Skip to content

Guðsþjónusta 11. september

Velkomin á guðsþjónustu í Friðrikskapellu, sunnudaginn 11. september kl 11:00, sem er 13. sunnudagur efir Þrenningarhátíð.

Fyrri ritningarlestur

Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra. Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur. Þá mælti Drottinn til Kains: „Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?“ Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: „Göngum út á akurinn!“ Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann. Þá sagði Drottinn við Kain: „Hvar er Abel bróðir þinn?“ En hann mælti: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“ Og Drottinn sagði: „Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni! Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi. Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni.“ Og Kain sagði við Drottin: „Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana! Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig.“ Þá sagði Drottinn við hann: „Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu.“ Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann. Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden.

1 Mós 4:3-16

Síðari ritningarlestur

Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar. Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.

Joh 4:7-11

Guðspjall

Og hann sneri sér að lærisveinum sínum og sagði við þá einslega: „Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.“ Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: „Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa.“ En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.’ Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“ Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.“ Jesús sagði þá við hann: „Far þú og gjör hið sama.“

Luk 10:23-37