Skip to content

Er aðventan lykillinn að jólastemningunni?

Hvað varð eiginlega af jólastemningunni sem ég hlakkaði svo mikið til þegar ég var krakki? Ég fór fyrst að sakna hennar í byrjun táningsáranna. Og það var ekki bar ég, heldur gátu margir félaga minna sagt hið sama. Kannski var það einfaldlega vegna þess að vorum að fullorðnast, og jólagjafir og sælgæti voru ekki lengur eins spennandi og áður. Eða kannski var það vegna þess að á hverju ári kepptust verslanir og útvarpsstöðvar um að vera á undan öllum öðrum með jólaskraut og jólapopptónlist. Ég átti allavega ekki erfitt með að kenna þeim um.

Þetta var þó ekki það eina sem var í breytingu, og mín eigin nálgun að aðventunni var ekki undanskilin. Heima fyrir voru kökur, góðgæti og skreytingar að mestu geymdar fyrir sjálfa jólahátíðina, þótt svo við gæddum okkur stundum á smákökum og bollum á sunnudögunum í aðventu, eftir að kveikt hafði verið á aðventukransinum. En þegar ég fékk frelsi til að stjórna eigin lífi, þurfti ég ekki að bíða eftir neinu, og þá var kökuboxið opna mun fyrr en áður. Smám saman færðust jólakræsingarnar yfir á aðventuna, og núna er maður orðinn leiður á jólahaldinu löngu áður en það byrjar. Þegar ég var krakki markaði aðfangadagur upphaf jólahalds, í dag markar það endinn.

Hvaðan kom aðventan?

Í frumkirkjunni var upphaflega haldið upp á hátíðir gamla testamentisins, en það leið þó ekki á löngu fyrr en áherslan var lögð á tvær hátíðir sem höfðu sérstaka merkingu í hinu nýja. Jesús dó og reis upp á páskum, og Heilagur andi var gefinn á hvítasunnu. Á þriðju og fjórðu öld var síðan farið að halda nýja hátíð, sem minntist þess að Sonur Guðs opinberaði dýrð sína. Þessi opinberunarhátíð var haldin í byrjun Janúar. Meðal Biblíutexta sem töluðu um þetta efni voru Brúðkaupið í Kana (Jóh 2:1–12), Skírn Jesú í Jórdaná (Matt 3:13–17), heimsókn hans í samkunduhúsið í Nasaret (Lúk 4:14–30) og koma vitringanna frá Austurlöndum (Matt 2:1–12). Þar að auki var eðlilegt að halda upp holdtekju Guðs sonar (Jóh 1:1–14) og fæðingu Jesú (Lúk 2:1–14).

Smám saman var þessum ritningarlestrum dreift á fleiri daga. Á austurlöndum var fæðingarhátíð Jesú haldin á aðfangadegi opinberunarinnar, en í Róm var hún flutt til 25. desember. Í dag eru margir sem halda að sú dagsetning hafi orðið fyrir valinu til þess að keppa við heiðnar sólstöðuhátíðir. Það er þó ekki víst, enda lagði kirkjan á þessum tíma áherslu á að gera sem mestan greinarmun á kristni og heiðni. Það er mjög ólíklegt að hún hafi viljandi reynt að blanda þeim saman. Mun líklegri ástæða er sú að menn töldu að holdtekjan hefði átt sér stað á sama mánaðardegi og Jesús síðar þjáðist og gaf líf sitt. Sá dagur var 14. nísan, á vorjafndægri það ár, sem talinn var vera 25. mars. Fæðingin var þá níu mánuðum síðar, eða 25. desember.

Tenging opinberunarhátíðarinnar við skírn Jesú gerði hana að hentugum degi til að skíra þá sem komust höfðu til trúar. Sá dagur kom þá til viðbótar við páskadag, sem var algengasti dagurinn til þess. Þetta krafðist augljóslega undirbúnings, bæði fyrir þann sem átti að skírast, og fyrir söfnuðinn allan. Á fjórðu öld var því orðið venja að halda 40 daga föstu og bænartíma fyrir páska.

