Skip to content

Einföld leið til bænar

Ég veit ekki hvort það er mýta að hárgreiðslufólk sitji á mörgum leyndarmálum. Það er kannski ekki ósennilegt að viðskiptavinir séu tilbúnir til að opna sig fyrir vingjarnlegum klippara, sem þeir leyfa að snerta höfuð sitt, og treysta fyrir hári sínu, en halda samt ákveðinni fjarlægð við. Sérstaklega þegar hárskerinn hefur tamið sér kurteisislegt smáspjall. Það er allavega góð byrjun.

Árið 1535 tók hárskerinn Pétur Baskendorf við þekktum viðskiptavini, siðbótarmanninum Marteini Lúter. Að þessu sinni var það hárskerinn sjálfur sem þurfti á því að halda að geta opnað sig fyrir manni sem hann treysti. Pétur sagði frá því að hann ætti erfitt með að koma reglu á bænalíf sitt, og spurði Martein ráða. Marteinn svaraði honum í opnu bréfi, sem síðar var gefið út í hverinu Einföld leið til bænar fyrir góðan vin . . . Pétur hárskerameistara.

Einföld leið til bænar

Lúter opnar hverið með hvatningu til þess að hver dagur byrji með bæn og endi með bæn. Bænin verður að ganga á undan, annars verður aldrei tími til hennars. Lúter sjálfur nýtti sér bæði Biblíuna og Fræðin sem bænabók, og las gjarnan boðorðin tíu, trúarjátninguna og sálmana sem bænir. Bænin nær nefnilega utanum lestur og íhugun textanna. Megin hluti bókarinnar er því bæna-útlegging á Bæn Drottins, Boðorðunum tíu og Trúarjátningunni.

Til þess að þessir textar geti frætt bænina og hvatt til hennar, nýtir Lúter fjögur atriði, sem móta má sem fjórar spurningar:

  1. Kennsla: Hvað ber mér að læra?
  2. Þökk: Hvað ber mér að þakka Guði fyrir?
  3. Játning: Hvaða syndir ber mér að játa?
  4. Bæn: Hvað annað ber mér að biðja um?

Stutt íhugun yfir fyrsta boðorði

Til dæmis má nýta þessar fjórar spurningar til að íhuga fyrsta boðorðið: „Þú skalt ekki aðra guði hafa.“ Til hliðsjónar og glöggvunar má hafa skýringu Lúters í Fræðunum minni: „Vér eigum umfram allt að óttast Guð og elska og honum að treysta.“

Hvað ber mér að læra?

Guð kennir mér að treysta honum framar öllum öðrum, og beina bænum mínum til hans. Fyrst hann er almáttugur skapari alheimsins, er hvergi betri hjálp að fá. Enginn annar getur raunverulega verið Guð minn.

Hvað ber mér að þakka fyrir?

Guð hefur gefið mér líkama og sál, og allt það sem ég þarfnast til til þessa lífs (Matt 6:33 er ekki bara loforð, heldur einnig lýsing á runveruleikanum). Mér ber að þakka honum fyrir alla hluti, t.d. húsnæði, fatnað, daglegt brauð og annan mat, menntun, starf, vini, fjölskyldu o.s.frv. Að íhuga þessa hluti kennir mér að taka við Gjöfum Guðs með þakklæti.

Hvað ber mér að játa?

Guð kennir mér að treysta honum einum, og taka við gjöfum hans með þakklæti. En traust mitt til Guðs er oft af skornum skammti, og vanþakklætið áþreifanlegt. Ég mun auðveldara með að mögla yfir því sem Guð hefur ekki gefið mér. Allt þetta og meira til, ber mér að játa fyrir honum.

Hvað annað ber mér að biðja um?

Þessar íhuganir og bænir hafa sýnt mér stöðu mína frammi fyrir Guði, og hvernig henni er ábótavant. Mér ber því að biðja Guð um að helga mig og hjálpa mér til þess að treysta honum einum og taka við gjöfum hans með þakklæti og nægjusemi.