Skip to content

Þátturinn er á dagskrá Lindarinnar þriðjudaginn 26. apríl kl 9:00, og er endurfluttur fimmtudag kl 13:00 og laugardag kl 16:00. Þegar þátturinn kemur í app lindarinnar, kemur hér einnig tengill í upptökuna.

Sunnudagurinn kemur er kallaður annar sunnudagur eftir páska, og einnig annar sunnudagur páskatímans. Í kirkjunni eru páskar ekki bara hátíð páskadags, heldur einnig tíminn milli páskadags og hvítasunnu. Alla þessa daga verða kirkjur landsins skreyttar með hvítum eða gylltum.

Við ætlum að lesa ritningarlestrana fyrir næstkomandi sunnudag og tala aðeins um það samhengi sem þeir standa í.

Þema sunnudagsins kemur er Góði hirðirinn, og kemur hirðislíkingin fyrir í öllum textunum.

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna hjá spámanninum Esekíel, 34. kafla. Spámaðurinn var uppi á sama tíma og spámaðurinn Daníel. Hann var einn af þeim sem herleiddir voru til Babylon í hinn i svokölluðu fyrstu herleðingu og hefur því ekki orðið vitni af eyðileggingu musterisins og Jerúsalemborar, fyrir hendi Nebúkadnesers konungs. Hann frétti þó af því þegar það gerðist, af flóttamanni sem kom með tíðindin. Esekíel var af prestsætt, en þegar hann var kominn með aldur til að sinna prestsþjónustunni var var hann þegar kominn í útlegð, og hafði því ekki möguleika á að koma í musterið. Esekíel fékk þó köllun til þjónustu spámanns.

Bókin er mjög skipulega sett saman, og má greina þrjá megin hluta. Fyrsti hluti bókarinnar, fyrstu 24 kaflarnir, innihalda dómsorð gagvart Júda og Jerúsalem, og segir spámaðurinn meðal annars frá vitrun um það að dýrð Drottins yfirgaf musterið í Jerúsalem, og sjálfa ísraels þjóð og opnaði Nebúkadneser þannig leið. Dómsorðin ítreka það aftur og aftur hvers vegna allt þetta átti sér stað.

Annar hluti bóarinnar, eru kaflar 25-32. Hér er að finna sérstök dómsorð til þjóðanna í kringum Ísrael fyrir skurðgoðadýrkun og fjandskap þeirra til ísraelsþjóðar. Þó eru, eins og í tilviki ísraelsþjóðar, örlög þeirra hörmuð, og þeim jafnvel boðuð ákveðin von.

Síðasti hlutinn eru kaflar 33 til 48, og tala þeir um endurreisn þjóðarinnar, musterisins og endurkomu dýrðar Drottins. Lýsingin á þessu musteri er mjög stórfengleg, og er augljóst að endurreisn musterisins eftir útlegð ísraelsmanna er langt frá því að uppfylla hana. Opinberunarbók Jóhannesar er sú bók sem mest vitnar í Esekiel af bókum nýjatestamentisins, og tengir hún uppfyllingu spádómsins við endurkomu Krists, og endurnýjun himins og jarðar. Jóhannes skrifar þannig um hina eilífu Jerúsalemborg, í kafla 22 versi 21: “Og musteri sá ég ekki í henni, því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið.”

34. kafli, sem ritningarlesturinn kemur úr hefst á ádeilu á hirðum ísraelsþjóðar. Hirðar hennar var fyst og fremst konungur hennar, en einnig prestar, spámenn, dómarar og aðrir leiðtogar. Í stað þess að hirða um sauðina, þ.e.a.s. um ísraelsþjóð, hafa þeir verið spilltir, nýtt sér þjóðina til eigin hagnaðar og leyft spillingu, saurlífi og skurðgoðadýrkun að viðgangast. Drottinn mun láta þessa hirða í burtu fara. En þá er spurningin: Hver kemur í staðinn? Verður spilltum hirðum skipt út fyrir aðra hirða sem fyrr eða síðar sýna það að þeir eru alveg jafn spilltir? Ritningarlesturinn svarar.