Þótt erfitt sé að segja með vissu fyrir um uppruna aðventunnar, er vel hugsanlegt að hún hafi byrjað sem sambærileg fasta fyrir opinberunarhátíðina. Þegar jólahátíðin var færð yfir í desember, fylgdi fastan þá með, og þannig höfum við haldið jól og jólaföstu í vesturkirkjunni. Það er að segja, þar til fyrir skömmu. Jólafastan er kölluð aðventa, því hún markar bæði komu (lat. adventus), og endurkomu Krists. Þar að auki markar hún komu Krists til þín persónulega.

Fasta og hátíð sem lögmál og fagnaðarerindi

Þegar fastan tekur frá okkur lúxus og gnægð og gefur okkur í staðinn sýnishorn af hungri og löngun, er það í sjálfu sér sterkur boðskapur. Hungur er leið líkamans til að segja okkar að okkur skortir eitthvað. Líkamlega skortir okkur mat. Að neita sér um lúxus og notalegheit getur skapað þrá eftir þessum góðu hlutum.

Þessi tilfinning er boðskapur sem segir að allir góðir hlutir séu gjöf frá Guði, og að við þurfum á þeim að halda. Það á líka við um allt það góða sem við tökum kannski ekki einu sinni eftir. Við þurfum fyrirgefningu syndanna, lækningu frá veikindum, sjúkdómum og jafnvel öldrun. Við þurfum frelsun frá illu og vernd gegn alls konar hörmungum. Einnig þurfum við að elska náunga okkar eins og Kristur hefur elskað okkur. Fastan kallar á okkur til að hugleiða allar slíkar þarfir. Það er einmitt þess vegna sem kirkjan les boðskap Jóhannesar skírara þriðja sunnudag í aðventu. Hlutverk Jóhannesar var að undirbúa fyrri komu Krists.

Þegar föstunni er lokið kemur fagnaðarerindi hátíðarinnar sterkara í ljós. Það er enginn sem kann að meta góðan mat og drykk eins og sá sem er hungraður og þyrstur. Þannig minnir fögnuður hátíðarinnar á þá miklu gleði sem bíður okkar í ríki Krists.

Aðventan er meira heldur en táknræn bið eftir barninu í jötunni, því í þessum skilningi er Jesús þegar kominn. Jesú mun þó koma aftur í dýrð til að dæma lifendur og dauða. Því var lengi hefð fyrir, fyrsta sunnudag í aðventu, að lesa um komu Jesú til Jerúsalem og þær konunglegu móttökur sem hann fékk þar í Matt 21:1–9. Þegar hann kemur í dýrð, mun hann einmitt koma sem konungur himins og jarðar. Hinir hefðbundnu guðspjallslestrar þriðja og fjórða sunnudag í aðventu fjalla um Jóhannes skírara og boðskap hans. Hann átti að minna lýð Guðs um að vera undirbúinn. Til þess er einmitt aðventan, til undirbúnings.

Það getur verið bæði erfitt og óskynsamlegt að gera örar breytingar á rótgrónu fyrirkomulagi og hefðum á heimilum og í kirkjum. Sérstaklega þegar slíkar hefðir hjálpa fjölskyldunni að koma saman og njóta þess að vera saman, eða þegar hefðirnar hjálpa til við að safna fólki og segja frá Kristi. Engu að síður ættum við að stuðla að því að kristin fasta verði aftur hluti af aðventunni. Ef það síðan hjálpar okkur að finna jólastemninguna aftur, væri það auðvitað líka kærkomið.

Heimildir

McGowan, Andrew. “How December 25 Became Christmas” í Bible Review 18, nr. 6 (December 2002):. Sótt 11. október, 2024. https://library.biblicalarchaeology.org/article/how-december-25-became-christmas/

Sigurbjörnsson, Einar. Embættisgjörð: Guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð, 2. Útgáfa, 163–165. Reykjavík: Guðfræðistofnun Háskóla Íslands, 2012), 163–165.

Tveito, Olav. Gudstjenestens historie: Liturgi, kirkeår og kirkehus gjennom 2000 år: 204–209. Oslo: Themelios, 2013.