Skip to content

Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall…

Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.

1 Mós 2:18

Í Biblíunni byrjar skilgreiningin á hjónabandinu með þessari einföldu athugun. Það er Guð sjálfur sem talar, eftir að hafa skapað manninn. Samkvæmt sköpunarsögunni í Fyrstu mósebók, öðrum kafla, hefur enginn maður, hvorki fyrr né síðar verið eins einsamall og einmitt Adam. Það var ekki einungis það að hann vantaði lífsförunaut, heldur var hann eina mannveran sem til var. Það að hann var umkringdur annars konar lífi, bæði plöntum og dýrum, breytti ekki þeirri athugun. Guð undirbjó sig þess vegna undir að breyta þessum veruleika.

Kaflinn segir frá því hvernig fyrsta konan, Eva, var sköpuð úr hlið Adams. Því næst leiddi Guð þau tvö saman. Hvorugt var nú einsamalt, heldur höfðu þau hvort annað.

En svar Guðs er meira en rómantískt samband tveggja einstaklinga. Gegnum sameiningu Adams og Evu hélt Guð áfram svari sínu. Það var ekki gott fyrir Adam og Evu að vera tvö einsömul. Guð vildi uppfylla jörðina af mannfólki, og gegnum sameiningu þeirra skapaði hann næstu kynslóð. Eva var sköpuð úr hlið Adams, en allar kynslóðir síðan hafa verið skapaðar úr sameiningu foreldranna, og verið bornar fram af móðurinni.

Ekki var gott fyrir mannin og konuna að vera einsömul, og þess vegna gaf Guð þeim börn. Eins er ekki gott fyrir börnin að vera einsömul, og því er æfilöng sameining foreldranna þeim fyrir bestu. Það eru ekki foreldrarnir sem eiga að yfirgefa hvort annað, heldur á maðurinn að yfirgefa föður sinn og móður og sameinast eiginkonu sinni.

Því það er ekki gott fyrir fjölskylduna að vera einsömul, heldur heyrir hún til í stærra samfélagi. Þriðja fjórða og fimmta boðorðið eru gefin okkur einmitt til að vernda þetta mikla og blessaða fyrirkomulag:

Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
Þú skalt ekki morð fremja.
Þú skalt ekki drýgja hór.

2 Mósebók 20:12-14

Með boðorðum sínum hyggst Guð að vernda fjölskylduna: Að hjónin elski og virði hvort annað, elski og uppali trúlega börn sín, og að börnin elski og virði foreldra sína. Þetta er það fyrirkomulag sem Guð hefur skapað okkur fyrir bestu.

Þegar fyrirkomulag Guðs er skemmt

Því miður er því þó þannig farið að við mannfólkið höfum snúið baki við Guði. Ekki er það bara viljaákvörðun, heldur er það orðið okkur eðlislægt. Sá kærleikur sem Guð vill að við höfum fyrst til hans og næst til náungans er beinlínis andsnúinn eðli okkar. Við elskum fyrst og fremst okkur sjálf, og viljum gera það sem hentar og þjónar okkur sjálfum best. Afleiðingin er sú að heimurinn er fullur af brostnum hjónaböndum og skemmdum fjölskyldutengslum. Sumir hafa algerlega snúið baki við því fyrirkomulagi sem Guð gefur, og binda það jafnvel við kúgun og útilokun. Það sem Guð gefur er alltaf gott, jafnvel þegar við mennirnir nýtum það til ills. Þess vegna þurfum við að bæta enn einni atuhugun við:

Eigi er það gott ,að við mannfólkið séum einsömul.

Þess vegna hefur Guð sjálfur tekið á sig hold og blóð og gerst maður. Hann varð einn af okkur, og honum var gefið nafni Jesús. Ekki bara er hann sannur Guð, heldur einnig sannur maður eins og við. Allstaðar þar sem samfélag manna er brostið, býður hann okkur samfélag við sig. Og þar sem við eigum samfélag við Krist, þar eigum við líka samfélag við hvert annað.

Jesús sagði: „Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.

Mark 10:29–30