Skip to content

Grundvöllur bænarinnar

Sunnudagurinn kemur er 5. sunnudagur eftir páska, einnig kallaður 6. sunnudagur páskatímans. Þetta er síðasti sunnudagur fyrir uppstigningardag, og það hefur lengi verið hefð fyrir því að hefja á honum daglega bænagjörð fram að uppstigningardegi. Þá er gjarnan beðið fyrir landi og þjóð, góðri uppskeru og vernd Guðs yfir uppskeru ársins. Hugsið ykkur hvað þetta er frábær siður. Þegar við mörkum vorið með þessum hætti, játum við að það er Guð sem hefur skapað og gefið okkur alla hluti. Hann heldur náttúrinni gangandi, hann gefur sólskin og rigningu, og hann gefur vöxt á jörðinni. Þetta er að mörgu leyti það sama og við játum þegar við biðjum borðbæn og biðum blessunar Guðs fyrir máltiðir.

‌Í tilefni þess ætla ég, til inngangs, að lesa skýringu Lúthers á fyrstu grein trúarinnar í fræðunum minni. Hér stendur:

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.

Hvað er það? Svar: Ég trúi að Guð hafi skapað mig og alla hluti, hafi gefið mér líkama og sál, augu, eyru og alla limi, skynsemi og öll skilningarvit og haldi því enn við; auk þess klæði og skæði, mat og drykk, hús og heimili, maka og börn, akur, fénað og öll gæði; sjái mér ríkulega og daglega fyrir öllum þörfum og fæðslu þessa líkama og lífs; verndi mig gegn allri hættu, og gæti mín og varðveiti mig frá öllu illu; og allt þetta af einskærri, föðurlegri, guðlegri gæsku og miskunn, án allrar minnar verðskuldunar og tilverknaðar. En fyrir allt þetta ber mér skylda til að þakka honum og vegsama hann, þjóna honum og hlýða. Það er vissulega satt.

Úr fræðunum minni

Fyrsta grein trúarinnar minnir okkur á það að það er Drottinn sem hefur skapað alla hluti, að mér sjálfum meðtöldum. Allt er orðið til fyrir orð hans, og því getur orð hans læknað sjúka, stillt storma, mettað hungraða og jafnvel hrifsað hina framliðnu úr klóm dauðans. Það er einmitt í því sem styrkur bænarinnar felst, að hún snýr sér til þessa Drottins. Textar næstkomandi sunnudags fjalla því um bænina og um þá von sem býr í bæninni.

Fyrri ritningarlestur er sálmur 121 sem hefst með orðunum “Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?” Þetta er nákvæmnlega sú játning sem ég er að tala um: Það er Drottinn sem er hjálpari minn. Síðari ritningarlestur kemur úr 8. kafla Rómverjabréfsins, og það eru vers 24–28. Hér er talað um vonina og hjálp Andans í breyskleika okkar. Að lokum kemur guðspjallið úr 11. kafla Lúkasarguðspjalls, versum 5–13. Jesús segir okkur tvær dæmisögur um bænina, og minnir á að Guð þráir að svara bænum okkar, á sem bestan hátt. Og manni verður kannski hugsað til sögunnar um Tóbít sem við lásum í síðustu viku. Bæði Tóbít og Sara báðu Guð um að taka önd þeirra, en Guð svarað báðum með því að snúa sorg þeirra í fögnuð.

Þessir textar beina okkur allir að þeim Drottni Guði vorum sem heyrir bænir okkar, og er máttugur til að svara þeim. Ég segi það stundum að einmitt þess vegna trúi ég ekki á bænina sjálfa, heldur á hann sem heyrir bænina. Sumir myndu kannski svara mér að það er ekki mikill munur þar á, en því er ég algerlega ósammála. Það snýst um það hver ber ábyrgðina á bænasvarinu. Ef bænin snýst um þann sem heyrir bænina, þá er það hann, Drottinn, sem einn ber ábyrgðina. Ef bænin snýst um sjálfa bænina, þá er það ég ég sjálfur sem ber ábyrgðina. Þá get ég aldri beðið nægilega mikið eða nógu innirlega. Þá er það undir mér komið að hafa áhrif á Guð. Til allrar hamingju segja textar næstokandi sunnudags okkur aðra sögu, eins og til dæmis fyrri ritningarlesturinn.