Við lesum þá fyrri ritningarlesturinn hjá spámanninum Esekíel, 34. kafla, versum 11-16, og síðan versi 31.

11 Svo segir Drottinn Guð: Hér er ég sjálfur og mun leita sauða minna og annast þá. 12 Eins og hirðir annast hjörð sína þann dag, sem hann er á meðal hinna tvístruðu sauða sinna, þannig mun ég annast sauði mína og heimta þá úr öllum þeim stöðum, þangað sem þeir hröktust í þokunni og dimmviðrinu. 13 Og ég mun sækja þá til þjóðanna og saman safna þeim úr löndunum og leiða þá inn í land þeirra og halda þeim til haga á Ísraels fjöllum, í dölunum og á öllum byggðum bólum í landinu. 14 Ég mun halda þeim í góðu haglendi, og beitiland þeirra mun vera á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir liggja í góðu beitilandi og ganga í feitu haglendi á Ísraels fjöllum. 15 Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga og sjálfur bæla þá, segir Drottinn Guð. 16 Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika, en varðveita hið feita og sterka. Ég mun halda þeim til haga, eins og vera ber.

31 En þér eruð mínir sauðir. Mín gæsluhjörð eruð þér. Ég er yðar Guð, – segir Drottinn Guð.“

Esek 34:11-16, 31

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Drottinn mun sjálfur vera hirðir hjarðar sinnar, þjóðar sinnar Ísrael. Því miður eru vers 23 og 24 ekki hluti af ritningarlestrinum sjálfum, en þar bætist við að Drottinn mun skipa yfir þjóðina einkahirði, sem er þjónn hans Davíð, og er það nafn sérstaklega tengt hugsuninni um þann Messías sem koma átti.

Við skiljum þetta því þannig að hér er um að ræða spádóm um komu Krists. Hann mun koma til að leita að hinu týnda og frelsa það, eins og segir í Luk 19:10. Hann mun safna hjörð sinni, þ.e. lýð sínum og þjóð sinni í fjallhaga eilífðar.

En hvað kemur þetta okkur við? Ekki erum við íslendingar Ísraelsþjóð er það? Þessu svarar síðari ritningarlesturinn úr Fyrra Pétursbréfi, kafla 2, sem við lesum eftir örstutt hlé.

Síðari ritningarlestur

Komið þið sæl aftur. Þetta er þátturinn undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson, og við erum að fara yfir ritningarlestra og guðspjall næstkomandi sunnudags. Fyrir hlé lásum við um góða hirðinn í spádómsbók Esekíel, kafla 34. Þessi hirðir mun safna tvístruðum lýð sínum, Ísraelsþjóð að eilífu. En hvað kemur það okkur íslendingum við? Síðari ritningarlesturinn talar einmitt um þetta.

Fyrra Pétursbréf er skrifað af postulaunum Pétri með aðstoð Silvanusar (1 Pet 5:12) og ber að mörgu leyti þess merki að vera niðurskrifuð ræða, sem getur hafa verið haldin við skírn á páskadegi.

Fyrsti kafli bendir á að það er Drottinn sjálfur sem endurfæðir okkur fyrir orð sitt. Endurfæðingin hefur svo mjög ákveðnar afleiðingar. Við erum orðin börn Guðs og orðin hluti af hans lýð. Vers 9 í 2. kafla talar með sömu orðum til hinna endurfæddu heiðingja, og Drottinn talaði til Ísraelsþjóðar þegar hann gaf þeim sáttmálann í 2. Mósebók 19:5-6. Að þessi sömu orð eigi nú einnig við heiðingjana sýnir vers 10. Ég les því vers 9 og 10 í öðrum kafla fyrra pétursbréfs:

9 En þér eruð „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. 10 Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir „Guðs lýður“. Þér, sem „ekki nutuð miskunnar“, hafið nú „miskunn hlotið“.

