Skip to content
Hvalfjarðargöng

Ljósmynd: Eysteinn Guðni Guðnasjon, Wikimedia Commons

Einu sinni þegar ég var í barnaskóla var ákveðið að fara í ferðalag út í Hafnarfjarðarhraun. Ferðinni var heitið á Helgafell, en fyrst var stoppað við hinn svokallaða 90 metra helli. Margir fóru inn, en sennilega voru fáir sem skriðu alla leið inn í botninn. Sjálfur þorði ég það ekki, og snéri við eftir að hellirinn var orðinn svo þröngur að maður þurfti að skríða á fjórum fótum. Það var myrkrið, rakinn, þrengslin og innilokunarkenndin sem urðu of mikið fyrir mig.

Nokkrum árum síðar gafst mér færi á að heimsækja annan, mun lengri og stærri helli. Sá hellir var ekki náttúrulegur, heldur var han grafinn með vinnuvélum, malbikaður, loftræstur og upplýstur. Sá hellir var hin splunku nýju Hvalfjarðargöng. Áður en þau voru opnuð fyrir bílaumferð var gefið leyfi, einn dag, til að ganga eða hjóla gegnum þau. Hér var engin innilokunarkennd, eða ótti við að festast. Ég vissi líka að það var opið í hinn endann.

Þessar tvær myndir geta táknað tvær leiðir til að líta á dauðann. Önnur myndin táknar dauðan eins og langan, dimman helli sem þrengist og þrengist þar til hann nær botninum. Þar sem myrkrið er algert og leiðin áfram er lokuð. Þannig er dauði syndugs manns.

Hin myndin er táknar dauðan eins og göng. Þau geta verið bæði dimm og löng, en eru þó ekki lokuð. Leiðin liggur áfram út í sólskinið hinu megin. Þannig er dauðinn með Kristi. Það er hann sjálfur sem hefur grafið göngin, og hann gengur með okkur gegnum þau. Biblían sjálf teiknar svipaða mynd í Sálmi 23, þótt myndin sé af dimmum dal, fremur en jarðgöngum.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,

Sálm 23:4

Sá sem deyr í Kristi hefur ekkert að óttast, því guð er með honum.

Tags: