Skip to content

Boðunardagur Maríu

Sunnudagurinn kemur er fjórði sunnudagur í föstutíma , og sem einnig má kalla miðföstudag, og verða hugsanlega einhverjar af kirkjum landsins skrýddar fjólubláum lit því til merkis. Þó eru líkur á því að margar kirkjur verði fremur skrýddar hvítum lit, sem er litur jóla og páska og sérlegra hátíða Krists. Það er jafnvel hugsanlegt að það verði sunginn svo sem einn jólasöngur í kirkjunni þinni, en það tíðkast sumstaðar á boðunardgi Maríu. Sjálfur er ég vanur að velja sönginn Guðs kristni í heimi.

Reyndar er boðunardagur Maríu, haldinn hátíðlegur 25. mars, sem er níu mánuðum fyrir jól. Með öðrum orðum er haldið upp á það sem við segjum í trúarjátningunni: “sem getinn var af Heilögum Anda.” En í þeim kirkjum þar sem ekki er haldin sér guðsþjónusta 25. mars þegar han ber upp á virkan dag, er gjarnan haldið upp á boðunardag Maríu næsta sunnudag þar á eftir, sem að þessu sinni ber upp á fjórða sunnudag í föstutíma, þ.e. núna á sunnudaginn.

Við ætlum að lesa ritningarlestrana fyrir boðunardag Maríu og tala aðeins um það samhengi sem þeir standa í.

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna í spádómsbók Míka. Hann er einn af hinum tólf minni spámönnum Biblíunnar, og var hann samtímamaður spámannsins Jesaja. Hann varð vitni af því að Salmeneser Arrýríukonungur hertók norðurríkið Ísrael, og réðist því næst að Jerúsalemborg, en leið þar ósigur fyrir Drottni. Míka talar til þjóðarinnar á erfiðum tímum, þá fyrst með dómsorðum. Fyrstu þrír kaflarnir dæma borgir og höfðingja þjóðarinnar, en í fjórða kafla talar spámaðurinn um komandi friðarríki. Fimmti kafli hefst á þekktum orðum og fyrsta vers hljómar þannig: “Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum.” Í öðrum kafla Matteusarguðspjalls er okkur greint frá því, sem er okkur kannski augljóst, að þessi orð eru rituð um Krist. Fræðimennirnir í Jerúsalem lesa þau fyrir Vitringana frá austurlöndum þegar þeir leita að hinum nýfædda konungi Gyðinga. Það er því eðlilegt að skilja næstu tvö versi í þessu samhengi, en þau eru ritningarlestur sunnudagsins:

2 Fyrir því mun Guð yfirgefa þá til þess tíma, er sú hefir fætt, er fæða skal, en þá munu leifar ættbræðra hans hverfa aftur til Ísraelsmanna. 3 Þá mun hann standa og halda þeim til haga í krafti Drottins, í hinu tignarlega nafni Drottins Guðs síns, og þeir skulu óhultir búa, því að þá skal hann mikill vera til endimarka jarðar.

Míka 5:2-3

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Míka spámaður varð vitni af ósigri Salmanesers Assýríukonungus fyrir hendi Drottins. En það er samt sem áður ekki endir sögunnuar. Nokkrum kynslóðum síðar kom annar herskár konungur, Nebúkadneser frá Babýlon, og vann hann sigur. Síðar þurftu Ísraelsmenn að þola margt af völdum bæði grikkja og rómverja.

Á tímum leit út fyrir að Guð hefði yfirgefið þjóð sína, og þurfti hún stundum að þola miklar þjáningar, þar til sú hafði fætt er fæða átti. Rétt eins og við öllu þurfum að kjást við mótlæti og þjáningar meðan við bíðum endurkomu Krists. Því þegar við lesum allt þetta í samhengi, og með þeim lyklum sem nýja testamentið gefur okkur, er augljóst að hér er um að ræða Maríu mey, og fæðingu Krists. Og vegna þessa spádóms lánaðist vitringunum frá austurlöndum að finna hann.

Hér er rétt að staldra aðeins við og huga að því hvernig við skiljum svona spádóm. Þeir sem afneita því að Guð sjálfur standi að baki, eða telja að Gamla testamentið sé lítið annað en lýsing á trúarbrögðum Gyðinga eftir herleiðinguna til Babylon, geta augljóslega ekki tekið það gilt að hér sé á ferðinni spádómur um Krist. Þeir ganga nefnilega út frá þeirri forsendu að enginn geti vitað með vissu hvað framtíðin beri með sér, og þá verður alltaf að finna aðra skýringu. Að gamla testamentið geti talað um Krist er þá annað hvort tilviljun eða nýtúlkun á ritningunni.

Það er þó ekki þannig sem Kristur sjálfur talar um ritningarnar. Afur og aftur talar hann um þær sem raunverulegt orð Guðs, talað fyrir munn spámannsins. Hann ítrekar að bæði Abraham og Móses þekktu hann og vitnaði um hann. Hann bendir leiðangursmönnunum á leið til Emmaus á þá staðreynd að allar ritningarnar tala um hann. Ef Kristur er raunverulega risinn upp frá dauðum, eins og sjónarvottarnir vitna um, höfum við ekki annan kost en að taka gildan vitnisburð hans um ritningarnar.

