Skip to content

Þátturinn er á dagskrá Lindarinnar þriðjudaginn 7. mars kl 9:00, og er endurfluttur fimmtudag kl 13:00 og laugardag kl 16:00. Þegar þátturinn kemur í app lindarinnar, kemur hér einnig tengill í upptökuna.

Upphaf þáttar

Sunnudagurinn kemur er annar sunnudagur föstutímans og kirkjur landsins verða skreyttar með fjólubláum því til merkis.

Við ætlum að lesa ritningarlestrana og tala aðeins um það samhengi sem þeir standa í.

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna í fyrstu Mósebók, sem inniheldur annars vegar frumsögu heimsins í fyrsta til ellefta kafla, og sögu fjögurra kynslóða af forfeðrum ísraelsþjóðar, í þeim 39 köflum sem eftir eru. Abraham og Sara eru fyrsta kynslóðin og að boði Guðs setjast þau að á landssvæðinu sem í dag heitir Ísrael, en á þeim tíma Kanaansland, og við komuma aftur að því í guðspjallinu. Abraham og Sara eignast soninn Ísak sem kvænist Rebekku. Þeirra synir eru Esaú og Jakob, fylgir sagan yngri bróðurnum, Jakobi. Það kemur upp mikið ósætti meðal bræðranna eftir að Jakob tekst að eigna sér óðalsréttinn, sem og blessun Abrahms, sem fylgdi ættinni. Það er að segja sama loforð og við töluðum um í síðustu viku: Úr ætt Jakobs mun koma afkomandi konunnar, sem merja mun höfðu höggormsins, og þannig verða öllum þjóðum heims til blessunar.

Esaú leggur mikið hatur á bróður sinn og leggur jafnvel á ráðin um að drepa hann.

Þetta verður til þess að Jakob flytur úr landi og sest um tíma að hjá frænda sínum Labani. Þar býr hann í fjölda ára og eignast bæði stóra fjölskyldu og mikinn auð. Hann eignast tólf syni með fjórum konum, og verða þessir synir síðar að tólf megin ættum eða ættkvíslum Ísraelsþjóðar. Reyndar kemur nafnið Ísraelsþjóð einmitt frá Jakobi, sem síðar er kallaður Ísrael, eins og kemur fram í ritningarlestrinum. Ísraelsþjóð er þá nafn yfir afkomendur Ísrael, eða Jakobs.

Það kemur svo loks að því að Jakob heldur aftur til ættaróðalsins, og kvíðir því skiljanlega að mæta bróður sínum aftur. Ekki batnar það þegar hann er farinn að nálgast, og fréttir þá af því að Esaú er á leiðinni til að mæta honum með 400 manna lið.

Jakob fellur þá á kné og biðst fyrir. Hann biður Guð um að minnast fyrirheita sinna og frelsa sig undan heift bróður síns. Hann ákveður svo að reyna að blíðka Esaú með því að senda miklar gjafir á undan sér. Hann sendir sendimenn af stað, hvern á fætur öðrum, með hjarðir af alls konar búpeningi, og vonar að þeta muni blíðka Esaú. Sjálfur heldur hann kyrru fyrir fram á nótt.

Fyrri sólarupprás heldur hann svo áfram með fjölskyldu sína. Þau koma að lítilli á, sem heitir Jabbok. Um leið og allir eru komnir yfir á vaðinu stendur Jakob einn eftir á norðurbakkanum, og þar birtist honum skyndilega maður, sem tekur að glíma við hann.