1 Pét 2:9-10

Þeir sem ekki einu sinni gátu kallast lýður, þ.e. heiðingjar úr ýmsum áttum, kallast nú hluti af eignarlýð Guðs. Þar með kallast þeir áfram til að hegða sér þessu samkvæmt.

Við höldu svo áfram og lesum ritningarlesturinn, nokkrum versum síðar í kaflanum, og höfum í huga að hann er skrifaður til þeirra sem þegið hafa endurfæðingu, og eru með því orðnir hluti af lýð Drottins.

Ritningarlesturinn úr fyrra Pétursbréfi, öðrum kafla, versum 21-25 hljómar svo:

21 Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. 22 „Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.“ 23 Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir. 24 Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir. 25 Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir og biskup sálna yðar.

1 Pet 2:21-25

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Síðasta versið, sækir líkinguna um villuráfandi sauði, eða sauði án hirðis sem lætur sér annt um þá, eins og við töluðum um í fyrri ritningarlestrinum. Og rétt eins og í þeim texta, er hér talað um hinn sanna og raunverulega hirði, sem er Drottinn sjálfur, Messías. Hann er hirðir og biskup, það er að segja umsjónar og eftirlitsmaður, sálna þeirra. Með sömu orðum og talað var um ísraelsþjóð í fyrri ritningarlestrinum er talað um allan lýð Drottins í þessum orðum.

Þar af leiðandi voru orðin í Esekíel aldrei ætluð ísreelsmönnum einum. Það var bara fyrsti partur uppfyllingar þeirra, en í víðari skilningi var allaf átt við allan lýð Guðs. Þetta er hugsun sem við finnum víðsvear í Nýja testamentinu.

Við getum til dæmis vísað í annan kafla Efesusbréfs, og lesið vers 12 og 13.

12 Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum. 13 Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans.

Efes 2:12-13

Ennfremur lesum við niðurstöðu postulans Páls í þriðja kafla Galatabréfsins, eftir að hafa vísað endurtekið í Gamla testamentið. hann ritar í 14. versi:

14 Þannig skyldi heiðingjunum hlotnast blessun Abrahams í Kristi Jesú, og vér öðlast fyrir trúna andann, sem fyrirheitið var.

Gal 3:14

Sumir hafa haldið því fram að verk Krists og tilkoma kirkjunnar hafi verið nokkurskonar varaáætlun Guðs, þegar Ísraelslýður endurtekið féll í syndir og skurðgoðadýrkun. En þessi vers sýna okkur að svo er alls ekki. Guð á einn lýð, og samanstendur hann af öllum þeim sem trúa og treysta á hann, sama af hvaða ætt þeir eru. Þess vegna skrifar Páll einnig í þriðja kafla Galatabréfsins:

26 Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. 27 Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. 28 Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú. 29 En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.

Gal 3:26-29

Ég hef að þessu sinni farið aðeins meira útfyrir texta ritningarlestursins en venjulega, til þess ítreka það samhengi sem hann stendur í, og við verðum að skilja hann samkvæmt. Allir þeir sem tilheyra Kristi teljast niðjar Abrahams, eru hluti af lýð Guðs, og eiga hlutdeild í fyrirheitinu, og arfleigð samkvæmt því. Hirðir ísraelsþjóðar er því einnig hirðir allra þeirra sem trúa á hann. Við skulum hafa það í huga þegar við, eftir stutt hlé, lesum hinn þekkta texta um góða hirðinn í guðspjalli sunnudagsins.

Guðspjall

Komið þið sæl aftur. Þetta er þátturinn undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson, og við erum að fara yfir ritningarlestra og guðspjall næstkomandi sunnudags.