Fyrir munn spámannsins Míka, tilkynnti Guð um þá sem skyldi fæða. Þegar við lesum guðspjallið, heyrum við orð Guðs, fyrir mun engilsins, beint til hennar. En fyrst lesum við síðari ritninarlesturinn, og það eftir örlítið hlé.

Síðari ritningarlestur

Síðari ritningarlestur er að finna í Opinberunarbók Jóhannesar, 21. kafla, versum 3-7.

Þessi bók er fyrst og fremst bók um Jesú Krist, og er opinberun á guðdómi hans og tign. En hún lýsir líka hörmungum sem eiga sér stað á jörðinni Við lásum í fyrri ritninarlestrinum: “Fyrir því mun Guð yfirgefa þá til þess tíma, er sú hefir fætt, er fæða skal.” (Míka 5:2). Að sama skapi lýsir Opinberunarbók Jóhannesar alls konar hörmungum sem dynja á jörðinni og þrengingum sem jörðin öll þarf að þola. Ennig lýsir hún ofsóknum sem kirkjan Krists þarf að líða vegna trúar og vitnisburðar hennar. Samtímamenn Jóhannesar, sem fyrst lásu bókina hafa eflaust kannst við marg, og gerum við það enn á okkar tímum. Það getur þá verið freistandi að spyrja sig hvor Kristur hafi yfirgefið heiminn, og skipti sér ekkert að þjáningunum þar niðri. Eða með orðum píslarvottana í 6. kafla 10. versi: “Hversu lengi ætlar þú, Herra, þú heilagi og sanni, að draga það að dæma og hefna blóðs vors á byggjendum jarðarinnar?”

Bókin svarar með því segja frá því sem á sér stað fyrir hásæti Drottins. Hann hefur allan tímann hönd með í verki. Lamb Guðs, Kristur, situr í hásæti sínu og hefur þar allt vald á himni og á jörðu. Aðstæður á jörðu eru honum ekki ofvaxnar, sama hversu slæmar sem þær eru: Stríð, drepsóttir, þurkur, upphlaup, ofsóknir, valdaspilling eða hvað eina sem um er að ræða.

Því að lokum kristur opinbera sig í dýrð, ekki sem lítið barn í fjárhúsi einhverstaðar úti í buska, heldur með mætti, sem konungur á hvítum hesti. Þá mun hann gera alla hluti nýja. Síðustu kaflar bókarinnar tala um þennan tíma og lýsa hinu nýja ríki. I 21. kafla er lýst nýjum himni og nýrri jörð, og borgina helgu þar sem allur lýður Guðs mun búa til eilífðar.

Við lesum síðari ritningarlesturinn úr Opinberunarbók Jóhannesar, 21. kafla, 3-7, vers, og hljómar það svo:

3 Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. 4 Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ 5 Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,“ og hann segir: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ 6 Og hann sagði við mig: „Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns. 7 Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur.

Opinb 21:3-7

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Opinberunarbók Jóhannesar er bók um Jesú Krist, og hér er talað um hann. Tjaldbúð Guðs mun vera meðal mannana, en hvernig tengist það Kristi?

Í Gamla testamentinu birtist ísraelsmönnum nærvera Guðs í musterinu. Fyrsta musterið var útbúið í Sínaíeyðimörk, og samkvæmt boði Guðs var það í formi tjaldbúðar, sem hægt var að taka niður, flytja á nýjan stað og og setja aftur upp þar. Það var Guð sjálfur sem leiddi fólkið þangað sem það átti að fara. Þegar þjóðin svo kom inn í fyrirheitna landið fékk tjaldbúðin varanlegan stað í bænum Síló. Síðar var musterið flutt til Jerúsalem og þá í varanlegt hús. En sama hvar musterið var, var það þar sem Guð hafði heitið nærveru sinni. Það átti þó að breytast með komu Jesú Krists. Honum var ekki bara gefið nafnið Jesús, heldur einnig Immanúel, en það þýðir Guð með oss. Því Kristur er Guðs sonur, getinn af Heilögum anda og fæddur af Maríu mey, sem maður af holdi og blóði. Kristur er Guð með oss. Þess vegna sagði Jesús um musterið í Jóh 2:19: „Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þremur dögum.” Versi síðar er þetta útskýrt: “En hann var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Jesús hafði talað.”

Það er sem sagt Jesús sjálfur sem er nærvera Guðs meðal mannana. Það er hann sem er musteri og tjaldbúð Guðs. Opinberunarbókin lofar því að holdtekja Guðs er ekki tímabundin, heldur er hún endanleg. Við höldum uppá boðunardag Maríu sem þann dag er Jesús Kristur var getinn af heilögum anda. Orðið varð hold og hann bjó með oss. Og hann mun búa með oss að eilífu.

