Skip to content

Tákn í sólu, tungli, stjörnum og á jörðu

Fyrri ritningarlestur: Jes 11:1-9

1Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.

2Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins. 3Unun hans mun vera að óttast Drottin.

Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra. 4Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.

5Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.

6Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. 7Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut. 8Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.

9Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.

Síðari ritningarlestur: Róm 15:4-7,13

4Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri. 5En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú, 6til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.

7Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.

13Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.

Guðspjall: Lúk 21:25-33

25Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. 26Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast. 27Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. 28En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“

29Hann sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. 30Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd. 31Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.

32Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram. 33Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.