Við skulum lesa frásögnina af því, sem er fyrri ritningarlesturinn. Fyrsta Mósebók, kafli 32, vers 24-30, og hljómar svo:

24 Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. 25 Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. 26 Þá mælti hinn: „Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún.“ En hann svaraði: „Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig.“ 27 Þá sagði hann við hann: „Hvað heitir þú?“ Hann svaraði: „Jakob.“ 28 Þá mælti hann: „Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur.“ 29 Og Jakob spurði hann og mælti: „Seg mér heiti þitt.“ En hann svaraði: „Hvers vegna spyr þú mig að heiti?“ Og hann blessaði hann þar. 30 Og Jakob nefndi þennan stað Peníel, „því að ég hefi,“ kvað hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“

1 Mós 32:24-30

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Þessi atburður ber nafnið Jakobsglíman. Til að byrja með hefur Jakob sennilega haldið að þarna væri kominn bróðir hans Esaú, eða jafnvel einhver staðgengill hans. Brátt kemur þó í ljós að svo er alls ekki. En hver er þessi maður þá? Rétt eins og Jakob glímdi við þennan mann, hafa margir glímt við þá spurningu. Atburðurinn er nefndur í spádómsbók Hósea, og þá bæði sagt að Jakob hafi glímt við Guð og að hann hafi glímt við engil.

Í ritningarlestrinum eru gefin tvö nöfn, og gefa bæði okkur ákveðna vísbendingu. Það eru nöfnin Ísrael og Peníel. Það er þessi dularfulli maður sem gefur Jakobi nafnið Ísrael, og segir: “þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur.” Síðan veitir hann Jakobi blessun sína, en vill þó ekki segja til nafns. Engu að síður hefur Jakob gert sér grein fyrir því hver hann var, því hann nefnir staðinn Peníel. Því þar hafði hann “séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.”

Það getur ekki þýtt neitt annað en það að þegar Jakob glímdi við þennan mann, sá hann Guð og glímdi við hann. Hvernig má það vera? Það eru margir staðir í Ritningunni sem halda því fram að enginn geti séð Guð og haldið lífi. Augljóst er að Jakob er meðvitaður um það. Hvernig má það þá vera, og hver er þá þessi maður? Svarið er að finna í Jóhannesarguðspjalli, kafla 14, versi 9. Þar segir Kristur: “Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.”

Kristur er einmitt Sonur Guðs, klæddur holdi og blóði sem maðurinn Jesús frá Nasaret. Jakobsglíman á sér stað áður en Jesús fæðist, og því ekki hægt að tala um Krist í þessari frásögn. Sonur Guðs er hinsvegar elífur, og einnig til staðar í gamla testamentinu. Ekki síst hér. Við drögum þá ályktun að hér hafi sjálfur sonur Guðs birst Jakobi og blessað hann, í líkingu manns eða engils. Hann veitti Jakobi ákveðna mótstöðu, en með því markmiði að blessa hann.

Annar hluti

Rétt fyrir hlé lásum við textann um Jakobsglímuna í Fyrstu mósebók, kafla 32. Sjálfur sonur Guðs birtist Jakobi í líkingu manns eða engils, á tíma mikillar örvæningar. En í stað þess að hughreysta hann strax, tók hann að glíma við Jakob. Jakob þurfti nú að beina athygli sinni, ekki að yfirvofandi hættu, heldur til þess sem meira máli skipti, nefnilega til Guðs.

Og Guð leyfir honum að vissu leyti að vinna sigur yfir sér, og krefjast þeirrar blessunar, sem Guð hafði þegar ítrekað lofað honum.

Að svo búnu hvarf maðurinn á brott. Jakob leit upp og sá bróður sinn Esaú koma á móti sér. Það kom þá í ljós að Guð hafði blessað Easú líka. Honum var runnin reiðin, og var hann himinlifandi yfir að sjá bróður sinn aftur eftir svona mörg ár.

Við skulum þá vinda okkur í síðari ritningarlesturinn, þar sem glíman við Guð fær merkingu sem er ekki eins bókstafleg. Lesturinn kemur úr Jakobsbréfi, sem samkvæmt hefð frumkirkjunnar er ritað af bróður Jesú, stuttu eftir fystu ofsóknir Rómarveldis gegn kristnum mönnum. Bréfið er þekkt fyrir að leggja sérstaka áherslu á að trúin á Krist einkennist af góðum verkum, og má segja að sú áhersla gegnumsýri allt bréfið.

Í lokin kemur svo stuttur kafli um það að þreyja og biðja á erfiðum tímum. Og við gætum bætt við: Rétt eins og Jakob baðst fyrir og glímdi við Guð í fyrri ritningarlestrinum. Hér er glíman andleg, og felst í bæn og guðsþjónustu.

