Velkomin á guðsþjónustu í Friðrikskapellu, sunnudaginn 20. mars kl 11:00, sem er 3. sunnudagur í föstu.
Fyrri ritningarlestur: Sak 12:10
10 En yfir Davíðs hús og yfir Jerúsalembúa úthelli ég líknar- og bænaranda, og þeir munu líta til mín, til hans, sem þeir lögðu í gegn, og harma hann eins og menn harma lát einkasonar, og syrgja hann eins og menn syrgja frumgetinn son.
Síðari ritningarlestur: Efes 5:1-9
1 Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans. 2 Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms. 3 En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. 4 Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð. 5 Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, – sem er sama og að dýrka hjáguði -, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs. 6 Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki. 7 Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. 8 Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. – 9 Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. –
Guðspjall: Lúk 11:14-28
14 Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn. 15 En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ 16 En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. 17 En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. 18 Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? 19 En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. 20 En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. 21 Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á, 22 en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu. 23 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. 24 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.’ 25 Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt, 26 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“ 27 Er hann mælti þetta, hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir.“ 28 Hann sagði: „Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“