Skip to content

„Ég trúi á Guð Föður almáttugan, skapara himins og jarðar.“

Skilningur okkar á Guði hefst með þessum einföldu orðum. Með þeim játum við að Guð er upphaf allra hluta, bæði alls þess sem við getum séð, skynjað og mælt, og alls þess sem er hafið yfir okkar skilningarvit. Fyrsta Mósebók segir frá því hverning Guð, með orði sínu, skapaði himinn og jörð, land og vötn; grös, tré og plöntur, fiska, fugla og öll dýr, og að lokum mann og konu. Allt saman er frá honum komið, og tilheyrir honum. Í Sálmi 24 stendur:

Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa. Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum

Sálm 24:1-2

Þessi játning er ennfremur persónuleg. Guð hefur ekki einungis skapað allan heiminn, heldur hefur hann líka og sérstaklega skapað hvert og eitt okkar. Hann hefur skapað mig: Bæði líkaman sem er sýnilegur og áþreifanlegur og sálina sem er ósýnileg og óáþreifanleg. Hvert okkar getur sagt: Ég á mér stað í sköpun hans, þar sem Guð hefur komið mér fyrir. Mér ber skylda að fara vel með þessar gjafir sem hann hefur gefið, bæði líf mitt og sköpunina alla. Allt þetta á nefnilega að þjóna náunganum.

Í fræðum sínum skýrir Marteinn Lúter þetta í öfurgri röð. Hann byrjar innst, á mér, og horfir síðan út á við:

Ég trúi, að Guð hafi skapað mig og alla hluti, hafi gefið mér líkama og sál, augu, eyru og alla limi, skynsemi og öll skilningarvit og haldi því enn við;

Skýring Lúthers við fyrstu grein trúarjátningarinnar.

Fyrsta grein trúarinnar ítrekar skilin milli Guðs: Skaparans annarsvegar og sköpunarinnar hinsvegar. Guð er upphaf allra hluta, og allir hlutir eru frá honum runnir. Þess vegna er líka hann einn almáttugur, hann einn sem að lokum ræður yfir lífi og dauða, og hann einn sem kallast getur Guð. Þá er hann einn verðugur tilbeðslu og lofsöngs okkar, sem og þakkargjörðar.

Því Guð hefur sýnt okkur, gegnum sköpun sína, að hann er góður. Hann hefur gefið okkur lífið, sem og heiminn til þess að búa í og nýta okkur til skjóls, fæðu og til ánægju og yndis. Allt sem kallast getur fegurð, hvort sem það er í náttúrunni eða hjá mannfólkinu, er uppsprottið hjá Guði.

Eins og sagt var í upphafi þessa pistils, er þetta upphaf þekkingar okkar á Guði: Að játa hann sem almáttugan skapara himins og jarðar.