Guðspjall

Við snúum okkur nú að guðspjallinu, sem segir frá því þegar engillinn Gabríel vitjaði Maríu meyjar og bar henni boðskapinn um að hún skyldi fæða son Guðs, og gefa honum nafnið Jesús. Þetta er sem sagt alveg í upphafi Lúkasarguðspjalls, og það eina sem sagt hefur verið frá á undan er boðun fæðingu Jóhannesar skírara, sem var gert að undirbúa þjóðina til að taka við Kristi.

Guðspjall boðunardags Maríu er að finna í Lúkasarguðspjalli, fyrsta kafla, versum 26-38, og hljómar svo:

26 En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, 27 til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María. 28 Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“ 29 En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. 30 Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. 31 Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. 32 Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, 33 og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ 34 Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“ 35 Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs. 36 Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, 37 en Guði er enginn hlutur um megn.“ 38 Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.

Lúk 1:26-38

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Þegar Elísabet, kona Sakaría prests, hafði gengið með Jóhannes á sjötta mánuð, var engillinn Gabríel sendur til að tala orð Guðs til ungrar konu. Ekki er mikið sagt um hana annað en að hún hét María og að hún var föstnuð, þ.e. trúlofuð Jósef, sem var afkomandi Davíðs kongungs. Það er þó sérstaklega tekið fram, og það tvisvar, að hún var hrein mey. Bæði er það sagt um hana, og hún tekur það fram sjálf. Í því afkristnaða samfélagi sem við búum í, heyrir það til undantekninga að par sem trúlofast hafi enn ekki sofið saman, en á þessum tíma og þessum stað var það algerlega nauðsynlegt. Trúlofunin var reynslutími fyrir sjálft hjónabandið, sem sýndi fram á það að ekki var óskilgetið barn á leiðinni.

Engillinn heilsar Maríu og segir henni að hún hafi fundið náð hjá Guði. Það þýðir hvorki að hún hafi verið syndlaus, eða að hún hafi unnið sér inn þennan heiður einhvern veginn, heldur einfaldlega það að Guð útvaldi hana og kallaði á hana til þess að vera móðir Sonar Guðs. María var vel að sér í gamla testamentinu, eins og getum séð af lofsöng hennar síðar í kaflanum. Þar af leiðandi skildi hún hvað engillinn var að segja um barnið sem hún átti að bera. Þetta var barnið sem átti að uppfylla alla spádómana. Hann var sá Messías sem vonir ísraelsmanna voru bundnar við. Og þessar vonir voru nú í þann mund að rætast. Varla var hægt að fá fréttir sem voru yndislegri, en þó var þetta undarlegt. Hvernig gat María átt að vera móðir konungsins, þegar hún var hrein mey? Eftir stutt svar frá englinum, segir hún strax: “Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.”

Með þeim orðum er María okkur mikil fyrirmynd. Hún tók við orðum engilsins og trúði þeim. Þess vegna segir Elísabet frænka hennar síðar um hana: “Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni.” En þrátt fyrir allt hið góða sem María getur kennt okkur, og verið fyrirmynd okkar í, þá er hún samt sem áður ekki höfuðpersóna boðunardagsins. Og heldur ekki engillin sem bar henni boðin. Höfuðpersónan er sá sem henni var boðaður. Svo sannarlega, því hann höfuðpersóna ritningarinnar allrar.

Hér er mikill leyndardómur á ferð. Orð Guðs er talað til Maríu meyjar. Orðið um að hún mun þunguð verða og fæða son Guðs. Og orð Guðs snýr ekki aftur við svo búið, ekki fyrr en það hefur framkvæmt það sem Guði vel líkar, og komið því til vegar, sem hann fól því að framkvæma (sbr. Jes 55:11). Þess vegna segir Jóhannes í sínu guðspjalli: “Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð… Og Orðið varð hold, hann bjó með oss.” (Jóh 1:1,14a) Frá og með þessum degi var Kristur Immanúel: Guð með oss. Þegar hann var lítið barn, jafnvel þeggar hann var lítið fóstur, ekki stærra en ein lítil fruma, var han samt sem áður Kristur og Immanúel: Guð með oss.

Að lokum langar mig að nefna eitt atriði enn. Flestir hafa heyrt Maríu kallaða, ekki bara móðir Jesú, heldur móðir Guðs. Það hljómar svolítið furðulega, og margir bregðast illa við. Menn segja: Hún var móðir Jesú, en ekki móðir Guðs. Og það er rétt að hún er sköpuð af Guði eins og allir aðrir menn, og ekki upphaf Guðs. En það er þó einmitt þetta sem er hinn mikli leyndardómur holdtekju Guðs, að hann varð maður. Allt það sem Jesús gerði, það gerði Guð. Þess vegna var það Guð sjálfur sem var getinn af Heilögum anda, og fæddur af Maríu mey. Ef hún var móðir Jesú, var hún móðir Guðs. Eins var það Guð, fæddur sem maður, sem var píndur og það var hann sem dó á krossinum. Það var Guð sem sigraðist á dauðanum, og vann okkur leið til eilífs lífs.