Skip to content

Getur maður fyrirgefið syndir?

Greinin hér að neðan er skrifuð á ensku fyrir jelk.is og þýdd á íslensku. Upplýsingar um höfundinn er að finna neðan við greinina.

Í kirkjunni þar sem ég þjóna hefst guðsþjónustan venjulega með því að við játum syndir okkar. (Við bjóðum reyndar líka uppá einkaskriftir, þar sem einstaklingur í einrúmi með prestinum, játar þær syndir sem angra hann. Hvort sem þú þekkir hið fyrra, síðara eða hvorugt, þá á eftirfarandi við um hvort tveggja.) Venjulega er gefin stutt þögn til að gefa hverjum og einum rúm til að íhuga þær syndir sem angra hann sérstaklega. Við förum líka saman með almenna syndajátningu:

Ath, texti syndajátningarinnar og syndaaflausnarinnar hér að neðan er þýðing úr ensku. Í helgisiðum jelk sem finna má hér á síðunni, er orðalagið nokkuð frábrugðið.

Ég, aumur syndari, játa fyrir þér allar syndir mínar og misgjörðir, sem ég hef nokkru sinni drýgt gegn þér og þar með verðskuldað tímanlega og eilífa refsingu þína. En ég hryggist yfir syndum mínum og iðrast þeirra af einlægni,
og ég bið þig um þína takmarkalausu náð. Ennfremur bið ég þig, sakir heilagrar, saklausrar og biturrar þjáningar og dauða elskulegs Sonar þíns, Jesú Krists, að vera mér, aumum syndara, náðugur og miskunnsamur.

I, a poor, miserable sinner, confess unto You all my sins and iniquities with which I have ever offended You and justly deserved Your temporal and eternal punishment. But I am heartily sorry for them and sincerely repent of them, and I pray You of Your boundless mercy and for the sake of the holy, innocent, bitter sufferings and death of Your beloved Son, Jesus Christ, to be gracious and merciful to me, a poor, sinful being.

Einnig presturinn játar þessi orð eins og allir aðrir, því einnig hann er syndugur. Að játningunni lokinni snýr presturinn sér að söfnuðinum og segir:

Eftir þessari játningu ykkar, og í krafti embættis míns sem kallaður og vígður þjónn Orðsins, boða ég ykkur öllum náð Guðs. Samkvæmt skipun Drottins Jesú Krists, og í umboði hans,
fyrirgef ég þér allar syndir þínar í nafni Guðs Föður, Sonar og Heilags Anda.

Upon this your confession, I, by virtue
of my office, as a called and ordained
servant of the Word, announce the
grace of God unto all of you, and in
the stead and by the command of my
Lord Jesus Christ I forgive you all
your sins in the name of the Father and
of the
T Son and of the Holy Spirit.

Getur presturinn fyrirgefið syndir?

Í Bandaríkjunum, þar sem ég bý, og þar sem er fjöldi mismunandi kirkjudeilda, er óalgengt að hefja guðsþjónustur með þessu móti. Það er að mörgu leyti sérstakt fyrir lúterskar kirkjur. Þess vegna er ekki óalgengt að gestum, sem eru kannski að sækja lúterska kirkju í fyrsta skipti, bregðis við með undrun, og hneykslist jafnvel yfir orðum prestsins. Þeir hugsa: „Hver heldur hann eiginlega að hann sé? Guð einn getur fyrirgefið syndir.“

Þótt það hafi ekki komið fyrir mig persónulega, þekki ég presta sem jafnvel hafa séð gesti standa upp og ganga út þegar þeir heyra þessi orð. Hvernig eigum við að bregðast við því? Getur maðurinn fyrirgefið syndir? Er það ekki einmitt rétt að Guð einn fyrirgefur syndir?

Þegar einhver spyr mig að þessu eftir messu er ég vanur að hafa svolítið gaman af og svara: „AMEN! Svo sannarlega! Guð einn getur fyrirgefið syndir?“ Þetta vekur oft undrun, því þeir sem spyrja eiga gjarna von á því að ég fari strax í vörn og færi rök fyrir heilögu valdi mínu til að fyrirgefa syndir.

