Skip to content

Fimm hlutir sem hafa ber í huga við lestur gamla testamentisins.

1.
Gamla testamentið vitnar um Krist

Það er Kristur sjálfur sem kennir okkur það að gamla testamentið vitnar um hann. Fyrir krossfestinguna sagði hann lærisveinum sínum að honum yrði bráðlega afneitað, að hann myndi vera píndur, deyja og verða grafinn.

Nóttina sem hann var svikinn, sagði hann: „Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað“ (Mark 14:21).

Í gamla testamentinu er ritað að Kristur muni deyja. Eftir upprisuna ítrekaði hann við lærisveinana: „Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað! Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína“ (Lúk 24:25-26).

Aftur sagði hann: „Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum“ (Lúk 24:44).

Guð Faðir segir við okkur: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ (Matt 17:5). Það er Kristur sjálfur sem kennir okkur hvernig ritningar gamla testamentisins vitna um hann.

2.
Lestu gamla testamentið eins og postularnir gerðu

Við lærum að hlusta á Krist þegar við lærum að hlusta á postula hans. Jesús talaði til þeirra og sagði: „Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér. En sá sem hafnar mér, hafnar þeim er sendi mig.“ (Lúk 10:16)

Kristur var sendur til okkar af Guði Föður, svo að við mættum þekkja hjálpræðið sem hann einn getur gefið. Áður enn hann steig aftur upp til himna, sendi hann postula sína út um allan heim, til að opinbera hjálpræði þetta sem við einungis gegum fundið í Kristi. Þá lauk hann upp huga postulanna, svo að þeir skildu ritningarnar. (Lúk 24:45-48)

Jesús talaði til postulanna og sagði: „Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ (Jóh 20:21) Aftur talaði hann til þeirra og sagði: „Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.“ (Jóh 14:25-26).

Það er hinn sami Heilagi Andi sem er að störfum í prédikun spámannana og í prédikun postulanna. Heilagur Andi vitnar um Jesú bæði fyrir munn spámannana og fyrir munn postulanna (Jóh 15:26; 1 Pét 1:10-12).

Þannig kenna postularnir okkur hvernig við eigum að lesa rit spámannana.

3.
Kristur er þegar til staðar í gamla testamentinu.

Það er ekki bara upptalning á loforðum um komu hans í framtíðinni.

Postulinn Jóhannes segir okkur frá því að Kristur sé hinn eilífi Sonur, sem var í upphafi, áður en nokkur hlutur var skapaður (Jóh 1:1-2). Það er hinn sami Kristur sem leysti Ísraelsþjóð úr ánauð í Egyptalandi (1 Kor 10; Júd 5). Bæði Abraham og Jesaja sáu hann (Jóh 8:56-58; Jóh 12:41)

Í raun sáu allir spámenn gamla testamentisins Krist. Hin spámannlegu rit eru full af frásögnum þar sem Guð birtist lýð sínum með sýnilegum hætti. Kristur er hin sýnilega ímynd hins ósýnilega Guðs. Jóhannes segir okkur: „Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.“ (Jóh 1:18) Það er hann – sonur Guðs – sem opinberar Föðurinn fyrir okkur. Föðurinn sjálfan hefur enginn séð (Jóh 5:37; 8:56-68).

4.
Guð hafnaði lýð sínum þegar lýðurinn afneitaði orði hans.

Hvers vegna geta fræðimenn gyðinga ekki séð Krist í gamla testamentinu? Ástæðan er einföld. Þegar á tíma spámannana afneitaði þjóð ísraelsmanna því orði Guðs sem boðaði Krist og ríki hans. Spámaðurinn Jesaja opnar bók sína með því að benda á kjarna vandamálsins. Hann prédikaði: „Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns, en Ísrael þekkir ekki, mitt fólk skilur ekki“ (Jes 1:3).

Aftur byrjar Jesaja fimmtugasta og þriðja kafla, um líðandi þjón Drottins, með því að harma stöðu mála: „Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber?“ (Jes 53:1).

Postulinn Jóhannes skýrir þetta vers og kennir okkur: „Þótt hann hefði gjört svo mörg tákn fyrir augum þeirra, trúðu þeir ekki á hann, svo að rættist orð Jesaja spámanns, er hann mælti: Drottinn, hver trúði boðun vorri, og hverjum varð armur Drottins opinber?“ (Jóh 12:37-38).

Áfram sagði Jesús við rabbína samtímans: „Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig, en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.“ (Jóh 5:39-40) Jesús er steinninn sem smiðirnir höfnuðu (Sálm 118)

5.
Boðskapurinn um hjálpræðið er sá sami í gamla og nýja testamentinu.

Þegar í byrjun fyrstu Mósebókar finnum við loforð Guðs um mey sem mun bera barn, og að barn þetta muni merja höfuð höggormsins, færa spillta náttúru mannsins í lag, sigrast á dauðanum og eyða valdi Satans gagnvart okkur (1 Mós 3:15).

Í lok sömu bókar kennir spámaðurinn Móses okkur að segja: „Þinni hjálp treysti ég, Drottinn!“ (1 Mós 49:18). Síðar prédikar spámaðurinn Jesaja: „Sjá, hjálpræði þitt kemur“ (Jes 62:11).

Þegar Símeon gamli sá Jesúbarnið í musterinu, söng hann Guði lof og sagði: „augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael“ (Lúk 2:30-32). Jóhannes skírari var sendur til að greiða veg Drottins og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning syndanna (Lúk 1:77). Postulinn Pétur prédikaði varðandi Krist, að „honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna.“ (Post 10:43). Abraham var réttlættur fyrir trú sína, rétt eins og við. Allir sem trúa teljast því afkomendur hans (Róm 4:9-12). Jesaja kennir okkur enn fremur það að „allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir Drottin og miklast af honum.“

Jesús er Drottinn (Jahve) og við réttlætumst í honum, þ.e. hann lýsir okkur réttlát. Jesús er réttlæti okkar, eins og spámaðurinn Jeremía kennir okkur. Hann mun kallaður verða „Drottinn er vort réttlæti!“ (Jer 23:6)

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr ensku. Höfundur er Sr. Brian L. Kachelmeier, prestur í Redeemer Evangelical Lutheran Church í Los Alamos, NM.