Síðari ritningarlestur er að finna í Jakobs bréfi, kafla 5, versum 13-16, og hljómar þannig:

13 Líði nokkrum illa yðar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng. 14 Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum. 15 Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar. 16 Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.

Jakob 5:13-16

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Hér er augljóslega af nógu að taka, en við skulum sérstaklega taka eftir því sem við getum tengt við fyrri ritningarlesturinn, þ.e.a.s við glímuna við Guð.

Í fyrsta lagi er það alltaf rétt viðbragð, sama hverjar aðstæðurnar eru, að snúa sér til Guðs í bæn og til guðsþjónustu. Hvor sem það liggur vel á manni eða illa, hvort sem maður er heilbrigður eða veikur, þá er alltaf rétt að snúa sér til Guðs. Og stundum þarf Guð að veita okkur mótlæti og glíma við okkur, til þess að við sjáum að okkar fremsta þörf er hjá honum. Þegar við virkilega leitum svara, þegar við biðjum um að geta séð hann í erfiðleikum okkar, mótlæti og veikindum, þá erum við einmitt að glíma við hann.

Í þessarri glímu er okkur sýnt að Guð er eini andstæðingurinn sem raunverulega skiptir einhverju máli. Ef hann raunverulega er andstæðingur okkar, þá stoðar það ekki efi við gætum sigrast á öllum öðrum andstæðingum. Þá þufum við á blessun hans að halda framar öllu öðru. Ef hann hinsvegar, raunverulega er með okkur, þá skipta allir aðrir andstæðingar að lokum engu máli.

Þetta kemur fram með sérstökum hætti þegar glíma okkar felst í sjúkdómum, og við biðjum Guð um að lækna okkur. Því enginn líkamlegur eða andlegur sjúkdómur er nokkuð annað en einkenni á sjúkdóminum sem undir liggur, og það er syndin sem býr í okkur öllum. Við henni er einungis ein lækning, og það er fyrirgefningin. Ef við læknumst líkamlega eða andlega, en fáum ekki fyrirgefningu syndanna, þá er lækningin bara tímabundin. Ef við hinsvegar fáum fyrirgefningu syndanna, munum við líka hljóta líkamlega og andlega lækningu sem verður endanleg. Jafnvel þótt það geti dregist, og birtist okkur kannski ekki fyrr en í upprisunni.

Guðspjall

Þema textanna þennan sunnudag er trúarbarátta eða glíman við Guð, og það á líka við um guðspjallið, sem er að finna í Matteusarguðspjalli, kafla 15, versum 21-28.

Matteusarguðspjalli, rétt eins og Markúsi og Lúkasi, má gróft séð skipta eftir miðju í tvo megin hluta. Þá má segja að fyrri hluti glími við spurninguna “Hver er þessi Jesús?” og síðari hluti við spurninguna “Til hvers er hann kominn?” Guðspjallið kemur í lok fyrri hlutans, og lýsir óvæntri trú heiðinnar konu. Hún hafði skilið það sem margir aðrir skildu ekki: Jesús var eina von hennar, og sá skilningur hennar knýr hana til þess að glíma við Son guðs, þó með svolítið öðrum hætti en Jakob forfaðir ísraelsmanna.

Guðspjall þessa annars sunnudags í föstutímanum er að finna í Matteusarguðspjalli, kafla 15, versum 21-28.

21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. 22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ 23 En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum.“ 24 Hann mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“ 25 Konan kom, laut honum og sagði: „Herra, hjálpa þú mér!“ 26 Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ 27 Hún sagði: „Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ 28 Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Matt 15:21-28

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Þegar frásögnin byrjar er Jesús staddur, einhverstaðar suð-vestan við bæinn Kapernaum við Galíleuvatn. Hann ferðast svo vestur og norður, og yfri í landsvæði heiðingjanna. Þar er þessi kanverska kona sem fréttir af honum. Hún er sem sagt af ætt Kanaaníta, sem voru meðal upprunalegra erkióvina ísraelsþjóðar. Þessi kona hróðar til Jesú og biður hann um að hjálpa sér.