Guðspjall 2. sunnudags páskatímans, þ.e. 2.sunnudags eftir páska, er að finna í Jóhannesarguðspjalli, 10. kafla. Fyrri helmingur þessa kafla er ræða Jesú og samskipti hans við farísea, í kjölfar þess að hann læknaði mann sem hafði verið blindur frá fæðingu. Þetta gerði hann á hvíldardegi, og storkaði það faríseum. 9. kafli segir frá lækningunni, og þar á eftir frá því að faríser yfirheyrðu manninn og foreldra hans frekar fjandsamlega, og ráku hann svo út. Jesús finnur þá manninn, þannig að hann geti komist að raun um hver Jesús er. Farísearnir eru þó ekki langt undan, og slást skyndilega í hópinn til að taka þátt í umræðunum.

10. kafli hefst á því að Jesús talar mjög ströngum orðum um faríseana. Maður hefði kannski haldið að hann líkti þeim við vonda hirða, en meira að segja það er of gott fyrir þá. Jesús líkir þeim þess í stað við ræningja sem ráðast inn í sauðabyrgi til að stela sauðunum, slátra þeim og eyða. Sannur hirðir í ríki Guðs, sem hvorki er ræningi né ódýr leiguliði, er sendur af Kristi. Þær dyr sem hann gengur gegnum, er Kristur, og þá finnur hann haga handa handa sauðunum.

En hinn raunverulegi góði hirðir, er þó bara einn maður. Við skulum hlusta á orð hans í Guðspjalli sunnudagsins í Jóhannesarguðspjalli, kafla 10, versum 11-16. Þau hljóma svo:

11 Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. 12 Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. 13 Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina. 14 Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig, 15 eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. 16 Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

Jóh 10:11-16

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Það fyrsta sem við skulum taka eftir, þegar Jesús kallar sig góða hirðinn, er að hann greinir sig frá öllum öðrum hirðum. Hann er hinn raunverulegi hirðir. Og ef hann er það, þá hljóta þeir sem þekkja Gamla testamentið vel að hugsa til orða Esekíel.

Það er Drottinn sjálfur er góði hirðirinn, og þar að auki talar hann um einkahirðinn af ætt Davíðs. Það er ekki erfitt að greina hvað það er sem Jesús gerir kröfu til: Hann er þessi góði hirðir af ætt Davíðs, og hann er sonur hins lifandi Guðs. Það er því hann sem er hirðir Ísraelsþjóðar, sem og hirðir allra þeirra sem fyrir endurfæðinguna og trú á Krist, kallast niðjar Abrahams.

Hann er sá sem lætur okkur hvílast á grænum grundum og leiðir okkur að vötnum þar sem við meigum næðis njóta, eins og sálmur 23 orðar það.

Í öðru lagi segir hann hvað þessi góði hirðir gerir: Hann leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Hann er þess viljugur að ganga í dauðann fyrir sauðina, vegna þess hversu hann lætur sér annt um þá. Þetta er falleg mynd, en hún er líka mjög róttæk. Vegna þess að við venjulegar aðstæður enda allir sauðir í slátrun. Hér líkir Jesús sér við hirði sem ekki lætur sauðina fara í slátrun, heldur sendir sjálfan sig í þeirra stað. Engum hirði lætur sér detta svoleiðis í hug, engum nema Jesú. Þess vegna er þetta svona mikið sjokk.

Með þessu móti er Jesús með okkur í hinum dimma dal dauðans, svo ég vitni aftur í Sálm 23, og leiðir okkkur í gegnum hann. Ekki er til neitt sem við raunverulega þurfum að óttast þegar hann er hirðir okkar.

Að lokum, bendir einnig þessi texti á frelsun heiðinna þjóða sem ekki eru gyðingar. Jesú segist eiga fleiri sauði, sem ekki eru hluti af þessu sauðabyrgi. Það er að segja að hjörð Krists er stærri og meiri heldur en ísraelsþjóð. Hún saman stendur af öllum þeim sem trúa og treysta á hann.