‌Fyrri ritningarlestur: Sálm 121

Hann er sem sagt er helgigönguljóð, það er að segja söngur sem pílagrímarnir sungu á leið til og frá musterishátíðunum í Jerúsalem, og játar að það er Drottinn einn sem er hjálpari okkar. Fyrri ritningarlestur úr sálmi 121 hljóðar svo:

1 Helgigönguljóð Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. 3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur. 7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Sálm 121

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Drottinn er sannarlega hjálpari okkar, og hann er máttugur hjálpari. Hann er skapari himins og jarðar. Hann er vörður Ísrael, og hann er vöður okkar. Þess vegna beinum við bænum okkar til hans.

‌Síðari ritningarlestur: Róm 8:24

Síðari ritningarlestur er úr 8. kafla rómverjabréfsins, og á ýmist að lesa vers 24—27 eða 26—28. Við lesum vitaskuld versin öll. Það er alltaf gott að lesa versin í sem mestu samhengi, og einmitt þess vegna ætla ég að taka augnablik til að taka saman ræðu Rómverjabréfsins í stutt mál.

Rómverjabréfið er bréf sem postulinn Páll skrifaði til safnaðarins í Rómarborg, áður en honum nokkru sinni gafst kostur á að heimsækja hann. Páll þráði að fara þangað, og halda þaðan áfram til Spánar, en áætlanir hans kröfðust þess að hann færi fyrst í hina áttina, til Jerúsalemborgar. Sennilega skrifar hann bréfið til að undibúa komu sína síðar, og leiðbeina söfnuðinum í Rómarborg.

Eftir innganginn, segja fyrstu þrír kaflarnir okkur frá því hvernig syndin hefur náð tökum á heiminum öllum og unnið sér til reiði Guðs. Jafnt heiðingjar sem gyðingar eru undir dómi hans, því allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð. Í miðjum þriðja kafla kemur svo lausnin: Guð er sjálfur réttlátur, og deilir réttlæti sínu með öllum þeim sem á hann treysta. Þótt sumir verði kannski hissa á því, er þetta þó engin nýjung, enda var sjálfur Abraham réttlættur fyrir trú á fyrirheitið um Krist.

Í 5. til 8. kafla bendir Páll á það, frá ýmsum sjónarhornum, að lífið með Kristi er líf án fordæmingar. Sá sem er skírður til Krists deyr með honum og á að rísa að nýju með honum. Hann er því genginn í lið með Kristi og fyrir bragðið orðinn óvinur hins synduga eðlis. Baráttan gegn því markar líf hins kristna einstaklings, og bænin er einmitt hluti af þeirri baráttu. Það er í þessu samhengi sem ritningarlesturinn stendur, og Páll hvetur til að halda í vonina í bæninni.

Rómverjabréfið er samt sem áður bara hálfnað þegar hingað er komið. Kaflar 9—11 snúa sér að spurningunni hvort munur sé á gyðingum og heiðingjum frammi fyrir Guði. Niðurstaðan er einföld: Bæði Gyðingar og Heiðingjar eignast hjálpræði fyrir trú á Jesú Krist, sem er av ætt og kyni Davíðs konungs, og er hinn rétti Messías gyðinga. Það er því hjálpræði gyðinga, sem kemur öllum þjóðum til góða, og verður þeim til blessunar.

Í 11. kafla er Ísrael lýst sem stóru tré, þar sem Kristur er stofninn, og gyðingar greinarnar. Okkur hinum, þ.e.a.s heiðingjunum, er lýst sem greinum sem skornar hafa verið í villtri náttúru og græddar við þetta mikla tré.

Kaflar 12–15 hvetja svo til heilags lífernis, sem markast av kærleika til Guðs og náungans, og frá miðjum 15 kafla koma svo upplýsingar um áframhaldandi áform Páls, sem og kveðjur. En við skulum lesa ritningarlesturinn sem var úr 8. kafla, og snýst um bænina sem hluti af lífsbaráttu hins kristna einstaklings. Við lesum vers 24–28, og þau hljóða svo:

24 Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér? 25 En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði. 26 Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið. 27 En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs. 28 Vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs.

Róm 8:24-28

Þannig hljóðar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Þessi orð eru sem sagt skrifuð og töluð í samhengi trúarbaráttunnar. Jafnvel bænin sjálf er barátta, en þó ekki barátta eins og við oft höldum. Margir tala um bænina sem einvherskonar kappræður við Guð, þar sem við sækjumst eftir því að breyta vilja hans, reyna að yfirbuga Guð með nöldri eða nægilega sterkum rökum. Eins og að við hefðum rétt fyrir okkur en Guð hefði rangt fyrir sér.

Rómverjabréfið sýnir okkur að þessu fer fjarri. Guð veit vel hvers við þörfnumst áður en við leitum hans í bænar, og hann veitir okkur meira að segja heilagan anda, sem talar okkar máli og biður fyrir okkur með betri orðum en við getum nokkru sinni átt sjálf. Bænin er því ekki þannig barátta, heldur barátta um það að treysta Guði. Og hér fylgir þív það loforð að “þeim sem Guð elska, samverkar allt til Góðs.”

‌Guðspjall: Lúk 11:5–13

Við gætum spurt: Ef Guð svarar okkur samkvæmt vilja sínum, hver er eiginlega vilji Guðs? Ef hann er nógu máttugur til að svara bænum okkar, þá skiptir það þó litlu máli ef honum er sama um okkur. Guðspjall sunnudagsins kennir okkur því er svo sannarlega ekki þannig farið, heldur er enginn sem elskar okkur meir, og vill okkur betur en Guð. Jafnvel ekki við sjálf.

Guðspjallið er úr 11. kafla Lúkasarguðspjalls, og á sér stað á helgigöngunni í átt að Jerúsalem. Kannski sungu Jesús og lærisveinar hans einmitt sálminn sem við lásum áðan: „Ég hef augu mín til fjallana, hvaðan kemur mér hjálp?“ Sálmurinn fær þá bókstaflega uppfyllingu. Fjöllinn eru fjöll Júdeu, þar sem Síon, Jerúsalemborg og musterið eru. Og hjálpræðið kemur einmitt þaðan, frá Golgatahæð.

En við skulum ekki hlaupa yfir. Í 11. kafla Lúkasarguðspjalls eru þeir enn á leiðinni, og lærisveinar Jesú biðja hann um að kenna sér að biðja. Jesús kennir þeim þá bænina Faðir vor, og segir síðan eftirfarandi, sem er guðspjall sunnudagsins, og hljóðar svo:

5 Og hann sagði við þá: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, 6 því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.’ 7 Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð’? 8 Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. 9 Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. 10 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. 11 Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, 12 eða sporðdreka, ef hann biður um egg? 13 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“

Lúk 11:5–13

‌Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

‌Jesús segir lærisveinunum tvær dæmisögur. Önnur fjallar um mann sem þarfnast veitinga um nótt, og hin um strák sem biður föður sinn um mat. Bæði vinurinn og sonurinn fá það sem þeir biðja um, vegna stöðunnar sem þeir eru í. Annars vegar er það vinátta og hins vegar er það samband föður og sonar. Það er eðlilegt að hlutirnir virki þannig.

‌Af þessu er dregin ályktun, sem kallast “frá hinu minna til hins meira.” Ef maður getur fengið slíkan greiða hjá vini sínum, sem þó er bara venjulegur vinur, þá hlýtur hann að geta fengið því mun meira frá Guði, sem skapaði hann og sem elskar hann. Að sama skapi ef sonur fær þann mat sem hann biður um frá föður sínum, og ekki slöngur eða sporðdreka, þá hlýtur því mun meira að gilda varðandi Guð. Hann gefur okkur það sem er enn betra en það sem við biðjum hann um. Hann sér okkur ekki bara fyrir “þörfum og fæðslu þessa líkama og lífs;” heldur fyrst og fremst það sem við þörfnumst til hins eilífa lífs. Og því veitir hann okkur heilagan anda, hverjum þeim sem á hann treystir.

‌Að lokum:

Versin sem við höfum lesið í dag gefa okkur þannig góðar ástæður til þess að leita Drottins í bæn. Áherslan er ekki á mörg fögur orð, eða fjölda orða. Enda segir Jesús í fjallræðunni:

7 Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. 8 Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.

Matt 6:7–8

‌Vandamálið við að nota mörg orð er einfaldlega það að þau leggja áhersluna á rangan stað. Þá er áherslan á verk okkar í bæninni. Og ef við þá fáum svar Guðs, eins og við báðum um, þá verður slík áhersla til að við getum hreyskt upp og sagt eitthvað í áttina að þessu: Þetta er allt mér að þakka, af því að ég var svo iðinn við að biðja.

‌Það er ekki þetta sem er málið, heldur að við beinum okkur til hins raunverulega Drottinns. Í fyrsta lagi hefur hann mátt til að svara bænum okkar. Í öðru lagi vill hann okkur vel og vill svara bænum okkar á sem bestan hátt. Og í þriðja lagi, sendir hann okkur anda sinn og hjálpar okkur meira að segja til þess að biðja bænanna. Við getum ekki hrósað okkur af neinu, því all þetta er verk Drottins. Honum einum sé dýrð.