Skip to content

Guðsþjónusta 12. mars

Velkomin á guðsþjónustu í Friðrikskapellu, sunnudaginn 12. mars kl 11:00, sem er 3. sunnudagur í föstu.

Fyrri ritningarlestur

Guð talaði öll þessi orð og sagði: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.

Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

Þú skalt ekki morð fremja.

Þú skalt ekki drýgja hór.

Þú skalt ekki stela.

Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“

2 Mós 20:1-17

Síðari ritningarlestur

Og engli safnaðarins í Smýrnu skalt þú rita:

Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi: Ég þekki þrengingu þína og fátækt – en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim, sem segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur samkunda Satans. Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

Hver sem eyra hefur, hann heyri, hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.

Opb 2:8-11

Guðspjall

Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“

Gyðingar svöruðu honum: „Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?“

Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja.“

Jóh 8:42-51