Í þekktri dæmisögu líkir Jesús himnaríki við kaupmann nokkurn sem leitaði að fögrum perlum. Þegar hann fann eina slíka perlu, fór hann og seldi allt, sem han átti, og keypti perluna (Matt 13:44-46).
Eins og í svo mörgum dæmisögum Jesú, er ákveðnum hlut líkt við himnaríki. Og eins í svo mörgum þeirra er því líkt við hlut sem sögupersónan finnur, og er honum eða henni dýrmætur. Flest okkar þekkja til dæmis sögurnar um týnda sauðinn, týndu drökumuna (koparpeninginn) og týnda soninn, sem allar er að finna í 15. kafla Lúkasarguðspjalls. Tilgangur dæmisögunnar er að við finnum okkur sjálf í týnda sauðinum, drökumunni eða syninum, sem öll koma í leitirnar að lokum. Þá er haldin mikil veisla.
í þessari sögu snýst leitin um dýrmæta perlu, og þrá kaupmannsins til að eignast hana. Svo mikil er hún að hann selur allar eignir sínar. Hann gefur allt. Það er furðulegur kaupmaður sem hegðar sér þannig. Líkingin kennir okkur um vilja Guðs. Svo mikil er þrá hans til þess að frelsa mannkyn og búa okkur stað í himnaríki, að enginn kostnaður er honum of hár. Þess vegna gaf hann son sinn eingetinn: Til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. (Jóh 3:16) Eins og kaupmaðurinn gaf hann allt.
Í þessu ljósi er svo hægt að snúa líkingunni við, þannig að litið er á Krist og ríki hans, sem slíka dýrmæta perlu. Þegar okkur er sýnd þessi perla, ætti enginn hlutur að geta verið okkur dýrmætari.