Takið eftir orðunum sem hún notar: Miskunna þú mér, Herra (eða “Drottinn” í Biblíu 21. aldar), Sonur Davíðs. Þetta eru þau sömu orð sem síðar hafa ratað í minskunnarbænina í guðsþjónustunni: Drottinn miskunna þú oss, eða á grísku, ein og orðin eru stundum sungin: Kyrie eleison. Þetta er í fyrsta lagi bæn um miskunsemi og hjálp Guðs í erfiðum aðstæðum. Að auki er miskunnarbænin játning þess efnis að Jesús er Drottinn. Sú játning er ennþá greinilegri í orðum kanversku konunnar: Miskunna þú mér, Herra, Drottinn, Sonur Davíðs.

Hún veit hver Jesús er og biður hann að hjálpa sér í þeim erfiðu aðstæðum sem hún er í. Þær aðstæður eru að dóttir hennar er kvalin af illum anda.

Viðbrögð Jesú koma okkur aldeilis að óvart. Fyrst lætur Jesús eins og ekkert sé, og ansar henni alls ekki, þótt svo að hann hafi reyndar heyrt vel í henni.

Konan lætur ekki bjóða sér það, og rétt eins og Jakob, sleppir hún honum ekki nema að hann blessi hana. Hún þarf hinsvegar að glíma við hinn þögla Guð, sem lætur eins og að hann sjái hana ekki. En hún heldur ótrauð áfram, og hrópar til hans: Kyrie eleison.

Að lokum, þegar lærisveinarnir fara að nöldra og kvarta undan henni, svara hann henni loksins. En í stað þess að gera það sem við búðumst við, sýnist okkur nú að hann ætli að afneita henni algerlega. Fyrst ítrekar hann að hann er einungis sendur til týndra sauða af ísraels ætt, en hún er kanversk. Hún er hluti af óvinaþjóðinni.

Hún gefst samt ekki upp: Hjálpaðu mér!

Þá auðmýkir og móðgar Jesú hana næst, og líkir henni við heimilishund. Það væri nú ekki í lagi að taka matinn frá börnunum í húsinu og gefa hann hundunum.

Samt gefst hún ekki upp: Nei, rétt er það, en hundarnir meiga nú samt éga molana sem detta niður af borðinu. Má ég ekki líka fá nokkra mola?

Kanverska konan sleppti honum ekki nema að hann blessaði hana. Rétt eins og Sonur Guðs blessaði Jakob við Jabboksá, hlaut þessi kona að lokum líka blessun hans. En rétt eins og Jakob, þurfti hún að gíma við hann fyrst. Og það sem gerði það að hún gafst ekki upp, var trú hennar á Jesú. Játningin sem hún kom með í upphafi var ekki smjaður eða tilraun til að stjórna Jesú með hræsniskenndu lofi. Játningin var byggð á raunverulegri trú.

Að sama skapi getum einnig við þurft að glíma við Guð þegar við biðjum til hans. Stundum líður okkur eins og bænir okkar nái ekki lengra en til veggjana í herberginu þar sem við erum. Stundum líður okkur eins og að Guð hunsi okkur og vilji ekki hlusta á bænir okkar, og kannski spyrjum við okkur hvort að eitthvað geti verið fyrir, eins og ef við værum einnig af ætt Kanaaníta. Og stundum virðist Jesús svara okkur eins og hann svaraði kanversku konunni. En í því felst einmitt glíman við Guð, og við getum ekki annað gert en að treysta loforði Guðs, eins og rétt eins og Jakob minntist á þegar hann baðst fyrir um nóttina. Jesús hefur lofað okkur því að hann heyri allar bænir okkar, einnig á meðan glímunni stendur.

Þáttarlok

Og með þeim orðum þakka ég ykkur fyrir samfylgdina í dag og vona að þátturinn verði ykkur til gagns og uppbyggingar, og ekki síst góður undirbúningur fyrir messu á sunnudag. Verið þið sæl.

Exported from Logos Bible Software, 4:09 PM March 7, 2022.