Þar á eftir, með meiri alvöru, bendi ég þeim aftur á orðin sem ég talaði. Ég sagði ekki: „Í krafti þess hversu magnaður, ótrúlegur og heilagur maður ég er, fyrirgef ég allar syndir þínar, einmitt vegna þess að ég er svo ótrúlega dásamlegur.“ Nei, fyrirgefningin sem ég boða er er ekki mín eigin. Ég er í raun og veru ekki að fyrirgefa neinum syndir, heldur er það Jesús sem fyrirgefur.

Misskilið embætti

Það getur verið erfitt fyrir okkur að skilja þetta fyrirkomulag, sérstaklega í ljósi þess að kirkjan á Vesturlöndum hefur misst mikið af skilningi sínum á prestembættinu. Að hluta stafar það sennilega af því að mótmælendakirkjur hafa viljað forðast villur hinnar Rómversk-Kaþólsku. Í henni er kennt að þegar prestur er vígður, er honum gefið það sem kalla mætti „óafmáanlegt eðli“ (lat. character indelebilis). Við vígsluna breytist eitthvað innra með prestinum, sem gerir það að verkum að hann getur fyrirgefið syndir, skírt og framkvæmt önnur sakramenti. Til að leiðrétta vandamálin við svoleiðis kenningu hafa sumar mótmælendakirkjur skilgreint prestinn eitthvað á þessa leið: Hann er ósköp venjulegur náungi sem kirkjan borgar til að hugsa dýpra um hlutina og koma hugsunum sínum og pælingum á framfæri á vikulegum sunnudagsfundi safnaðarins. Þar getur maður ákveðið hvort að maður sé sammála honum eða ekki. Hið fyrrnefnda gerir prestinn að ofurmanni, nokkurskonar guði meðal manna. Hið síðarnefnda gerir hann hér um bil að tannlausum og geldum ketti, sem er mjúkur og algerlega hættulaus.

Það er alltaf auðvelt að fara út í öfgar, en miklu erfiðara að ganga meðalveginn. Ég tel þó að það sé einmitt það sem lúterska kenningin um prestembættið gerir. Hún fer hinn biblíulega farveg milli öfganna.

Embætti lögregluþjóns til samanburðar

Ímyndaðu þér mjög ölvaðan mann—við getum kallað hann Halldór—sem sest undir stýri og sikksakkar milli bíla á 120 km hraða í þéttbýli. Hann er að lokum stöðvaður af lögregluþjóni, sem reynist vera æskuvinur hans, Jói. Í mörg ár höfðu þeir gengið saman heim eftir skóla, lært saman og spilað tölvuleiki í stofunni. En ný skipar Jói Halldóri að fara út úr bílnum, handtekur hann og kemur honum fyrir í fangageymslu, með þeim rökum að hann er hættulegur almenningi. Halldór hrópar allan tímann: „Hver þykist þú eiginlega vera, Jói? Þú varst alltaf of mikill með þig! Hvaða vald hefur þú til að handtaka mig?“

Vondandi skiljum við vandamálið við rök Halldórs. Hann heldur því fram að Jói sé bara venjulegur náungi, félagi hans og vinur, sem er á einhverju egó-trippi og þykist vera fullur af valdi. Það er auðvitað rétt að hann sé bara venjulegur maður, en hann er venjulegur maður sem gegnir embætti lögreglumanns. Hann handtók hvork vin sinn af eigin valdi né sem einstaklingur, heldur sem embættismaður sem falið er að framfylgja lögum fyrir hönd ríkisvaldsins.

Það er ákveðin hliðstæða þegar prestur lýsir yfir fyrirgefningu syndanna. Presturinn hefur enga sérstaka krafta. Það er ekki hann sem fyrirgefur syndir, heldur er það Kristur sjálfur sem talar gegnum embættismann sinn. Presturinn, sem að sama skapi er aumur syndari alveg eins og þú, gegnir einfaldlega embætti sínu og býður syndugum karlmönnum og konum fyrirgefningu syndanna samkvæmt skipun Krists.

Hvað segir Biblían um þetta?

Nú gætir maður spurt hvort þetta sé nokkuð meira en falleg hefð. Svarið við því er m.a. að finna í Jóhannesarguðspjalli 20:19–23. Þessi ritningarlestur kemur fólki oft á óvart, allavega ef það hefur ekki hugsað mikið um þetta efni. Engu að síður er þessi ritningarlestur grundvöllur kenningarinnar.

19Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“  20Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.  21Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“  22Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda.  23Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.“

Jóh 20:19–23

Hér sjáum við Jesú senda út postulana, fyrstu prestana og handhafa prestsembættisins, til að fyrirgefa syndir. Þetta hefur verið viðvarandi hlutverk presta síðan.

Í Ágsborgarjátningunni, sem er grundvallarjátning lútersku kirkjunnar í Samlyndisbókinni, segir eftirfarandi varðandi skriftir:

mönnum [er] kennt að bera virðingu fyrir aflausninni, þar eð hún sé raust Guðs og flutt að boði Guðs.

Ágsborgarjátning 25. grein, 3. mgr

Ekki skipun, heldur gjöf

Nú þarf ég að taka sérstaklega fram hvað ég er ekki að segja. Ég er nefnilega ekki að segja að það það sé nauðsynlegt að taka við fyrirgefningu Krists frá presti. Til dæmis, ef þú býrð í afskekktum hluta landsins þar sem enginn prestur er til staðar, þýðir það ekki að þú sért útilokaður frá fyrirgefningu synda eða hjálpræðinu. Maður getur líka vel játað syndir sínar í einrúmi fyrir Guði.

Ein leiðin sem gjafir Guðs, eins og brauðsbrotning, skírn og syndaaflausnin, misskiljast og rangtúlakast, er þegar við breytum þeim í skipanir og lög sem skylt er að fylgja. Syndaaflausnin er hvorki skipun né lögmál, heldur er hún gjöf. Með öðrum orðum er hún hið hreina fagnaðarerindi. Tilgangurinn með skriftum er ekki að þvinga þig til að játa syndir fyrir presti og taka við fyrirgefningu Krists frá honum, ella verið steypt í glötun. Tilgangurinn er að veita þeim, sem bugaðir eru af syndum sínum, hughreystingu og trúarvissu.

Þegar óvinurinn kemur með efasemdir

Sá sem syndgar má biðja Guð um fyrirgefningu og honum verður sannarlega fyrirgefið. Vandamálið er þegar við erum óhlutbundin og skilgreinum hlutina sjálf. Það er einmitt á því sviði sem óvinurinn freistar okkar, og þar vill hann halda okkur föstum. Hann hvíslar að hinum kristna: „Hefur Guð virkilega fyrirgefið þér? Ertu viss um að þú hafir verið nógu einlæg(ur)? Ertu viss um að trú þín sé nógu sterk? Ertu viss um að Guð hafi verið að hlusta?“

Óvinurinn er iðinn við að pína okkur með alls konar efasemdum, og hann elskar það alveg sérstaklega þegar hlutirnir eru óskligreinanlegir. Þá getur hann valdið sem mestum skaða. Ákveðnar syndir angra okkur meira en aðrar, og byrja að brjóta okkur niður. Það er einmitt þá sem syndaaflausnin getur gefið okkur svo mikla huggun og hugarró. Hún knýr okkur til að huga að því sem er hlutbundið og vel skilgreint, nefnilega að krossi Krists. Í syndaaflausninni eru syndir okkar lagðar fram fyrir Jesú, og hann talar. Röddin er kannski rödd prestsins, en það er Jesús sem í raun og veru talar. Hann miðar beint á þær syndir sem angra þig og kvelja, og fyrirgefur þér með mikilli nákvæmni. Þannig að þegar óvinurinn kemur með lygar sínar, getur þú svarað með hlutbundinni vissu: „Þegi þú óvinur, Jesús hefur boðið mér aflausn þessarar syndar, og Jesús lýgur ekki.“

Getur maður fyrirgefið syndir? Nei, því fer fjarri. Guð einn fyrirgefur syndir. Hins vegar, þegar prestur boðar þér syndaaflausnina, er það ekki presturinn sem fyrirgefur þér, heldur er það Jesús sjálfur. Það er Jesús sem fyrirgefur syndir okkar, jafnvel þegar hann notar auman syndara eins og þig til að boða það og lýsa því yfir.

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr ensku. Höfundur er Sr. Justin Clark, aðstoðarprestur í Christ Lutheran Church, Murray, Utah. Justin er upprunalega frá Parrsboro í Nova Scotia, en stundaði pestnám við Concordia Theological Seminary í Indiana. Justin er giftur Joy og þau eiga fjögur börn. Justin hefur verið stuðningsmaður JELK frá upphafi, og var gestur við sumarráðstefnu okkar 2023.