Skip to content

Guðsþjónusta 17. júlí kl 11:00

Velkomin á guðsþjónustu í Friðrikskapellu, sunnudaginn 17. júlí kl 11:00, sem er 5. sunnudagur efir Þrenningarhátíð.

Prédikað verður yfir síðari ritningarlestri.

Fyrri ritningarlestur: Jer 1:4-10

4Orð Drottins kom til mín:

5Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig. Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna!

6Þá sagði ég:

Æ, herra Drottinn! Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.

7En Drottinn sagði við mig:

Seg ekki: „Ég er enn svo ungur!“ heldur skalt þú fara til allra, sem ég sendi þig til, og tala allt það, er ég býð þér. 8Þú skalt ekki óttast þá, því að ég er með þér til þess að frelsa þig! – segir Drottinn.

9Því næst rétti Drottinn út hönd sína og snart munn minn.

Og Drottinn sagði við mig:

Sjá, ég legg orð mín þér í munn. 10Sjá þú, ég set þig í dag yfir þjóðirnar og yfir konungsríkin til þess að uppræta og umturna, eyða og rífa niður, byggja og gróðursetja!

Síðari ritningarlestur: 1 Pét 2:4-10

4Komið til hans, hins lifanda steins, sem hafnað var af mönnum, en er hjá Guði útvalinn og dýrmætur, 5og látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags, til að bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist. 6Því svo stendur í Ritningunni:

Sjá, ég set hornstein í Síon,
valinn og dýrmætan.
Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.

7 Yður sem trúið er hann dýrmætur, en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,
orðinn að hyrningarsteini

8og:

ásteytingarsteini og hrösunarhellu.

Þeir steyta sig á honum, af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.

9En þér eruð „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. 10Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir „Guðs lýður“. Þér, sem „ekki nutuð miskunnar“, hafið nú „miskunn hlotið“.

Guðspjall: Lúk 5:1-11

1Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. 2Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. 3Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

4Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.“

5Símon svaraði: „Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.“ 6Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna. 7Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

8Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: „Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður.“ 9En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. 10Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“

11Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.