur: 2. Kor 5.10

10Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt.

Guðspjall: Matt 22.23-33

23Sama dag komu til hans saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann: 24„Meistari, Móse segir: ,Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.’ 25Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna. 26Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö. 27Síðast allra dó konan. 28Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.“

29En Jesús svaraði þeim: „Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. 30Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni. 31En um upprisu dauðra hafið þér ekki lesið það sem Guð segir við yður: 32,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.’ Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda.“

33En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans.